Viðtal í Skessuhorni


Umhverfisvaktin við Hvalfjörð
átelur harðlega stóriðjustefnu á kostnað Hvalfjarðar og íbúa hans

Umhverfisvaktin við Hvalfjörð er félagsskapur sem stofnaður var af fólki beggja vegna Hvalfjarðar fyrir nokkrum árum, fólki sem hafði miklar áhyggjur af umhverfismálum á svæðinu. Þær áhyggjur hafa í seinni tíð síst minnkað. Félagið lætur sig, eins og nafnið bendir til, umhverfismál varða í víðasta samhengi. Forsvarsmenn þess segja að helstu baráttumál Umhverfisvaktarinnar séu að íbúum við Hvalfjörð verði tryggt hreint andrúmsloft, hreint vatn og ómengaður jarðvegur, að öll dýr njóti hreinnar náttúru, að húsdýr njóti alls hins besta í aðbúnaði og að umhverfisvæn atvinnustarfsemi þrýfist. Þá hafnar félagið aukinni malartekju af botni fjarðarins og vill að lífríki Hvalfjarðar verði ekki raskað meira en orðið er.

Segja borgina reka skefjalausa stóriðjustefnu
Ragnheiður Þorgrímsdóttir bóndi og hestamaður á Kúludalsá í Hvalfjarðarsveit og Þórarinn Jónsson nautgripabóndi á Hálsi í Kjós eru í forsvari fyrir stjórn Umhverfisvaktarinnar en í henni sitja þrír að auki. Þau eru bæði bændur sem reka bú á áhrifasvæði mengunar frá stóriðjunni á Grundartanga. Þau halda því ákveðið fram að nánast óstjórnleg aukning stóriðju ógni þeirra atvinnu og möguleikum til að stunda landbúnað á svæðinu til lengri tíma litið. „Sjálfsögð og væntanleg krafa neytenda um upprunamerkingu landbúnaðarvara mun á næstu árum gera okkur ennþá erfiðara fyrir. Upplýstir neytendur munu ekki vilja afurðir frá búum sem eru í næsta nágrenni við mengandi stóriðju og útblásturinn virðir ekki landamörk.“ Þau Ragnheiður og Þórarinn settust niður með blaðamanni Skessuhorns í síðustu viku. Tilefnið er áform um áframhaldandi uppbyggingu á Grundartanga, bygging sólarkísilverksmiðju ber þar hæst. Framkvæmdir á Grundartanga segja þau komnar langt út fyrir þau mörk sem þau og margir aðrir telji að séu ásættanleg til að náttúran við Hvalfjörð fái að njóta vafans. Þá átelja þau harðlega borgaryfirvöld í Reykjavík sem séu í forsvari fyrir því sem þau kalla skefjalausa stóriðjustefnu á Grundartanga í gegnum eignarhald á Faxaflóahöfnum.

Heildaráhrif ekki metin
Talið berst fyrst að væntanlegum framkvæmdum við byggingu sólarkísilverksmiðju Silicor Materials í landi Kataness við Grundartanga. Blaðamaður bendir á að uppbyggingaráform Silicor hafi verið tilkynningarskyld samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum. Skipulagsstofnun hafi leitað álits fagstofnana og viðkomandi sveitarfélaga. Eftir það hafi stofnunin komist að þeirri niðurstöðu að starfsemi verksmiðjunnar; „sé ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skuli því ekki háð mati á umhverfisáhrifum.“ Þetta sé sú stjórnvaldsákvörðun sem forsvarsmenn Silicor Materials byggi á. En dugar sú staðhæfing ekki forsvarmönnum Umhverfisvaktarinnar til að þeir þurfi ekki að hafa áhyggjur af mengun frá starfseminni?
„Við setjum stórt spurningamerki við þessa niðurstöðu Skipulagsstofnunar og teljum stofnunina ekki hafa litið á málið í heild. Ákvörðun Skipulagsstofnunar í þessu tilfelli tekur ekki tillit til heildaráhrifa sem framleiðsla í svona stórri og mannfrekri verksmiðju mun hafa. Hvers vegna byggir Skipulagsstofnun ekki ákvörðun sína á heildaráhrifum? Við bendum á að verksmiðjunni munu fylgja stórauknir flutningar á fólki. Halda menn svo að stóru skipin sem sigla inn og út úr Hvalfirði á hverjum degi mengi ekkert og öll sú umferð muni ekki leiða til hættu á alvarlegu umhverfisslysi? Hvað svo með hávaðamengun sem nú þegar er orðin þannig að á góðviðrisdögum heyrist frá stóriðjunni á Grundartanga langt inn í Kjós. Hvað með sjónmengun af 24 metra háum og nær því kílómeters löngum mannvirkjum með tilheyrandi ljósum og búnaði? Nei, þegar Skipulagsstofnun gaf það út að starfsemi stóriðjufyrirtækis af þessari stærðargráðu þyrfti ekki að fara í mat á umhverfisáhrifum, þá hljómar það í okkar eyrum eins og hver önnur bábylja. Þessi niðurstaða var einfaldlega pöntuð af peningaöflum sem láta sig umhverfið engu varða þegar hagnaðarvon er annars vegar“ segja þau Ragnheiður og Þórarinn. Og blaðamaður getur vitnað um að þeim er ekki skemmt.


