Umhverfisvaktin við Hvalfjörð

icelandics 202.jpg - 763.56 Kb

Umhverfisvaktin við Hvalfjörð var stofnuð þann 4. nóvember 2010 af hópi áhugafólks um umhverfismál. Markmið félagsins er að vernda lífríkið við Hvalfjörð jafnt í sjó, lofti og á landi, vinna að faglegri upplýsingaöflun með aðstoð sérfræðinga, efla fræðslu um umhverfismál og tryggja gegnsæi upplýsinga frá opinberum aðilum og fyrirtækjum á svæðinu. Auk þess mun Umhverfisvaktin benda á leiðir til útbóta í umhverfisverndarmálum og tryggja að hagsmunum íbúa og komandi kynslóða sé gætt í ákvarðanatöku um allt sem varðar umhverfið.

Félagið er þverpólitískt og mikill einhugur ríkti á stofnfundinum sem haldinn var að Hótel Glym við Hvalfjörð. Stjórn og varastjórn félagsins skipa átta íbúar úr Hvalfjarðarsveit og Kjós. Formaður félagsins er Ragnheiður Þorgrímsdóttir Kúludalsá, Hvalfjarðarsveit, varaformaður er Þórarinn Jónsson Hálsi í Kjós, ritari Jóhanna Harðardóttir Hlésey í Hvalfjarðarsveit, gjaldkeri er Daniela Gross Eystri-Leirárgörðum í Hvalfjarðarsveit og Gyða S. Björnsdóttir Borgarhóli í Kjós er meðstjórnandi. Varamenn eru Marteinn Njálsson, Baldvin Björnsson og Sigrún Sigurgeirsdóttir, öll úr Hvalfjarðarsveit.

Félagið er opið öllum þeim sem áhuga hafa á umhverfis- og náttúruvernd, vilja stuðla að góðri umgengni um Hvalfjörð og nágrenni hans og rækta virðingu fyrir lífríkinu. Allt áhugafólk um umhverfi Hvalfjarðar er hvatt til að leggja lóð á vogarskál betri framtíðar með þátttöku, en umsóknir má senda á netfang Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð Þetta tölvupóstfang er varið gegn ruslpóstsþjörkum, Þú verður að hafa JavaScript virkt til að sjá það.