Frá Sigurbirni Hjaltasyni

 A. Athugasemdir við tillögu að breytingu á deiliskipulagi athafnasvæðis, athafna- og hafnarsvæðis og iðnaðarsvæðis á Grundartanga, vestursvæði.

B. Athugasemd vegna stjórnsýslu sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar

C. Kæra vegna ólöglegrar förgunar úrgangs í flæðigryfju á Grundartanga og kvörtun vegna viðbragða Umhverfisstofnunar.

A:

Sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar
Sverrir Jónsson oddviti
Innrimel 3
301 Akranesi

 

Kiðafelli, 28. júní 2011

 

Efni: Athugasemdir við tillögu að breytingu á deiliskipulagi athafnasvæðis, athafna- og hafnarsvæðis og iðnaðarsvæðis á Grundartanga, vestursvæði.

Sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar hefur auglýst breytingu á deiliskipulagi athafnasvæðis, athafna- og hafnarsvæðis og iðnaðarsvæðis á Grundartanga vestursvæði samkvæmt 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.      
Tillagan er sögð í samræmi við gildandi aðalskipulag Hvalfjarðarsveitar 2008-2020 og tillögu að breytingu á aðalskipulagi Hvalfjarðarsveitar 2008-2020 stækkun iðnaðarsvæðis á Grundartanga, sem var í auglýsingaferli til 23. maí 2011.

Það skal ítrekað að undirritaður telur að við afgreiðslu sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar á tillögu að breytingu á aðalskipulagi á 109. fundi sínum varðandi framangreint mál hafi varamaður tekið sæti í sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar með ólögmætum hætti og er það krafa undirritaðs að atkvæði hans falli dautt og ómerkt, en að öðru leyti standi atkvæðagreiðslan og verði niðurstaða fundarins í samræmi við það þ.e.a.s. að tillagan hafi verið felld á jöfnu.

Leitað verður úrskurðar ráðuneytis innanríkismála við úrlausn álitaefnis þessa.

Af því gefnu að niðurstaðan verði undirrituðum í vil, er ekki tilefni til af hálfu sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar að fjalla um og því síður að afgreiða deiliskipulagstillögu sem nú er til umfjöllunar.

Undirritaður gerir alvarlega athugasemd við málsmeðferð á auglýstu deiliskipulagi. Samkvæmt 41. grein skipulagslaga skal aðalskipulagsbreyting auglýst áður eða samhliða ef tillaga að deiliskipulagi er ekki í samræmi við aðalskipulag.

Dregið er í efa að sveitarstjórn sé heimilt að auglýsa deiliskipulagstillögu á kynningartíma tillögu að breytingu á aðalskipulagi. Annað hvort þarf að afgreiða tillögu að breytingu á aðalskipulagi fyrir auglýsingu á breytingu á tengdu deiliskipulagi eða hinsvegar að auglýsa báðar tillögurnar samhliða eða í það minnsta að afgreiða þær samhliða.

Með því að sveitarstjórn samþykkir og auglýsir deiliskipulagstillögu á kynningartíma aðalskipulagstillögu tekur sveitarstjórn afstöðu til þess að aðalskipulagstillagan fái framgang hvað sem öllum athugasemdum líði. Varð það reyndar raunin að ekkert var gert með hinar fjölmörgu athugasemdir sem bárust við aðalskipulagsbreytinguna.

Þessi málsmeðferð er ekki í samræmi við skipulagslög samkvæmt ofanrituðu né þess réttar sem almenningi er tryggður til að hafa áhrif gerð skipulags. Á þetta mun reyna á vettvangi Umhverfisráðuneytisins.

Varðandi deiliskipulagstillöguna, sem auglýst var með meintum ólögmætum hætti eru settar fram eftirfarandi athugasemdir:

Tillagan er önnur (2.) breytingartillagan frá upphaflegu deiliskipulagi. Gríðarmiklar breytingar hafa verið gerðar við upphaflega tillögu og skipulagssvæðið stækkað um á annað hundrað hektara. Tillagan sem nú er kynnt, hvað varðar texta, er í aðalatriðum endurtekning á fyrri skilmálum, þrátt fyrir að umfang svæðisins hafi aukist gríðarlega.

