29
okt

Stjórnarfundur 24. okt. 2012

Fundargerð stjórnar Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð vegna fundar sem haldinn var á Hálsi miðvikudaginn 24. október kl. 20.00.


Af stjórnarfólki voru mætt: Þórarinn Jónsson, Ragnheiður Þorgrímsdóttir, Ingibjörg Jónsdóttir og Gyða S. Björnsdóttir. Einnig sat fundinn Lisa Boije af Gennäs húsfreyja á Hálsi og Guðbjörg Rannveig Jóhannsdóttir, en hún er að ljúka doktorsverkefni um umhverfisheimspeki. 

1.    Viðmið flúors í fóðri rædd en ósamræmi er í viðmiðunargildum fyrir flúor í grasi í vöktunaráætlunum fyrir Hvalfjörð og Reyðarfjörð sbr. fréttaflutning um of há gildi flúors í grasi í Reyðarfirði að undanförnu. Flúor má vera 30 ppm í Hvalfirði en 40-60 ppm á Reyðarfirði sem vekur undrun.

2.    Bréf frá Ragnheiði Þorgrímsdóttur til stjórnar Umhverfisvaktarinnar rætt en þar er óskað eftir að Umhverfisvaktin standi að kynningu á niðurstöðum flúormælinga til bænda. Ákveðið að formaður hafi samband við blaðamann hjá Bændablaðinu og kynni honum málið.

3. Bréf Umhverfisvaktarinnar til landbúnaðarráðherra rætt. Einkum var rætt um þá afstöðu landbúnaðarráðherra að svara ekki erindi Umhverfisvaktarinnar, en hún hefur formlega beðið ráðherra að veita viðtal þannig að hægt sé að kynna honum niðurstöður mælinga flúors í lífsýnum hrossa við Hvalfjörð.

4.    Umhverfisrannsókn á vegum Faxaflóahafna sem kynnt var stjórn Umhverfisvaktarinnar á vordögum. Ákveðið að kalla eftir upplýsingum um framvindu rannsóknarinnar.

5.    Aðalfundur Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð. Ákveðið að halda aðalfundinn þann 8. nóvember.

Fleira ekki tekið fyrir. Fundi slitið kl. 22.50.

22
okt

Hálendið á tilboði

Vefslóðin hér fyrir neðan vísar á bækling sem gefinn var út af Markaðsskrifstofu Iðnaðarráðuneytisins árið 1995. Markaðsskrifstofan var rekin af Iðnaðarráðuneytinu og Landsvirkjun í nokkur ár. Hugmyndasmiðir þessa bæklings skipulögðu útsölu íslenska hálendisins. Lesið endilega kaflann "Environmental Issues"  og takið eftir orðunum "minimum of red tape" í umhverfismálum. Er nokkuð skrítið þó að mengandi stóriðja fái að mæla sína eigin mengun, eftir að hafa verið boðið inn í landið á þessum forsendum? - með ómældum skaða fyrir þjóðina. Ísland var raunverulega sett á útsölu. Landið okkar var falt - fyrir lítið og fyrir hvern sem hirða vildi. Hvenær ætla Íslendingar að standa upp og vera menn til að gæta náttúru landsins, sem þeim var trúað fyrir?


Svo má einnig spyrja hvar hugmyndasmiðir þessa bæklings séu nú,
og hvað þeir séu að bralla.


LOWEST ENERGY PRICES!!
http://blog.pressan.is/larahanna/files/2010/03/Lowest_energy_prices_Iceland.pdf

15
sep

Stjórnarfundur 10. sept. 2012


Fundur stjórnar Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð var haldinn á Kúludalsá mánudaginn 10. september 2012, kl. 20.00.
Mættir: Þórarinn Jónsson, Ragnheiður Þorgrímsdóttir, Daniela Gross, Ingibjörg Jónsdóttir og Gyða S. Björnsdóttir.

1.    Kynning á fundi Ragnheiðar með umhverfisráðherra þann 6. september. Ragnheiður greindi einnig frá niðurstöðum nýjustu mælinga á lífsýnum úr hrossum frá Kúludalsá. Mælingarnar voru gerðar á vottuðuðum erlendum rannsóknarstofum.

2.    Ragnheiður óskar eftir því að vera leyst frá störfum formanns tímabundið. Þórarinn Jónsson tekur að sér formennsku á meðan.

3.    Nauðsyn á mælingum á lífsýnum úr fleiri dýrategundum ræddar. Mælingar sem Ragnheiður hefur látið gera benda til þess að verksmiðjurnar hafi of rúmar heimildir til losunar miðað við stærð þynningarsvæðis.

4.    Aðalfundur Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð. Stefnt er að því að halda aðalfund félagsins í kringum 1. nóvember. Hugmyndir að opnum málfundi einnig ræddar.

Fleira ekki tekið fyrir. Fundi slitið kl. 23.10.

22
ágú

Fundur 21. 8. 2012

Umhverfisvaktin við Hvalfjörð hélt fund að Hálsi í Kjós þriðjudaginn 21. ágúst kl. 20.30.
Mættir: Þórarinn Jónsson, Ragnheiður Þorgrímsdóttir, Daniela Gross og Gyða S. Björnsdóttir.

1.    Kvikmyndasýning þann 14. júní að Hjalla í Kjós rædd. Sýnd var myndin Baráttan um landið eftir Helenu Stefánsdóttur.  Þuríður Einarsdóttir einn af aðstandendum myndarinnar sagði í stuttu máli frá gerð hennar og svaraði spurningum að henni lokinni. Umræða á milli viðstaddra að sýningu lokinni var mjög áhugaverð og hvetjandi.

2.    Ragnheiður greinir frá nýjum mælingum á flúori í lífsýnum og þvagi hrossa sem gerðar voru á vottuðum rannsóknarstofum. Ragnheiður greindi einnig frá tilraunum sínum til að ná eyrum opinberra aðila, t.d. umhverfisráðherra.

3.    Dagskrá vetrarins rædd ásamt ýmsum hugmyndum um framhald rannsókna á lífsýnum dýra við fjörðinn.

Fleira ekki tekið fyrir. Fundi slitið kl. 23.15.


Ath. Aðrar fundargerðir má finna undir flipanum Um félagið og Fundargerðir

09
jún

Baráttan um landið

Umhverfisvaktin við Hvalfjörð stóð fyrir sýningu á heimildamyndinni Baráttan um landið
fimmtudaginn 14. júní á Hjalla í Kjós.
Áður en sýning hófst sagði Þuríður Einarsdóttir stuttlega frá gerð myndarinnar og svaraði
spurningum að sýningu lokinni.
Mæting var góð og umræður urðu frjóar um efni myndarinnar.

Þökk þeim sem tóku þátt.

Stjórnin