03
sep

Deiliskipulag Norðuráls Grundartanga ehf

Umhverfisvaktin hefur gert eftirfarandi athugasemdir við tillögur um breytingar á deiliskipulagi lóðar Norðuráls á Grundartanga.

 

Hvalfirði 2. sept. 201

Skipulagsfulltrúi Hvalfjarðarsveitar
Ólafur Melsted
Innrimel 3
301 Akranesi

 

Athugasemdir við tillögur um breytingar á deiliskipulagi lóðar Norðuráls á Grundartanga

Umhverfisvaktin við Hvalfjörð gagnrýnir harðlega þau vinnubrögð að ekki hafi verið unnið deiliskipulag fyrir stækkun iðnaðarsvæðis og mannvirkja Norðuráls á Grundartanga síðan gildandi deiliskipulag var samþykkt 1997, þ.e. í upphafi starfseminnar. Stækkun iðnaðarsvæðis og mannvirkja hefur leitt til 240.000 tonna framleiðsluaukningar álversins á ári sem er fimmföld framleiðsla miðað við gildandi deiliskipulag. Í niðurstöðu umhverfisskýrslu í tillögu að deilisskipulagi lóðar Norðuráls hf. á Grundartanga segir: “Breyting á deiliskipulagi lóðar Norðuráls á Grundartanga felst fyrst og fremst í því að uppfæra upplýsingar á deiliskipulagsdrætti til samræmis við þau mannvirki og þá starfsemi sem fram fer á svæðinu en töluverðar breytingar hafa orðið á mannvirkjum frá því sem fram kemur í gildandi deiliskipulagi frá árinu 1997...af ótilgreindum ástæðum var deiliskipulagið ekki uppfært árið 2002 þegar afkastaaukning álversins var síðast samþykkt.” Umhverfisvaktin krefst skýringa á þessum vinnubrögðum og óskar eftir að það sé upplýst hversu mikið iðnaðarsvæðið stækkar með nýju deiliskipulagi.

Álvinnsla (álhreinsun) Norðuráls er umfangsmikil og mengandi starfsemi sem sætir stöðugt meiri gagnrýni vegna umhverfisáhrifa. Slík áhrif hafa gert vart við sig í umhverfi Norðuráls svo um munar. Þrátt fyrir þá staðreynd að flúor í beinum sauðfjár á svokölluðum vöktunarbæjum mælist hátt ár eftir ár og flúor í beinsýnum hrossa í nágrenni iðjuversins hafi mælst fimmfalt meira en áætlað landsmeðaltal, stefna forsvarsmenn Norðuráls á enn frekari aukningu álhreinsunar í landbúnaðarhéraðinu við Hvalfjörð. Umhverfisvaktin við Hvalfjörð mótmælir þeirri fyrirætlan harðlega og bendir á skort á rannsóknum á þoli íslensks búfjár á mengandi efnum svo sem flúor, brennisteini og þungmálmum. Þrátt fyrir yfirlýsingar Norðuráls um að slíkar rannsóknir séu til þá hafa forsvarsmenn fyrirtækisins ekki treyst sér til að benda á þær, sjá meðfylgjandi bréf Umhverfisvaktarinnar til Norðuráls.

Áður en deiliskipulag sem heimilar framleiðsluaukningu Norðuráls er tekið til skoðunar er nauðsynlegt að sinna eftirfarandi veigamiklu atriðum sem allt of lengi hafa rekið á reiðanum:

a. Gera þarf ítarlegar rannsóknir á þoli íslensks búfjár gagnvart flúor, brennisteini og þungmálmum.

b. Gera ítarlegar rannsóknir á áhrifum mengunar frá núverandi starfsemi Norðuráls á heilsu búfjár í grennd við álverið.

c. Gera þarf heildarúttekt á stöðu mengunar í nágrenni Grundartanga af óháðum erlendum aðila (sbr. hugmynd sem fram kom í aðdraganda umhverfisskýrslu Faxaflóahafna að fá viðurkennda danska verkfræðistofu til verksins).

Umhverfisvaktin telur mikilvægt að taka með fyrirvara þeim fullyrðingum forsvarsmanna Norðuráls að unnt verði að draga úr losun flúors út í andrúmsloftið jafnhliða aukinni framleiðslu og bendir á að álverið sér sjálft um utanumhald umhverfisvöktunar. Umhverfisvaktin krefst upplýsinga um hvers vegna ekki hafi verið dregið mun meira úr losun flúors fyrr, úr því að „besta fáanlega tækni“ til slíks er til staðar.

Norðurál hefur haldið uppi gríðarlegri ímyndarsköpun með misvísandi upplýsingum um áhrif starfseminnar. Vegna hinna miklu fjárhagslegu hagsmuna Norðuráls er ekki á nokkurn hátt verjandi að forsvarsmenn iðjuversins sjái um utanumhald umhverfisvöktunar vegna mengunar Norðuráls. Það er heldur ekki verjandi að Norðurál sé eina heimildin um það hvernig til hefur tekist með mengunarvarnir sbr. innra eftirlit álversins.

Umhverfisvaktin mótmælir eindregið þeim breytingum á deiliskipulagi lóðar Norðuráls á Grundartanga sem heimila framleiðsluaukningu iðjuversins um 50.000 tonn á ári

og ítrekar það sem margoft hefur komið fram af hálfu félagsins að á meðan ekki er fundin skýring á háum gildum flúors í búfénaði og veikindum dýra í nágrenni álversins nær ekki nokkurri átt að auka vinnslu/hreinsun áls á svæðinu.

Umhverfisvaktin við Hvalfjörð vekur jafnframt athygli á ábyrgð skipulagsyfirvalda og annarra stjórnvalda, þ.m.t. kjörinna fulltrúa í Hvalfirði gagnvart íbúum og atvinnurekendum (bændum) á svæðinu. Íbúar eiga rétt á því að geta lifað og sinnt atvinnurekstri í sinni heimabyggð án þess að verða fyrir tjóni af hálfu annarrar atvinnustarfsemi. Það er hlutverk kjörinna fulltrúa og starfsmanna sveitarfélagsins að taka mið af hagsmunum íbúa í allri ákvarðanatöku. Gjalda verður varhug við því að yfirvöld leggi blessun sína yfir breytingar sem víst er að verði til tjóns, en dæmi eru um að sveitarfélög hafi bakað sér bótaskyldu með slíkum ákvörðunum.

Virðingarfyllst,

stjórn Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð

Þetta tölvupóstfang er varið gegn ruslpóstsþjörkum, Þú verður að hafa JavaScript virkt til að sjá það.

www.umhverfisvaktin.is

 

Meðfylgjandi er bréf Umhverfisvaktarinnar til Ragnars Guðmundssonar forstjóra Norðuráls, dags. 31. mars 2015.