Fram kemur í greinargerð að engum lóðum undir hafnsækna iðnaðarstarfsemi sé  til að dreifa á Grundartanga. Það þarf engum að koma á óvart, því slík landflokkunarskilgreining er ekki til innan skipulagslaga- og reglugerðar. Hinsvegar er óráðstafað land undir iðnað fyrir hendi á Grundartanga. Fram kemur að Skipulagsstofnun lítur svo á að t.t. iðnaðaruppbygging eigi að vera á slíkum svæðum. Er ekki skynsamlegt að nýta það svæði sem þegar er samþykkt í nýsamþykktu aðalskipulagi frekar en að gera nýtt iðnaðarsvæði sem engin sátt verður um.

Í stefnumörkun aðalskipulags kemur fram að gera eigi grein fyrir vöktunaráætlun í greinargerð deiliskipulags varðandi t.t. umhverfisþætti og mótvægisaðgerðir. Til að komast hjá málalengingum þá vísast í aðalskipulag Hvalfjarðarsveitar með von um að skipulagshönnuður og skipulagsnefnd kynni sér það og geri viðeigandi úrbætur.

Ekki er fullnægjandi og algjörlega fráleitt að vísa í væntanlegra umhverfisstefnu Faxaflóahafna í þessu sambandi. Þessi atriði skulu koma fram í deiliskipulagi.

Hvergi er gerð grein fyrir hvaðan orka á að koma inn á svæðið eða frárennslismálum, vatnsnotkun og vatnsöflun og ýmsum þeim þáttum sem  gerð er krafa um í nútíma deiliskipulagstillögum. Þessu þarf að svara í deiliskipulagi.

Samkvæmt aðalskipulagi Hvalfjarðarsveitar á að hafa að leiðarljósi að umgengni og nýting lands sé til fyrirmyndar og dregið verði úr mengun og neikvæðum umhverfisþáttum. Hvernig samræmist það þeim framkvæmdum sem felast í tillögunni?

Verður auglýst deiliskipulagstillaga að teljast algjörlega ófullnægjandi, ekki síst í því ljósi að áformaður er þungur iðnaður sem verður þó undir þeim mörkum að kalla á umhverfismat. Þrátt fyrir að umhverfismat verði ekki tilskilið má vænta verulegra umhverfisáhrifa sem kynna þarf almenningi á skipulagsstigi.

Því miður læðist sá grunur fram í hugskoti manns, og að fenginni reynslu, að reynt sé að blekkja almenning með framsetningu tillögunnar. Látið er í veðri vaka að   t.t. verksmiðja sé ekki umhverfismatsskyld og ekki þurfi raforku til að knýja hana. Það læðist sá grunur að manni að á síðari stigum komi í ljós, vegna breytinga, að framkvæmdin verði matskyld og að ekki verði aftur snúið enda t.t. svæði skilgreint sem iðnaðarsvæði. Það hefur sýnt sig að öllu má breyta, taka þarf mismörg skref til að ná settu marki og sneiða hjá að athugasemdum almennings.

Þá liggur fyrir að hvergi kemur fram að innan skipulagssvæðisins er starfrækt urðun sorps frá iðjuverunum á Grundartanga sem er hluti af starfsleyfi þeirra.

Undirritaður býr handan Hvalfjarðar þar sem hann stundar landnytjar og er eigandi jarða. Vegna þeirrar uppbyggingar sem fram hefur farið á Grundartanga telur hann sig hafa orðið fyrir verulegum búsifjum. Þekkt er að flúor í beinum grasbíta hefur margfaldast og er komið upp fyrir þau mörk að geta valdið tannskemmdum. Hefur það leitt til þess að tortryggni gætir um hreinleika afurða,gæði beitilands og almenna ímynd. Hávaði frá svæðinu veldur verulegri skerðingu á lífsgæðum, ekki síst á góðvirðisdögum. Þá  hefur það sýnt sig að eftirspurn eftir landi þar sem Grundartangi blasir við er engin og landið því verðlítið.

