Ávarp Ragnheiðar Þorgrímsd.
Ragnheiður Þorgrímsdóttir formaður Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð
Umhverfisvaktin við Hvalfjörð
Á haustmánuðum tók hópur áhugafólks um náttúruvernd í Hvalfjarðarsveit og Kjós að draga sig saman til skrafs og ráðagerða og ákvað að stofna félag til verndar umhverfi og lífríki Hvalfjarðar og nágrennis. Félagið var stofnað að Hótel Glym þann 4. nóvember og hlaut nafnið Umhverfisvaktin við Hvalfjörð.
Aðstandendur eru sammála um að Umhverfisvaktin eigi að vera þverpólitískt afl, þ.e. hún starfi ekki á vegum neinna stjórnmálasamtaka og hún sé opin öllum þeim sem vilja vinna að stefnumálum hennar.
Mikilvægt er að það komi fram við þetta tækifæri að við eigum samtökunum Sól í Hvalfirði mikið að þakka. Þau eru frumkvöðlar í baráttu fyrir náttúruvernd í Hvalfirði og hafa komið miklu áleiðis. Við byggjum að mörgu leyti á þeirra starfi.
Við byrjuðum með tvær hendur tómar, en okkur hefur búnast nokkuð vel. Við fengum 100.000 kr. frá Hvalfjarðarsveit og þær fara til vefsíðufyrirtækja vegna vefsins okkar. Og Kjósarhreppur gaf okkur 85.000 sem við notum til að halda opna fundi. Svo höldum við félagsgjöldum í lágmarki, kr. 1500 á mann a.m.k. fyrsta árið. Rekum í fáum orðum sagt fjármálastefnu hinnar hagsýnu húsmóður. Við gefum að sjálfsögðu alla okkar vinnu og þekkingu, reynum að samnýta bíla þegar við förum á fundi og reynum að kría út ókeypis aðstoð frá okkar fólki. Þetta þýðir ekki að við séum sátt við að vera blönk, en við trúum að batnandi hag.
Baráttumálin
Helstu baráttumál okkar eru:
Að íbúum við Hvalfjörð sé tryggt hreint andrúmsloft, hreint vatn og ómengaður jarðvegur.
Að öll dýr njóti hreinnar náttúru.
Að húsdýrin okkar njóti alls hins besta í aðbúnaði.
Að efla umhverfisvæna atvinnustarfsemi og við höfnum frekari stóriðju við Hvalfjörð.
Að vernda lífríki hafsins.
Að standa vörð um strendur Hvalfjarðar og við vörum við ágangi vegna malartekju af botni fjarðarins.
Að bæta aðgang að upplýsingum um umhverfismál frá stjórnvöldum og fyrirtækjum og að þær séu á mannamáli.
Að efla rannsóknir á náttúru og lífríki Hvalfjarðar. Við teljum að mengunarmælingar vegna stóriðjunnar gefi ekki rétta mynd af stöðunni og forsvarsmenn iðjuveranna eigi ekki að hafa leyfi til sjálfsvöktunar.
Hægt er að lesa um stefnu og starf Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð á Fésbók og á vef okkar, en hann verður formlega opnaður á eftir.
Frá stofnun félagsins höfum við beint athyglinni að mengun vegna stóriðjunnar og teljum brýnasta verkefnið í umhverfismálum vera að bægja henni frá, með öryggi lífríkis og náttúru að leiðarljósi.
Við höfum lagt krafta okkar í fundahöld með þeim sem tengjast stóriðjunni á einhvern hátt. Við höfum fundað með Faxaflóahöfnum en þær eiga landið á Grundartanga og eru með hugmyndir um að koma upp frekar stóriðju á svæðinu. Við höfum fundað með Umhverfisstofnun sem á að veita iðjuverunum aðhald en fylgist ekki nógu vel með að okkar mati. Við höfum fundað með sveitarstjórnum á svæðinu, með áherslu á Hvalfjarðarsveit sem auglýsir nú tillögu að breytingu á aðalskipulagi sínu þannig að hægt sé að stækka iðnaðarsvæðið (stóriðjusvæðið) á Grundartanga. Við höfum einnig fundað með umhverfisráðherra og fulltrúum iðjuveranna á Grundartanga.
