09
okt

Mengunarslys

Umhverfisvaktin við Hvalfjörð harmar mengunarslysið sem varð hjá Norðuráli á Grundartanga þann 21. sept. s.l. en þann dag sló reykhreinsivirki 1 í tvígang út vegna bilunar í rafbúnaði virkisins.
Vakin er sérstök athygli á því að slysið skyldi ekki tilkynnt samstundis, en á það hefur Umhverfisvaktin lagt áherslu við endurskoðun vöktunaráætlunar vegna iðjuveranna á Grundartanga. Tillaga Umhverfisvaktarinnar sem send hefur verið Umhverfisstofnun, er svohljóðandi:


Stjórn Umhverfisvaktarinnar vekur athygli á nauðsyn fyrirbyggjandi aðgerða ef mengunarslys verður í iðjuverunum og leggur til að hönnuð verði viðbragðsáætlun fyrir íbúa í nágrenni Grundartanga. Farið verði yfir viðbragðsáætlunina að minnsta kosti tvisvar á ári til að sannreyna gildi hennar. Aðferðin sjálf þarf ekki að vera flókin. Hún getur falist í úthringikerfi þar sem haft er samband við a.m.k. einn einstakling á hverju byggðu bóli í nágrenni iðjuveranna ef hreinsivirki bregðast eða annað óvænt ber að höndum er stefnt getur heilsu manna og dýra í voða. Minnt er á mengunarslys í álverinu í ágúst 2006 í þessu sambandi, en þá liðu margir mánuðir áður en heimamenn fengu einhverjar upplýsingar um það. Viðvörun hefði átt að senda út strax og bilunin varð og rannsaka áhrif slyssins eins fljótt og auðið varð.

Litið er þó að það sem spor í rétta átt, að íbúar hafi fengið upplýsingar um slysið, þó seint væri. Umhverfisvaktin við Hvalfjörð ítrekar þá nauðsyn, að tilkynna mengunarslys samstundis þannig að hægt sé að gera viðeigandi ráðstafanir.

(Fréttatilkynning)