Ávarp Guðbjargar R. Jóhannesdóttur
Flutt á aðalfundi Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð 8. nóvember 2012
Gott kvöld, ég vil byrja á því að þakka Umhverfisvaktinni fyrir að bjóða mér hingað í kvöld og sem nýr íbúi í Kjósinni hlakka ég til að taka þátt í starfi vaktarinnar í framtíðinni. Svo ég segi ykkur aðeins frá sjálfri mér þá er ég uppalinn í Garði á Reykjanestánni og raunar hér í Kjósinni líka þar sem ég dvaldi hér í sumarhúsi fjölskyldunnar öll sumur frá fæðingu. Eftir að hafa lokið BA námi í heimspeki við HÍ hélt ég til Englands þar sem ég lauk Meistaranámi í umhverfisheimspeki haustið 2006. Á meðan ég dvaldi þar var Kárahnjúkadeilan í hámarki og það var þá sem ég byrjaði fyrst að hugsa alvarlega um umhverfismálin á Íslandi, það hafði mikil áhrif á mig að fylgjast með þessari ójöfnu baráttu milli náttúruverndarsinna og alþjóðlegra stórfyrirtækja úr fjarlægð og þegar ég kom heim úr náminu lá beint við að reyna að nýta þá þekkingu sem ég hafði aflað mér til þess að leggja þessari baráttu lið. Um það leyti sem ég kom heim hófst undirbúningur að byggingu álvers í Helguvík og stofnaði ég þá ásamt fleiri íbúum á Suðurnesjum samtökin Sól á Suðurnesjum að fyrirmynd Sólar í Hvalfirði og Sólar í Straumi og reyndum við það sem við gátum til þess að hafa áhrif á umræðuna um álver og ákvarðanir bæjaryfirvalda í Garði og Reykjanesbæ. En eftir að hafa bent á sömu hlutina aftur og aftur án þess að nokkuð væri hlustað lögðust samtökin í dvala og ég ákvað að einbeita mér að doktorsnáminu sem ég var þá að hefja með þá von að námið gerði mér kleift að hafa áhrif á umræðuna um náttúru Íslands á öðrum forsendum og að það myndi nýtast mér til þess að koma sterkari inn í baráttuna síðar.
Þau vandamál sem stóðu upp úr í mínum huga eftir að hafa fylgst með og tekið þátt í baráttunni voru í fyrsta lagi hvað réttur almennings til þess að taka þátt í ákvörðunum um umhverfi sitt var lítill og í öðru lagi hvað gildi náttúrufegurðar og upplifunar almennings af landinu skipaði lágan sess (jafnvel engan) í ákvörðunum yfirvalda um umhverfismál. Í rauninni urðu þessi vandamál viðfangsefni doktorsverkefnisins beint og óbeint. Verkefnið varð til í tengslum við Íslenska landslagsverkefnið sem var unnið fyrir Rammaáætlun og hafði það markmið að finna aðferðir til þess að flokka og meta landslag á Íslandi. Stjórnendur verkefnisins hvöttu mig og aðra doktors og meistaranema við HÍ til þess að fjalla um landslagshugtakið frá mismunandi sjónarhornum og ég ákvað að fjalla um landslag út frá heimspekikenningum um fagurfræðilegt gildi náttúrunnar. Það sem þessi vinna hefur kennt mér er að landslag og fagurfræðilegt gildi eru hugtök sem eru mun dýpri og yfirgripsmeiri heldur en þau virðast við fyrstu sýn því að þessi hugtök lýsa ekki bara yfirborðs eða útlits einkennum landsins og ánægjulegri upplifun af fögrum formum og litum heldur lýsa þau í rauninni þeim djúpu tengslum sem við mannfólkið myndum við umhverfi okkar. Þegar við tölum um landslag erum við í rauninni að tala um það hvernig maður og náttúra mætast og renna saman í eitt í gegnum upplifun okkar af því að vera í landslaginu og verða hluti af því.
Í mínum huga vísa fegurð og landslag þannig til ákveðinna tengsla sem okkur mannfólkinu er gefið að geta átt í við veruleikann. Fegurð er augnablik þar sem einhver hlutbundinn veruleiki þarna úti, fuglasöngur, litadýrð, lykt, eða sérkennilegt form í landslaginu, grípur athygli manns þannig að maður getur ekki annað en staldrað við og á einhvern hátt tekið inn áhrif þess að dvelja við það sem maður skynjar. Þegar þetta gerist hafa sumir heimspekingar talað um að ákveðin afmiðjun sjálfsins eigi sér stað – sjálfið er ekki lengur miðpunkturinn heldur opnast maður fyrir því að skynja sjálfan sig sem hluta af umhverfinu. Fegurð er þannig upplifun af tengslum og snýst um það að vera opin fyrir því að verða fyrir áhrifum af því sem maður skynjar í stað þess að varpa eigin fyrirframgefnu hugmyndum, hagsmunum, skilgreiningum og skoðunum á það.
