28
júl

Stjórnsýslukæra

Eftirfarandi stjórnsýslukæra var send umhverfisráðherra þann 28. júlí 2014.

Hvalfirði, 27. júlí 2014

Umhverfisráðuneytið
Sigurður Ingi Jóhannsson umhverfisráðherra
Skuggasundi 1
150 Reykjavík
 

Efni: Stjórnsýslukæra vegna ákvörðunar Skipulagsstofnunar dags. 26. júní 2014 um að fyrirhuguð framleiðsluaukning álvers Norðuráls á Grundartanga um 50.000 tonn á ári, úr 300.000 tonna ársframleiðslu í allt að 350.000 tonna ársframleiðslu skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum.                                                                                                               

Kærandi: Umhverfisvaktin við Hvalfjörð, kt. 591110-1520

Kúludalsá, 301 Akranesi, s. 897-7017 og 897-9070

Þetta tölvupóstfang er varið gegn ruslpóstsþjörkum, Þú verður að hafa JavaScript virkt til að sjá það.

www.umhverfisvaktin.is


Kæruefni: Kærð er ákvörðun Skipulagsstofnunar dags. 26. júní 2014 um að fyrirhuguð framleiðsluaukning álvers Norðuráls á Grundartanga um 50.000 tonn á ári, úr 300.000 tonna ársframleiðslu í allt að 350.000 tonna ársframleiðslu skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Kæran byggir á  14. gr. laga nr. 106/2000.

Kröfur kæranda:
Að fyrirhugaðri framleiðsluaukningu álvers Norðuráls á Grundartanga verði gert að sæta mati á umhverfisáhrifum.


Greinargerð:
Nokkrir veigamiklir þættir liggja til grundvallar kæru Umhverfisvaktarinnar við
Hvalfjörð. Niðurstöður úr þessum þáttum þurfa að vera fyrir hendi til að skipulagsyfirvöld séu fær um að taka afstöðu til þess hvort auka megi við mengun frá Grundartanga með því að leyfa framleiðsluaukningu hjá Norðuráli. Þessir þættir eru:
a.    Rannsaka þarf samlegðaráhrif mengunar af völdum stóriðju á Grundartanga á lífríki og náttúru.
b.    Þolmörk íslenskra húsdýra gagnvart flúori hafa ekki verið rannsökuð og sama er að segja um áhrif langtíma álags flúors á íslenskt búfé. Slíkar rannsóknir þurfa að fara í gang nú þegar.
c.    Mæla þarf styrk flúors í andrúmslofti allan ársins hring og koma þarf á fót upplýsingamiðlun um loftgæði á rauntíma. Stöðugar rannsóknir þurfa að eiga sér stað  á búfjárafurðum til að tryggja fæðuöryggi vegna mengunar frá Grundartanga.
d.    Koma þarf á samstarfi skipulagsyfirvalda við hagsmunaaðila vegna framkvæmda er hafa í för með sér mengun.
e.    Rannsaka þarf hættu á mengunarslysum og hanna nú þegar viðbragðsáætlun vegna mengunarslysa á Grundartanga.

a.    Rannsaka þarf samlegðaráhrif mengunar frá stóriðju á Grundartanga.

Umhverfisvaktin við Hvalfjörð leggur áherslu á nauðsyn þess að rannsökuð verði samlegðaráhrif mengandi efna frá iðjuverunum á Grundartanga af til þess bærum aðilum. Slíkt hefur ekki verið gert áður. (Sjá skýrslur um umhverfisvöktun 2006 - 2013 vegna Grundartanga). Umhverfisvaktin við Hvalfjörð telur að áhrif mengunar vegna iðjuveranna á Grundartanga séu mun meiri en mælingar benda til. Mengunarálag birtist m.a. í flúori í beinsýnum úr sauðfé og hrossum og heilsubresti búfjár. Mikilvægt er að sérfræðingar sem sinna mengunarmælingum og úrvinnslu þeirra vinni saman til að fá sem gleggsta heildarmynd af stöðunni.

Athygli vekur að gefin hafa verið út þrjú sjálfstæð álit af hálfu Skipulagsstofnunar um að tilteknar verksmiðjur sem fyrirhugað er að reisa á Grundartanga þurfi ekki að sæta mati á umhverfisáhrifum. Nú bætist við fjórða álit Skipulagsstofnunar um að framleiðsluaukning Norðuráls þurfi ekki heldur að sæta mati á umhverfisáhrifum. Álitin eiga það öll sammerkt að hver verksmiðja eða framleiðsluaukning ein og sér muni ekki hafa umtalsverð umhverfisáhrif umfram þau umhverfisáhrif sem þegar eru til staðar og hver viðbót af mengun sé óveruleg miðað við núverandi mengun. Umhverfisvaktin við Hvalfjörð álítur að ekki eigi að gefa afslátt af kröfum um mat á umhverfisáhrifum þó að annar mengandi iðnaður sé til staðar á svæðinu. Miklu fremur beri að gæta sérstakrar varúðar þegar teknar eru ákvarðanir um að auka mengun í umhverfi þar sem hættumerkin blasa við vegna mikillar mengunar sem þegar  er til staðar.  (Sjá umfjöllun um brennisteins- og flúormengun í skýrslu Faxaflóahafna 2013).

b.    Rannsaka þarf þolmörk íslenskra húsdýra gagnvart flúori. Jafnframt þarf að rannsaka  áhrif langtíma álags flúors á íslenskt búfé.

