Ávarp Sigurðar Sigurðarsonar

sigurur sigurarson.jpg - 362.37 Kb

Sigurður Sigurðarson dýralæknir:

Hreint umhverfi er þjóðargersemi

(Byggt á ávarpi á fundi Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð 10. apríl 2011)

Á þessum síðustu tímum tölum við meira en áður um auðlindir landsins og látum okkur varða um varðveislu þeirra, rétt  landsmanna til að eiga þær óspilltar. Við viljum tryggja þjóðareign á þeim, sjálfbæra nýtingu þeirra, eyða ekki meiru en af er tekið, láta þjóðina og landið njóta arðsins fremur en einstaklinga og hindra flutning arðsins úr landinu. Landið sjálft, landgrunnið, jarðefni ýmiss konar, moldin, ræktað land og gróðurinn á túnum, högum heiðum og hálendi eru auðlindir, sem verja ber gegn eyðingu, ofnýtingu og  spillingu, sömuleiðis vatnið í og á jörðinni, kalt sem heitt og orkan sem því fylgir, orkan í sjávarföllunum, fiskurinn í sjónum.

Ég nefni einnig nokkrar dýrmætar eignir okkar allra, þjóðargersemar, sem við þurfum að verja og varðveita: tungumálið, listaverk huga og handa, náttúruperlur, húsdýrin okkar, kúna, hestinn, kindina, geitina, íslenska hundinn og landnámshænuna.  Allar búa þessar dýrategundir yfir eiginleikum, sem eru á ýmsan hátt einstæðar og ekki til  í hliðstæðum dýrategundum í öðrum löndum. Auk þess  hafa þær  flestar aðlagast íslenskum aðstæðum þannig, að þær eru betur fallnar til að lifa hér en innflutt kyn og aldalöng einangrun og eindregin vörn gegn smitsjúkdómum hefur tryggt hreinleika, hvað varðar smitsjúkdóma en um leið mótstöðuleysi gagnvart smitefnum. Þetta höfum við margsinnis fengið staðfest með gálausum innflutningi karakúlpesta, hestapesta og hundapesta.

Við hugsum ekki  hversdagslega um kirkjuna okkar, sem þjóðargersemi.  Í sögulegu samhengi er hún það samt. Hún hefur  varðveitt þjóðararfinn okkar, huggað fólkið, beint því frá glapstigum yfir á réttar  brautir og örfað til dáða. Að vísu hafa ýmsir þjónar hennar, meira að segja æðstuprestar, gert sitt besta til að spilla trú manna og trausti á þessa dýrmætu stofnun með framferði sínu og allt of margir þeirra hafa vanrækt að nota predikunarstóla landsins til að tala við fólkið á máli sem það skilur. Þeir þora fæstir að tala með beinskeyttum hætti til yfirvalda og segja þeim til syndanna, tala til skálkanna og ræningjanna, sem hafa steypt mörgum í fátækt meðan þeir sjálfir hafa makað krókinn og spillt mannorði landsmanna. Þeir hafa vanrækt að tala til skilanefnda bankanna, sem eiga að hjálpa til að koma fjármálalífinu á réttan kjöl, en nota aðstöðu sína til að raka til sín fé af tómri græðgi og með blessun stjórnvalda. Eru störf þeirra kannske dýrmætari en starf kennarans í grunnskóla? Er ábyrgð þeirra meiri? Þegar á reynir er það ekki nema síður sé. Kirkjan er og verður þrátt fyrir allt þjóðargersemi, ef hún bætir sig. Það þarf hún að gera. Hún þarf að þora. Hún á ekki að láta neitt mannlegt vera sér óviðkomandi. Meira að segja flúorskýið, sem svífur yfir Akrafjalli og Esjunni og inn allan Hvalfjörð á reykferju stundum. Hallgrímur Pétursson, sem bjó hér á Ferstiklu þorði að segja yfirvöldunum til syndanna. Hugsum til þess, þegar við lesum passíusálmana um páskana. Mig langar loks að nefna þjóðargersemi, arf, sem við flest höfum verið svikin um –kvæðalög, stemmur -.  Það á vel við að tala um þær hér í þessu héraði á þessum stað, þar sem Sveinbjörn Beinteinsson allsherjargoði lifði  og dó. Hann átti stóran þátt í að kynna rímnalögin, stemmurnar og bjarga þeim til framtíðar, þegar menn hæddu og hlógu að þeim mönnum, sem fengust við svoddan iðju. Hann hvílir í kristnum reit hérna neðan við veginn í Saurbæ með vettlingum sínum og pípu og tóbakspung.

Hreinleiki umhverfisins, lofts, jarðar, vatns og sjávar, mengunarleysi í íslensku umhverfi er þjóðargersemi. Það má samlíkja mengun hugarfarsins og mengun umhverfisins, Hvort tveggja er af manna völdum, hvort tveggja er hægt að tempra, jafnvel uppræta, ef nægilegt fjármagn, en þó fyrst og fremst, ef nægur vilji er fyrir hendi – Vilji er allt sem þarf- var einu sinni sagt. Það er satt sem fyrr. Það er verið að virkja orku landsins með ýmsum hætti, sem sjálfsagt er. Hófstilling og gát er nauðsyn í því sem öðru. Borað er eftir orku í heitum æðum í jörðinni. Upp  gýs brennisteinsvetni með gufunni, brennisteins úr djúpu díki. Það er heilsuspillandi í miklum styrk, hættulegt fyrir fólk, einkum börn, gamalt fólk, þá sem eru með viðkvæm lungu. Það hefur áhrif á skepnur og gróður.  Fleiri efni í jarðgufum eru eitruð eins og kvikasilfur, arsen, þeim mun hættulegri, sem styrkur þeirra er meiri. Sem betur fer er styrkur eiturefna  óvíða heilsuspillandi fyrir fólk ennþá, þar sem óhollar gufur liggja ekki dögum saman yfir byggðum, heldur dag og dag í senn í vissum áttum og við ákveðnar aðstæður. Það er sagt að hægt sé að hreinsa óholl efni úr gufunum nær algjörlega. Gott er það, ef satt er, gott er það, ef það er viðráðanlegt vegna kostnaðar. Gott væri, að það yrði gert. Eru í gangi rannsóknir í þessu skyni á öllum sviðum? Ef tæknin er til mætti hreinsa óholl efni úr gufum, sem streyma nú frá þeim virkjunum, sem teknar hafa verið í notkun. Við spyrjum og óskum svara við því, hvort hreinsuð verður sú mengun, sem þegar er í lofti frá orkuveitum, sem við finnum fnykinn af í stærsta þéttbýlissvæði landsins, fnyk frá Hellisheiðarvirkkjun og Nesjavalla, sem gæti haft óholl áhrif á öndunarfæri þeirra, sem veikir eru og viðkvæmir og eiturefni, sem setjast í líkama íbúanna. Nú er farið að nálgast hættumörk suma daga við ákveðnar aðstæður. Við Hvalfjörð, Hveragerði, Ísafjörð, Eyjafjörð, Kirkjubæjarklaustur, Vestmannaeyjar, er um að ræða mengun, sem er hættuleg gagnvart hollustu matvæla og fóðurs, gaghnvart trúverðuleika heilbrigðisstofnana, eftirlitsaðila, umhverfisstofnunar og umhverfisráðuneytis.  Öll viðbót er hættuleg fyrir framtíðina. Eftirlitsaðilar hafa brugðist og munu gera það nema íbúar standi á vakt. Umhverfisráðherrann þarf að standa fast í fætur fyrir okkur. Þakka má staðfestu hennar í vörninni, þrátt fyrir harkalega og ósanngjarna gagnrýni,  oft af hálfu gróðaaflanna. Þar er um líf og heilsu fyrir fólkið og dýranna að tefla, þegar til lengri tíma er litið.

Ég hefi fylgst með verksmiðjum hér á landi og erlendis af öðrum toga um áratuga skeið til dæmis álverksmiðjum.  Mengunarefni, sem hættulegast er við þá iðju er flúor. Hvers vegna draga þeir lappirnar, sem treyst er til að standa í fararbroddi þar? Hvers vegna skoða þeir ekki kindurnar, sem þegar eru farnar að sýna einkenni um eitrun? Af kerjum, sem sífellt þarf að skipta um er margvísleg mengunarhætta. Hvers vegna skal draga úr eftirlitinu í stað þess að efla það?  Hvers vegna skal mengunarvaldurinn líta eftir sjálfum sér? Hvers vegna eru hestamenn hálf sofandi gagnvart stóðhestagirðingunni undir verksmiðjuveggnum, þar sem dýrmæt gæðingsefni framtíðar fæðast og alast upp? Sveitarstjórnir og íbúar við Hvalfjörð þurfa að hafa fulla meðvitund um hættu af mengandi iðju?

Flúor keppir  við kalkið, sest í tennur og bein, ryður kalkinu til hliðar, veikir beinin, ef mengunin er mikil. Góður búnaður er til, sem hreinsar flúor úr verksmiðjugufunni að miklu leyti. Hvað gerist, ef búnaðurinn bilar? Það hefur gerst. Þá hellist óþverrinn yfir gróður, skepnur og fólk í umhverfinu. Hvað gerist, ef bilunin uppgötvast ekki í tæka tíð, eða, ef þagað er yfir slysinu? Það hefur líka gerst. Afleiðing þess er eitrun, sem kemur í ljós eftir nokkurn tíma, jafnvel nokkur ár, ef magnið er ekki mjög mikið. Varnarbúnaður getur bilað og mannleg mistök orðið. Þá er voðinn vís. Mín niðurstaða er sú að slíkar verksmiðjur eigi ekki að reisa í grennd við mannanbústaði og búskaparlönd. Dokum við og athugum, hvaða áhættu við erum að taka og hverju við viljum fórna fyrir ágóðann og látum á það reyna, hvort hreinsa má óholl efni burtu, hvort það er framkvæmanlegt og hvort það verður gert, áður en hafist er handa um stækkun. Mikilvægast af öllu, er þekking íbúanna og samstaða um að verja gersemar sínar. Þess vegna erum við hér.