05
júl

Loftgæði eru besta gjöfin

Undanfarið hefur staðið yfir mikil ímyndarsköpun af hálfu Norðuráls á Grundartanga. Fyrirtækið hefur stutt ýmsa stóra viðburði á Akranesi og víðar, viðburði sem vekja athygli og sem margir sækja. Ímyndarsköpun fyrirtækisins hefur tengst heilsu og hreysti, hjálpsemi og velvilja. Norðurál vill vera góður granni og taka þátt í samfélaginu af heilindum – eða hvað?

Mörg okkar sem búum við mengun frá iðjuverunum á Grundartanga, höfum fyrir löngu gert okkur grein fyrir að bæði Norðurál og Elkem gætu verið betri grannar. Til marks um það eru mælingar á loftgæðum vegna mengunar frá iðjuverunum, en þau bera sem kunnugt er ábyrgð á þessum mælingum sjálf. Umhverfisvaktin við Hvalfjörð og fleiri hafa farið einarðlega fram á að stöðugar mælingar á loftgæðum verði gerðar á ákveðnum stöðum í grennd við iðjuverin. Ríkjandi vindáttir á svæðinu eru austanstæðar og er tekið mið af því í hugmyndum um staðsetningu loftgæðamælanna. Norðurál og Elkem hafa aftur á móti ekki hlustað á þessar röksemdir, heldur látið setja upp loftgæðamæli austan við verksmiðjurnar.  Halda forsvarsmenn iðjuveranna því fram að slíkur mælir geti mælt alla mengun sem sleppur út, jafnvel í grimmustu austanátt. Þessu trúir aðvitað enginn nema etv. einhver hjá Umhverfisstofnun, en þar með er listinn tæmdur.

Nýverið studdi Norðurál fótboltamót drengja á Akranesi, gaf leikskóla myndarlega gjöf o.fl. Þetta er að sjálfsögðu rausnarlegt, en gera þarf betur. Börn við Hvalfjörð, sem annars staðar, þurfa hreint loft til að anda að sér, hreint vatn til að drekka og hreina jörð til að lifa á. Þegar til lengri tíma er litið skipta þessi undirstöðuatriði lífsins meira máli en allt annað. Það er sjálfsagður réttur bæði núlifandi barna og barna framtíðarinnar að í notkun séu góðir og öflugir loftgæðamælar, rétt staðsettir, sem gefa réttar upplýsingar rafrænt t.d. með tengingu inn á vefi sveitarfélaganna við Hvalfjörð. Með því að setja upp öfluga loftgæðamæla er sýna magn mengandi efna í andrúmsloftinu hverju sinni er verið að leggja grunn að mun öflugra eftirliti með mengun en nú er. Betri „gjöf“ er ekki hægt að gefa börnum við Hvalfjörð en að endurheimta sem mest af þeim loftgæðum sem voru, fyrir daga mengandi stóriðju við Hvalfjörð. Það er hægt - ef vilji er fyrir hendi.

Ragnheiður Þorgrímsdóttir