Að auka lýðræði og setja náttúruna í öndvegi
Umhverfisvaktin við Hvalfjörð hefði ekki orðið til ef eftirlitsstofnanir væru skilvirkar, ef lýðræðislega kjörnir fulltrúar almennings væru meira vakandi, ef haldið væri rétt utan um mengunarmælingar, ef lýðræðið væri virkara. Það síðast talda hefur orðið mér hvað mest áhyggjuefni. Fyrirkomulagið er þannig að „stofnanir tala saman.“ Almenningur eða samtök hans geta ekki haft bein áhrif á ákvarðanir í umhverfismálum, jafnvel þó þær snerti nánasta umhverfi. Það þarf ekki að taka neitt mark á athugasemdum, álitsgerðum eða áskorunum. Þarna er í raun mikill lýðræðisbrestur og ég skora á umhverfisráðherra að beita sér fyrir lagabreytingum. Einnig vona ég að málið komist á borð stjórnlagaþings og réttur almennings til áhrifa í umhverfismálum verði tryggður í stjórnarskrá.
Við þetta tækifæri vil ég varpa fram hugmynd sem felur beinlínis í sér aukna möguleika almennings til að hafa áhrif: að stofnuð verði Náttúrustofa Hvalfjarðar, að hluta til í eigu Umhverfisvaktarinnar/almennings og að hluta í eigu opinberra aðila. Svona stofnun getur unnið gríðarlega mikilvægt starf fyrir svæðið okkar. Við eigum hér heima mikinn mannauð sem á að nota. Það fólk er í tengslum við umhverfið. Þannig getum við slegið nokkrar flugur í einu höggi. Verið með eftirlitið á staðnum, haft stöðugt eftirlit, hagsmunaaðilar geta unnið saman, allar upplýsingar geta verið uppi á borðinu og ferli mála geta verið stutt og skilvirk.
Hugmyndafræði slíkrar Náttúrustofu þarf að byggjast á virðingu fyrir náttúrunni. Þeirri sýn að við eigum hana ekki. Hún á sig sjálf, algjörlega á sínum forsendum. Þeirri sýn að við menn höfum fengið að vera með í leiknum en höldum ekki um stýrið. Hollt er í þessu sambandi að minnast þess að aldur jarðar er áætlaður 4.500.000000 ár. Til samanburðar spannar saga hestsins um 50.000.000 ára eða 1/90 af sögu jarðarinnar – og maðurinn hann er bara nýlega kominn fram á sjónarsviðið! Hann er þó meira er til í að sitja í húsbóndasætinu. Á sumum menningarsvæðum jarðar, t.d. á okkar menningarsvæði, er sú hugmynd ríkjandi að hægt sé að semja um skaða á náttúrunni og versla með heilbrigði hennar og þar með framtíð jarðar. Í þessari hugmynd birtist ótrúlegur hroki. Slagkraftur náttúrunnar ætti ekki að dyljast neinum sem sem fylgist með fréttum og þegar náttúran reiðir til höggs verður ekki sest að samningaborði.
Eitt af markmiðum Náttúrustofunnar væri að vinna með börnum og leiðbeina þeim í umgengni við náttúruna, í samvinnu við foreldra þeirra. Opna augu þeirra fyrir því að maðurinn getir ekki ráðskast með jörðina, en á aftur á móti allt undir gjöfum hennar. Gaman væri ef Heiðarskóli og Klébergsskóli gætu orðið móðurskólar í náttúruvernd á Íslandi
Hátíð – af hverju?
Nú þegar liðnir eru fimm mánuðir frá stofnun félagsins hefur tekist að búa til tengslanet áhugafólks um hreina náttúru beggja vegna Hvalfjarðar. Máttur samtakanna hefur sannað sig enn einu sinni og Umhverfisvaktin hefur skilað öflugu starfi sem þegar hefur orðið til þess að breyta umræðu um umhverfismál á svæðinu. Þess vegna getum við haldið hátíð nú, en við erum meðvituð um að vinnan er rétt að byrja!
Gleðjumst saman í dag en munum að ekkert kemur til okkar fyrirhafnarlaust og við þurfum að stefna ótrauð að markinu, að eiga aðgang að hreinu lofti, hreinu vatni og hreinni jörð við Hvalfjörð. Það er okkar stóra baráttumál.