Vegna vöktunaráætlunar

Umhverfisstofnun
b.t. Kristínar Lindu Árnadóttur og Þorsteins Jónssonar
Suðurlandsbraut 24
108 Rvk.


Efni: Frá stjórn Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð. Athugasemdir við tillögu að vöktunaráætlun iðjuveranna á Grundartanga fyrir árin 2011 til 2020

Stjórn Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð metur það mikils að vera umsagnaraðili um tillögu að vöktunaráætlun vegna iðjuveranna á Grundartanga. Það hlýtur að teljast þróun í rétta átt að leita álits þeirra sem eiga hagsmuna að gæta. Hér fara á eftir almennar athugasemdir við tillöguna og síðan athugasemdir við einstaka þætti hennar.

Almennar athugasemdir
a.    Eindregið er lagt til að utanumhald umhverfisvöktunarinnar verði tekið úr höndum forsvarsmanna stóriðjuveranna. Sýnt er að rannsóknir hafa ekki verið gerðar sem skyldi og niðurstöður þeirra eru óaðgengilegar.

b.    Lagt er til að endurskoðun vöktunaráætlunarinnar fari eigi sjaldnar fram en á fjögurra ára fresti og verði gildistími hennar miðaður við þau tímamörk.

c.    Gerð er sú krafa að öllum vöktunarþáttum verði sinnt af ítrustu samviskusemi, þar með talinni vöktun á ferskvatni, heyi, beitargróðri, túngrösum og öðrum gróðri, jarðvegi, ám, lækjum og sigvatni. Samkvæmt tillögu að nýrri vöktunaráætlun er ætlunin ýmist að sleppa vöktun þessara þátta eða draga verulega úr henni (sbr. ferskvatn). Það hlýtur að teljast óásættanlegt með öllu.

d.    Stjórn Umhverfisvaktarinnar vill sérstaklega taka fram að rannsóknir á jarðvegi hafa verið mjög stopular og hefur einungis verið mælt sýrustig hans. Farið er fram á að jarðvegur verði rannsakaður með tilliti til flúors, brennisteinstvíoxíðs, þungmálma og díoxíns. Fjölga þarf vöktunarstöðum vegna jarðvegs. Lagt er til að nýir vöktunarstaðir verði við Melahverfi, Gröf og Kiðafell, auk fyrri vöktunarstaða sem eru Stekkjarás, Klafastaðir, Katanes og Galtarholt og viðmiðunarstaðurinn Litla-Skarð í Borgarfirði.

e.    Sveitarfélögin Hvalfjarðarsveit og Kjósarhreppur eru landbúnaðarhéruð. Stjórn Umhverfisvaktarinnar bendir á að þann 1. mars 2010 var landbúnaðarlöggjöf Evrópusambandsins breytt þannig að bændur eru nú taldir til fóðurframleiðenda. Fóðurframleiðandi er sá sem framleiðir fóður til að framleiða afurðir sem fara svo beint inn í fæðukeðjuna t.d. mjólk eða kjöt. Samkvæmt nýju lögunum er slíkur fóðurframleiðandi algerlega ábyrgur fyrir hollustu og hreinleika sinna afurða. Verði mengun í afurðum (til dæmis díoxínmengun) rakin til Hvalfjarðar er viðkomandi bóndi ábyrgur. Það liggur þess vegna í augum uppi að góð umhverfisvöktun er gríðarlegt hagsmunamál fyrir bændur og neytendur og engan afslátt hægt að veita á töku heysýna, jarðvegssýna og ferskvatnssýna að mati stjórnar Umhverfisvaktarinnar. Stóriðjan sem mengunaraðili á að sjálfsögðu að bera kostnað af nauðsynlegu eftirliti.

f.    Bent er á mikilvægi þess að sífellt verði leitast við að afla nýrrar þekkingar á þolmörkum og hættumörkum varðandi alla mæliþætti umhverfisvöktunarinnar.

g.    Stjórn Umhverfisvaktarinnar fer fram á að birtar verði niðurstöður einstakra mælinga umhverfisvöktunar eftir því sem kostur er og verði þær aðgengilegar almenningi. Meðaltöl mælinga gefa ekki alltaf rétta mynd af stöðu mála. Umhverfinu getur stafað hætta af losun mengandi efna sem á sér stað í „skotum“ („sleppingum“) þó meðaltöl samanlagðra niðurstaðna séu innan viðmiðunarmarka í starfsleyfum.

h.    Stjórn Umhverfisvaktarinnar leggur mikla áherslu á að tekið verði mið af ríkjandi vindáttum á svæðinu í allri umhverfisvöktun.

Loftgæði
Loftgæði þarf að mæla þannig að ljóst sé hver raunveruleg staða þeirra er í byggðum í nágrenni Grundartanga. Í ljósi ríkjandi vindátta á svæðinu er þess krafist að stöðin í Stekkjarási verði notuð áfram. Auk þess verði komið fyrir loftgæðamælitæki vestan við Grundartanga t.d. milli Galtalækjar og Galtarvíkur. Sírita á loftgæðum þarf að tengja inn á vefsíður nærliggjandi sveitarfélaga. Stöðin við Hálsnes verði færð vestar og hún notuð samfellt.

Gróður (gras, lauf, barr)
Með niðurstöðum rannsókna á gróðursýnum skal, auk dagsetningar sýnatökunnar, geta veðurfars sýnatökudaginn og vikuna á undan. Í gróðurrannsóknum er mikilvægt að rót plantna sé einnig rannsökuð, þar sem grös geta safnað flúori og öðrum hættulegum efnum í rætur og efnin þannig borist í munn og maga grasbíta. Mæla þarf díoxín í gróðri.

