29
okt

Stjórnarfundur 24. okt. 2012

Fundargerð stjórnar Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð vegna fundar sem haldinn var á Hálsi miðvikudaginn 24. október kl. 20.00.


Af stjórnarfólki voru mætt: Þórarinn Jónsson, Ragnheiður Þorgrímsdóttir, Ingibjörg Jónsdóttir og Gyða S. Björnsdóttir. Einnig sat fundinn Lisa Boije af Gennäs húsfreyja á Hálsi og Guðbjörg Rannveig Jóhannsdóttir, en hún er að ljúka doktorsverkefni um umhverfisheimspeki. 

1.    Viðmið flúors í fóðri rædd en ósamræmi er í viðmiðunargildum fyrir flúor í grasi í vöktunaráætlunum fyrir Hvalfjörð og Reyðarfjörð sbr. fréttaflutning um of há gildi flúors í grasi í Reyðarfirði að undanförnu. Flúor má vera 30 ppm í Hvalfirði en 40-60 ppm á Reyðarfirði sem vekur undrun.

2.    Bréf frá Ragnheiði Þorgrímsdóttur til stjórnar Umhverfisvaktarinnar rætt en þar er óskað eftir að Umhverfisvaktin standi að kynningu á niðurstöðum flúormælinga til bænda. Ákveðið að formaður hafi samband við blaðamann hjá Bændablaðinu og kynni honum málið.

3. Bréf Umhverfisvaktarinnar til landbúnaðarráðherra rætt. Einkum var rætt um þá afstöðu landbúnaðarráðherra að svara ekki erindi Umhverfisvaktarinnar, en hún hefur formlega beðið ráðherra að veita viðtal þannig að hægt sé að kynna honum niðurstöður mælinga flúors í lífsýnum hrossa við Hvalfjörð.

4.    Umhverfisrannsókn á vegum Faxaflóahafna sem kynnt var stjórn Umhverfisvaktarinnar á vordögum. Ákveðið að kalla eftir upplýsingum um framvindu rannsóknarinnar.

5.    Aðalfundur Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð. Ákveðið að halda aðalfundinn þann 8. nóvember.

Fleira ekki tekið fyrir. Fundi slitið kl. 22.50.