Drykkjarvatn

Um rétt íbúa til hreins drykkjarvatns

Hreint drykkjarvatn er óumdeilanlega ein af grunnþörfum mannsins, þörf sem stundum er vanmetin eða talið svo sjálfsagt að henni sé sinnt að ekki þurfa að eyða á það orðum. Þó er líkami manna um 65% úr vatni og heilinn um 75% vatn.
Við Akrafjall hafa íbúar góðu heilli víðast aðgang að hreinu og góðu drykkjarvatni. Kaupstaðurinn Akranes hefur skorið sig úr hvað þetta varðar. Drykkjarvatn íbúanna er yfirborðsvatn af Akrafjalli, sem safnast í Berjadalsá og er geislað áður en það kemur til neytenda. Þar sem um er að ræða yfirborðsvatn geta verið ýmis efni í því, allt eftir því hvað er að gerast í umhverfinu, efni sem geislun hefur ekki áhrif á. Þegar um mengun í umhverfinu er að ræða fer hluti hennar að sjálfsögðu í vatnið. Dæmi: Að vetri til, meðan snjór liggur á jörð safnast efni úr loftinu í hann. Hvert snjóalagið bætist ofan á annað og efnin safnast fyrir jafnt og þétt. Við og við gerir hláku, stundum asahláku og þá bráðnar snjórinn hratt, rennur undan halla og í læki. Talsvert af vatninu rennur í Berjadalsá. Mælingar á mengandi efnum frá iðjuverunum á Grundartanga eru gerðar í ferskvatni á sumrin, en ekki að vetrarlagi, þegar mest hætta á bráðamengun. Rétt er að nefna að í tillögu iðjuveranna að nýrri vöktunaráætlun er lagt til að mælingum verði fækkað í flestum ferskvatnsám þ.m.t. Berjadalsá og þær aðeins gerðar einu sinni á ári – að sumarlagi.
Stefna stjórnar Faxaflóahafna sf. (þ.m.t. fulltrúar Akraneskaupstaðar og Hvalfjarðarsveitar) er sú að fjölga mengandi fyrirtækjum á Grundartanga, þar sem sameignarfélagið á land. Þeir sem fylgjast með, vita að Umhverfisstofnun hefur reynst stóriðjuverunum fremur þæg og umburðarlynd í eftirliti sínu, stimplað að því er virðist gagnrýnislítið mælingar í umhverfinu – eða samþykkt að sleppa þeim. Dæmi: Mælingar á flúori í fléttum, en það reyndist yfir hættumörkum í Stekkjarási norð-vestan við Grundartanga árið 2006 (mæling gerð fyrir mengunarslysið í ág. 2006). Síðan hefur ekki verið mælt flúor í fléttum svo vitað sé, þó það sé enn á vöktunaráætlun! Hvar er eftirlitið?
Undirrituð gerir sér grein fyrir að með því að brydda upp á þessari umræðu er stigið skref út fyrir „þægindarammann.“ Því miður er ekkert í sambandi við umhverfismengun þægilegt en það óþægilegasta til lengri tíma litið, er að láta sem hún sé ekki til.
Að sumu leyti hefur umræða um mengun frá Grundartanga verið afvegaleidd. Sá sem vogar sér að benda á galla í umhverfisvöktun er jafnvel litinn hornauga og talinn vera á móti uppbyggingu og framförum. Er þetta bergmál af hrunadansi Íslendinga? Erum við ekki komin lengra?
Í síðasta tbl. Skessuhorns, bls. 2 er frétt með fyrirsögninni: „Bið eftir iðnaðarlóðum á Grundartanga.“ Viðmælandi í fréttinni virðist þurfa að koma á framfæri óánægju vegna tafa við úthlutanir lóða og setja hornin í þá sem honum finnst vera að þvælast fyrir. Rétt er að benda á að „tafir“ þær sem hann nefnir eru vegna meintra annmarka á vinnubrögðum í stjórnsýslu Hvalfjarðarsveitar. Ber að skilja það þannig að viðmælandinn sé ekki hrifinn af góðri og réttri stjórnsýslu? Vill hann ef til vill að opinber stjórnsýsla lúti vilja athafnamanna, svipað og átti sér stað fyrir hrun?
Viðmælandi í fyrrnefndri frétt notar hugtakið „endurvinnsla“ þegar vinnsla álgjalls og annars úrgangs frá iðjuverunum á í hlut. Vissulega er um einhverskonar „endurvinnslu“ að ræða en þessi tegund hennar mengar og vinnur þannig gegn heilbrigði umhverfisins. Hún á alls ekki heima í nágrenni opinna vatnsbóla fremur en önnur mengandi starfsemi. Veit viðmælandi þetta ekki, eða er gamla slagorðið „þetta reddast“ hans leiðarljós?
Árið 2007 er liðið. Í ljósi reynslunnar ætti gagnrýnin hugsun að vera efst á baugi. Það er úrelt stefna að æða hugsunarlaust áfram í stóriðjumálum sama hvað það kostar. Við getum lesið í fréttum um ástand Lagarfljóts en það er dæmi um flumbrugang og andvaraleysi sem einkenndi tímabilið fyrir hrun.
Þeir sem eru ennþá kappsamir um uppbyggingu stóriðju ættu að huga að afleiðingum hennar fyrir íbúana og hafa talsverðar áhyggjur, t.d. af vatnsbóli Akurnesinga. Hversu áhrifamiklir sem menn vilja vera þá breyta þeir ekki ríkjandi vindáttum. Austanáttir eru ríkjandi vindáttir á svæðinu. Legu sinnar vegna er Akraneskaupstaður ekki undanskilinn áhrifum frá brennisteini, flúori, þungmálmum og þrávirkum lífrænum efnum s.s. PAH, sem myndast við stóriðjuna á Grundartanga. Hreint drykkjarvatn er nauðsyn. Það er réttur íbúa að öllum vafa sé eytt í sambandi við gæði neysluvatns sem fengið er af yfirborði jarðar.
Mikilvægt er að geta rætt opinskátt um mengun af völdum stóriðju og áhrif hennar á lífríkið. Ekki sæmir menntaðri lýðræðisþjóð að afvegaleiða þessa umræðu og gera þá tortryggilega sem vilja meiri og betri mengunarvarnir iðjuveranna og óháðar mengunarmælingar og eftirlit allan ársins hring.
Ragnheiður Þorgrímsdóttir

(Birt í Skessuhorni 21. sept. 2011)