20
feb

Ályktanir aðalfundar 2015

Aðalfundur Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð, haldinn að Ásgarði í Kjós föstudaginn 13. febrúar 2015 ályktar eftirfarandi:

1. Aðalfundur Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð, haldinn að Ásgarði í Kjós  föstudaginn 13. febrúar 2015 vísar í drög að svæðisskipulagi Reykjavíkur til ársins 2040 en þar segir: "Hreint loft, ómeðhöndlað drykkjarvatn, nálægð við fjölbreytt útivistarsvæði og náttúrulegt umhverfi eru undirstaða að lífsgæðum á höfuðborgarsvæðinu og marka sérstöðu svæðisins umfram önnur borgarsvæði."

Aðalfundurinn ályktar  að Reykjavíkurborg standi fyrir gríðarlegri uppbyggingu á mengandi iðnaði á Grundartanga í Hvalfirði í gegnum meirihluta eignarhald á sameignarfélaginu Faxaflóahöfnum. Aðalfundurinn hvetur forsvarsmenn Reykjavíkurborgar til að stefna fyrrnefndum lífsgæðum ekki í frekari hættu með áframhaldandi uppbyggingu mengandi iðnaðar, sem nú þegar er farinn að hafa verulega neikvæð áhrif á náttúru og lífríki. 

2. Aðalfundur Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð, haldinn að Ásgarði í Kjós föstudaginn 13. febrúar 2015,  skorar á Umhverfisráðherra að hefja nú þegar undirbúning þess að flytja ábyrgð á umhverfisvöktun vegna mengunar frá iðjuverunum á Grundartanga frá forsvarsmönnum iðjuveranna til óháðrar, til þess bærrar stofnunar.

3. Aðalfundur Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð, haldinn að Ásgarði í Kjós föstudaginn 13. febrúar 2015,  vísar til þess að nú þegar eru þrjú stór álver starfandi á Íslandi auk þess sem vænta má eldgosa sem hafa í för með sér verulega flúormengun. Fundurinn skorar á Matvælastofnun að hefja þegar grunnrannsóknir á þoli íslensks búfjár gagnvart flúori í fóðri og áhrifum langtíma flúorálags á heilsu íslensks búfjár.


4. Af gefnu tilefni skorar aðalfundur Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð, haldinn að Ásgarði í Kjós föstudaginn 13. febrúar 2015, á Matvælastofnun að fylgjast vel með útigangshrossum við Hvalfjörð sem og annars staðar á landinu.