Ekkert samráð við nágranna
Þau Ragnheiður og Þórarinn benda jafnframt á að fólk geti velt því fyrir sér af hverju sérfræðingum Skipulagsstofnunar þyki eðlilegt að ekki sé talað við nágranna væntanlegrar stóriðju. „Okkur þykir sjálfsagt að allir íbúar séu spurðir hvort þeir telji hættu á að framkvæmd sem þessi hafi áhrif á afkomu þeirra og framtíðaráform. Það hefur nefnilega sýnt sig að frá því uppbygging stóriðju hófst á Grundartanga árið 1976, þá hefur búskapur í grennd við verksmiðjurnar átt í mikilli vök að verjast. Menn ættu að skoða hvaða áhrif stóriðjustefnan hefur haft á ýmis bú hér á svæðinu. Bændur hafa nánast verið smáðir og jarðir þeirra gerðar verðlausar. Sú saga verður sögð síðar. Það virðist engu líkara en ráðamönnum sveitarfélaga, Faxaflóahafna og landsstjórnarinnar sé nákvæmlega sama um fólkið sem fyrir er. Nú skal byggja stóriðju, hvað sem það kostar fyrir umhverfið. Það er stefna þeirra og því erum við að mótmæla,“ segir Ragnheiður.

Mun hafa áhrif á sölu landbúnaðarvara
Aðspurð segja þau Ragnheiður og Þórarinn að stóriðja eigi hvorki heima á landbúnaðarsvæði né í íbúabyggð. Við gerum einfaldlega þá kröfu að jörðin verði áfram nýtanleg til matvælaframleiðslu fyrir okkar kynslóð og afkomendur okkar,“ segir Þórarinn. Sjálfur stendur hann fyrir ræktun á nautakjöti handan Hvalfjarðar. Þórarinn bendir á að jafnvel þótt neytendum sé ekki enn þá boðið upp á upprunamerkt kjöt, þá muni svo verða þegar fram í sækir. Það sést best á eftirspurn eftir vörum Beint frá býli. „Sjálfur sel ég orðið alla mína framleiðslu undir vörumerkjum okkar á Hálsi. Vissulega óttast ég að  nærvera stóriðjunnar á Grundartanga hafi áhrif á sölumöguleika okkar framleiðslu. Það er auðvitað alveg galið að stjórnvöld og stofnanir séu með óheftri uppbyggingu stóriðju að skaða aðrar atvinnugreinar með þessum hætti,“ segir bóndinn á Hálsi.

Barátta við vindmyllur
Þórarinn og Ragnheiður segja það ótrúlega öfugsnúið að þau þurfi sjálf að fjármagna rannsóknir á mengun til að halda uppi vörnum gegn einörðum vilja stjórnmálamanna og stofnana um uppbyggingu stóriðju. Utanumhald umhverfisvöktunar sé sett í hendur stóriðjufyrirtækjanna sem eigi að vakta sig sjálf. „Það er með ólíkindum hvernig okkar sjónarmið hafa verið hunsuð af stjórnvöldum og lítið gert úr varnaðarorðum okkar. Nú vill Norðurál auka framleiðslu sína um 50 þúsund tonn á ári. Það er mikil flúormengun í Hvalfirði. Fær Norðurál leyfi til að auka framleiðsluna? Ef svo fer, mun iðjuverið þurfa að sæta mati á umhverfisáhrifum eða verður aðeins talað um „óverulega viðbót“ mengunar eina ferðina enn? Engu líkara er en að við munum þurfa að eyða ævinni í að berjast gegn svona vitleysu, heyja baráttu við vindmyllur. Það er ekki sú framtíð sem við viljum. Okkar boðskapur hefur verið og verður alveg skýr: Stóriðja mengar og rýrir land til landbúnaðarframleiðslu og almenn vistgæði fyrir fólk til að njóta náttúrunnar. Hún á ekki rétt á sér nærri íbúabyggð og matvælaframleiðslu. Svo einfalt er það. Auðvitað á þetta ekki bara við í Hvalfirði en okkar barátta snýst um verndun  hans“ segir Ragnheiður.

