03
sep

Áskorun um að auka loftgæðamælingar í Hvalfirði

Rafræn undirskriftasöfnun

Iðjuverin á Grundartanga losa árlega mikið magn eiturefna út í andrúmsloftið. Skaðsemi efna á borð við flúor og brennistein fyrir náttúru og lífríki er vel þekkt. Losun eiturefnanna á sér stað allan ársins hring. Þrátt fyrir það fer umhverfisvöktun vegna flúors í andrúmslofti utan iðjuveranna aðeins fram frá apríl til október, þ.e. hálft árið. Þetta gerist þrátt fyrir margítrekaðar ábendingar Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð um að hefð sé fyrir útigangi og vetrarbeit sumra húsdýra.

Í þessu sambandi má benda á að samkvæmt starfsleyfi viðkomandi iðjuvers er heimilt að auka útsleppi flúors á vetrarmánuðum, þegar flúor í andrúmslofti er ekki mældur, á þeim forsendum að það sé utan vaxtar og beitartíma. Sjá grein 2.1.6. í starfsleyfi.

Það er gríðarlega mikilvægt fyrir heilsu manna og dýra sem og fæðuöryggi í Hvalfirði, að hægt sé að fylgjast með eiturefnum í lofti og staðreyna mengun á hverjum tíma. Það hlýtur einnig að vera umhverfisyfirvöldum og iðjuverunum sjálfum kappsmál að hafa þessar upplýsingar.

Við skorum á yfirvöld umhverfismála að hefja vöktun á flúor yfir vetrartímann, frá og með október 2013. Mælt verði flúor í öllum mælitækjum fyrir loftgæði sem gert er ráð fyrir í gildandi vöktunaráætlun.

Við biðjum þig að taka undir áskorun okkar með því að ljá undirskrift þína rafrænt hér


Þeir sem skrifa undir geta ákveðið hvort undirskrift þeirra er leynileg eða ekki.

Undirskriftasöfnunin stendur fram í október.


Með góðri kveðju og þökk frá Umhverfisvaktinni við Hvalfjörð

rarinn.jpg - 24.74 Kb

Þórarinn Jónsson formaður
Hálsi, Kjós


11
júl

Póstkort Umhverfisvaktarinnar

pstkort 1.jpg - 138.62 Kb

Umhverfisvaktin við Hvalfjörð hefur sent frá sér meðfylgjandi póstkort og er dreifing á því hafin. Félagsmenn geta nálgast kortið sem er ókeypis, hjá stjórnarmönnum. Upplagt er að senda það vinum eða ættingjum með ósk um að okkur Íslendingum auðnist að standa saman um vernd okkar miklu auðlindar sem er ósnortin náttúra, - að það verði ekki framar liðið að henni sé fórnað á altari gróðaafla.

Með kærri kveðju til allra náttúruunnenda!

pstkort 2.jpg - 50.39 Kb

09
maí

Viðbrögð við skýrslu Faxaflóahafna

Fréttatilkynning frá Umhverfisvaktinni við Hvalfjörð vegna skýrslu Faxaflóahafna um mengunarálag og umhverfisvöktun vegna iðjuveranna á Grundartanga.


Umhverfisvaktin við Hvalfjörð hefur lengi reynt að fá iðjuverin á Grundartanga, íslenskar eftirlitsstofnanir og Faxaflóahafnir til viðræðna um stöðu umhverfismála í Hvalfirði, hvar séu hættumerki vegna mengunar og hvernig sé unnt að vakta umhverfið betur.


Umhverfisvaktin fagnar því að Faxaflóahafnir skuli hafa haft frumkvæði að því að skoða mengunarálag frá iðjuverum á Grundartanga, en telur að skýrslu þeirra sé ábótavant í mikilvægum atriðum, til dæmis í samanburði á umhverfi erlendu álveranna tveggja og Norðuráls sem er staðsett í landbúnaðarhéraði. Umhverfisvaktin telur að vegna staðsetningar Norðuráls ætti Umhverfisstofnun að gera strangari kröfur til fyrirtækisins en nú er gert um losun flúors.


Umhverfisvaktin gerir einnig alvarlega athugasemd við álit Faxaflóahafna* um að staða mengunarmála í Hvalfirði sé vel ásættanleg og telur að ekki hafi verið sýnt fram á að svo sé. 


(*Vísað er í kvöldfrétt hjá RÚV þriðjudaginn 7. maí s.l.)

04
apr

Stjórnarfundur 13. 3. 2013

Stjórnarfundur í Umhverfisvaktinni við Hvalfjörð var haldinn 14. mars 2013 að Kúludalsá og hófst kl. 19:00.

Mættir: Ragnheiður Þorgrímsdóttir, Edda Andrésdóttir, Gyða S. Björnsdóttir, Bergþóra Andrésdóttir, Daniela Gross og Ingibjörg Jónsdóttir.

Gestir voru Sigurður Sigurðsson og Jakob Kristinsson.

Tilgangur fundarins var að fara yfir stöðu mála varðandi yfirferð þeirra Sigurðar og Jakobs á gögnum vegna flúormengunar í Hvalfirði.

Sigurður greindi frá því að formleg beiðni frá atvinnvegaráðuneyti hefði borist um að gera athugun á gögnum sem fyrir liggja um veikindi hrossa og jafnframt að gera tillögu um hvernig má skoða málið nánar og þá frekari rannsóknir.
Jakob og Sigurður munu setjast niður og gera tillögur til atvinnuvegaráðuneytis um rannsóknaráætlun. Jafnframt gera þeir tillögur um rannsóknir til frambúðar. Þá þarf að svara því hvort hættulegt geti verið að neyta afurða af dýrum sem útsett eru fyrir mengun.
Annað sem rætt var á fundinum er varðveitt í fundargerðabók Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð.

Fundi slitið kl. 21:10.
Ingibjörg ritaði fundargerð.

09
feb

Stjórnarfundur 28. jan 2013

Stjórnarfundur var haldinn heima hjá Eddu gjaldkera þann 28. janúar 2013. Hófst hann um kl. 20 og lauk um kl. 22:30.

Forföll voru hjá Guðbjörgu og varamenn voru uppteknir þannig að fundurinn var fámennur að þessu sinni. Þrátt fyrir það var engin lognmolla yfir umræðum sem snerust um mælingar lífsýna úr búfénaði í Hvalfirði. Á fundinn kom Sigurður Sigurðarson dýralæknir.

Ragnheiður