Ávarp Sigurbjörns Hjaltasonar

sigurbjrn hjaltason.jpg - 364.44 Kb

Sigurbjörn Hjaltason bóndi, Kiðafelli í Kjós

Frá sjónarhóli íbúa í Hvalfirði

Ég vil byrja á að lýsi ánægju minni yfir stofnun Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð og boðun hennar til þessarar umhverfishátíðar. Stofnendur hennar eiga heiður skilið fyrir að leggja á sig þá vinnu sem Umhverfisvaktinni fylgir.

Ég var hreppsnefndarmaður í Kjósarhreppi þegar undirbúningur fyrir álver á Grundartanga reið hér yfir. Var meðal stofnenda Sólar í Hvalfirði og barðist gegn uppbyggingu álvers hér í firðinum. Ástæðan var einföld; Uppbyggingin gekk gegn hagsmunum mínum sem annarra sem eiga land, stunda landbúnaðarframleiðslu og byggja upp ferðamannaþjónustu í firðinum, auk almennra sjónarmiða um ásýnd og ímynd svæðisins.

Öll þau atriði sem baráttan grundvallaðist á hafa gengið eftir, hafa brunnið á okkar skinni og verið okkur fjötur um fót.

Land með útsýni yfir verksmiðjusvæðið er ekki eftirsóknarvert, flúormengun veldur sí hækkandi gildum flúors í gróðri og beinum grasbíta, og þrátt fyrir áður mikla möguleika í uppbyggingu ferðaþjónustu, er á brattann að sækja í þeirri uppbyggingu vegna veikrar ímyndar fjarðarins.

Það var ofmat okkar, sem stóðum í þessari baráttu, á mætti trúarbragða og heiðarleika, að setja okkur það mark að vera málaefnaleg í andstöðu okkar, benda á afleiðingar, kæra ólöglegar stjórnsýsluákvarðanir og telja að með því væri hægt að breyta framgangi málsins, án öfga.

Vegna þessa ofmats brugðumst við okkur sjálfum, landinu okkar og afkomendum okkar til langrar framtíðar.

Eftir á að hyggja hefði þurft að ganga fram af meiri festu, mæta stórskaðlegum áformum af fullri hörku, hörku sem er utan trúarlegra gilda og svara óheiðarlegum og ólöglegum vinnubrögðum stjórnvalda með óheiðarlegum og ólöglegum aðgerðum.

Okkur var í lófa lagið að grípa til róttækra aðgerða sem hefðu geta orðið til þess að breyta framgangi málsins, t.d. með lokun vegarins um Hvalfjörð, með því að rjúfa rafmagnsflutninga að Grundartanga o.s.frv.

Þetta hefði að vísu þýtt að einhverjir hefðu þurft að sæta ábyrgð og jafnvel að komast ekki til mjalta í einhvern tíma. En hefði það ekki verið þess virði ef hægt hefði verið að stöðva þessi áform? - Áform sem hafa haft svo mikil fyrirsjáaleg áhrif, sem fjörðurinn okkar líður nú fyrir og munu koma niður á komandi kynslóðum.

Af sjónarhóli margra var álversuppbyggingin jákvæð framkvæmd í mörgu tilliti. Ég virði þeirra sjónarmið en ég er ekki í þeirra hópi. Gagnvart mér og mínum hagsmunum og margra annarra var uppbyggingin og rekstur álversins inn í miðju landbúnaðarlandi, í fallegasta firði landsins ekkert annað en skemmdaverk.

Einhver verðmæti kann verksmiðjan að skapa, ekki síst vegna lélegra orkusölusamninga við fyrirtækið. Og hverjir greiða það? Var ekki lofað að landsmenn fengu ódýrara rafmagn vegna sölusamninga við stóriðjuna. Við vitum öll hverjar efndirnar hafa verið í því sambandi. Og hverjir þurfa að greiða niður orkuna sem fer til álversins frá Orkuveitu Reykjavíkur. Ætli viðskiptavinir hennar séu nú einmitt að punga út fyrir henni um þessar mundir og eiga eftir að gera það um langa tíð.

Nú, við gerð nýrrar vöktunaráætlunar er það vilji iðjuveranna að draga úr vöktun og rannsóknum á afleiðingum útblásturs. Það er krafa okkar sem búum hér í firðinum að hvergi verði dregið úr vöktun, heldur að hún verði stóraukin. Við eigum rétt á því að iðjuverin sýni fram á, að útblástur þeirra valdi hvorki íbúunum sjálfum né framleiðsluvörum þeirra skaða.

Það á ekki að vera í verkahring okkar sjálfra að þurfa að sýna fram á að vörur sem við framleiðum innihaldi ekki skaðleg efni eða að gera tilraun til að sannfæra fólk sem vill flytjast til okkar að því sé engin hætta búin.

Nú vitum við, sem reyndar var vitað fyrir, að efnamengun úr útblæstri stóriðjuveranna hefur farið vaxandi og hefur leitt til þess að flúor hefur aukist í gróðri og beinum grasbíta. Þessi staðreynd leiðir það af sér að þeir sem hagsmuna eiga að gæta t.d. bændur í lífrænni ræktun, bændur er stunda hagaleigu og heysölu, verða ósjálfrátt meðvirkir með iðjuverunum. Veigra sér við að ræða um hlutskipti sitt og forðast að vekja athygli á aðstæðum sínum. Það verður til innbyggð þögn til að koma í veg fyrir að athygli beinist að því að hugsanlega geti vörur þeirra verið viðsjárverðar. Þetta er mjög óþægilegt að upplifa. En hver og einn verður að verja lífsviðurværi sitt.