Fagurfræðileg nálgun á náttúruna gerir okkur þannig kleift að skilja náttúruna sem náttúru, að skilja hvernig hún birtist okkur í raun og veru, áður en við förum að hugtaka hana og fella undir vísindaleg og efnahagsleg flokkunarkerfi.
Samkvæmt franska heimspekingnum Pierre Hadot nálgumst við veruleikann á þrenns konar hátt. Hversdagslega nálgunin einkennist af því að horfa á veruleikann út frá nýtingarsjónarmiðum – við horfum og leitum að því sem gagnast okkur í lífsbaráttunni. Vísindalega nálgunin byggist á því að flokka og skilgreina veruleikann, en fagurfræðilega nálgunin er andstæða þessara tveggja – þar horfum við bara til þess að horfa, og skiljum skilgreiningarþörfina og nýtingarþörfina eftir. Fagurfræðileg nálgun er þannig forsenda þess að sjá náttúruna sem sjálfstæðan veruleika sem við getum aldrei öðlast fullkomna þekkingu á, né lært að stjórna fullkomlega.
Fegurð hefur þannig með ákveðna væntumþykju, virðingu og umhyggju að gera og það er þessi væntumþykja og tilfinning fyrir landinu sem ég held að drífi fólk til þess að berjast fyrir verndun þess. Þessi djúpa fegurðarupplifun gerir okkur líka kleift að skynja okkur sem hluta af náttúrunni og að gera okkur grein fyrir því að með því að vernda hana erum við að vernda okkur sjálf.
Það að taka tillit til landslags og fagurfræðilegs, upplifunar og tilfinningalegs gildis þess felst því í raun í því að hlusta á sögur af tengslum fólks við landslagið. Það er þetta sem Evrópski landslagssáttmálinn leggur einmitt til; þar sem landslag er talið “lykilþáttur í velferð einstaklinga og samfélags og að verndun þess, stjórnun og skipulag feli í sér réttindi og skyldur fyrir alla”.
Þó að lengi hafi þurft að bíða eftir að stjórnvöld á Íslandi fullgiltu loksins Árósarsamningin og undirrituðu Evrópska landslagssáttmálann má segja að almenningur hafi undanfarin ár reynt að öðlast þann þátttökurétt í ákvarðanatöku sem þar er mælt fyrir um. Þetta birtist til dæmis í samtökum eins og Umhverfisvakt Hvalfjarðar– á síðustu árum hafa
sprottið upp mörg minni félagasamtök sem berjast fyrir náttúruvernd á afmörkuðum svæðum, á sínum heimasvæðum.
Fólkið í landinu finnur að það er hluti af landslaginu og að það er mikilvægur þáttur í lífsgæðum þess. Þessvegna vill það fá að taka þátt í ákvörðunum sem teknar eru um nýtingu landsins og stofna með sér samtök til þess að reyna eftir veikum mætti að hafa áhrif á ákvarðanatöku yfirvalda.
Þessir hópar hafa orðið til vegna þess að náttúru og umhverfi ákveðinna svæða hefur verið ógnað, yfirleitt vegna áforma um virkjanir og stóriðju. En hvers vegna gerist það að þegar náttúrunni í túnfætinum heima hjá okkur er ógnað að þá fyrst hlaupum við upp til handa og fóta og viljum vernda þessa náttúru?
Ég held að ástæðan sé m.a. sú að fólk finnur til sterkra tengsla við sitt nánasta umhverfi. Skynjar sig sem hluta af því. Og kannski gerum við okkur helst grein fyrir þessum tengslum þegar ógnin steðjar að. Þegar við ímyndum okkur stórfelldar breytingar á því landslagi sem hefur verið einskonar bakgrunnur lífsins sem við lifum á þessum stöðum þá gerum við okkur grein fyrir því að eitthvað mikilvægt vantar. Það vantar eitthvað í sjálfsmynd þeirra sem búa á staðnum því að hún hefur orðið til og mótast í þessu umhverfi.
Þetta endurspeglar í rauninni það sem Evrópski landslagssáttmálinn leggur áherslu á, en það er sú staðreynd að landslagið sem við búum í er grundvallarþáttur í umhverfi okkar og það er um leið nátengt sjálfsvitund okkar. Þetta er líklega ástæða þess að þessi staðbundnu náttúruverndarsamtök hafa orðið til, hver staður hefur sín sérstöku einkenni og þegar það liggur fyrir að gera stórfelldar breytingar á landslaginu sem umlykur okkur, þá finnum við sem byggjum staðinn eða þekkjum hann fyrir þörf til að fá að vera með í ráðum, við viljum ekki að ákvarðanir séu teknar um breytingar á landslaginu án þess að samráð sé haft við okkur íbúa landsins. Við finnum að það er eitthvað annað og meira sem breytist þegar landslagið okkar breytist, möguleikar okkar á samneyti við náttúruna í kringum okkur breytist, lífsgæðin breytast og sjálfsmynd okkar breytist líka.
