Atvinnu- og byggðastefna


Um atvinnu- og byggðastefnu Faxaflóahafna sf.

Faxaflóahafnir sf. er sameignarfélag í eigu fimm sveitarfélaga, Reykjavíkurborgar, Akraneskaupstaðar, Hvalfjarðarsveitar, Skorradalshrepps og Borgarbyggðar. Tilgangur félagsins er að sameina rekstur hafna á svæðinu. Einnig vill félagið skapa ný sóknarfæri í uppbyggingu þjónustu og atvinnurekstrar á svæðinu o.fl. (sjá vef Faxaflóahafna sf.)
Vaxandi efasemda gætir varðandi stefnu félagsins og áhrif á atvinnurekstur við Hvalfjörð, nánar tiltekið á Grundartanga, þar sem félagið á ríflega 600 ha. lands. Sem kunnugt er hefur skilgreint iðnaðarsvæði (stóriðjusvæði) nýlega verið stækkað um tæpa 7 ha. vegna þrýsting frá Faxaflóahöfnum, en félagið leigir nú þegar tveimur stóriðjuverum land undir rekstur, Elkem Íslandi og Norðuráli.
Forsvarsmenn félagsins virðast hafa þá skoðun að  „sóknarfærin“  í atvinnulífi við Hvalfjörð séu fólgin í mengandi stóriðju. Frá þeim hafa heyrst þau rök að Grundartangi hafi fyrir löngu verið skilgreindur sem iðnaðarsvæði og það hafi óhjákvæmilega í för með sér einhverja fylgikvilla.
Bændur eru seinþreyttir til vandræða en nú er mælirinn fullur. Sveitarnar við Hvalfjörð eru skilgreindar sem landbúnaðarsvæði og þar hefur verið rekinn búskapur frá landnámi. Þessi rótgróni atvinnurekstur á nú undir högg að sækja vegna mengunar sem er viðvarandi allan ársins hring og hleðst upp á svæðinu. Eru það ásættanlegar afleiðingar af starfsemi iðjuveranna? Hafa allar leiðir verið notaðar til að draga úr mengun? Hefur öllum ráðum verið beitt til að koma í veg fyrir mengunarslys? Eða er það kannski of dýrt fyrir fjárhag Elkem Íslands og Norðuráls?
Bændur eru ábyrgir fyrir framleiðslu sinni, hvort heldur sem er matvara eða lifandi dýr á fæti. Forsvarsmenn sameignarfélagsins Faxaflóahafna ættu að setja sig í spor þeirra og reyna að átta sig á, að sóknarfæri þeirra sem vita ekki hvort þeir eru að framleiða vöru sem stenst gæðakröfur vegna mengunar og hugsanlegra mengunarslysa eru hverfandi lítil. Vill einhver búa við slíka afarkosti?
Ábyrgð á mengunarmælingum vegna iðjuveranna á Grundartanga er sem kunnugt er í höndum forsvarsmanna þeirra, en það setur trúverðugleika þeirra skorður og skapar mikla óvissu. Mikilvægt er að eyða henni. Í ljósi reynslunnar er óhætt að fullyrða að það munu forsvarsmenn iðjuveranna ekki gera. Faxaflóahafnir þurfa að taka frumkvæði og gera allt sem í þeirra valdi stendur til að láta rannsaka umhverfið af sérfróðum og óháðum aðilum. Í því felst drjúg ábyrgð að leigja Elkem og Norðuráli. Sameignarfélagið á ekki að skorast undan ábyrgðinni né skýla sér bak við hlutverk Umhverfisstofnunar, þó sjálfsagt sé að gera til hennar ítrustu kröfur um eftirlit. En þeir sem kynnst hafa, vita að vinnubrögð innan Umhverfisstofnunar virðist á köflum andstæð markmiðum hennar og hún getur verið ansi lengi að taka við sér. Það þarf auðvitað að breytast til batnaðar.
