Ábendingar vegna neysluvatns
Ábendingar frá Umhverfisvaktinni við Hvalfjörð vegna fækkunar mælinga á mengandi efnum í neysluvatni úr Berjadalsá.
Sendar til bæjarfulltrúa, bæjarstjóra, nefndarmanna í skipulags- og umhverfisnefnd Akraneskaupstaðar, skólastjóra leikskólanna Vallarsels, Akrasels, Garðasels og Teigasels, skólastjóra Brekkubæjarskóla, Grundaskóla, Tónlistarskóla Akraness, Vinnuskóla Akraness og Fjölbrautaskóla Vesturlands, Heilbrigðisstofnunar Vesturlands og Höfða, hjúkrunar- og dvalarheimilis.
Ágæti viðtakandi.
Þann 24. nóv. s.l. átti stjórn Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð gagnlegan fund með fulltrúum úr bæjarstjórn og fulltrúum umhverfismála hjá Akraneskaupstað. Fundarefnið var ályktun aðalfundar Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð um neysluvatn af Akrafjalli, en stefna forsvarsmanna iðjuveranna á Grundartanga hefur verið að draga úr mælingum á efnamengun í ferskvatni, þ.m.t. í Berjadalsá, eins og fram kemur í tillögum þeirra að nýrri vöktunaráætlun. Sú stefna er nú orðin að veruleika með samþykki Umhverfisstofnunar. Mælingum á mengandi efnum í neysluvatni úr Berjadalsá verður fækkað niður í eina á ári og skal hún fara fram að sumri. Áður var mælt einu sinni til tvisvar í mánuði yfir gróðrartímann. Mælingar hafa ekki farið fram yfir vetrartímann, frá október og fram í apríl.
Umhverfisvaktin hefur ítrekað varað við hættu á mengun neysluvatns í miklum leysingum þegar efni sem safnast hafa í snjóalög, losna og berast út í Berjadalsá. Fyrir skömmu gerði miklar leysingar eftir langvarandi frosta- og snjóatíð. Þá hefði þurft að mæla eiturefni í neysluvatninu. Umhverfisvaktin sendi bæjarstjóra Akraneskaupstaðar erindi vegna þessa.
Umhverfisvaktin við Hvalfjörð hvetur alla sem neyta vatns úr Berjadalsá til að gera ítrustu kröfur um mengunarmælingar í ánni og beinir sérstökum tilmælum til forstöðumanna stofnana að beita sér fyrir fjölgun mælinga, einkum yfir vetrartímann. Rétt er að beina kröfum um þetta til bæjaryfirvalda og Umhverfisstofnunar.
Forstöðumenn og bæjarfulltrúar sem fá þetta bréf, ættu að eiga greiðan aðgang að forsvarsmönnum umhverfismála hjá Akraneskaupstað en stjórn Umhverfisvaktarinnar er reiðubúin að aðstoða þá sem þess óska, við að útbúa erindi til Umhverfisstofnunar með ósk um fjölgun mælinga á neysluvatni úr Berjadalsá þannig að mælingar sýni einnig ástand vatnsins við aðstæður þar sem mest hætta er á mengun.
Velkomið er að leita frekari upplýsinga í síma 8979070 e. kl. 14 eða senda tölvupóst á netfangið Þetta tölvupóstfang er varið gegn ruslpóstsþjörkum, Þú verður að hafa JavaScript virkt til að sjá það. .
Með góðri kveðju,
Hvalfirði, 19. febrúar 2012.
Stjórn Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð,
Ragnheiður Þorgrímsdóttir, Þórarinn Jónsson, Daniela Gross, Gyða S. Björnsdóttir, Ingibjörg Jónsdóttir.