Af þessum ástæðum hefur krafan um aukið og opnara lýðræði verið eitt af þeim baráttumálum sem þessi samtök hafa lagt áherslu á. Þegar liggur fyrir að gera eigi stórfelldar breytingar á nánasta umhverfi fólks, og um leið á sjálfsmynd þeirra, þá finnur fólk fyrir þörfinni fyrir að fá að taka þátt í slíkri ákvarðanatöku. Þegar ákvörðun um nýtingu náttúru hefur svo mikil áhrif á tilveru okkar þá er það óþægileg tilfinning að fá engu um það ráðið hvað verður.
Á undanförnum misserum hefur mikið verið rætt um nýjar leiðir í lýðræði, leiðir sem eru e.t.v. betur til þess fallnar að taka gildi náttúrunnar til greina í ákvarðanatöku. Þegar rætt er um svokallað rökræðulýðræði er oft lögð áhersla á það að þegar fleiri aðilar koma að ákvarðanatöku, þegar t.d. íbúar svæðisins eða aðrir sem dvelja á og njóta svæðisins sem ákvörðunin varðar fá að taka þátt í ákvarðanatöku, þá eru mun meiri líkur á því að náttúran fái að njóta vafans og að þau fjölmörgu gildi sem náttúran hefur fyrir okkur mennina fái að koma í ljós. Náttúran hefur ekki eingöngu efnahagslegt gildi fyrir okkur sem hráefnisauðlind eða orkuauðlind. Náttúran hefur líka fagurfræðilegt gildi, við njótum þess að taka inn fegurð hennar; hún hefur útivistargildi, við höfum þörf fyrir að ganga um og dvelja í lítt snortinni náttúru. Náttúran hefur líka vísinda og fræðslugildi, við höfum þörf fyrir að vita meira um gangverk hennar og skilja hana betur. Og svo má ekki gleyma því að náttúran hefur líka oft á tíðum sögu- og menningarlegt gildi, hún er leiksvið þess lífs sem forfeður okkar og mæður lifðu, og í gegnum þá staði sem geyma sögu þeirra upplifum við tengsl við rætur okkar.
Þeir sem fyrst og fremst bera kennsl á þessi fjölbreyttu gildi sem náttúran hefur fyrir okkur hljóta að vera þeir sem upplifa þessi gildi í sínu lífi, þeir sem dvelja og búa í landslaginu. Það eru þessi gildi sem valda því að fólki finnst einhverju mikilvægu vera fórnað þegar á að umturna og breyta því landslagi sem umlykur það.
En hvað er hægt að gera til þess að auka þátttöku almennings í ákvarðanatöku? Skref í rétta átt er í fyrsta lagi fullgilding Árósarsamningsins um aðgang að upplýsingum, þátttöku almennings í ákvarðanatöku og réttláta meðferð í umhverfismálum, og í öðru lagi undirritun og fullgilding Evrópska landslagssáttmálans. Hann var loksins undirritaður í sumar en hefur ekki verið fullgiltur.
Fullgilding þessara tveggja samninga ætti að hafa í för með sér að þátttaka almennings yrði nauðsynlegur og eðlilegur þáttur í ákvarðanatöku í umhverfismálum. En til þess að þessi þáttur kæmi að raunverulegu gagni þarf líka að huga að því að auka bæði menntun um umhverfismál og þátttöku í lýðræðislegri rökræðu og eins stuðning við frjáls félagasamtök.
Frjáls félagasamtök eru sá aðili sem tekur að sér það hlutverk að stuðla að fræðslu og upplýstri umræðu um umhverfismál og ef þau njóta ekki nægilegs stuðnings er hætta á því að baráttan á milli andstæðra sjónarmiða verði ójöfn. Við sáum dæmi um þetta þegar Sólirnar í Hvalfirði, Straumi og Suðurnesjum stóðu í baráttu við alþjóðleg stórfyrirtæki. Frjáls félagasamtök með takmarkaða fjármuni hafa ekki bolmagn til þess að standa í sanngjarnri baráttu við alþjóðleg stórfyrirtæki.
Segja má að á Íslandi sé nú enn á ný staðið á tímamótum hvað varðar náttúruverndarmál. Þingsályktunartillaga um Rammaáætlun verður brátt lögð fyrir þingið, nýverið kom út Hvítbók um náttúruvernd sem á að leggja til grundvallar breytingum á lagaumhverfi náttúruverndar, og þegar ákvörðun verður tekin um breytingar á stjórnarskrá þarf m.a. að taka afstöðu til þess hvort þar eigi að setja inn sérstök ákvæði um rétt náttúrunnar eða rétt almennings og framtíðarkynslóða til óspilltrar náttúru. Þetta sýnir okkur að e.t.v. þokumst við eitthvað í áttina að því að gera þær breytingar sem þarf til þess að náttúran öðlist þann sess sem hún á skilið sem undirstaða alls lífs á jörðinni.
En betur má ef duga skal og þangað til stjórnvöld fara að hleypa almenningi betur að ákvarðanatökunni um umhverfismál veltur það á okkur sjálfum að halda áfram að berjast fyrir því að á okkur sé hlustað og þar gegna samtök eins og Umhverfisvakt Hvalfjarðar lykilhlutverki.
Guðbjörg R. Jóhannesdóttir