13
apr

Umhverfishátíðin tókst vel

Sunnudaginn 10. apríl gekkst Umhverfisvaktin við Hvalfjörð fyrir umhverfishátíð að Hlöðum á Hvalfjarðarströnd. Yfirskrift hátíðarinnar var „Búum komandi kynslóðum heilbrigt umhverfi.“

Dagskráin var í formi ávarpa og söngatriða:

Ragnheiður Þorgrímsdóttir: Umhverfisvaktin við Hvalfjörð

Ómar Ragnarsson féttamaður: Náttúruvernd – til hvers?

KK flutti nokkur lög og komst fimlega að orði um kjarna samfélagsmeinsemda og birtingarform.

Gunnar Hersveinn rithöfundur: Nægjusemi – nauðsynlegt skilyrði sjálfbærni.

Sigurður Sigurðarson dýralæknir: Hreinleiki umhverfisins.

Sigurbjörn Hjaltason bóndi: Af sjónarhóli íbúa.

Arnheiður Hjörleifsdóttir flutti Hvalfjarðarljóð Sæmundar Helgasonar bónda á Galtarlæk.

Kynnir var Jóhanna Harðardóttir. Börn unnu listaverk. Gauji litli sá um veitingar og hátíðin fór í alla staði vel fram, en veðrið setti strik í reikninginn varðandi aðsókn.

Því miður forfallaðist Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra á síðustu stundu, en við eigum von á heimsókn frá henni þegar fram líða stundir.

Nokkur af ávörpunum má nálgast á undirsíðum.

Undir flipanum Myndir hafa verið búnar til tvær möppur með myndum frá hátíðinni.

03
feb

Aðalfundur 2018

Aðalfundur Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð verður haldinn sunnudaginn 25. febrúar kl. 14:30 í Garðakaffi á Akranesi. (Ath. aðalfundinum sem vera átti 11. feb. var frestað vegna óveðurs).

Dagskrá:

1. Venjuleg aðalfundarstörf

2. Tillaga að verkefnum næsta starfsárs

3. Önnur mál

4. Ávörp gesta

Kaffi og meðlæti.

Allir sem áhuga hafa á verndun náttúru og lífríkis eru hvattir til að mæta og taka þátt í starfi Umhverfisvaktarinnar.

Stjórnin 

21
jún

Vonbrigði með ákvörðun sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar

Með því að samþykkja stækkun iðnaðarsvæðisins á Grundartanga hefur sveitarstjórnarmeirihlutinn í Hvalfjarðarsveit brugðist kosningaloforðum sínum. Hann hefur snúið baki við því fólki sem býr í mengun frá iðjuverunum. Honum finnst greinilega meira virði að fá fleiri krónur í sveitarsjóð en að stuðla að hreinni sveit og búa þannig í haginn fyrir núlifandi og komandi kynslóðir.

Þessi meirihluti hunsar vilja fólksins sem sendi inn athugasemdir við tillögu að stækkun iðnaðarsvæðisins á Grundartanga. Reynt er að gera lítið úr þeim rétt eins og þær séu ekki viljayfirlýsing þeirra sem sendu þær inn! Getur þessi framkoma hugsanlega flokkast undir fyrirbærið valdníðslu (að fara illa með valdið sem manni er falið)?


Hvað finnst ykkur sem treystuð því að hugur fylgdi máli hjá fólkinu sem skipar núverandi meirihluta sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar, - fólkinu sem fór frá bæ til bæjar og frá húsi til húss fyrir kosningarnar í fyrra og boðaði stefnu sína í umhverfismálum?


R.Þ.

20
maí

Silicor Materials

 

Eftirfarandi grein birtist í Fréttablaðinu 19. maí 2017

Silicor Materials í Hvalfirði og nýju fötin keisarans  

Þann 24. apríl síðastliðinn var flutt mál í Héraðsdómi Reykjavíkur þar sem tekin var fyrir krafa íbúa í Hvalfirði og fólks sem á þar eignir, um að fram fari mat á umhverfisáhrifum vegna fyrirhugaðs kísilvers Silicor Materials á Grundartanga. 

Gagnrýnisraddir vegna fyrirhugaðs kísilvers eru háværar og þess krafist að sérstakt tillit skuli tekið til þess að um sé að ræða tilraunaverksmiðju, þá fyrstu sinnar tegundar í heiminum. Sú staðreynd kallar á sérstaka varúð. En hefur varúð verið viðhöfð? Þvert á móti. Sé leitað í gögn um kísilver Silicor Materials finnst ekki annað efni en það sem Silicor hefur sjálft lagt fram. Óháðir aðilar með til þess bæra þekkingu hafa ekki ennþá rýnt gögn Silicor. Aftur á móti hafa ýmsir áhrifaaðilar beitt lýðskrumi gagnvart almenningi.

