03
sep

Deiliskipulag Norðuráls Grundartanga ehf

Umhverfisvaktin hefur gert eftirfarandi athugasemdir við tillögur um breytingar á deiliskipulagi lóðar Norðuráls á Grundartanga.

 

Hvalfirði 2. sept. 201

Skipulagsfulltrúi Hvalfjarðarsveitar
Ólafur Melsted
Innrimel 3
301 Akranesi

 

Athugasemdir við tillögur um breytingar á deiliskipulagi lóðar Norðuráls á Grundartanga

Umhverfisvaktin við Hvalfjörð gagnrýnir harðlega þau vinnubrögð að ekki hafi verið unnið deiliskipulag fyrir stækkun iðnaðarsvæðis og mannvirkja Norðuráls á Grundartanga síðan gildandi deiliskipulag var samþykkt 1997, þ.e. í upphafi starfseminnar. Stækkun iðnaðarsvæðis og mannvirkja hefur leitt til 240.000 tonna framleiðsluaukningar álversins á ári sem er fimmföld framleiðsla miðað við gildandi deiliskipulag. Í niðurstöðu umhverfisskýrslu í tillögu að deilisskipulagi lóðar Norðuráls hf. á Grundartanga segir: “Breyting á deiliskipulagi lóðar Norðuráls á Grundartanga felst fyrst og fremst í því að uppfæra upplýsingar á deiliskipulagsdrætti til samræmis við þau mannvirki og þá starfsemi sem fram fer á svæðinu en töluverðar breytingar hafa orðið á mannvirkjum frá því sem fram kemur í gildandi deiliskipulagi frá árinu 1997...af ótilgreindum ástæðum var deiliskipulagið ekki uppfært árið 2002 þegar afkastaaukning álversins var síðast samþykkt.” Umhverfisvaktin krefst skýringa á þessum vinnubrögðum og óskar eftir að það sé upplýst hversu mikið iðnaðarsvæðið stækkar með nýju deiliskipulagi.

Álvinnsla (álhreinsun) Norðuráls er umfangsmikil og mengandi starfsemi sem sætir stöðugt meiri gagnrýni vegna umhverfisáhrifa. Slík áhrif hafa gert vart við sig í umhverfi Norðuráls svo um munar. Þrátt fyrir þá staðreynd að flúor í beinum sauðfjár á svokölluðum vöktunarbæjum mælist hátt ár eftir ár og flúor í beinsýnum hrossa í nágrenni iðjuversins hafi mælst fimmfalt meira en áætlað landsmeðaltal, stefna forsvarsmenn Norðuráls á enn frekari aukningu álhreinsunar í landbúnaðarhéraðinu við Hvalfjörð. Umhverfisvaktin við Hvalfjörð mótmælir þeirri fyrirætlan harðlega og bendir á skort á rannsóknum á þoli íslensks búfjár á mengandi efnum svo sem flúor, brennisteini og þungmálmum. Þrátt fyrir yfirlýsingar Norðuráls um að slíkar rannsóknir séu til þá hafa forsvarsmenn fyrirtækisins ekki treyst sér til að benda á þær, sjá meðfylgjandi bréf Umhverfisvaktarinnar til Norðuráls.

Áður en deiliskipulag sem heimilar framleiðsluaukningu Norðuráls er tekið til skoðunar er nauðsynlegt að sinna eftirfarandi veigamiklu atriðum sem allt of lengi hafa rekið á reiðanum:

a. Gera þarf ítarlegar rannsóknir á þoli íslensks búfjár gagnvart flúor, brennisteini og þungmálmum.

b. Gera ítarlegar rannsóknir á áhrifum mengunar frá núverandi starfsemi Norðuráls á heilsu búfjár í grennd við álverið.

c. Gera þarf heildarúttekt á stöðu mengunar í nágrenni Grundartanga af óháðum erlendum aðila (sbr. hugmynd sem fram kom í aðdraganda umhverfisskýrslu Faxaflóahafna að fá viðurkennda danska verkfræðistofu til verksins).

Umhverfisvaktin telur mikilvægt að taka með fyrirvara þeim fullyrðingum forsvarsmanna Norðuráls að unnt verði að draga úr losun flúors út í andrúmsloftið jafnhliða aukinni framleiðslu og bendir á að álverið sér sjálft um utanumhald umhverfisvöktunar. Umhverfisvaktin krefst upplýsinga um hvers vegna ekki hafi verið dregið mun meira úr losun flúors fyrr, úr því að „besta fáanlega tækni“ til slíks er til staðar.

