Enn um Grundartanga
Þann 28. júlí s.l. lögðu Sigurbjörn Hjaltason bóndi á Kiðafelli og Ragnheiður Þorgrímsdóttir bóndi á Kúludalsá fram stjórnsýslukæru vegna afgreiðslu sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar á umsókn Faxaflóahafna um stækkun iðnaðarsvæðisins á Grundartanga. Kæran er til meðferðar í Innanríkisráðuneytinu. Framkvæmdir verða ekki hafnar á umræddu svæði, skv. niðurstöðu Skipulagsstofnunar, fyrr en ráðuneytið hefur lokið umfjöllun sinni um kærumálið.
Vissulega er hér um áfangasigur að ræða fyrir þann stóra hóp fólks sem vill hreint loft, hreint vatn og hreina jörð í Hvalfirði. Nauðsynlegt er fyrir alla íbúa Hvalfjarðar og alla landsmenn að taka afstöðu til þess, hvernig fjörðurinn á að líta út í framtíðinni; hvort lögmál gróðahyggjunnar eigi að ráða för með tilheyrandi eyðileggingu eða hvort við viljum lifa og starfa í anda sjálfbærrar þróunar. Mengandi stóriðja og sjálfbær þróun fara nefnilega ekki saman og það er ekki hægt að velja hvorutveggja saman, til lengri tíma litið.
Við sem viljum stuðla að sjálfbærri þróun vitum auðvitað að stóriðjufyrirtækin sem nú eru til staðar á Grundartanga eru komin til að vera, a.m.k. um hríð. Við vitum einnig að Elkem og Norðurál menga verulega - allan sólarhringinn - allan ársins hring. Gera verður ítrustu kröfur um mengunarvarnir og mengunareftirlit hjá þeim. Slíkar kröfur eru ekki gerðar nú og fyrirtækjunum hefur verið falið ótrúlegt vald með því að leyfa þeim að bera ábyrgð á mengunarmælingum vegna eigin starfsemi. Fáum sem hugsa málið til enda, dettur í hug að þau geti farið vel með slíkt vald! Það eru gríðarleg verkefni framundan við að mæla mengun eftir þessi fyrirtæki, mengun sem víst er að sér stað í öllum þrepum lífríkisins. Dapurlegt er til þess að hugsa að stefna Faxaflóahafna og sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar sé að bæta við mengunina þó "óverulega" sé að eigin sögn.
Undir flipanum "Stóriðja" hér til hliðar er hægt að lesa kæru Sigurbjörns og Ragnheiðar ásamt fleira efni. Ennfremur er hægt að lesa um málefni Grundartanga á vefsíðu Saving Iceland. Slóðin er http://www.savingiceland.org