07
jún

Athugasemdir við aðalskipulag

Eftirfarandi bréf útbjó stjórn Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð og hafði aðgengilegt á forsíðu vefs Umhverfisvaktarinnar:

Sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar
Sverrir Jónsson oddviti
Innrimel 3
301 Akranesi


Efni: Athugasemdir við tillögu um breytingu á aðalskipulagi Hvalfjarðarsveitar 2008-2020. Stækkun iðnaðarsvæðis á Grundartanga

Ágæti oddviti og sveitarstjórn.
Sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar hefur auglýst breytingu á aðalskipulagi Hvalfjarðarsveitar 2008-2020  samkvæmt  31. gr. skipulagslaga nr. 123 frá 2010. Breytingin varðar stækkun iðnaðarsvæðis á Grundartanga um 6,9 ha.

Að skilgreina svæði sem iðnaðarsvæði merkir að þar má setja mengandi iðnað, jafnvel stóriðju. Stækkun iðnaðarsvæðisins á Grundartanga mun því að öllum líkindum leiða til enn meiri mengunar frá Grundartangasvæðinu í framtíðinni. Þeirri stefnu er hafnað.

Með stækkun iðnaðarsvæðisins á Grundartanga þrengir enn að uppbyggingu annarrar atvinnustarfsemi við Hvalfjörð. Kjós og Hvalfjarðarsveit eru landbúnaðarsvæði og ferðaþjónusta er í mikilli sókn, en báðar þessar atvinnugreinar byggja á hreinu og ómenguðu umhverfi. Aukin mengun við Hvalfjörð vinnur gegn þróun þessara atvinnugreina.

Breyting athafnasvæðis í iðnaðarsvæði og þar með aukin hætta á mengun, mun fæla léttan iðnað og önnur snyrtileg fyrirtæki frá Grundartangasvæðinu í framtíðinni. Vistvæn atvinnutækifæri við Hvalfjörð þurfa næði til að dafna.

Ítrekað hefur verið bent á og rökstutt, að rannsóknir á mengun frá iðjuverunum á Grundartanga, sem eru á ábyrgð forvarsmanna þeirra, gefi ekki rétta mynd af menguninni. Sveitarstjórn er beðin að sanna að þessar ábendingar eigi ekki við rök að styðjast og fjalla um málið á opnum íbúafundi. Íbúar eiga rétt á hreinu andrúmslofti, hreinu vatni og hreinum jarðvegi.


Virðingarfyllst,

maí 2011


                                                                              __________________________________________
                                                                                                 Nafn

                                                                              __________________________________________
                                                                                                               Heimili 

Afrit sent Skipulagsstofnun, Laugavegi 166, 105 Rvk.