Hverra hagur er það að kísilver Silicor Materials þurfi ekki að sæta mati á umhverfisáhrifum? Víst er að hagsmunir almennings eru ekki hafðir að leiðarljósi.

Faxaflóahafnir sf, sem eru að mestu í eigu Reykjavíkurborgar og eiga iðnaðarsvæðið á Grundartanga, lögðu til við Skipulagsstofnun í bréfi þann 1. apríl 2014 að kísilverið þyrfti ekki að sæta mati á umhverfisáhrifum. Alvarleikinn felst í því að stjórn Faxaflóahafna sf er skipuð kjörnum fulltrúum almennings og á að gæta hagsmuna þeirra. Talsverður hluti af þeim almenningi mun sitja uppi með afleiðingarnar ef rekstur kísilversins misheppnast, til dæmis íbúar Akraness þar sem hafnarstjóri Faxaflóahafna sf var bæjarstjóri um árabil. Í stjórn Faxaflóahafna sf sitja meðal annarra einnig núverandi oddvitar Hvalfjarðarsveitar og Akraneskaupstaðar.

Ljóst er að Skipulagsstofnun, sem ákvað að iðjuverið þyrfti ekki að sæta mati á umhverfisáhrifum, notaði einvörðungu gögn frá Silicor Materials sjálfu til að byggja ákvörðun sína á.

Sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar, sem hefur skipulagsvald fyrir Grundartanga, leitaði álits um kísilverið hjá ráðgjafarfyrirtækinu Environice í Borgarnesi. Þess var sérstaklega óskað að metnar yrðu verstu mögulegu afleiðingar af starfsemi kísilversins. Environice hafði ekki fremur en aðrir upplýsingar frá óháðum aðilum um framleiðsluferli kísilversins og aflaði þeirra ekki. Þá ákvað ráðgjafarfyrirtækið að þar sem það hefði ekki nein gögn um verstu mögulega útkomu yrði ekki lagt mat á hana. Lýsing Environice á tilraunaverksmiðjunni er samt afar hástemmd þar sem notuð er orðræða um umhverfisvæna stóriðju. Það fyrirbæri er, eðli málsins samkvæmt, ekki til. Þessa niðurstöðu tók sveitarstjórnin góða og gilda. Nauðsynlegt er að fram komi að varaoddviti Hvalfjarðarsveitar er fyrrverandi starfsmaður Environice. Það hefði lýst meiri metnaði sveitarfélagsins að leita til óháðs aðila sem treysti sér til að uppfylla kröfurnar sem settar voru fram. Niðurstaðan hefði þá kannski orðið trúverðug.

Umhverfismat fyrir kísilver Silicor Materials er sjálfsagt, eins og fyrir alla stóriðju. Því til stuðnings má nefna að eftir er að afla viðmiðunarmarka á Íslandi fyrir ýmis konar eiturefni sem er að finna í framleiðsluferli kísilversins. Það er vissulega óásættanleg staða. Jafnframt er ekki ljóst hvaða eiturefni verða geymd á athafnasvæði kísilversins, í hve miklu magni og hvernig verða þau geymd, en þessi atriði skipta miklu máli.

Það er dapurlegt að talsmenn og verjendur þess að kísilver Silicor Materials þurfi ekki að sæta umhverfismati, skyldu viðhafa ómálefnalega umræðu fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur þann 24. apríl sl. svo sem að  það sé lítil mengun frá kísilveri Silicor Materials miðað við önnur iðjuver á Grundartanga. Silicor Materials mun senda mengandi efni út í umhverfið í ófyrirséðu magni. Það er auðvitað kjarni málsins.

F.h. Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð

Ragnheiður Þorgrímsdóttir

Einar Tönsberg

Ágústa Oddsdóttir

Svana Lára Hauksdóttir

Jóna Thors

 

 

 

07
mar

Ályktanir aðalfundar 2016


Ályktanir aðalfundar Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð 2016

1.    Aðalfundur Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð, haldinn í Garðakaffi á Akranesi, sunnudaginn 14. febrúar 2016 skorar á Umhverfisráðherra að láta gera úttekt á því hvort ákvarðanir Umhverfisstofnunar gagnvart mengandi iðjuverum á Grundartanga samræmist meginmarkmiðum stofnunarinnar, sem er að vernda náttúru og lífríki Íslands. Þessari úttekt verði lokið haustið 2016.


