Vonbrigði með ákvörðun sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar
Með því að samþykkja stækkun iðnaðarsvæðisins á Grundartanga hefur sveitarstjórnarmeirihlutinn í Hvalfjarðarsveit brugðist kosningaloforðum sínum. Hann hefur snúið baki við því fólki sem býr í mengun frá iðjuverunum. Honum finnst greinilega meira virði að fá fleiri krónur í sveitarsjóð en að stuðla að hreinni sveit og búa þannig í haginn fyrir núlifandi og komandi kynslóðir.
Þessi meirihluti hunsar vilja fólksins sem sendi inn athugasemdir við tillögu að stækkun iðnaðarsvæðisins á Grundartanga. Reynt er að gera lítið úr þeim rétt eins og þær séu ekki viljayfirlýsing þeirra sem sendu þær inn! Getur þessi framkoma hugsanlega flokkast undir fyrirbærið valdníðslu (að fara illa með valdið sem manni er falið)?
Hvað finnst ykkur sem treystuð því að hugur fylgdi máli hjá fólkinu sem skipar núverandi meirihluta sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar, - fólkinu sem fór frá bæ til bæjar og frá húsi til húss fyrir kosningarnar í fyrra og boðaði stefnu sína í umhverfismálum?
R.Þ.