Tvöfeldni borgaryfirvalda
Nýverið sendu sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu frá sér drög að nýju svæðisskipulagi til 2040 og eru þau til umsagnar hjá öllum sveitarfélögum og þar með talið hjá Kjósarhreppi. Að sögn Þórarins sem sjálfur á sæti í hreppsnefnd Kjósarhrepps gætir vissrar tvöfeldni hjá Reykjavíkurborg, annarsvegar að fegra skipulagssvæðið og að bæta lífsgæði íbúa þess og hinsvegar að standa fyrir uppbyggingu á mengandi iðnaði rétt utan við ytri mörk skipulagssvæðisins.
Umhverfisvaktin sendi nýlega opið bréf til borgarstjórans í Reykjavík þar sem því er mótmælt að stóriðja og mengandi iðnaður skuli staðsett á Grundartanga og höfnin þar skilgreind sem slík en Reykjavíkurhöfn skuli fyrst og fremst vera fyrir en skemmtiferðaskip. „Það er engu líkara en þeir séu að reyna að losa sig við „óhreinu börnin“ hingað í Hvalfjörðinn. Það er reyndar ótrúlegt að borgarstjórinn, fyrrverandi varaformaður Samfylkingarinnar, skuli beita sér með þessum hætti, ekki síst þar sem flokkur hans er á móti mengandi stóriðju,“ segir Þórarinn og bætir við: „Þetta er sambærilegt við það að við myndum einhliða ákveða að byggja súrheysturn á Austurvelli. Þeir yrðu ekki par hressir með það hjá borginni.“ Þessu fylgir Umhverfisvaktin eftir því í síðustu viku sendi hún borgarstjóra bréf þar sem þeirri eindregnu áskorun er beint til borgarstjórnar Reykjavíkur að hætt verði nú þegar við áform um að leyfa Silicor Materials að byggja verksmiðju á Grundartanga við Hvalfjörð.

Óhreinu börnin úr borginni
Ragnheiði verður tíðrætt um Faxaflóahafnir sf. og einarðan vilja forsvarmanna og sveitarfélaganna sem eiga hafnirnar, til stóriðjuuppbyggingar á Grundartanga. „Faxaflóahafnir eru félag sem ætlað er að reka hafnir og þetta félag er í almannaeigu. Faxaflóahafnir eiga hins vegar ekki nema smáblett á Grundartanga og hafa ekkert með að leyfa þar endalaust ný og mengandi fyrirtæki án nokkurs samráðs við aðra landeigendur við Hvalfjörð. Faxaflóahafnir hafa tekið að sér að skilgreina hlutverk hafnanna sem heyra undir félagið og hafa t.d. skilgreint Grundartangahöfn sem iðnaðarhöfn á meðan Reykjavíkurhöfn er skilgreind sem höfn fyrir skemmtiferðaskip. Engu líkara er en það sama sé að gerast á Akranesi. HB Grandi er að losa mengandi atvinnustarfsemi úr höfuðborginni og ígrundar lyktarmengandi starfsemi í enn meira mæli á Akranesi. Þessu mótmælir hópur fólks á Akranesi en virðist tala fyrir jafn daufum eyrum og við í Umhverfisvaktinni. En menn ættu að taka eftir að það eru sömu aðilar sem koma að báðum málum. Það stendur til að stækka hafnarmannvirki á Akranesi til að liðka fyrir stækkun hausaþurrkunar og annarrar vinnslu og þar eru Faxaflóahafnir hagsmunaaðili alveg á sama hátt og í tilfelli stóriðjudraumanna á Grundartanga. Með góðu eða illu er verið að losa höfuðborgina við óhreinu börnin á kostnað okkar sem búum við Hvalfjörð og á Akranesi. Á Grundartanga eru nú þegar fjögur iðjuver og við teljum mun meira áríðandi að lagfæra ýmislegt í starfsemi þeirra en að bæta við nýju iðjuveri með ófyrirséðum afleiðingum“ segir Ragnheiður.

Þegjandi samkomulag um að greiða götu Silicor
Talið berst að hlut fjölmiðla í upplýsingagjöf og mögulegum skorti á upplýsingum um væntanlegar framkvæmdir við Hvalfjörð. „Af hverju er svona stóru máli ekki sýnd meiri athygli, til dæmi í Ríkisútvarpi allra landsmanna? Við teljum að það þurfi að upplýsa alla landsmenn um hvað fyrir dyrum er og standa fyrir hreinskiptri og opinni umræðu um 450 manna stóriðjufyrirtæki sem vafalítið mun verða stækkað verði því á annað borð hleypt af stað í uppbyggingu. Fjölmiðlar hafa á engan hátt verið að sinna þessu máli. Til dæmis var í lok vetrar skrifað undir stærsta fjárfestingasamning í stóriðju hér á landi frá því samningur um álverið á Reyðarfirði var undirritaður, þegar Silicor skrifaði undir tækjakaup við Þjóðverja upp á 70 milljarða við athöfn í Reykjavík. Þetta þótti stóru fjölmiðlunum afskaplega ómerkilegt mál og sumir slepptu því með öllu að fjalla um það,“ segir Þórarinn. Þau Ragnheiður og Þórarinn telja ástæðuna fyrir afskiptaleysi fjölmiðla og ráðamanna í fyrirhuguðu kísilverksmiðjumáli gefa vísbendingar um að það séu fjármálaöflin sem raunverulega ráði för. „Það verða hugsanlega lífeyrissjóðir sem koma að fjármögnun bæði verksmiðjunnar og orkuöflunar og þeirra hagur er að koma peningunum sem þeir sitja á í vinnu. Bankar og aðrar fjármálastofnanir ráða býsna miklu hér á landi og þeir ásamt lífeyrissjóðunum vilja af einhverjum óskiljanlegum ástæðum fjárfesta í stóriðju. Ef fjölmiðlar svo spila með í „geiminu“ er ekki við öðru að búast en almenningur trúi að enn meiri stóriðja eigi að verða bjargvættur landsins út úr kreppunni. Við segjum hins vegar NEI við slíku, því við horfum til langtímaáhrifa. Landið okkar er alltof verðmætt til að fara svona með það. Við megum aldrei fórna því fyrir stundarhagsmuni peningaafla,“ segir Þórarinn.

Eigum ennþá eitt hreinasta land í heimi
Þórarinn og Ragnheiður telja að skipulagsyfirvöld, borgarstjórn, sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar og ríkisstjórnin geti ekki horft fram hjá ábendingum og kröfum Umhverfisvaktarinnar um að virða rétt fólks við Hvalfjörð og að vernda náttúruperlu sem er einstök. Þar að auki telur Umhverfisvaktin að Íslendingum beri að framleiða íslenskar vörur úr íslensku hráefni sé þess nokkur kostur. Við þurfum að leggja áherslu á það sem íslenskt er. Það er t.d. ekki íslensk framleiðsla að hreinsa óþrifnað úr innfluttu súráli sem er í eigu útlendinga, með íslenskri niðurgreiddri raforku, skilja óþrifnaðinn eftir hér á landi og flytja lokaafurðina sem einnig er í eigu útlendinga aftur út. Hráefnið fyrir Silicor er ekki íslenskt. Eigendurnir eru erlendir.
Í umræðu um stóriðju á ekki að beita innihaldslausri orðræðu og afvegaleiða umræðuna heldur líta raunsætt á málin. Við eigum ennþá eitt hreinasta land í heimi sem er ríkt af auðlindum. Við ættum öll að hrósa happi yfir þessu fallega landi og virða rétt komandi kynslóða til þess. Við eigum að koma í veg fyrir að stjórnvöld gíni yfir sameiginlegum auðlindunum og að auðlindir verði notaðar með allt of miklum hraða, jafnvel offorsi og á þann hátt að aldrei verði bætt.


27. maí 2015                                                                                                                                   mm