Tilkoma stóriðjuveranna á Grundartanga hefur leitt til þess að a.m.k. tvær bújarðir vestan við iðjuverin hafa orðið ónýtar sem slíkar og þar af leiðandi verðlausar, án þess að nokkrar bætur hafi komið fyrir, svo vitað sé. Almennt er óhætt að reikna með að bújarðir nærri Grundartanga hafi fallið verulega í verði ef þær eru seljanlegar á annað borð. 
Svokölluð „þynningarsvæði“ voru skilgreind vegna starfsemi iðjuveranna, annað vegna brennisteins og hitt vegna flúors. Leitað hefur verið upplýsinga, m.a. til skipulags- og byggingafulltrúa Hvalfjarðarsveitar, um forsendur útreikninga á þynningarsvæðunum, svo og um bætur til þeirra sem eiga land innan þeirra. Hann hefur ekki getað upplýst um málið en vísar á hina svifaseinu Umhverfisstofnun. Stjórn og framkvæmdastjóri Faxaflóahafna virðast koma af fjöllum þegar tal berst að þynningarsvæðum og meintri eignaupptöku vegna þeirra. Mikilvægt er varpa ljósi á þessi mál og að þeir sem orðið hafa fyrir tjóni vegna ákvörðunar um staðsetningu þynningarsvæða fái það bætt.
Faxaflóahafnir hafa greitt arð til sveitarfélaganna fimm. Árið 2010 nam hann 173 millj., þar af var hlutur Reykjavíkurborgar um 130 milljónir. Hluti af arðinum er augljóslega til orðinn vegna leigustarfseminnar á Grundartanga og vöruflutninga vegna stóriðjunnar. Félagið ætti að bíða með arðgreiðslur þar til búið er að rannsaka uppsafnaða mengun í nágrenni Grundartanga í þaula, því það kostar fé. Jafnframt ætti félagið ekki að reyna að halda áfram að „skapa ný sóknarfæri í uppbyggingu þjónustu og atvinnurekstri á svæðinu“ meðan mengun hleðst upp frá stóriðjuverunum.
Það er ósk undirritaðrar að Faxaflóahafnir láti nú þegar hendur standa fram úr ermum og stuðli að því að heildar rannsókn á mengun á svæðinu verði hafin, hvort sem það er lagaleg skylda félagsins eða ekki. Auðvelt er að byrja á að setja upp loftgæðamæla á réttum stöðum, mæla sem mæla mengandi efni í andrúmsloftinu allan ársins hring. Síðan er mjög þarft verk að athuga hvers vegna flúor í andrúmslofti hefur ekki verið mælt yfir vetrartímann (okt.- apr.) árum saman. Hvaða afleiðingar hefur slíkt vítavert kæruleysi haft? Hugsum okkur t.d. opin vatnsból. Fyrir alla muni, ekki treysta leigjendunum á Grundartanga fyrir neinum umhverfisrannsóknum framar.
En ef svo heldur sem horfir með atvinnu- og byggðastefnu Faxaflóahafna er óhætt að reikna með að tími óska og beiðna sé á enda; að framundan sé hörð barátta, barátta íbúa við Hvalfjörð fyrir réttinum til hreins umhverfis, barátta fyrir eignum og afkomu, barátta við fyrirtæki sem er að hluta til í eigu þeirra, en er rekið á grundvelli hörðustu gróðasjónarmiða.
Þó forsvarsmenn Faxaflóahafna virðist ekki hafa áttað sig á aðstæðum, t.d. að það búi fóllk við Hvalfjörð - ekki séð heildarsamhengið í hita leiksins, ættu þeir þó að vita að réttlæti er grundvöllur góðra stjórnunarhátta. Í framtíðinni verðum þeim vonandi kappsmál að hagnaður af rekstri og umsvifum sameignarfélagsins verði ekki á kostnað íbúa í nágrenni Grundartanga, -að fólkið á því svæði þurfi ekki að skapa arð fyrir eigendur Faxaflóahafna með eigum sínum og heilsu.
Ragnheiður Þorgrímsdóttir

(Birt í Skessuhorni 17. ágúst 2011)