12
des

Fréttatilkynning 11. 12. 2012

Hvalfirði 11. desember 2012

Viðbrögð Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð við frétt á heimasíðu Norðuráls varðandi fréttaflutning Rúv um flúormengun.

 

Umhverfisvaktin við Hvalfjörð hefur, síðan félagið var stofnað 2010, ítrekað vakið athygli á nauðsyn þess að vakta umhverfi Hvalfjarðar betur en gert er. Umhverfisvaktin hefur meðal annars beint athyglinni að iðjuverum á Grundartanga en þaðan berast efni sem í besta falli rýra umhverfisgæði og lífsafkomu þeirra sem við fjörðinn búa. Seint er of vel vaktað þegar hættuleg efni eru á sveimi á vettvangi húsdýrahalds og matvælaframleiðslu.

Umhverfisvaktin undrast stöðug ónot frá forsvarsmönnum Norðuráls í garð þeirra sem styðja árvekni í vöktun umhverfis. Málflutningur Norðuráls er ekki sæmandi stóru fyrirtæki sem ber ábyrgð gagnvart umhverfi og samfélagi. Umhverfisvaktin leggur áherslu á málefnalega umræðu um umhverfismál og undrast viðbrögð Norðuráls við ábendingum um afleiðingar af starfsemi fyrirtækisins á svæðinu.

Sérstaka athygli vekur afstaða Norðuráls til heilsu búfjár. Í grein sem birtist í Skessuhorni þann 28. nóvember síðastliðinn er haft eftir Norðuráli að „aldrei hafi fundist merki um neikvæð áhrif starfseminnar á heilsu dýra í Hvalfirði.“ Umhverfisvaktin bendir þeim sem vilja kynna sér málið á eigin spýtur að lesa vöktunarskýrslur fyrirtækisins. Vöktunarskýrslu fyrir árið 2011 er að finna undir slóðinni: http://www.nordural.is/Files/Skra_0055848.pdf

Ekki er unnt að líta fram hjá þeirri staðreynd að flúor er að safnast upp í búfé á svæðinu, þannig að komið er að hættumörkum. Á bls. 52 í vöktunarskýrslunni stendur „Á sjö bæjum mældist meðalstyrkur flúors í kjálkabeinum fullorðins fjár yfir mörkum þar sem talin er hætta á tannskemmdum...“. „Marktæk breyting til hækkunar er á meðalstyrk flúors í kjálkabeinum fullorðins fjár frá öllum vöktunarstöðvum milli áranna 1997 og 2011...“. Af þessu má ljóst vera að iðjuverin á Grundartanga hafa áhrif út fyrir þynningarsvæði og má því ætlast til að iðjuverin leiti eftir og hlusti á athugasemdir atvinnurekenda á svæðinu.

Niðurstöður mælinga sem gerðar hafa verið á flúormagni í mjúkvefjum langlífra grasbíta sýna að flúor sest í mjúkvefi (vöðva og líffæri). Niðurstöður mælinganna hafa á undanförnum mánuðum verið kynntar umhverfis- og auðlindaráðherra og atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra og er málið til meðferðar í viðkomandi ráðuneytum. Að auki hafa Matvælastofnun, Umhverfisstofnun, forsvarsmenn Faxaflóahafna og félagar Umhverfisvaktarinnar fengið kynningu.

Krafan um dýravernd og fæðuöryggi verður sífellt háværari í samfélagi okkar. Mikilvægt er að rannsaka tengsl milli gilda flúors í beinum og gilda flúors í matvælum frá viðkomandi dýrum. Umhverfisvaktin leggur mikla áherslu á þetta verkefni og óskar eftir samstarfi við Matvælastofnun, Umhverfisstofnun, sveitarfélögin við Hvalfjörð og iðjuverin á Grundartanga, þannig að unnt verði að vinna skipulega að málinu á næsta ári.

Umhverfisvaktin leggur jafnframt áherslu á mikilvægi þess að huga að vatnsbólum og bendir á augljósar staðreyndir varðandi neysluvatn nærliggjandi þéttbýlis þar sem efnamælingar hafa ekki farið fram á þeim tíma ársins þegar snjór bráðnar og leysingavatn streymir í yfirborðsvatn. Þetta er nauðsynlegt að rannsaka og stjórnvöld á Akranesi hafa staðfest það á fundi með Umhverfisvaktinni meðal annarra að gera slíka efnarannsókn á leysingatíma. Hægt er að lesa um mælingar OR á vef fyrirtækisins og sannreyna það sem Umhverfisvaktin hefur bent á, sjá slóðina: http://www.or.is/media/PDF/Efnasamsetning_neysluvatns_a_Vesturlandi_og_i_Kopavogi.pdf

Umhverfisvaktin við Hvalfjörð hvetur eindregið til þess að umhverfi og almannaheill séu látin njóta vafans og mælingar því ekki sparaðar þegar mengandi efni eru annars vegar.