Ávarp Gunnars Hersveins

Gunnar Hersveinn rithöfundur:

Nægjusemi - nauðsynlegt skilyrði sjálfbærni
Hugtakið sjálfbærni er um þessar mundir eitt af þjóðgildum Íslendinga. Það er títtnefnt á fundum og er líklegt til að koma við sögu í næstu stjórnarskrá. Sjálfbærni gefur til kynna að rétt sé staðið að málum og af þeim sökum vilja ýmsir (mis)nota hugtakið, jafnt íhaldsmenn sem framfarasinnar. Svo rammt kveður á um misnotkun orðsins að það jafnast á við notkun á hugtakinu framför: sá sem ekki er með stórgerðum framkvæmdum er á móti framförum.
Hugtakið nægjusemi er hins vegar ekki eitt af þjóðgildunum og er sjaldan nefnt sem eftirsóknarverð íslensk dyggð. Fremur er hvatt til óbilandi bjartsýni og að takast á við lífið af (náttúrulegum) krafti, þrautseigju og dirfsku. Það teljst fremur óþjóðlegt að hugsa sig um, neita sér um og að velja eitthvað af kostgæfni. Hér verður leitast við að skýra hvers vegna nægjusemi er nauðsynlegt skilyrði sjálfbærrar þróunar.


I. Sjálfbær þróun
Breytingar eru ekki til hagsældar nema menn temji sér nægjusemi gagnvart umhverfinu. Markmið sjálfbærrar þróunar er hagsæld og jafnvægi milli mannlífs og umhverfis. Náttúran býður upp á gæði en auðlindir hennar eru sjaldnast óþrjótandi.
Lífið nemur ekki staðar, lífverur hafa áhrif til breytingar. Sjálfbær þróun er aðferð sem hefur það að markmiði að næstu kynslóðir eigi óskerta möguleika til að þroskast og dafna við svipuð skilyrði og fyrri kynslóðir.
Engin kynslóð getur skilað umhverfinu af sér eins og hún tók við því, líf merkir breytingar. Nægjusemi snýst ekki um að varðveita gamlagróna lífshætti og fátækt. Hún merkir ekki afturhvarf til fortíðar heldur kveður hún á um heillavænlega framtíð. Hún er aðferð til að nálgast gæði á sjálfbæran hátt. Hún stillir hug, lægir vitund og róar hjartað til að ná árangri.
Viðhorfið snýst um mannlega viðleitni sem nýtir auðlindir á hófsaman hátt til að fullnægja þörfum samtímans og án þess að það bitni á næstu kynslóð. Markmiðið sjálfbærni er að möguleikar til búsetu og lífs séu ekki verri en áður, heldur betri ef eitthvað er.
Eyðilegging á svæði sem án sér engar eða fáar hliðstæður í veröldinni er ekki einkamál landeiganda, sveitafélags eða þjóðar heldur verknaður gagnvart öllum þjóðum. Ef, til að mynda, lífríki (Þingvalla)vatns er án hliðstæðu í heiminum ber okkur skylda til að beita allri okkar þekkingu og verkviti til að svo verði áfram og koma í veg fyrir verk heimskunnar.


