Fundargerð aðalfundar 2013
Aðalfundur Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð haldinn 12. nóvember 2013 að Eyrarkoti í Kjós
Þórarinn Jónsson formaður bauð fundargesti velkomna og stakk upp á Sigurbirni Hjaltasyni sem fundarstjóra. Það var samþykkt samhljóða.
Sigurbjörn las upp dagskrá fundarins:
Dagskrá fundarins:
1. Innganga nýrra félaga.
2. Skýrsla stjórnar.
3. Reikningar félagsins lesnir upp og þeir bornir undir atkvæði.
4. Kosning stjórnar og skoðunarmanna reikninga.
5. Tillaga að verkefnum næsta árs.
6. Önnur mál.
Gengið var til dagskrár.
1. Samþykktir voru nýjir félagar: Ágústa Oddsdóttir, Margrét Sveinsdóttir, Björg Theodórsdóttir, Anna Hauksdóttir, Áslaug Hauksdóttir.
2. Þórarinn Jónsson las upp skýrslu stjórnar fyrir árið 2013, sjá nánar á heimasíðu Umhverfisvaktarinnar.
3. Daniela Gross gerði grein fyrir reikningum félagsins fyrir árið 2012. Orðið var gefið laust um skýrslu stjórnar og reikninga.
Ragnheiður Þorgrímsdóttir kynnti bréf/fyrirspurn sem sent var atvinnuvega- og nýsköpunaráðherra fyrir nokkrum vikum. Þar var spurst fyrir um rannsóknir á þolmörkum íslenskra húsdýra gagnvart flúori. Svar hefur ekki borist og mun Ragnheiður ítreka fyrirspurnina. Þá vakti Ragnheiður athygli á póstkorti sem Umhverfisvaktin gaf út á liðnu ári.
Sigurður Sigurðsson spurðist fyrir um efni í skýrslu stjórnar varðandi flúor. Hann nefndi að flúor er komið yfir mörk á nokkrum bæjum og mikilvægt sé að mæla flúor allt árið eins og Umhverfisvaktin hefur ítrekað bent á.
Fleiri kváðu sér ekki hljóðs. Reikingar félagsins voru bornir undir atkvæði og samþykktir samhljóða.
4. Ingibjörg Jónsdóttir og Ragnheiður Þorgrímsdóttir gáfu báðar kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu og var það samþykkt samhljóða. Gyða S. Björnsdóttir og Daniela Gross gáfu ekki kost á sér sem varamenn og í þeirra stað voru kosnir með samhljóða atkvæðum Lisa Sascha Boije av Gennäs og Hrannar Hilmarsson.
5. Rætt var um verkefni næsta árs. Ítrekuð var hugmynd um sem reifuð var í skýrslu stjórnar um ljósmyndasýningu með vorinu. Umhverfisvaktin hyggst standa fyrir ljósmyndasýningu af iðnaðarsvæðinu á Grundartanga. Ef fólk hefur áhuga á að taka þátt í verkefninu með því að senda inn mynd er það vel þegið.
6. Fimm ályktinar voru lesnar upp og bornar undir atkvæði. Þær voru samþykktar samhljóða.
Þá var boðinn velkominn sérstakur gestur fundarins, Sigurður H. Magnússon plöntuvistfræðingur. Sigurður kynnti niðurstöður mælinga á styrk þungmálma í tildurmosa á Íslandi, en frá 1990 hefur á fimm ára fresti verið fylgst með styrk þeirra víðs vegar um land. Rannsóknirnar eru hluti af evrópsku vöktunarverkefni sem m.a. er ætlað að fylgjast með loftborinni mengun. Erindi Sigurðar var mjög fróðlegt og svaraði hann greiðlega spurningum sem brunnu á fundarmönnum á eftir.
Í lokin gerði Sigurður Sigurðarson fv. yfirdýralæknir grein fyrir helstu niðurstöðum vegna rannsóknar á veikindum hrossa á Kúludalsá. En honum var falið ásamt Jakobi Kristinssyni, dósent í eiturefnafræði, að yfirfara gögn vegna rannsóknarinnar. Niðurstöður þeirra gefa tilefni til frekari rannsókna og gefa vísbendingar um að magn flúors í búfé á svæðinu í kringum iðjuverin fari hækkandi og hafi áhrif á heilsu dýranna.
Fundi var slitið kl. 22:30.
Fundargerð ritaði Ingibjörg Jónsdóttir