24
okt

Stjórnsýslukæra

Umhverfisráðuneytið
Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra
Skuggasundi 1
150 Reykjavík


Hvalfirði, 22. október 2011


Efni:     Stjórnsýslukæra vegna ákvörðunar Skipulagsstofnunar dags. 19. september 2011 um að fyrirhuguð natríumklóratverksmiðja Kemira á Grundartanga skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Kærandi: Umhverfisvaktin við Hvalfjörð


Kæruefni: Kærð er sú ákvörðun Skipulagsstofnunar, dags.  19. 9. 2011, að fyrirhuguð natríumklóratverksmiðja Kemira á Grundartanga skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Kæran byggir á 10. gr. og 26. gr. laga nr. 37/1993.

Kröfur kæranda:
Að fyrirhugaðri natríumklóratverksmiðju Kemira á Grundartanga verði gert að sæta mati á umhverfisáhrifum.

Greinargerð:
Nokkrir veigamiklir þættir liggja til grundvallar kæru Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð. Samlegðaráhrif mengunar af völdum stóriðju á Grundartanga á lífríki og náttúru eru ekki þekkt. Rannsaka þarf hættu á mengunarslysum. Rannsaka þarf hvort landbúnaði við Hvalfjörð stafar hætta af aukinni mengun vegna fyrirhugaðrar verksmiðju. Rannsaka þarf áhrif efnistöku af botni Hvalfjarðar.

1.    Samlegðaráhrif mengandi efna frá iðjuverum á Grundartanga
Umhverfisvaktin við Hvalfjörð leggur áherslu á nauðsyn þess að rannsökuð verði samlegðaráhrif mengandi efna frá iðjuverunum á Grundartanga af til þess bærum opinberum aðilum. Slíkt hefur ekki verið gert áður. (Sjá skýrslur um umhverfisvöktun vegna Grundartanga, gefnar út af Elkem Íslandi og Norðuráli á Grundartanga) . Umhverfisvaktin við Hvalfjörð telur að áhrif mengunar vegna iðjuveranna á Grundartanga séu meiri en mælingar benda til. Mengunarálag birtist m.a. í flúori í beinsýnum úr sauðfé og heilsubresti búfjár.
Mikilvægt er að taka af allan vafa um neikvæðar afleiðingar vegna mengunarálags frá þeim iðjuverum sem þegar starfa á svæðinu áður en fleiri verksmiðjum sem vinna með skaðleg efni er leyft að hefja starfsemi. Vísað er í þessu sambandi í 10. gr. laga nr. 37/1993.

Umhverfisvaktin við Hvalfjörð styður umsagnir Umhverfis- og náttúruverndarnefndar Hvalfjarðarsveitar um málið:
„Umhverfis- og náttúruverndarnefnd Hvalfjarðarsveitar telur að fyrirhuguð framkvæmd vegna natríumklóratverksmiðju á Grundartanga þurfi að fara í mat á umhverfisáhrifum, annarsvegar vegna þess mikla magns hættulegra efna sem tengjast starfseminni og hins vegar vegna hugsanlegra samlegðaráhrifa með annarri starfsemi á svæðinu, svo og með tilliti til orkubúskapar á landsvísu. Augljóst er að breyta þarf aðalskipulagi til að reisa megi verksmiðjuna þar sem henni er ætlaður staður.“ (Sjá vef Hvalfjarðarsveitar, 62. fundargerð umhverfis- og náttúruverndarnefndar, dags. 9. ágúst 2011).
„Umhverfis- og náttúruverndarnefnd Hvalfjarðarsveitar áréttar fyrri umsögn sína að nefndin telji að fyrirhuguð framkvæmd vegna natríumklóratverksmiðju á Grundartanga þurfi að fara í mat á umhverfisáhrifum, annarsvegar vegna þess mikla magns hættulegra efna sem tengjast starfseminni og hins vegar vegna hugsanlegra samlegðaráhrifa með annarri starfsemi á svæðinu. Nefndin telur það nauðsynlegt að gera þurfi heildarmat á þolmörkum Grundartangasvæðisins meðal annars m.t.t. mengunar á svæðinu.“ (Sjá vef Hvalfjarðarsveitar, 63. fundargerð umhverfis- og náttúruverndarnefndar, dags. 3. 10. 2011).