Umhverfisvaktin við Hvalfjörð telur óviðunandi að þolmörk íslenskra húsdýra gagnvart flúori hafi ekki verið rannsökuð og að rannsóknir á áhrifum langtíma álags flúors á íslenskt búfé hafi ekki verið gerðar. Enn er stuðst við rannsóknir á áhrifum flúors á dádýr í Noregi til að ákvarða þol íslensks búfjár gagnvart flúori. Bent er á að dádýr er erlend dýrategund sem býr við önnur lífsskilyrði en íslensk húsdýr auk þess að hafa líkamsstarfsemi jórturdýrs, en það gerir dádýr óhæf sem viðmið fyrir hesta.

Alvarlegar vísbendingar eru um að flúormengun hafi valdið tjóni utan þynningarsvæða iðjuveranna. Afföll sauðfjár vestan við iðjuverin á Grundartanga eru til dæmis marktækt meiri og frjósemi minni heldur en í öðru sauðfé á svæðinu (sjá rannsókn Gyðu S. Björnsdóttur). Umhverfisvaktin krefst þess að ýtarlegar rannsóknir fari fram á þoli íslensks búfjár gagnvart flúori og að rannsóknir á langtíma áhrifum flúors á húsdýr sem haldin eru í nágrenni Norðuráls á Grundartanga hefjist án tafar og verði hluti af gagngerri úttekt á umhverfisáhrifum frá iðjuverunum á Grundartanga sem óhjákvæmilegt er að láta gera. 

c.    Mæla þarf styrk flúors í andrúmslofti allt árið um kring og koma á fót upplýsingamiðlun um loftgæði á rauntíma. Stöðugar rannsóknir þurfa að eiga sér stað  á búfjárafurðum til að tryggja fæðuöryggi vegna mengunar frá Grundartanga.

Umhverfisvaktin við Hvalfjörð vekur enn á ný athygli á göllum við núverandi umhverfis-vöktun þar sem styrkur flúors í andrúmslofti er einungis mældur yfir gróðrartímabilið apríl – okt. en ekki allan ársins hring. Auk þess er ekki unnt að nálgast upplýsingar um flúorstyrk í andrúmslofti á rauntíma, heldur mörgum mánuðum síðar og þá einungis fyrir hluta ársins eins og fyrr segir.

Samkvæmt starfsleyfi Norðuráls er heimilt að auka útsleppi flúors yfir vetrarmánuðina, þegar flúor í andrúmslofti er ekki mældur, á þeim forsendum að það sé utan vaxtar og beitartíma. Sjá grein 2.1.6. í starfsleyfi.  Þær forsendur standast ekki því hefð er fyrir útigangi og vetrarbeit hrossa og sauðfjár og það er skýlaus krafa að gætt sé að hreinleika haganna allan ársins hring með öflugri vöktun, enda er í starfsleyfi Norðuráls gert ráð fyrir að unnt sé að stunda hefðbundinn búskap utan skilgreindra þynningarsvæða fyrir flúor og brennnistein. Rétt er að nefna í þessu sambandi að þynningarsvæði fyrir flúor og brennistein hafa verið þau sömu síðan Norðurál hóf starfsemi sína með fimm sinnum minni framleiðslu en nú er.

Staðreyndin er sú að mikið magn flúors hefur mælst bæði í sauðfé og hrossum sem hafa verið á beit utan við skilgreint þynningarsvæði fyrir flúor. Umhverfisvaktin við Hvalfjörð telur að miðað við núverandi flúorálag sé ekki unnt að halda því fram að landbúnaður í grennd við Grundartanga geti gengið eðlilega fyrir sig og að unnt sé, miðað við núverandi mengunarstig að tryggja hreinleika afurðanna. Ljóst er að enn mun síga á ógæfuhliðina verði flúormengun aukin.

Til að undirstrika alvarleika málsins bendir Umhverfisvaktin á að þann 1. mars 2010 var landbúnaðarlöggjöf Evrópusambandsins breytt þannig að bændur eru nú taldir til fóðurframleiðenda. Fóðurframleiðandi er sá sem framleiðir fóður til að framleiða afurðir sem fara svo beint inn í fæðukeðjuna t.d. mjólk og kjöt. Samkvæmt nýju lögunum er slíkur fóðurframleiðandi algerlega ábyrgur fyrir hollustu og hreinleika afurða sinna. Verði mengun í afurðum rakin til Hvalfjarðar er viðkomandi bóndi ábyrgur.