Mosar og fléttur
Samkvæmt fyrri vöktunaráætlun áttu mæliþættir mosa og flétta að vera flúor bundið í vef og flúor í skoli. Staðan er sú að ekkert er vitað um magn flúors í mosa á svæðum í grennd við Grundartanga vegna þess að slíkar rannsóknir hafa ekki verið gerðar. Stjórn Umhverfisvaktarinnar krefst þess að flúor verði mælt í mosa eins og fyrri vöktunaráætlun gerir ráð fyrir. Mikilvægt er að afla upplýsinga til samanburðar á milli ára. Þungmálmar og brennisteinn hafa verið rannsakaðir í mosa á fimm ára fresti, sem þáttur í fjölþjóðlegu verkefni. Niðurstöður rannsókna verða næst birtar í maí 2011. Nauðsynlegt er að taka þátt í þeim rannsóknum áfram.

Hvað fléttur varðar hafa verið skoðuð hlutföll þekja einstakra hluta á klöppum og þekjubreytingar athugaðar. Fléttuþekjur eru ljósmyndaðar en sýni til flúorgreiningar aðeins tekin á örfáum stöðum. Flúor mældist mjög hátt í fléttum í Stekkjarási í júní 2006. (Ath. mælingin var gerð fyrir mengunarslysið sem varð í ágúst það ár). Flúor mældist þrefalt hærra árið 2006 en árið 2003. Engin mæling var gerð 2009. Í ljósi niðurstaðna þeirra rannsókna sem gerðar hafa verið teljum við fyllstu ástæðu er til að halda áfram mælingum á flúori í fléttum og mæla oftar og víðar en gert hefur verið.

Grasbítar
Stjórn Umhverfisvaktarinnar leggur áherslu á að vöktunarþátturinn „sauðfé“ verði framvegis kallaður „grasbítar.“

Með vísan í grein 5.1. í starfsleyfi Norðuráls krefst stjórn Umhverfisvaktarinnar þess að tekin verði sýni úr beinum hrossa sem hafa verið á beit í grennd við Grundartanga, á skipulegan hátt, eftir því sem þau falla til og flúorinnihald þeirra rannsakað. Ítrekaðar óskir um rannsóknir af þessu tagi hafa verið lagðar fram, en án árangurs. Sams konar rannsóknir þarf að gera á nautgripum sem hafa verið á beit í grennd við iðjuverin.
Stjórn Umhverfisvaktarinnar fer fram á að í vöktunaráætluninni verði skýr ákvæði um að búfjáreigendum, í samráði við Umhverfisstofnun og Matvælastofnun, sé heimilt að kalla til viðurkennda sérfræðinga í dýrasjúkdómum til að rannsaka dýr og senda sýni til rannsókna ef sterkur grunur leikur á að dýrin bíði tjón á heilsu vegna mengunarálags. Hér er bæði um dýraverndunarmál að ræða og öryggismál varðandi matvælaframleiðslu.

Ræktun kræklinga í búrum
Vöktun á þessum þætti verði árviss. Birtar verði niðurstöður einstakra mælinga.

Hávaða- og ljósmengun
Gera þarf rannsóknir á mengun af völdum hávaða og mikillar lýsingar frá Grundartanga. Við rannsóknir á hávaðamengun þarf að taka mið af mismunandi aðstæðum í veðurfari, t.d. hvað varðar vindátt og rakastig.

Viðbragðsáætlun vegna mengunarslysa
Stjórn Umhverfisvaktarinnar vekur athygli á nauðsyn fyrirbyggjandi aðgerða ef mengunarslys verður í iðjuverunum og leggur til að hönnuð verði viðbragðsáætlun fyrir íbúa í nágrenni Grundartanga. Farið verði yfir viðbragðsáætlunina að minnsta kosti tvisvar á ári til að sannreyna gildi hennar. Aðferðin sjálf þarf ekki að vera flókin. Hún getur falist í úthringikerfi þar sem haft er samband við a.m.k. einn einstakling á hverju byggðu bóli í nágrenni iðjuveranna ef hreinsivirki bregðast eða annað óvænt ber að höndum er stefnt getur heilsu manna og dýra í voða. Minnt er á mengunarslys í álverinu í ágúst 2006 í þessu sambandi, en þá liðu margir mánuðir áður en heimamenn fengu einhverjar upplýsingar um það. Viðvörun hefði átt að senda út strax og bilunin varð og rannsaka áhrif slyssins eins fljótt og auðið varð.

Lokaorð
Stjórn Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð væntir þess að tekið verði tillit til framkominna athugasemda við tillögu að vöktunaráætlun vegna iðjuveranna á Grundartanga. Leiðarljós við lokafrágang vöktunaráætlunarinnar hlýtur öðru fremur að vera það að standa staðfastlega vörð um náttúru og umhverfi Hvalfjarðar. Þannig fái náttúra og umhverfi ætíð að njóta vafans þegar upp koma álitamál varðandi vöktun einstakra þátta. Einnig er þess vænst að þeir sem koma að lokafrágangi vöktunaráætlunarinnar hafi ríkulega í huga að öflug umhverfisvöktun veitir þeim sem búa í grennd við iðjuverin aukið öryggi, gerir svæðið álitlegra til búsetu og stuðlar að fjölbreyttara atvinnulífi.

Hvalfirði, 17. febrúar 2011

Virðingarfyllst,

Stjórn Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð