11
maí

Meistarafyrirlestur

Meistarafyrirlestur: Sýnir sauðfé við Hvalfjörð merki um líffræðilegt álag af völdum mengunar?
Hvenær hefst þessi viðburður:
12. maí 2014 - 10:00
Staðsetning viðburðar:
Askja
Nánari staðsetning:
Stofa 131
 
Gyða S. Björnsdóttir flytur fyrirlestur um verkefni sitt til meistaraprófs í umhverfis- og auðlindafræði. Verkefnið ber heitið Sýnir sauðfé við Hvalfjörð merki um líffræðilegt álag af völdum mengunar?
Ágrip
Á Grundartanga í Hvalfirði hefur verið vaxandi uppbygging á undanförnum árum og þar starfa meðal annars tvö stór fyrirtæki á sviði málmbræðslu, Norðurál hf. og Elkem Ísland hf. Í Hvalfjarðarsveit og Kjósarhreppi, í nágrenni iðjuveranna, er landbúnaður einn aðalatvinnuvegurinn, m.a. er þar stunduð sauðfjárrækt. Til þess að meta hvort bændur finna fyrir einhverjum neikvæðum heilsufarseinkennum hjá sauðfé vegna hugsanlegrar mengunar frá iðjuverunum var send spurningakönnun á alla bæi með tíu kindur eða fleiri í Kjósarhreppi, Hvalfjarðarsveit og Borgarbyggð, alls 222 bæi. Einnig var stuðst við gögn úr gæðastýringu í sauðfjárrækt og tekin viðtöl við bændur í Hvalfjarðarsveit. Niðurstöður spurningakönnunar leiddu í ljós almenna ánægju bænda með heilsufar sauðfjár. Fleiri bændur fjær iðjuverunum eru þátttakendur í gæðastýringu og skrá marktækt fleiri atriði sem tengjast heilsu sauðfjár. Að teknu tilliti til áhrifa gæðastýringarinnar reyndust marktækt fleiri bændur í nágrenni iðjuveranna hafa orðið varir við brúna bletti á framtönnum sauðfjár og lélega ull. Marktækt fleiri eldri ær eru geldar á svæðinu nær iðjuverunum á Grundartanga á árunum 2007-2012, að jafnaði 4% til móts við 2,6% á svæðinu fjær. Ekki er mikill munur á afurðatölum á milli svæða þegar á heildina er litið. Þróun þeirra á milli ára er þó ólík eftir svæðum og nær iðjuverunum verður rúmlega 6% samdráttur á milli áranna 2007 og 2009 og er það athyglisvert í ljósi þess að heildarflúorlosun eykst um 172% á Grundartanga á milli áranna 2005 og 2008 vegna stækkunar Norðuráls. Árið 2012 eru afurðatölur frá svæðinu að jafnaði aftur orðnar sambærilegar því sem þær voru árið 2007. Marktækt hæst hlutfall geldra eldri áa, að meðaltali 7,4%, og lægstar afurðatölur eru á bæjum suðvestanmegin við iðjuverin, á því svæði þar sem flúor hefur á undanförnum árum mælst einna hæstur í kjálkabeinum sauðfjár.
Leiðbeinendur: Kristín Ólafsdóttir og Guðbjörg Andrea Jónsdóttir.
Umsjónakennari: Brynhildur Davíðsdóttir.
Prófdómari: Jakob Kristinsson.