Nú er í undirbúningi að þeir bændur sem stunda fóðurframleiðslu verðir háðir starfsleyfi. Það verður því þeirra að sýna fram á að fóður og beitargróður sem þeir framleiða standist kröfur um efnainnihald. Margir bændur framleiða hey sem fer á markað til hestamanna á Reykjavíkursvæðinu. Búast má við að á einhverjum tímapunkti fram komi grunsemdir um að heyið eða bithagar innihaldi flúor í of miklu mæli, en flúorríkt fóður er mjög skaðlegt eins og alþekkt er. Þá verður það hlutskipti bóndans að sýna fram á hvert efnainnihaldið er.

Í þessu ljósi verður það að vera algjört grundvallaratriði í vöktun með iðjuverunum að víðtækar rannsóknir verði gerðar árlega á framleiðsluvörum bænda en samkvæmt tillögum í nýrri vöktunaráætlun á að draga stórlega úr rannsóknum á grasi og heyfóðri. Það er algjörlega ósættanlegt.

Auk þessa atriðis, þá hefur Umhverfisvaktin við Hvalfjörð gert margar athugasemdir við tillögur iðjuveranna að nýrri vöktunaráætlun og vonandi verður tekið tillit til athugasemdanna.

Við vitum hverskonar uppbygging hefur farið fram hérna megin fjarðar [þ.e. að norðanverðu. Innskot R.Þ.]

En hvernig er ástatt handan fjarðarins?

Þar má helst ekki velta við steini. Af einhverjum undarlegum ástæðum var nánast heill hreppur settur á Náttúruminjaskrá árið 1996 án alls samráðs né vitneskju heimamanna. Náttúruminjaskrá átti að vísu að endurskoða og vinna að nánari útfærslum á fimm ára fresti samkvæmt lögum. En lögunum hefur aldrei verið framfylgt að þessu leiti.

Með þessu móti er heilum hreppi haldið í herkví þ.e.a.s. ef farið væri eftir laganna hljóðan. En með svo víðtækri friðun verður gildi friðunarinnar harla lítið og svæði sem hafa raunverulegt verndargildi líða fyrir. Ekki bætir úr skák að samskipti við Umhverfisstofnun eru ekki með þeim hætti að það veki traust. Afstaða og gögn stofnunninnar breytast með nýjum starfsmönnum og erindum eru ekki svarað. Á þessu þarf að verða breyting.

Því miður hefur Umhverfisstofnun ekki staðið undir væntingum í mörgu tilliti. Lítill vilji eða geta virðist vera til að starfa með einstaklingum og sveitarfélögum og hagsmunaaðilum í umhverfismálum. Stofnunin nýtur takmarkaðs trausts almennings og síðustu uppákomur eru ekki til að auka það. Og hvernig eru samskiptin og eftirlitið gagnvart verksmiðjunum hér í Hvalfirði? Mér hefur virst þau harla lítil og virkt eftirlit í algjöru lámarki.

Ég veit það að við sem eru hér saman komin viljum ganga um náttúru landsins með þeim hætti að hún bíði ekki hnekki á milli kynslóða. En það er óþolandi að eitthvert kerfi sem telur sig hafa drottnunarvald, haldi heilum byggðalögum í herkví einungis vegna þess að lögbundnar endurskoðanir fara ekki fram og vísa ég þar til endurskoðunar á Náttúruminjaskrá. Við skulum líka hafa það í huga að þeir sem missa eignarlönd sín, með réttu eða röngu inn á Náttúruminjaskrá verða fyrir verulegri eignaupptöku, því lítil eftirspurn er eftir landi sem ratar inn á skrána. Og ekki eykst eftirspurn eftir landinu þar sem við blasir fagurblátt spúandi álver, sem spillir umhverfinu og sem þungan nið leggur frá nótt sem nýtan dag dag.

En hversvegna skildi maður vera ergja sig á öllum þessum málum? Ég vona að lítil raunveruleg dæmisaga svari því:

Ég átti eitt sinn nágranna og vin, hann Hjört á Eyri. Hann er nú látinn fyrir mörgum árum þá kominn um nírætt. Þegar menn eru komnir á þann aldur þá verða menn dauðvona og horfast í augu við örlög sín. Hann hafði ekki áhyggjur af því sem koma skyldi, hvorki af afkomendum sínum né auðævum. En þó hafði hann áhyggjur af einu atriði. Og af hverju skyldi hann hafa haft áhyggjur? Jú, að það yrðu sett hross á túnin hans. Hirti þótti vænt um landi sitt. Landið hans var honum allt. Þó hafði hann af mörgu að taka.

Þegar mest gekk á í baráttunni gegn álverinu og útblæstrinum frá járnblendiverksmiðjunni kallaði landlæknir, sem þá var Ólafur Ólafsson, saman á fund hreppsnefndina í Kjósarhreppi og yfirmenn hjá Hollustuvernd ríkisins. Mætti landlæknir með fríðu förunauti, við bændurnir úr Kjósinni komum, auk eftirlitsaðilanna og starfleyfisgjafanna hjá Hollustuvernd.

Skoðanaskipti urðu nokkuð lífleg og gekk landlæknir fast eftir svörum um tilhögun eftirlitsins og um niðurstöður mælinga. En lítið var um svör. Eftir að þetta hafði gengið um hríð og ekki varð lengra komist, varð þögn og beðið var eftir að Ólafur lyki fundinum. Þögnin var þrúgandi. Ólafur var hugsi en sagði svo: Það segja mér svæfingalæknar að sjúklingum í aðgerð líði betur sofandi en vakandi.

Takk fyrir.