Athugasemdir við deiliskipulag

Umhverfisvaktin við Hvalfjörð hefur sent sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar athugasemdir við tillögu að breytingu á deiliskipulagi á Grundartanga.

Athugasemdirnar, sem sendar voru Sverri Jónssyni oddvita eru á þessa leið:


"Efni: Athugasemd við vinnubrögð og stefnu meirihluta sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar í skipulags- og umhverfismálum sbr. tillögu um breytingu á deiliskipulagi athafnasvæðis, athafna- og hafnarsvæðis og iðnaðarsvæðis á Grundartanga vestursvæði samkvæmt 43. gr. skipulagslaga nr. 123 frá 2010.


Stjórn Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð vísar í auglýsingu á vef Hvalfjarðarsveitar dags. 18. maí og gerir alvarlega athugasemd við að auglýst sé tillaga um breytingu á deiliskipulagi við aðalskipulag, sem ekki hafði verið samþykkt þegar auglýsingin um deiliskipulagið var birt. Ekki er um minniháttar skipulagsbreytingu að ræða (sbr. 43. gr. laga nr. 123 frá 2010), sé litið til tengingar tillögu um breytingu á deiliskipulagi, við nýlega samþykkta tillögu um breytingu á aðalskipulagi á Grundartanga. Því hlýtur að teljast vafasamt að þessi gjörningur meirihluta sveitarstjórnar sé lögformlega réttur.

Stjórn Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð lýsir yfir andstöðu við allar skipulagsbreytingar sem lúta að því að greiða fyrir mengandi iðnaði á Grundartanga, þ.m.t. framkominni tillögu að breytingu á deiliskipulagi. Meirihluti sveitarstjórnar ætti að hafa gert sér grein fyrir að sú ályktun, að ekki sé þörf á umhverfismati vegna viðbótar við mengandi iðnað á Grundartanga, byggir á niðurstöðum mjög svo hlutdrægra og brotakenndra mengunarmælinga, í umsjón forsvarsmanna iðjuveranna á Grundartanga, sem bera ábyrgð á mælingum á mengun vegna eigin starfsemi.

Mikill styrr hefur staðið um nýlega samþykkta tillögu um breytingu á aðalskipulagi á Grundartanga. Meirihluti sveitarstjórnar virðist hafa verið fyrirfram ráðinn í að hafa hinar fjölmörgu athugasemdir hagsmunaaðila við breytingu á aðalskipulagi á Grundartanga að engu.

Það er hneisa að meirihluti sveitarstjórnar skuli ganga á bak orða sinna í umhverfismálum og gerast handbendi gróðahyggjunnar á kostnað velferðar íbúanna við Hvalfjörð. Ýmsar bókanir einstaklinga innan meirihlutans í sveitarstjórn er tengjast afgreiðslu á tillögu um breytingar á aðalskipulagi Grundartanga, munu engu breyta þegar kemur til kastanna að koma upp nýjum mengandi fyrirtækjum á svæðinu. Þessar bókanir, sem trúlega eru til þess gerðar að firra viðkomandi sveitarstjórnarmenn ábyrgð á gerðum sínum, hljóta að teljst í meira lagi einfeldningslegar.

Nánar verður fjallað um framkvæmd atkvæðagreiðslu sveitarstjórnar, dags. 14. 6. 2011, um tillögu að breytingu á aðalskipulagi á Grundartanga, í sérstöku erindi.

Hvalfirði, 29. júní 2011

Stjórn Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð,
Ragnheiður Þorgrímsdóttir form.


Afrit sent Skipulagsstofnun"