Lög
Lög Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð
1. grein
Félagið heitir Umhverfisvaktin við Hvalfjörð. Heimili þess og varnarþing er heimili formanns félagsins, í Hvalfjarðarsveit eða Kjós.
2. grein
Félagar geta þeir orðið sem hafa áhuga á náttúru- og dýravernd, vilja stuðla að góðri umgengni um Hvalfjörð og í nágrenni hans og rækta virðingu fyrir lífríkinu meðal íbúanna.
Inntökubeiðni skal vera skrifleg og öðlast umsækjandi full félagsréttindi þegar stjórn félagsins hefur samþykkt hana. Inntökubeiðni skal bera upp á næsta löglega félagsfundi til staðfestingar. Félagar 18 ára og yngri hafa hvorki kosningarétt né kjörgengi.
3. grein
Hlutverk félagsins er:
a. að stuðla að verndun lífríkisins við Hvalfjörð, jafnt í sjó, lofti og á landi.
b. að vinna að faglegri upplýsingaöflun með aðstoð sérfræðinga.
c. að efla fræðslu um umhverfismál almennt og leiðir til úrbóta.
d. að fylgjast með mengunarvörnum á svæðinu og gera tillögur til úrbóta eftir því sem þurfa þykir.
e. að vera góð fyrirmynd í orði og verki.
4. grein
Reikningsár félagsins er almanaksárið. Tekjuöflun til nauðsynlegra verkefna skal ákveða á hverjum aðalfundi samkvæmt áætlun fyrir næsta ár. Félagsgjöldum skal haldið í lágmarki og skulu þau ákveðin á aðalfundi. Eindagi félagsgjalda skal vera 1. apríl. Sé árgjald ógreitt í árslok fellur félagsaðild viðkomandi sjálfkrafa niður og það tilkynnt á næsta aðalfundi. Viðkomandi getur ekki öðlast félagsréttindi á ný nema eldri skuld sé greidd. Óski félagsmaður annars eftir úrsögn úr félaginu skal það gert skriflega til stjórnar félagsins.
5. grein
Stjórn félagsins skipa fimm menn, formaður, varaformaður, gjaldkeri, ritari og meðstjórnandi. Formaður skal kjörinn sér, en að öðru leyti skiptir stjórnin með sér verkum. Skulu stjórnarmenn kosnir á aðalfundi til tveggja ára í senn. Ganga þeir úr stjórn þannig að ritari og varaformaður ganga úr eftir eitt ár á fyrsta kjörtímabili. Formaður, meðstjórnandi og gjaldkeri ganga úr eftir tvö ár en eftir það helst röðin óbreytt þannig að annað árið eru tveir í kjöri, hitt þrír. Þá skal einnig kjósa þrjá varamenn og tvo skoðunarmenn reikninga til tveggja ára í senn.
Formaður er fulltrúi félagsins út á við og hefur umsjón með störfum félagsins nema annað sé ákveðið. Stjórnin boðar félagsfundi. Formaður stýrir fundum en varaformaður í forföllum hans. Í fundarboði skal tilgreina fundarefni. Ritari varðveitir bækur og skjöl félagsins og skrifar gerðarbók á fundum. Gjaldkeri hefur fjárreiður félagsins með höndum, annast innheimtu og greiðslur sem samþykktar eru af stjórnarmönnum.
6. grein
Félagsfundir skulu haldnir svo oft sem þurfa þykir eða ef þriðjungur félagsmanna eða fleiri óska þess og tilgreina fundarefni. Fundur skal boðaður með minnst fimm daga fyrirvara (sjá þó 7. grein) og telst hann lögmætur ef löglega er til hans boðað. Ályktun lögmæts félagsfundar verður ekki breytt milli aðalfunda.
7. grein
Aðalfund skal halda árlega, eigi síðar en 15. nóvember, samkvæmt ákvörðun stjórnar. Skal hann boðaður bréflega með minnst viku fyrirvara. Dagskrá aðalfundar skal vera:
1. Innganga nýrra félaga
2. Skýrsla stjórnar
3. Reikningar félagsins lesnir upp og þeir bornir undir atkvæði.
4. Kosning stjórnar og skoðunarmanna reikninga.
5. Tillaga að verkefnum næsta árs.
6. Önnur mál.
8. grein
Lögum félagsins verður ekki breytt nema á aðalfundi og tveir þriðju greiddra atkvæða samþykki breytinguna.
Tillögur um lagabreytingar skulu kynntar með aðalfundarboði.
9. grein
Ef slíta skal félaginu verður það að gerast á lögmætum félagsfundi og verða minnst tveir þriðju mættra félagsmanna að samþykkja slíka áætlun. Við slit á félaginu skulu eignir þess renna í sérstakan verndunarsjóð fyrir lífríkið við Hvalfjörð, og setur síðasta stjórn skipulagsreglur um meðferð sjóðsins í samráði við Landvernd.
10. grein
Lög þessi öðlast gildi með samþykki meirihluta félaga á stofnfundi Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð, að Hótel Glym í Hvalfirði, 4. 11. 2010.