Athygli vekur að gefin hafa verið út þrjú sjálfstæð álit af hálfu Skipulagsstofnunar um að tilteknar verksmiðjur sem fyrirhugað er að reisa á Grundartanga þurfi ekki að sæta mati á umhverfisáhrifum. Álitin eiga það öll sammerkt að hver verksmiðja ein og sér muni ekki hafa umtalsverð umhverfisáhrif umfram þau umhverfisáhrif sem þegar eru til staðar og mengun hverrar verksmiðju sé óveruleg viðbót við núverandi mengun.
Umhverfisvaktin við Hvalfjörð álítur að ekki eigi að gefa afslátt á kröfum um mat á umhverfisáhrifum þó að annar mengandi iðnaður sé til staðar á svæðinu, þvert á móti.

Bent skal á að vöktun umhverfis í grennd við Grundartanga þarfnast verulegrar endurskoðunar. Hún er gerð á ábyrgð forsvarsmanna iðjuveranna sjálfra, en það veikir áreiðanleika hennar. Sem fyrr segir þá hafa samlegðaráhrif mengandi efna á svæðinu ekki verið rannsökuð. Umhverfisvaktin við Hvalfjörð telur nauðsynlegt að slík rannsókn verði gerð áður en lengra er haldið.

b. Mengunarslys

Vísað er í greinargerð Skipulagsstofnunar, (http://www.skipulagsstofnun.is/media/ attachments/Umhverfismat/866/201105032.pdf ) en þar segir að fyrirhuguð framleiðsla á natríumklórati og vetni í verksmiðju Kemira á Grundartanga feli í sér geymslu og notkun hættulegra efna. Við lestur greiðargerðarinnar vekur athygli, að skýringar framkvæmdaraðila virðast nægja Skipulagsstofnun sem rök við athugasemdum umsagnaraðila. Umhverfisvaktin telur að Skipulagsstofnun hafi ekki kannað réttmæti skýringa framkvæmdaraðila, eins og henni ber sbr. 10. grein laga nr. 37/1993.

Í greinargerðinni má ennfremur lesa þessa klausu: „Skipulagsstofnun minnir á að þó svo að eftirlitsaðilar og leyfisveitendur beri ríka ábyrgð á því að framfylgja lögum og reglum á sínu sérsviði til að lágmarka neikvæð áhrif starfseminnar þá er það fyrst og fremst komið undir framgöngu framkvæmdaraðila að vel takist um áhrif rekstrarins á umhverfið.“ Umhverfisvaktin telur að í greinargerð stofnunarinnar sé ekki gerð nægjanleg grein fyrir varúðarráðstöfunum og áhrifum þess ef eitthvað fer úrskeiðis í rekstri verksmiðjunnar.

Flestir vita nú um hið alvarlega mengunarslys sem varð í Norðuráli í ágúst 2006. Íbúar í grennd höfðu enga hugmynd um slysið fyrr en mörgum mánuðum síðar. Bændur á svæðinu eru enn að kljást við afleiðingar þess og í vöktunarskýrslu iðjuveranna frá árinu 2010 kemur fram að á sjö bæjum mældist meðalstyrkur flúors í beinösku kinda yfir þeim mörkum þar sem talin er hætta á tannskemmdum. Bændur við Hvalfjörð búa nú þegar við skert atvinnuöryggi vegna starfsemi iðjuveranna á Grundartanga. Skipulagsstofnun þarf að sýna fram á með óyggjandi hætti að hin nýja verksmiðja Kemira geti undir engum kringumstæðum valdið landbúnaði á svæðinu tjóni.

