17
nóv

Ályktanir aðalfundar 2013

Eftirfarandi ályktanir voru samþykktar á aðalfundar Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð þann 12. nóvember s.l.

1.    Aðalfundur Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð, haldinn 12. nóvember 2013, skorar á umhverfis- og auðlindaráðherra og atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra að beita sér fyrir því að styrkur flúors í andrúmslofti verði mældur allan ársins hring í Hvalfirði, en ekki einungis yfir gróðrartímabilið eins og nú er. Bent skal á að í starfsleyfi Norðuráls er gert ráð fyrir að unnt sé að stunda hefðbundinn búskap utan þynningarsvæðis vegna flúors en reyndin er sú að mikið magn flúors hefur mælst bæði í sauðfé og hrossum á svæðinu. Heilsu búfjárins er hætta búin vegna flúormengunar frá Norðuráli, eins og m.a. má lesa má í skýrslu iðjuveranna á Grundartanga um umhverfisvöktun.

2.    Aðalfundur Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð, haldinn 12. nóvember 2013, skorar á umhverfis- og auðlindaráðherra og atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra að að fylgjast sérstaklega með losun á brennisteinstvíoxíði á iðnaðarsvæðinu á Grundartanga þar sem slík mengun er komin yfir skilgreind þolmörk sbr. skýrslu Faxaflóahafna sem gefin var út s.l. vor. (Grundartangi, úttekt á Umhverfisáhrifum, útg. í maí 2013). Fundurinn skorar á ráðherra að beita sér fyrir því að stofnanir sem undir hann heyra taki mið af stöðu mengunar á Grundartanga, við útgáfu starfsleyfa, við ákvörðun losunarheimilda til iðjuveranna og við eftirlit með mengun á svæðinu.

3.    Aðalfundur Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð, haldinn 12. nóvember 2013, skorar á umhverfis- og auðlindaráðherra og atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra að beita sér tafarlaust fyrir því að útbúin verði viðbragðsáætlun vegna mögulegra bilana í hreinsivirkjum Norðuráls og Elkem, svo og í mengunarvarnarbúnaði annarra iðjuvera á Grundartanga.

4.    Aðalfundur Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð, haldinn 12. nóvember 2013, lýsir yfir einlægum stuðningi við baráttu Hraunavina vegna verndunar Gálgahrauns. Fundurinn bendir á, að frestun á gildistöku nýrra náttúrverndarlaga býður upp á það að félög og samtök sem beita sér fyrir náttúruvernd verði hundsuð af yfirvöldum í framtíðinni. Slíkt væri í hróplegu ósamræmi við Árósasamninginn um umhverfisvernd og mannréttindi sem var fullgiltur af íslenskum stjórnvöldum 2011.

5.    Aðalfundur Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð, haldinn 12. nóvember 2013,  skorar á Faxaflóahafnir að tryggja öryggi umhverfisins eigi höfnin á Grundartanga að vera öryggishöfn. Að til sé búnaður og sérþjálfað starfsfólk til að takast á við hvern þann vanda sem upp kemur, svo sem olílueka, efnamengun eða eldsvoða.