Norðurál hefur haldið uppi gríðarlegri ímyndarsköpun með misvísandi upplýsingum um áhrif starfseminnar. Vegna hinna miklu fjárhagslegu hagsmuna Norðuráls er ekki á nokkurn hátt verjandi að forsvarsmenn iðjuversins sjái um utanumhald umhverfisvöktunar vegna mengunar Norðuráls. Það er heldur ekki verjandi að Norðurál sé eina heimildin um það hvernig til hefur tekist með mengunarvarnir sbr. innra eftirlit álversins.

Umhverfisvaktin mótmælir eindregið þeim breytingum á deiliskipulagi lóðar Norðuráls á Grundartanga sem heimila framleiðsluaukningu iðjuversins um 50.000 tonn á ári

og ítrekar það sem margoft hefur komið fram af hálfu félagsins að á meðan ekki er fundin skýring á háum gildum flúors í búfénaði og veikindum dýra í nágrenni álversins nær ekki nokkurri átt að auka vinnslu/hreinsun áls á svæðinu.

Umhverfisvaktin við Hvalfjörð vekur jafnframt athygli á ábyrgð skipulagsyfirvalda og annarra stjórnvalda, þ.m.t. kjörinna fulltrúa í Hvalfirði gagnvart íbúum og atvinnurekendum (bændum) á svæðinu. Íbúar eiga rétt á því að geta lifað og sinnt atvinnurekstri í sinni heimabyggð án þess að verða fyrir tjóni af hálfu annarrar atvinnustarfsemi. Það er hlutverk kjörinna fulltrúa og starfsmanna sveitarfélagsins að taka mið af hagsmunum íbúa í allri ákvarðanatöku. Gjalda verður varhug við því að yfirvöld leggi blessun sína yfir breytingar sem víst er að verði til tjóns, en dæmi eru um að sveitarfélög hafi bakað sér bótaskyldu með slíkum ákvörðunum.

Virðingarfyllst,

stjórn Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð

Þetta tölvupóstfang er varið gegn ruslpóstsþjörkum, Þú verður að hafa JavaScript virkt til að sjá það.

www.umhverfisvaktin.is

 

Meðfylgjandi er bréf Umhverfisvaktarinnar til Ragnars Guðmundssonar forstjóra Norðuráls, dags. 31. mars 2015.

 

 

 

 

 

19
maí

Athugasemdir til Faxaflóahafna

Náttúruperlan Hvalfjörður og Silicor Materials Inc.

 

Umhverfisvaktin við Hvalfjörð þakkar forsvarsmönnum sameignarfélagsins Faxaflóahafna kurteislegt bréf frá 12. 5. 2015 með svörum við spurningum tengdum Silicor Materials Inc. frá Umhverfisvaktinni við Hvalfjörð, dags. 28. 4. 2015.

Spurningar Umhverfisvaktarinnar voru bornar fram vegna einhliða upplýsinga um starfsemi Silicor Materials Inc (Silicor). Svör Faxaflóahafna bæta því miður ekki miklu við fyrri upplýsingar sem flestar hefur mátt lesa áður í fjölmiðlum. Þau ná ekki að byggja upp nauðsynlegt traust á Silicor. Iðjuverið er enn sem fyrr á tilraunastigi og upplýsingar um stöðu þess sem slíks koma mest frá því sjálfu sem er að sjálfsögðu ekki æskilegt.

Umhverfisvaktin hefur ýmislegt við orðræðu Faxaflóahafna að athuga. Lögð er áhersla á að Silicor sé um það bil mengunarlaust. Flestir vita að stóriðja er aldrei mengunarlaus og þetta „um það bil“ lofar ekki góðu í ljósi sögunnar. Silicor yrði öflug viðbót við efnamengun, sjónmengun, hávaðamengun og ljósmengun sem nú þegar fylgir stóriðjunni á Grundartanga og myndi hafa ófyrirséð samlegðaráhrif með hinum iðjuverum þar. Í kjölfarið myndu lífsgæði fólksins sem hefur hlotnast sú gæfa að búa og ráða löndum í Hvalfirði skerðast á þann hátt að óbærilegt verður fyrir marga. Í þessu sambandi er rétt að benda á að sanngjörn krafa neytenda um upprunamerkingar matvæla verður sífellt háværari.

