15
okt

Leiðrétting


Leiðrétting frá Umhverfisvaktinni við Hvalfjörð, send Skessuhorni vegna athugasemda Norðuráls við pennagrein:

Í síðasta tölublaði Skessuhorns birtist pennagrein frá Umhverfisvaktinni við Hvalfjörð. Greinin fjallar um mengunarslys hjá Norðuráli og umhverfismat vegna fyrirhugaðrar natríumklóratverksmiðju. Í tengslum við greinina birtist álit talsmanns Norðuráls vegna mengunarslyssins. Í máli hans kemur fram misskilningur sem þarf að leiðrétta. Hann virðast halda að tillaga Umhverfisvaktarinnar að viðbragðsáætlun vegna mengunarslysa á Grundartanga hafi komið fram eftir bilun í hreinsibúnaði hjá Norðuráli þann 21. sept. s.l. Hið rétta er að tillaga Umhverfisvaktarinnar um viðbragðsáætlun er hluti af tillögum hennar um endurskoðun á vöktun umhverfisins og voru þær sendar Umhverfisstofnun í febrúar s.l. Tillaga Umhverfisvaktarinnar um viðbragðsáætlun á rætur að rekja til alvarlegs mengunarslyss sem varð í Norðuráli í ágúst 2006. Íbúar í grennd höfðu enga hugmynd um slysið fyrr en mörgum mánuðum síðar. Bændur á svæðinu eru enn að kljást við afleiðingar þess og í vöktunarskýrslu iðjuveranna frá árinu 2010 kemur fram að á sjö bæjum mældist meðalstyrkur flúors í beinösku kinda yfir þeim mörkum þar sem talin er hætta á tannskemmdum. Þegar reykhreinsivirki slær út hjá Norðuráli þýðir það að flúor sleppur óhindrað út í andrúmsloftið á meðan á viðgerð stendur og getur þar með mengað fæðu grasbíta á svæðinu. Af þeim sökum er mikilvægt að bændur fái upplýsingar um leið og hreinsivirki verður óvirkt svo þeir geti sjálfir tekið afstöðu til þess hvernig þeir haga fóðrun dýra þar til rignt hefur og flúor fengið tækifæri til þess að mynda efnasambönd í jarðvegi sem gerir hann síður aðgengilegan grasbítum í gegnum fæðu þeirra. Hér er um dýraverndunarmál að ræða auk þess sem bændur hljóta að eiga rétt á að fá tækifæri til að verja sitt lifibrauð eins og mögulegt er.