11
okt

Natríumklóratverksmiðja verði látin sæta umhverfismati

Ályktun frá Umhverfisvaktinni við Hvalfjörð:

Stjórn Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð undrast þá niðurstöðu Skipulagsstofnunar, að fyrirhuguð natríumklóratverksmiðja á Grundartanga við Hvalfjörð, skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Það er miður ef stjórnvöld ætla ekki að láta það vera forgangsverkefni í starfi sínu að stuðla að heilsusamlegu umhverfi íbúa landsins.
Nauðsynlegt og sjálfsagt er að gæta fyllstu varúðar gagnvart fyrirtækjum sem vitað er að geti spillt umhverfinu með hættulegum efnum, í þessu tilfelli er m.a. um að ræða vítissóta og saltsýru. Því viðmiði Skipulagsstofnunar, að gefa megi fyrirtækjum „afslátt“ á kröfu um umhverfismat, vegna þess að mengun frá þeim sé lítilvæg miðað við þá mengun sem fyrir er á tilteknu svæði, er eindregið hafnað.
Á það skal enn bent, að aldrei hafa verið rannsökuð samlegðaráhrif mengandi efna frá iðjuverunum á Grundartanga og því er ekki vitað hver mengun umhverfisins er í raun og veru. Jafnframt er ítrekað það sem áður hefur komið fram að ábyrgð á mengunarmælingum vegna iðjuveranna á Grundartanga er hjá forsvarmönnum iðjuveranna, en það gerir niðurstöður mengunarmælinganna ónothæfar sem vitneskju til að byggja á.
Bent er einnig á að hreinsibúnaður iðjuveranna sem nú starfa á Grundartanga hefur ítrekað bilað, síðast hjá Norðuráli í sept. 2011, með ókunnum afleiðingum, enda hafa þær ekki verið rannsakaðar. Fremur en að auka hættu á mengun á svæðinu, telur stjórn Umhverfisvaktarinnar nær að gera meiri kröfur en nú eru gerðar, til gæða og öryggis í hreinsikerfum iðjuveranna á Grundartanga. Höfð sé í huga nálægð svæðisins við íbúabyggð, opið vatnsból Akurnesinga, sem og landbúnað og framleiðslu tengda honum.
Stjórn Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð væntir þess að sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar beiti sér fyrir mati á umhverfisáhrifum vegna umræddrar natríumklóratverksmiðju. Jafnframt verði íbúum og öðrum hagsmunaaðilum í sveitarfélögunum í grennd við Grundartanga boðið að tjá sig um fyrirhugaða staðsetningu og starfsemi natríumklóratverksmiðju þar.