Rétt er og skylt að horfast í augu við þá staðreynd að hvað eina sem bætist við af mengun á svæðinu getur orðið dropinn sem fyllir mælinn og gerir lífsafkomu bænda að engu. Vissulega er tímabært að ræða um það hvort og hvernig framtíð landbúnaðar við Hvalfjörð geti orðið. Skipulagsstofnun getur hafið þá umræðu ef vilji er fyrir hendi.

Það er gríðarlega mikilvægt fyrir heilsu manna og dýra sem og fæðuöryggi í Hvalfirði, að hægt sé að fylgjast með eiturefnum í lofti og staðreyna mengun á hverjum tíma. Það hlýtur einnig að vera umhverfisyfirvöldum og iðjuverunum sjálfum kappsmál að hafa þessar upplýsingar handbærar. Umhverfisvaktin skorar enn og aftur á yfirvöld umhverfismála að hefja vöktun á flúori í andrúmslofti allan ársins hring. Mælt verði flúor í öllum mælitækjum fyrir loftgæði sem gert er ráð fyrir í gildandi vöktunaráætlun og niðurstöðurnar birtar á rauntíma.


d.    Koma þarf á samstarfi skipulagsyfirvalda við hagsmunaaðila.

Mikilvægt er að skipulagsyfirvöld leiti umsagnar hagsmunaaðila þegar stefnt er að því að auka mengandi iðnaðarframleiðslu í landbúnaðarhéraði. Ekki verður séð að Skipulagsstofnun hafi leitað slíkra umsagna þrátt fyrir að iðnaðarsvæði Grundartanga sé í landbúnaðarhéraði þar sem hagsmunasamtök bænda eru starfandi og þrátt fyrir að til séu íbúasamtök sem vinna að náttúruvernd og auknum náttúrugæðum.

e.    Mengunarslys og viðbragðsáætlun.

Flestir vita nú um hið alvarlega mengunarslys sem varð í Norðuráli í ágúst 2006. Íbúar í grennd höfðu enga hugmynd um slysið fyrr en mörgum mánuðum síðar og það skorti verulega á rannsóknir í kjölfar þess. Til dæmis voru engin heysýni tekin til flúormælinga eftir mengunarslysið. Það var ekki fyrr en sumarið 2012 sem slíkt var gert. (Sjá vöktunarskýrslur iðjuveranna). Telur Skipulagsstofnun raunverulega enga hættu á að mengunarslys eigi sér stað? Ef svipað slys ætti sér stað nú gæti það orðið margfalt umfangsmeira og hættulegra. Hver myndi taka á sig ábyrgðina á því?

Umhverfisvaktin við Hvalfjörð telur að skipulagsyfirvöldum beri að láta þar til bæra aðila rannsaka til hlýtar möguleika á mengunarslysum á Grundartanga og að láta hanna viðbragðsáætlun vegna mögulegra bilana í hreinsivirkjum Norðuráls og Elkem, svo og í mengunarvarnarbúnaði annarra iðjuvera á Grundartanga.


Lokaorð.

Umhverfisvaktin við Hvalfjörð hefur í stuttu máli gert grein fyrir nokkrum veigamiklum þáttum sem hún telur að þurfi að rannsaka, áður en tekin er ákvörðun um framleiðsluaukningu Norðuráls.

Umhverfisvaktin við Hvalfjörð óskar eftir því að umhverfisráðherra úrskurði á þann veg að umhverfismat vegna fyrirhugaðrar framleiðsluaukningar Norðuráls á Grundartanga skuli fara fram. Til vara fer Umhverfisvaktin við Hvalfjörð fram á að málið verði sent Skipulagsstofnun aftur til löglegrar meðferðar, þ.m.t. ítarlegri rannsókna á forsendum hinnar fyrirhuguðu framkvæmdar, svo og mögulegum afleiðingum hennar.


Virðingarfyllst,

 F.h. Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð, 

Þórarinn Jónsson


Í stjórnsýslukærunni er vísað í eftirtalin gögn:

Skýrslur um umhverfisvöktun iðnaðarsvæðisins á Grundartanga gefnar út af Norðuráli á Grundartanga og Elkem Íslandi (2006-2013), aðgengilegar á vef Norðuráls.

Skýrsla Sameignarfélagsins Faxaflóahafna (2013) um úttekt á ástandi mengunar vegna iðjuvera á Grundartanga, aðgengileg á vef Faxaflóahafna.
Meistaraverkefni Gyðu S. Björnsdóttur (2014) frá Umhverfis- og auðlindafræði við Háskóla Íslands, aðgengilegt á vef Háskóla Íslands.
Starfsleyfi Norðuráls á Grundartanga, aðgengilegt á vef Umhverfisstofnunar.