Mat á umhverfisáhrifum ætti að geta varpað ljósi á þau fjölmörgu vafaatriði sem Skipulagsstofnun bendir á varðandi fyrirhugaða starfsemi natríumklóratverksmiðju Kemira. Í þessu sambandi ber þó einkum að nefna áhrif þess ef eitthvað ber út af í starfseminni.

c. Umsögn hagsmunasamtaka bænda
Ekki verður séð að Skipulagsstofnun hafi leitað umsagnar hagsmunasamtaka bænda vegna fyrirhugaðrar natríumklóratverksmiðju. Þó eru Hvalfjarðarsveit og Kjósarhreppur landbúnaðarhéruð. Umhverfisvaktin bendir á að þann 1. mars 2010 var landbúnaðarlöggjöf Evrópusambandsins breytt þannig að bændur eru nú taldir til fóðurframleiðenda. Fóðurframleiðandi er sá sem framleiðir fóður til að framleiða afurðir sem fara svo beint inn í fæðukeðjuna t.d. mjólk eða kjöt. Samkvæmt nýju lögunum er slíkur fóðurframleiðandi algerlega ábyrgur fyrir hollustu og hreinleika sinna afurða. Verði mengun í afurðum rakin til Hvalfjarðar er viðkomandi bóndi ábyrgur.

Mikilvægt er að leitað sé til hagsmunasamtaka bænda þegar stefnt er að því að staðsetja verksmiðju sem vinnur með hættuleg efni, í landbúnaðarhéraði. Mikilvægt er að Skipulagsstofnun kynni sér og meti aðstöðu og möguleika til landbúnaðar við Hvalfjörð og tengi þessa þætti við fæðuöryggi neytenda og öryggi í lífsafkomu bænda. Hvað eina sem bætist við í mengun á svæðinu getur orðið dropinn sem fyllir mælinn og gerir lífsafkomu bænda að engu.

d. Efnistaka úr sjó
Í niðurstöðu Skipulagsstofnunar er ekki leitast við að kanna áhrif efnistöku úr sjó. Árum saman hefur farið fram námuvinnsla af botni Hvalfjarðar án þess að metin væru áhrif þess á botn fjarðarins, strendur eða lífríki. Ótækt er að gera ráð fyrir meiri efnistöku án undangenginna ítarlegra rannsókna á áhrifum hennar.

Í niðurlagsorðum sínum með greinargerð um mat á umhverfisáhrifum vegna natríumklóratverksmiðju Kemira ítrekar Skipulagsstofnun mikilvægi þess að forsvarsmenn verksmiðjunnar og aðrir sem að framkvæmdinni koma viðhafi þá verktilhögun og mótvægisaðgerðir sem Skipulagsstofnun hefur kynnt við meðferð málsins og vöktun á aðgerðum og áhrifum þannig að framkvæmdin sé ekki líkleg til að valda verulegum og óafturkræfum áhrifum á umhverfið. Umhverfisvaktin við Hvalfjörð lítur svo á að óljóst sé hvernig þessum þáttum verði fyrir komið þannig að tryggt sé að starfsemi verksmiðjunnar valdi ekki skaða.

Lokaorð
Umhverfisvaktin við Hvalfjörð hefur í stuttu máli gert grein fyrir nokkrum veigamiklum þáttum sem hún telur að þurfi að rannsaka, vegna fyrirhugaðrar natríumklóratverksmiðju Kemira.

Umhverfisvaktin við Hvalfjörð óskar eftir því að umhverfisráðherra úrskurði á þann veg að umhverfismat vegna fyrirhugaðrar natríumklóratverksmiðju Kemira á Grundartanga skuli fara fram. Til vara fer Umhverfisvaktin við Hvalfjörð fram á að málið verði sent Skipulagsstofnun aftur til löglegrar meðferðar, þ.m.t. ítarlegri rannsókna á forsendum hinnar fyrirhuguðu framkvæmdar, svo og mögulegum afleiðingum hennar.


Virðingarfyllst,

F.h. Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð,

Þórarinn Jónsson

Ragnheiður Þorgrímsdóttir

Gyða S. Björnsdóttir

Daniela Gross

Marteinn Njálsson