Umhverfisvaktin gerir fleiri athugasemdir við orðræðu Faxaflóahafna t.d. þá að stóriðja sé réttlætanleg vegna mikillar atvinnusköpunar. Þarna er verið að blanda saman tveimur ólíkum málefnum. Stóriðja skaðar náttúru og lífríki. Þess vegna á ekki undir nokkrum kringumstæðum að koma henni fyrir í landbúnaðarhéraði. Atvinna er annað mál og mikilvægt, en það er ekki atvinnuleysi við Hvalfjörð. Vegna Silicor þyrfti að flytja starfsmenn tugi kílómetra með tilheyrandi losun gróðurhúsalofttegunda og jafnvel sækja þá til útlanda. Einnig þyrfti að flytja varning til og frá verksmiðjunni á sjó og landi með ómældri mengun. Þessi atriði hafa ekki verið tekin inn í heildarmyndina, ekki frekar en versnandi lífsgæði íbúa og landeigenda við Hvalfjörð vegna áhrifa frá Grundartanga.

Enn einn þáttur í orðræðunni er einhverskonar meðaumkun með Silicor sem sér hag í að koma til Íslands vegna fríverslunarsamnings milli Íslands og Kína. Slíkt er ekki og á ekki að vera áhyggjuefni íbúa og landeigenda við Hvalfjörð.

Athygli vekur að mengun frá iðjuverunum á Grundartanga og umhverfisvöktun vegna hennar virðist ekki valda forsvarsmönnum Faxaflóahafna áhyggjum. Umhverfisvöktun gæti því orðið með svipuðu sniði og áður: Iðjuverið vaktar sig sjálft. Niðurstöður vöktunarinnar fá íbúar að sjá ári síðar og landeigendur á Grundartanga geta alltaf skotið sér bak við Umhverfisstofnun sem „ræður þessu öllu.“ Það mun reynast erfitt að staðfesta efnamengun frá Silicor vegna nálægðar við aðrar verksmiðjur. Þar að auki er mengunarmælingum vegna Grundartanga haldið í lágmarki og náttúra og lífríki njóta ekki vafans. Enn eru notaðar ágiskanir um þol íslensks búfjár á eiturefnum, loftgæðamælingar fara aðeins fram hálft árið, engar mælingar eru birtar á rauntíma og viðbragðsáætlun fyrir íbúa vegna mengunarslysa er ekki til svo nokkuð sé nefnt. Fyrir stuttu var upplýst að Umhverfisstofnun hafði tekið loftgæðamælinn í Stekkjarási, norðvestan við Grundartanga, úr umferð í vetur til að nota hann vegna Holuhrauns! Þetta eru aðeins örfá dæmi um slaka umhverfisvöktun.

Ýmsir hafa borið lof á Silicor, einkum þeir sem hafa fjárhagslegra hagsmuna að gæta og eru þeir þá líklega fúsir að taka við iðjuverinu í sína heimabyggð. Umhverfisvaktin fullyrðir að tilraunaverksmiðja Silicor á ekkert erindi inn í náttúruperluna Hvalfjörð. Áhrif iðjuversins yrðu slæm og óafturkræf. Nú er komið að því að forsvarsmenn Faxaflóahafna átti sig á að sameignarfélagið er aðeins einn af mörgum landeigendum við Hvalfjörð. Haldi þeir að hlutur Faxaflóahafna sé merkilegri eða réttmeiri en hlutur annarra er það á misskilningi byggt.

Heyrst hefur meðal íbúa við Hvalfjörð að þýðingarlaust sé að láta í ljós áhyggjur vegna Grundartanga. Ekki verði hlustað á slíkt hjal, jafnvel gert lítið úr fólki fyrir vikið. Umhverfisvaktin hvetur fólk til að skoða vefinn okkar www.umhverfisvaktin.is hitta okkur á Fésbók eða senda póst á Þetta tölvupóstfang er varið gegn ruslpóstsþjörkum, Þú verður að hafa JavaScript virkt til að sjá það.

Umhverfisvaktin við Hvalfjörð berst gegn frekari röskun á náttúruperlunni Hvalfirði. Málstaðurinn er sanngjarn og saman erum við sterk.