Greinargerð
a.    Iðjuverin á Grundartanga bera ábyrgð á umhverfisvöktun vegna eigin mengunar samkvæmt starfsleyfi sem Umhverfisstofnun gefur út og ber ábyrgð á. Allt vöktunarferlið er á forræði iðjuveranna sem stöðugt senda eiturefni út í andrúmsloftið. Umhverfisvaktin við Hvalfjörð álítur að Umhverfisstofnun vinni gegn eigin markmiðum með því að veita starfsleyfi sem inniheldur slíka þjónkun við mengandi iðjuver, jafnvel þó að dæmi um slíkt megi finna í öðrum löndum.

b.    Í desember 2015 veitti Umhverfisstofnun Norðuráli nýtt starfsleyfi, löngu áður en hið eldra rann út, þannig að Norðurál gæti aukið álframleiðslu sína. Þetta gerði Umhverfisstofnun án þess að taka tillit til mikilvægra athugasemda við tillögu að starfsleyfinu, sem henni höfðu borist frá Umhverfisvaktinni við Hvalfjörð, frá Hvalfjarðarsveit og fleiri aðilum. Eins og sjá má í meðfylgjandi kæru Umhverfisvaktarinnar vegna starfsleyfisveitingarinnar hefur Norðurál nú mun rýmra leyfi til útsleppis flúors, en var í fyrra starfsleyfi. Alvarleiki málsins felst ekki einungis í möguleikum Norðuráls til að sleppa út meira magni flúors nú en áður, heldur einnig og ekki síður í því að loftborinn flúor er aðeins mældur hálft árið. Umhverfisstofnun hefur árum saman hunsað ábendingar um hættuna sem af þessu fyrirkomulagi stafar. Enn og aftur skal bent á að Norðuál starfar í landbúnaðarhéraði. Umhverfisvaktin við Hvalfjörð telur að Umhverfisstofnun brjóti gegn eigin stefnu með þessum gáleysislegu vinnubrögðum.

c.    Iðjuverin á Grundartanga bera ábyrgð á útgáfu skýrslu um umhverfisvöktun vegna eigin mengunar, fyrir hvert einstakt starfsár. Sérstök athygli er vakin á því að í skýrslum sem komið hafa út eftir að GMR og Kratus bættust í hóp iðjuvera á Grundartanga, er ekkert að finna um aðfinnslur Umhverfisstofnunar vegna mengunarbúnaðar og umgengni þessara iðjuvera. Umhverfisvaktin álítur það stórfellda vanrækslu að tilkynna ekki íbúum Hvalfjarðar um þær vanefndir í umhverfismálum sem GMR og Kratus hafa orðið uppvís að. Minnt skal á að stutt vegalengd er frá þeim og í næstu bændabýli.

d.    Umhverfisvaktin við Hvalfjörð minnir á að þynningarsvæði fyrir flúor og brennistein eru að mestu leyti þau sömu og voru þegar Norðurál hóf starfsemi 1998. Heimild Norðuráls fyrir álframleiðslu hefur aukist nærri sexfalt og framleiðsla Íslenska járnblendifélagsins hefur tvöfaldast. Auk þess hafa GMR og Kratus bæst í hóp mengandi iðjuvera á Grundartanga. Umhverfisvaktin við Hvalfjörð telur það brjóta í bága við markmið Umhverfisstofnunar að endurskoða ekki stærð þynningarsvæðanna með hliðsjón af stóraukinni mengun frá Grundartanga.

e.    Afskipti Umhverfisstofnunar af iðjuverunum GMR og Kratusi hafa verið tíð á starfstíma þeirra. Mikið lá á að koma þeim fyrir á Grundartanga af hálfu landeigandans, Faxaflóahafna. Ekki voru spöruð stóru orðin um að þarna yrði vistvæn endurvinnsla og nýsköpunarstarf. Nú hefur annað komið á daginn. Ekki er unnt  að sjá að fram hafi farið sérstakar mælingar í umhverfi iðjuveranna tveggja, sem staðsett eru í landbúnaðarhéraði, til að meta áhrif mengunarinnar frá þeim.

