Efnamælingar neysluvatns
Umhverfisvaktin hefur undanfarið vakið máls á hættu á efnamengun neysluvatns í nágrenni Grundartanga, einkum yfirborðsvatns af Akrafjalli. Eftirfarandi bréf var sent bæjarstjóranum á Akranesi 29. jan s.l.
Bæjarstjóri Akraneskaupstaðar
Árni Múli Jónasson
Stillholti 16 – 18
300 Akranesi
Frá Umhverfisvaktinni við Hvalfjörð vegna mælinga á mengandi efnum í neysluvatni
Ágæti bæjarstjóri
Þann 24. nóv. s.l. átti stjórn Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð góðan fund með þér og fleiri forsvarsmönnum umhverfismála hjá Akraneskaupstað.
Fundarefnið var ályktun aðalfundar Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð um neysluvatn af Akrafjalli, en stefna forsvarsmanna iðjuveranna á Grundartanga er að draga úr vöktun á efnamengun í ferskvatni, þ.m.t. í Berjadalsá.
Á fundinum var meðal annars fjallað um hættuna sem getur skapast í asahláku þegar efni sem safnast hafa í snjóalög, losna og berast út í Berjadalsá.
Undanfarna daga hefur verið asahláka. Við hvetjum bæjaryfirvöld til að vera á varðbergi gagnvart efnamengun neysluvatnsins og vonum að gerðar hafi verið ráðstafanir til að mæla efnainnihald vatnsins í Berjadalsá undanfarna daga.
Með kveðju og ósk um gott samstarf.
f.h. stjórnar
Ragnheiður Þorgrímsdóttir