II. Nægjusemi
Nægjusemi er lærð dyggð. Sjálfbærni er lærð aðferð. Nægjusemi er nauðsynlegt skilyrði sjálfbærrar þróunar. Sá sem vill efla sjálfbærni með þjóðinni, hefur mál sitt á því að kynna nægjusemi til sögunnar því hún er svarið við aga- og taumleysi sem skamm- og þröngsýni býður oft upp á. Nægjusemi er samvinnudyggð.
Nægjusemi er agi. Hún felst í því að virkja óbeislaðar langanir, hvatir og athafnasemi þar sem hugsunarleysi ræður för og ekki er spurt um afleiðingar. Sjálfbærni er af sama toga, hún er þróuð aðferð til að hemja gegndarlausa græðgi sem veldur eyðileggingu og dauða.
Ekki vantar auðlindirnar á Íslandi eða orkuna – aðeins siðvitið, þolinmæðina og hófstillinguna. Nægjusemi er dyggðin sem breytir fólki til betri vegar í umhverfismálum. Hún merkir ekki stöðnun eða afturför, heldur þvert á móti hagsæld.
Nægjusemi felst í því að velja úr öllu því sem stendur til boða og þeim löngunum sem menn vilja fullnægja. Hún hefst handa á því að fækka valkostum og sinnir síðan þeim vel sem valdir eru. Græðgin er andhverfan, hún er þess ekki umkomin að velja úr, hemur ekki langanir sínar og glatar loks öllu.
Samfélag verður ekki sjálfbært og framkoman við vistkerfið ekki heilbrigð og þróunin ekki vænleg fyrr en viðleitni mannanna verður hófstillt og tillitssöm og virðing  borin fyrir náttúrunni: lífríkinu og landslaginu. Þjóð sem getur tamið sig í góðæri og staðist freistingar er lofsverð og þjóð sem stenst freistingar um að selja undan sér á krepputímum vinnur afrek.
Einkenni þeirra sem vilja fara aðrar leiðir er að segja að ákvarðanir þurfi að taka skjótt, engan tíma megi missa því annars glatist ómetanlegt tækifæri. Nauðsynlegt sé að selja verðmæti Íslands umsvifalaust annars tapist milljarðar, því enginn vilji kaupa á morgun og fátækt blasi við. Áróðurinn styður sig við óttann og teflir honum stíft fram. Hrætt samfélag gæti því selt landið án þess að taka eftir því.


III. Nauðsynlegt skilyrði
Hugtakið sjálfbærni er oftlega misnotað af þeim sem engan áhuga eða skilning hafa á sjálfbæru samfélagi. Oft er það þannig að „andstæðingurinn“ tileinkar sér hugtökin til að eyðileggja þau. Fullyrt hefur verið til að mynda, að landshluti verði sjálfbær þegar fallvötn og jökulár hafa verið virkjuð og álver risið. Þá verði næg atvinna og fólk geti haldið áfram að búa á svæðinu. Það verði engum háð og því sjálfbært. Þarna er hugtakið einungis tengt við atvinnuskilyrði manna en ekki náttúru, lífríki eða mannlíf og efnahag í víðtækum skilningi. Þetta er ótæk notkun á hugtakinu.
Hvert svæði þarf að ræða út frá ýmsum rökum og gæðum, til að mynda búsetu, fegurð, siðfræði, hagfræði, lífræði, tilfinningum og ýmsum vísindum. Meta má svæði út frá undrun ferðamanna eða þeirri rósemd sem svæðið skapar og áhrif þess á heilsu. Nýting og sala á svæðinu gegn greiðslum er aðeins ein aðferð sem oft hefur í för með sér óafturkræf áhrif og tekur ekki mið af næstu kynslóðum. Hún er því ekki sjálfbær.
Sjálfbærni er aðferð þar sem að engu er óðslega farið. Hún er ekki óútreiknanleg, djörf, agalaus eða harkaleg, heldur mild, hæg og vinaleg í samskiptum við aðrar þjóðir, lífverur og umhverfið. Staðir, þar sem aðferðinni er beitt, leggjast ekki í auðn, heldur þróast þeir með íbúum sínum í sátt við vistkerfið. Sjálfbærni krefst samvinnu milli þeirra sem hlut eiga að máli, hún spyr um hlutskipti mannsins út frá fortíð og framtíð en ekki aðeins nútíð.
Sérkenni nægjusemi og sjálfbærni eru agi, varkárni og val byggt á ígrundun og gögnum. Einkenni þeirra er yfirsýn, þverfagleg nálgun, fjöldi sjónarhorna og samráð við hagsmunaaðila. Kostir nægjusemi og sjálfbærni er að í þeim felst taumhald og mildi. Þau draga úr hraða og líkum á mistökum og heimsku.
Nægjusemi og sjálfbærni eru skjaldbakan sem kemst þótt hægt fari. Sá sem kann sér ekki hóf er horfinn af sjónarsviðinu þegar hinn hófsami telur sig reiðubúinn til að stíga fram og láta að sér kveða. Annar er uppbrunninn, útrunninn, gufaður upp, sprunginn blaðra. Hann var illa undirbúinn og gráðugur. Hinn kemur í mark,  þó ekki undir lófaklappi, því hann ætlaði engan að sigra.