Hvalfirði, 17. maí 2015

Umhverfisvaktin við Hvalfjörð

28
apr

Opið bréf til forsvarsmanna Faxaflóahafna sf

Opið bréf til forsvarsmanna Faxaflóahafna sf
frá Umhverfisvaktinni við Hvalfjörð með fimmtán spurningum varðandi fyrirhugaða sólarkísilverksmiðju Silicor Materials Inc. á Grundartanga.

Allar varða spurningarnar rök fyrir því að leggja út í slíka tilraunastarfsemi í Hvalfirði.

Komið þið sæl ágætu forsvarsmenn Faxaflóahafna sf.

Umhverfisvaktin við Hvalfjörð biður ykkur að svara eftirfarandi spurningum.

1.    Getur Umhverfisvaktin við Hvalfjörð fengið í hendur allar skýrslur sem lagðar hafa verið fram um væntanlega starfsemi Silicor Materials á Grundartanga og öll gögn sem liggja að baki skýrslunum? Jafnframt óskar Umhverfisvaktin upplýsinga um, hvar og undir hvaða kringumstæðum hið nýja framleiðsluferli Silicor Materials var prófað erlendis.

2.    Silicor Materials er ungt fyrirtæki með nýja tækni við hreinsun kísils. Á Grundartanga er stefnt að því að stórauka framleiðslu sem hefur aðeins verið á tilraunastigi í tvö ár, en það er of stuttur tími til að sannreyna ferlið.
Hefur verið gerð áhættugreining vegna fyrirhugaðrar framkvæmdar og starfsemi Silicor Materials á Grundartanga? Ef svo er óskar Umhverfisvaktin eftir að fá hana í hendur. Hafi slík greining ekki verið gerð er beðið um skýringar á því.

3.    Einungis hafa verið framleidd 5 -700 tonn af hreinum kísil með hinni nýju aðferð Silicor Materials í Kanada. Áætluð ársframleiðsla Silicor Materials á Grundartanga er um 19.000 tonn. Mjög lítil reynsla er komin á framleiðsluna. Finnst forsvarsmönnum Faxaflóahafna réttlætanlegt að sannreyna tilraunastarfsemi Silicor Materials á náttúru og lífríki Hvalfjarðar?

4.    Í hvaða löndum hefur Silicor Materials reynt að selja viðkomandi tækni?

5.    Hefur sameignarfélagið Faxaflóahafnir nýtt sér ráðgjöf aðila sem hafa starfað fyrir Silicor Materials á Íslandi? Hvaða stöðu og sérþekkingu hefur ráðgjafarfyrirtækið VSÓ og aðrir sem hafa lagt mat á fyrirhugaða starfsemi Silicor Materials á Íslandi, til að leggja óháð mat byggt á sérfræðiþekkingu á starfsemi verksmiðjunnar? Umhverfisvaktin leggur áherslu á að það eru t.d. ekki nægjanleg rök að efnaverkfræðingur sé til staðar hjá viðkomandi ráðgjafarfyrirtæki.

6.    Forsvarsmenn Reykjavíkurborgar heilluðust af hugmyndinni um tækni við Hellisheiðarvirkjun á sínum tíma. VSÓ var álitsgjafi Reykjavíkurborgar varðandi virkjunina en þar fer fram umdeild tilraunastarfsemi sem nú veldur vandræðum. Finnst Faxaflóahöfnum að það eigi að bjóða náttúru og lífríki Hvalfjarðar upp á meiri tilraunastarfsemi varðandi mengandi iðnað? Er ekki hægt að læra eitthvað af Hellisheiðarvirkjun og núverandi stöðu mengunarmála vegna stóriðju á Grundartanga?

7.    Umhverfisvaktin minnir á að tvær nýjustu verksmiðjurnar á Grundartanga störfuðu lengi á undanþágu með samþykki Umhverfisstofnunar, en það þýðir mengun eftir „þörfum“ fyrirtækisins. Hafa forsvarsmenn Faxaflóahafna hugsað sér að Silicor Materials starfi á undanþágu fyrst í stað? Ef svo er, þá hversu lengi? Faxaflóahafnir eru beðnar að skýla sér ekki á bak við Umhverfisstofnun þegar þessari spurningu verður svarað.