f.    Umhverfisvaktin við Hvalfjörð fer fram á það við Umhverfisráðherra að rannsakað verði ofan í kjölinn hvers vegna Umhverfisstofnun lét íbúa við Hvalfjörð ekki vita af mengunarslysi sem átti sér stað hjá Norðuráli á Grundartanga þann 24. ágúst 2006 en þá bilaði reykhreinsivirki með þeim afleiðingum að flúor streymdi óhindraður út í andrúmsloftið í um 36 klst. Hreinsibúnaðurinn komst ekki í fullt lag fyrr en nokkrum mánuðum síðar. Jafnframt óskar Umhverfisvaktin skýringa á því hvers vegna engar mælingar voru gerðar til að kanna áhrif mengunarslyssins á umhverfið. Umhverfisvaktin álítur að Umhverfisstofnun hafi þarna brugðist hlutverki sínu sem eftirlitsstofnun og sýnt íbúum, náttúru og lífríki við Hvalfjörð einstakt skeytingarleysi jafnframt því að koma í veg fyrir að nauðsynlegar mælingar færu fram í kjölfar mengunarslyssins.

2.    Aðalfundur Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð, haldinn í Garðakaffi á Akranesi, sunnudaginn 14. febrúar 2016, skorar á Umhverfisstofnun að draga til baka nýtt starfsleyfi sem Norðuráli á Grundartanga var veitt þann 16. desember 2015 þar sem það gefur Norðuráli meiri möguleika til losunar flúors en eldra starfsleyfið gerir. Minnt er á að eldra starfsleyfið gilti til ársins 2020.

3.    Aðalfundur Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð, haldinn í Garðakaffi Akranesi, sunnudaginn 14. febrúar 2016 skorar enn og aftur á Umhverfisráðherra að hefja nú þegar undirbúning þess að flytja ábyrgð á umhverfisvöktun vegna mengunar frá iðjuverunum á Grundartanga frá forsvarsmönnum iðjuveranna til óháðrar, til þess bærrar stofnunar.

Greinargerð:
Óumdeilanlegt er að iðjuverin á Grundartanga sjá sjálf um vöktun vegna eigin mengunar. Í starfsleyfi Norðuráls stendur t.d.: “rekstraraðili skal útbúa áætlun, setja sér umhverfismarkmið, standa fyrir mælingum, skal hafa eftirlit með rekstrarþáttum sem geta haft í för með sér mengun […]”

Í svörum Umhverfisstofunar við athugasemdum Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð, Hvalfjarðarsveitar og Faxaflóahafna við tillögu að nýju starfsleyfi Norðuráls segir að nauðsynlegt sé að fyrirtækin komi að vöktun svo hún sé hluti af umhverfisstjórnun fyrirtækjanna. Umhverfisvaktin telur þessi svör engan veginn fullnægjandi rök fyrir því að ekki þurfi að auka ytra eftirlit. Þó að rekstaraðili sinni umhverfisvöktun þá er verulega mikilvægt að óháður, til þess bær aðili framkvæmi einnig umhverfisvöktun, þar sem gerð er sjálfstæð vöktunaráætlun og ytra eftirlit haft með mengandi rekstrarþáttum Norðuráls sem og annarra iðjuvera á Grundartanga.
Nú þegar hafa Hvalfjarðarsveit og Faxaflóahafnir tekið undir með Umhverfisvaktinni við Hvalfjörð um að það sé eðlileg krafa að óháðir aðilar mæli mengun frá þungaiðnaði á Grundartanga.

4.    Aðalfundur Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð, haldinn í Garðakaffi Akranesi, sunnudaginn 14. febrúar 2016, skorar enn og aftur á Matvælastofnun að hlutast til um að hafnar verði grunnrannsóknir á þoli íslensks búfjár gagnvart flúori í fóðri og áhrifum langtíma flúorálags á heilsu íslensks búfjár. Fundurinn vísar til þess að nú þegar eru þrjú stór álver starfandi á Íslandi og hugmyndir eru uppi um fleiri slík, auk þess sem vænta má eldgosa sem hafa í för með sér verulega flúormengun.

5.    Aðalfundur Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð, haldinn í Garðakaffi Akranesi, sunnudaginn 14. febrúar 2016 skorar á stjórn Faxaflóahafna að snúa sé að öðrum og uppbyggilegri verkefnum en mengandi iðnaði í Hvalfirði, sem orðið hefur tekjulind fyrir eigendur Faxaflóahafna, einkum Reykjavíkurborg. Aðalfundurinn hafnar því að tilraunaverkefni Silicor Materials verði komið fyrir í Hvalfirði. Jafnframt hvetur aðalfundurinn stjórn Faxaflóahafna til þess að leggjast í nákvæma skoðun á fyrirbærinu “grænn iðnaður” og hafa hugfast að þungaiðnaður getur aldrei orðið „grænn.“


Stjórn Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð