Athugasemdir til Faxaflóahafna
Náttúruperlan Hvalfjörður og Silicor Materials Inc.
Umhverfisvaktin við Hvalfjörð þakkar forsvarsmönnum sameignarfélagsins Faxaflóahafna kurteislegt bréf frá 12. 5. 2015 með svörum við spurningum tengdum Silicor Materials Inc. frá Umhverfisvaktinni við Hvalfjörð, dags. 28. 4. 2015.
Spurningar Umhverfisvaktarinnar voru bornar fram vegna einhliða upplýsinga um starfsemi Silicor Materials Inc (Silicor). Svör Faxaflóahafna bæta því miður ekki miklu við fyrri upplýsingar sem flestar hefur mátt lesa áður í fjölmiðlum. Þau ná ekki að byggja upp nauðsynlegt traust á Silicor. Iðjuverið er enn sem fyrr á tilraunastigi og upplýsingar um stöðu þess sem slíks koma mest frá því sjálfu sem er að sjálfsögðu ekki æskilegt.
Umhverfisvaktin hefur ýmislegt við orðræðu Faxaflóahafna að athuga. Lögð er áhersla á að Silicor sé um það bil mengunarlaust. Flestir vita að stóriðja er aldrei mengunarlaus og þetta „um það bil“ lofar ekki góðu í ljósi sögunnar. Silicor yrði öflug viðbót við efnamengun, sjónmengun, hávaðamengun og ljósmengun sem nú þegar fylgir stóriðjunni á Grundartanga og myndi hafa ófyrirséð samlegðaráhrif með hinum iðjuverum þar. Í kjölfarið myndu lífsgæði fólksins sem hefur hlotnast sú gæfa að búa og ráða löndum í Hvalfirði skerðast á þann hátt að óbærilegt verður fyrir marga. Í þessu sambandi er rétt að benda á að sanngjörn krafa neytenda um upprunamerkingar matvæla verður sífellt háværari.
Umhverfisvaktin gerir fleiri athugasemdir við orðræðu Faxaflóahafna t.d. þá að stóriðja sé réttlætanleg vegna mikillar atvinnusköpunar. Þarna er verið að blanda saman tveimur ólíkum málefnum. Stóriðja skaðar náttúru og lífríki. Þess vegna á ekki undir nokkrum kringumstæðum að koma henni fyrir í landbúnaðarhéraði. Atvinna er annað mál og mikilvægt, en það er ekki atvinnuleysi við Hvalfjörð. Vegna Silicor þyrfti að flytja starfsmenn tugi kílómetra með tilheyrandi losun gróðurhúsalofttegunda og jafnvel sækja þá til útlanda. Einnig þyrfti að flytja varning til og frá verksmiðjunni á sjó og landi með ómældri mengun. Þessi atriði hafa ekki verið tekin inn í heildarmyndina, ekki frekar en versnandi lífsgæði íbúa og landeigenda við Hvalfjörð vegna áhrifa frá Grundartanga.
Enn einn þáttur í orðræðunni er einhverskonar meðaumkun með Silicor sem sér hag í að koma til Íslands vegna fríverslunarsamnings milli Íslands og Kína. Slíkt er ekki og á ekki að vera áhyggjuefni íbúa og landeigenda við Hvalfjörð.
Athygli vekur að mengun frá iðjuverunum á Grundartanga og umhverfisvöktun vegna hennar virðist ekki valda forsvarsmönnum Faxaflóahafna áhyggjum. Umhverfisvöktun gæti því orðið með svipuðu sniði og áður: Iðjuverið vaktar sig sjálft. Niðurstöður vöktunarinnar fá íbúar að sjá ári síðar og landeigendur á Grundartanga geta alltaf skotið sér bak við Umhverfisstofnun sem „ræður þessu öllu.“ Það mun reynast erfitt að staðfesta efnamengun frá Silicor vegna nálægðar við aðrar verksmiðjur. Þar að auki er mengunarmælingum vegna Grundartanga haldið í lágmarki og náttúra og lífríki njóta ekki vafans. Enn eru notaðar ágiskanir um þol íslensks búfjár á eiturefnum, loftgæðamælingar fara aðeins fram hálft árið, engar mælingar eru birtar á rauntíma og viðbragðsáætlun fyrir íbúa vegna mengunarslysa er ekki til svo nokkuð sé nefnt. Fyrir stuttu var upplýst að Umhverfisstofnun hafði tekið loftgæðamælinn í Stekkjarási, norðvestan við Grundartanga, úr umferð í vetur til að nota hann vegna Holuhrauns! Þetta eru aðeins örfá dæmi um slaka umhverfisvöktun.
Ýmsir hafa borið lof á Silicor, einkum þeir sem hafa fjárhagslegra hagsmuna að gæta og eru þeir þá líklega fúsir að taka við iðjuverinu í sína heimabyggð. Umhverfisvaktin fullyrðir að tilraunaverksmiðja Silicor á ekkert erindi inn í náttúruperluna Hvalfjörð. Áhrif iðjuversins yrðu slæm og óafturkræf. Nú er komið að því að forsvarsmenn Faxaflóahafna átti sig á að sameignarfélagið er aðeins einn af mörgum landeigendum við Hvalfjörð. Haldi þeir að hlutur Faxaflóahafna sé merkilegri eða réttmeiri en hlutur annarra er það á misskilningi byggt.
Heyrst hefur meðal íbúa við Hvalfjörð að þýðingarlaust sé að láta í ljós áhyggjur vegna Grundartanga. Ekki verði hlustað á slíkt hjal, jafnvel gert lítið úr fólki fyrir vikið. Umhverfisvaktin hvetur fólk til að skoða vefinn okkar www.umhverfisvaktin.is hitta okkur á Fésbók eða senda póst á Þetta tölvupóstfang er varið gegn ruslpóstsþjörkum, Þú verður að hafa JavaScript virkt til að sjá það.
Umhverfisvaktin við Hvalfjörð berst gegn frekari röskun á náttúruperlunni Hvalfirði. Málstaðurinn er sanngjarn og saman erum við sterk.
Hvalfirði, 17. maí 2015
Umhverfisvaktin við Hvalfjörð