8.    Í upphafi kynningar á Silicor Materials var ekki minnst á flúormengun frá iðjuverinu, aðeins talað um „óverulega mengun“ sbr. ummæli efnaverkfræðings hjá VSÓ sem hafði einnig unnið fyrir Silicor, og forstjóra Nýsköpunarmiðstöðvar. Báðir þessir aðilar sem svo oft hefur verið vitnað til virðast annaðhvort ekki hafa séð þennan veigamikla þátt eða að hann hafi ekki skipt máli í þeirra augum.  Sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar hafði þá þegar ákveðið að ekki skyldi aukið við flúormengun frá Grundartangasvæðinu og kvikaði ekki frá þeirri ákvörðun. Silicor Materials tók þá til við að breyta vinnsluferlinu til að koma í veg fyrir losun flúor, að sögn forsvarsmanna. Fyrst ekki var sagt satt og rétt frá í upphafi, má velta fyrir sér hverju megi eiga von á síðar. Við álbræðslu er flúor nauðsynlegur og við hreinsun kísils er notað brætt ál. Geta Faxaflóahafnir lagt á borðið fullnægjandi sannanir um að Silicor Materials muni ekki losa flúor út í andrúmsloftið?

9.    Hvernig verður unnt að mæla hvort flúor kemur frá verksmiðju Silicor Materials þar sem henni er ætlaður staður rétt hjá álveri Norðuráls?

10.    Þegar talað er um „óverulega mengun“ er meðal annars átt við um 60 tonn af ryki sem fari árlega út í andrúmsloftið frá fyrirhugaðri verksmiðju Silicor Materials. Hvaða eiturefni munu verða í þessu „ryki“ og í hvaða magni?

11.    Talað er um „lokaða ferla“ hjá verksmiðju Silicor Materials. Lítið hefur verið fjallað um mengun innan verksmiðjunnar sjálfrar þar sem gert er ráð fyrir að 350- 400 manns vinni að staðaldri. Umhverfisvaktin spyr hvort hægt sé að fá greinargóða lýsingu á starfsaðstæðum innan veggja fyrirhugaðrar verksmiðju.

12.     Iðjuverin á Grundartanga halda sjálf utan um umhverfisvöktun vegna starfsemi sinnar. Mun þetta fyrirkomulag einnig gilda um Silicor Materials? Enn og aftur eru Faxaflóahafnir beðnar að skýla sér ekki á bak við Umhverfisstofnun þegar þessari spurningu verður svarað.

13.    Gríðarleg hávaða- og sjónmengun er nú þegar frá Grundartanga. Tilkoma Silicor Materials mun gera hana langtum verri. Hennar gætir mest sunnan megin fjarðar, í Kjós. Hvernig hafa forsvarsmenn Faxaflóahafna hugsað sér að eyða þessari mengun þannig að íbúar við fjörðinn megi vel við una?

14.     Mikill hraði hefur verið á undirbúningi samnings við Silicor Materials. Þann 31. mars síðastliðinn hitti stjórn Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð borgarstjóra, Dag B. Eggertsson, til að tjá honum áhyggjur vegna Grundartanga og fá upplýst hvert Reykjavíkurborg stefndi með svæði Faxaflóahafna þar, en borgin á rúm 75% í Faxaflóahöfnum. Innan örskamms tíma var skrifað undir samninga við Silicor. Borgarstjórinn gaf sér ekki tíma til að hlusta á rök okkar. Hvers vegna?


15.    Hvert stefnir með Hvalfjörð? Enginn hefur þorað að segja upphátt að breyta ætti þessari undurfögru náttúruperlu í mengaðan iðnaðarfjörð. En verkin tala og það sem Faxaflóahafnir hafa aðhafst á Grundartanga síðustu árin bendir því miður allt í þá átt að það eigi ekki að hlífa Hvalfirði.
Enda þótt sameignarfélagið Faxaflóahafnir sé í eigu íbúa í fimm sveitarfélögum,* kemur vilji íbúanna sjaldnast í ljós þar sem ekki er leitað álits þeirra, en ljóst er að kjörnir fulltrúar Reykjavíkurborgar halda uppi harðri stefnu gagnvart Hvalfirði.
Umhverfisvaktin við Hvalfjörð vísar á opið bréf til borgarstjóra og Reykvíkinga dags. 24.apríl 2015 og spyr: Hvert stefnir með Hvalfjörð?


Óskað er svara við ofangreindum spurningum sem allra fyrst, og eigi síðar en 13. maí nk.


