20
nóv

Ályktanir aðalfundar 2011


Aðalfundur Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð, haldinn í Kaffi Kjós þriðjudaginn 15. nóv. 2011, ályktar eftirfarandi:

Fundurinn fagnar framlagi Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð á fyrsta starfsári hennar og telur að með starfi hennar hafi verið stigin þýðingarmikil skref í þágu náttúru og umhverfis í Hvalfirði, skref sem ella hefðu ekki verið stigin.
Fundurinn harmar, að þrátt fyrir góðan hug margra sveitarstjórnarmann til umhverfis síns, skuli finnast sveitarstjórnarmenn sem sýna hagsmunum íbúa á sviði umhverfismála tómlæti. Væntir fundurinn breytinga til batnaðar.
Stærsta einstaka mál Umhverfisvaktarinnar nú um stundir er að stemma stigu við frekari mengandi iðnaðaruppbyggingu í firðinum og að hefja samstarf við starfandi iðjuver til að bæta árangur í hreinsun útblásturs og að byggja upp traust.Við það verður ekki unað að ásýnd og útblástur frá iðjuverunum skaði aðrar atvinnugreinar, dragi úr lífsgæðum og lækki verðgildi fasteigna í firðinum.
Fundurinn skorar á sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar að falla frá frekari stækkun iðnaðarsvæðisins á Grundartanga og telur að nóg sé komi af mengandi iðnaði þar.
Þá bendir fundurinn á þá óhugnanlegu staðreynd að innan þynningarsvæðis flúors og brennisteins er unnið fóður til framleiðslu landbúnaðarvara og öll aukning á mengandi efnum í kælilofti fóðurstöðvarinnar stefnir rekstri hennar í enn frekara óefni. Fyrir búfjárframleiðslu á Íslandi er ólíðandi með öllu að hugsanlega sé verið að flytja skaðleg efni af iðnaðarsvæðinu á Grundartanga út um hinar dreifðu byggðir landsins í formi dýrafóðurs. Mikilvægt er að aflétta óvissu sem ríkir um gæði fóðursins frá fóðurstöðinni og er þeirri áskorun beint til Matvælastofnunar að hún hlutist til um öflugt eftirlit með gæðum fóðursins með tilliti til mengandi efna úr umhverfi fóðurstöðvarinnar.

Aðalfundur Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð, haldinn í Kaffi Kjós þriðjudaginn 15. nóv. 2011, ályktar eftirfarandi um ábyrgð á vöktun vegna mengunar frá Grundartanga:
Aðalfundur Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð skorar á Umhverfisráðherrra að hefja nú þegar undirbúning þess að flytja ábyrgð á umhverfisvöktun vegna mengunar frá iðjuverunum á Grundartanga frá forsvarsmönnum iðjuveranna, í hendur til þess bærrar opinberrar stofnunar.


Aðalfundur Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð, haldinn í Kaffi Kjós þriðjudaginn 15. nóv. 2011, ályktar eftirfarandi vegna neysluvatns af Akrafjalli:

Umhverfisvaktin við Hvalfjörð telur að draga megi í efa hreinleika neysluvatns sem fengið er af yfirborði Akrafjalls og hvetur bæjaryfirvöld á Akranesi til að vera á verði gagnvart mengun þess. Útblástur mengandi efna frá iðjuverunum á Grundartanga nemur þúsundum tonna árlega. Við ákveðnar aðstæður svo sem í suðaustan átt, við útsleppi úr reykhreinsivirkjum, þegar mengunarslys eiga sér stað og þegar snjóa leysir er sérstök ástæða er til að hafa varann á.
Mælingar í Berjadalsá á mengandi efnum frá iðjuverunum á Grundartanga hafa um nokkurra ára skeið aðeins farið fram yfir gróðrartímann, frá apríl og fram í október.
Í drögum að nýrri vöktunaráætlun sem nú er í meðferð Umhverfisstofnunar, leggja forsvarsmenn iðjuveranna á Grundartanga til að dregið verði úr mælingum ferskvatns þannig að í Berjadalsá fari mælingar fram einu sinni að sumri, um miðjan ágúst.
Umhverfisvaktin við Hvalfjörð lítur þessa tillögu mjög alvarlegum augum þar sem um er að ræða neysluvatn þúsunda íbúa og vatn sem notað er við framleiðslu matvæla og telur sjálfsagt að mengunarmælingar fari fram allan ársins hring.


Aðalfundur Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð, haldinn í Kaffi Kjós þriðjudaginn 15. nóv. 2011, ályktar vegna mengandi atvinnurekstrar í Hvalfirði:

Aðalfundur Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð skorar á ríkisstjórn Íslands að opinbera afstöðu sína til þess hvert stefni með mengandi atvinnurekstur í Hvalfirði og hversu langt sé ætlunin að ganga á hlut íbúanna þar.
Nú þegar eru til staðar á Grundartanga tvær stórar mengandi verksmiðjur, Elkem Ísland og Norðurál. Hart er sótt af hálfu sameignarfélagsins Faxaflóahafna að bæta við fleiri mengandi verksmiðjum. Umhverfisvaktin við Hvalfjörð óttast afleiðingarnar ef sú áform ná fram að ganga.
Aðalfundur Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð skorar á ríkisstjórn Íslands að hlífa Hvalfirði og íbúum hans við frekari spjöllum á náttúru og lífríki, svo og eignatjóni af völdum mengandi iðnaðar á Grundartanga. Fundurinn varpar þeirri spurningu til landsstjórnarinnar hvort ekki sé ráðlegra að beina uppbyggingu mengandi iðnaðar til þeirra landshluta sem hana vilja fá.