Hvalfirði 28. apríl,
með kveðju,
Stjórn Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð

 *Sameignarfélagið Faxaflóahafnir er í eigu Reykjavíkurborgar (75,6%), Akraneskaupstaðar (10,8%), Hvalfjarðarsveitar (9,3),  Borgarbyggðar (4,1%) og Skorradalshrepps (0,2%).

25
apr

Opið bréf til borgarstjóra og Reykvíkinga

tblstur.jpg - 256.99 Kb

Opið bréf til Dags B. Eggertssonar borgarstjóra og Reykvíkinga frá Umhverfisvaktinni við Hvalfjörð

Kæru nágrannar!
Nýverið hlaut Reykjavíkurborg umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs fyrir markvissar aðgerðir í umhverfismálum. Umhverfisvaktin við Hvalfjörð óskar Reykvíkingum til hamingju með verðlaunin. Við hvetjum Reykvíkinga og borgarstjóra jafnframt til að hugleiða hvernig það fer saman að vinna að því að skapa umhverfisvænni borg og taka við verðlaunum á þeim forsendum,  á meðan einnig er unnið að því að stuðla að mengandi starfsemi utan borgarmarkanna.
Með þessu bréfi vill Umhverfisvaktin við Hvalfjörð vekja athygli ykkar á því að sem meirihlutaeigendur Faxaflóahafna berið þið ábyrgð á iðnaðaruppbyggingu við Hvalfjörð sem stefnir lífríki fjarðarins og lífsgæðum íbúa hans í hættu.  Við teljum þörf á þessu bréfi vegna þess að við höfum áhyggjur af því að íbúar Reykjavíkur, þar með talinn borgarstjóri og borgarstjórn, séu ekki nægilega meðvitaðir og upplýstir um þau slæmu áhrif sem mengandi iðnaður hefur nú þegar á fjörðinn.
Reykjavíkurborg á rúmlega 75% eignarhlut í Faxaflóahöfnum.  Faxaflóahafnir eru sameignarfélag í eigu nokkurra sveitarfélaga og eiga rúmlega 600 hektara lands á Grundartanga. Bróðurparturinn af tekjum Faxaflóahafna kemur frá inn- og útflutningi fyrir mengandi stóriðju.
Á Grundartanga eru starfandi fjögur iðjuver sem stöðugt dæla mengun yfir Hvalfjörð. Eftir ábendingar frá Umhverfisvaktinni og fleirum um að staða mengunar frá svæðinu og eftirlit með henni væru ámælisverð réðu Faxaflóahafnir sérfræðinga til að fara yfir gögn um málið og skila skýrslu. Umhverfisvaktin fagnaði þessu skrefi í rétta átt, en benti einnig á að höfundum skýrslunnar var þröngur stakkur skorinn í verkefninu og þeir tóku ýmsum forsendum mengunarmarka og umhverfisvöktunar sem gefnum, þó þær séu það ekki. Skýrslan byggir á vöktunarskýrslum iðjuveranna, en Umhverfisvaktin hefur ítrekað bent á að vöktun umhverfis í grennd við Grundartanga þarfnist verulegrar endurskoðunar þar sem hún er gerð á ábyrgð forsvarsmanna iðjuveranna sjálfra, sem veikir mjög áreiðanleika hennar. Umhverfisvaktin hefur einnig bent ítrekað á það að viðmiðunarmörk vegna áhrifa mengunar á búfénað séu ekki byggð á fullnægjandi gögnum, en mörkin eru m.a. ákveðin út frá 20 ára gamalli rannsókn á áhrifum flúors á dádýr í Noregi. Þrátt fyrir þessa annmarka skýrslunnar gefur hún samt sem áður mikilvægar vísbendingar um þróun mengunarmála í kringum Grundartanga, en samkvæmt henni er þolmörkum nú þegar náð hvað varðar mengun af völdum brennisteinstvíoxíðs og flúors, og viðvörunarljós eru einnig kveikt hvað varðar þungmálma og svifryk.
Þrátt fyrir þessi viðvörunarljós vinnur Reykjavíkurborg að því að fjölga iðjuverum á Grundartanga. Nú á að reisa þar kísilverksmiðju sem borgarstjóri og aðrir forsvarsmenn Faxaflóahafna skilgreina sem grænan og umhverfisvænan iðnað. Umhverfisvaktin hefur sett spurningarmerki við þessa skilgreiningu sem virðist byggja á þeim skilningi að ef iðnaður mengi minna en annar samskonar iðnaður sé hann umhverfisvænn. Mengandi iðnaður getur aldrei talist vænn fyrir umhverfið, hversu mikið eða lítið sem hann mengar í samanburði við annan mengandi iðnað.
Umhverfisvaktin hefur vakið athygli á því að á síðustu árum hafa framleiðsluaukning Norðuráls og nýjar verksmiðjur sem rísa á Grundartanga ekki þurft að sæta mati á umhverfisáhrifum. Sú skýring er gefin að mengun af völdum hverrar verksmiðju eða framleiðsluaukningar einnar og sér, sé óveruleg viðbót við núverandi mengun. Umhverfisvaktin við Hvalfjörð telur það forkastanlegt að gefinn sé afsláttur á kröfum um mat á umhverfisáhrifum.
Þessi þróun vekur upp spurningar um raunverulega framtíðarsýn Faxaflóahafna fyrir Grundartanga. Á heimasíðu Faxaflóahafna má finna umhverfisstefnu fyrirtækisins þar sem fram kemur að Faxaflóahafnir ætli sér að vera leiðandi í umhverfismálum. En athygli vekur að á ensku síðunni* er Grundartanga lýst sem iðnaðarsvæði og gæði svæðisins fyrir iðnaðaruppbyggingu eru talin upp. Hvergi er þar að finna upplýsingar um umhverfisstefnu fyrirtækisins.
Þessi og önnur misvísandi skilaboð frá Faxaflóahöfnum valda íbúum við Hvalfjörð áhyggjum. Loforð um umhverfisvænan og grænan iðnað á Grundartanga af hálfu Reykjavíkurborgar og Faxaflóahafna hafa verið svikin. Því miður er raunin sú að allt stefnir í að áfram bætist við fleiri og fleiri verksmiðjur og aukin mengun ef haldið verður áfram að skilgreina alla nýja mengandi starfsemi sem óverulega viðbót. Það liggur í augum uppi miðað við núverandi mengunarálag og fyrirhugaðar framkvæmdir að vonir íbúa við Hvalfjörð um að fjörðurinn fái að vaxa og dafna sem útivistarparadís og landbúnaðarhérað verða að engu ef áfram er unnið að því að breyta honum í mengaðan iðnaðarfjörð og ruslahaug Reykvíkinga.
Við hvetjum Reykvíkinga og borgarstjóra til að hugleiða hvernig eftirfarandi yfirlýsing úr drögum að svæðisskipulagi sveitarfélaganna við höfuðborgarsvæðið, samræmist uppbyggingunni á Grundartanga, en þar segir: „Íbúar höfuðborgarsvæðisins eiga greiðan aðgang að sameiginlegu útivistarsvæði umhverfis borgina. Þetta gefur þeim færi á að viðhalda góðri heilsu, slaka á og endurnærast, hvort sem um ræðir ströndina, Græna trefilinn, heiðar eða fjöll.“ Já, þetta eru mikilvæg lífsgæði, sem höfuðborgarbúar njóta allt í kring um sig, og íbúar við Hvalfjörð eiga skilyrðislaust einnig að fá að njóta.
Ágæti borgarstjóri og Reykvíkingar!
Nú er komið nóg.  Iðnaðarsvæðið á Grundartanga er mettað og má alls ekki við meiri mengandi iðnaði. Við förum því fram á það að þið, kæru nágrannar, hættið tafarlaust að laða að Grundartanga mengandi iðnað sem þið mynduð aldrei samþykkja að fá á Hafnarbakkann í Reykjavík.
Hvalfirði 24. apríl 2015
Stjórn Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð

Viðauki: Eftirfarandi texti er tekinn af enska hluta heimasíðu Faxaflóahafna (rauði liturinn er verk Umhverfisvaktarinnar):

*"Grundartangi port and industrial area Basic information Brief description and sizes: The Grundartangi port and industrial site is in a non-residential area on the northern shore of Hvalfjörður, 49 km from Reykjavík. The land is green and flat, a former agricultural field and totals 439 hectares, of which some 311 hectares may be developed as building sites. Additionally, 50 hectares can be created by landfills. Already there are two big companies in the area, Elkem Island having a 12.9 hectare site, and Norðurál ehf which has a 129 hectare site. Sites have also been allocated to four smaller companies. The remaining area for further development is some 160 hectares. Site owner: Associated Icelandic Ports, which is an independently operated company owned by five municipalities, one of which being the City of Reykja.."