Algjörlega er óásættanlegt í þessu ljósi að fallast á frekari iðnaðaruppbyggingu á Grundartanga. Áskilur undirritaður sér bótakröfu á hendur sveitarfélaginu fái mál þetta framgang. Þá er það áleitin hugsun hvað vakir fyrir sveitarfélaginu Hvalfjarðarsveit að vilja enn auka á mengandi starfsemi í sveitarfélaginu, til höfuðs íbúum í Hvalfirði og þeirri atvinnu sem þeir stunda í hinum dreifðu byggðum. Er það virkilega þess virði að ganga á rétt þeirra og lífsgæði og að íbúar og fasteignaeigendur sæki sé fé úr sveitarsjóði vegna vanhugsaðra athafna sveitarstjórnar í skipulagsmálum?

Virðingarfyllst,

Sigurbjörn Hjaltason

 

B:

Sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar

Sigurður Sverrir Pálsson,oddviti

Innrimel 3

Hvalfjarðarsveit

 

 

Kiðafelli 20. júní 2011

 Efni: Athugasemd vegna stjórnsýslu sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar

 

Undirritaður vill með erindi þessu benda sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar á að hann telur afgreiðslu nefndarinnar, á 109. fundi sínum, á tillögu um breytingu á aðalskipulagi Hvalfjarðarsveitar 2008-2020 vegna Grundartanga, vestursvæði ásamt heildarafgreiðslu 106. fundargerðar skipulags- og byggingarnefndar ólögmæta.

 

Vísað er til eftirfarandi texta í 109. fundargerð sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar varðandi afgreiðslu 106. fundagerðar skipulags- og bygggingarnefndar.

 

SAF ræddi vanhæfi sitt og lýsti því að hann mæti sig vanhæfan til að fjalla um fundargerðina og óskaði eftir að HHJ tæki sæti sitt. SAF vék af fundi og HHJ tók sæti í hans stað á fundinum.

 

Samkvæmt samþykktum Hvalfjarðarsveitar, stjórnsýslulögum og sveitarstjórnarlögum skal nefndarmaður sem veit um ástæður er kunna að valda vanhæfi hans, án tafar vekja athygli formanns stjórnsýslunefndar á þeim. Stjórnsýslunefnd ákveður hvort nefndarmanni, beri að víkja sæti.

 

Ekki kemur fram í fundargerð sveitarstjórnar með hvaða hætti viðkomandi nefndarmaður hafi gerst vanhæfur eða hvort lögmætar ástæður liggja að baki um vanhæfi.

 

Þá, samkvæmt fundagerð sveitarstjórnar, er lögboðin umræða og formleg afgreiðsla um hæfi viðkomandi nefndarmanns ekki viðhöfð með fullmægjandi eða lögformlegum hætti.

 

Þar sem undirritaður telur að varamaður hafi tekið sæti í sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar með ólögmætum hætti er það krafa undirritaðs að atkvæði hans falli dautt og ómerkt, en að öðru leyti standi atkvæðagreiðslan og verði niðurstaða fundarins í samræmi við það.

 

Taki sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar eigi tillit til ofangreinds áskilur undirritaður sér rétt til að vísa málinu til ráðuneytis innanríkismála.

 

Virðingarfyllst,

 

Sigurbjörn Hjaltason

C:

 

Umhverfisráðuneytið

Skuggasundi 1

150 Reykjavík

 

Efni: Kæra vegna ólöglegrar förgunar úrgangs í flæðigryfju á Grundartanga og kvörtun vegna viðbragða Umhverfisstofnunar.

 Undirritaður, ásamt tveimur öðrum einstaklingum, urðu vitni að urðun bíldekkja (sjá mynd) í flæðigryfju á athafnasvæði Faxaflóahafna á Grundartanga. Álver Norðuráls hefur heimild,samkvæmt starfsleyfi, til að urða t.t. úrgang í flæðigryfju, þó ekki endurvinnanlegan úrgang. Óljóst er hverjir aðrir kunna að hafa slíkt leyfi. Jafnframt  er ekki vitað að flæðigryfjan hafi sérstakt starfsleyfi sem inniheldur heimild til urðunar á sorpi, heldur er rekstur hennar inní starfsleyfi Norðuráls.

Þá vekur athygli að nefnd flæðigryfja sem á að vera undir eftirlit Umhverfisstofnunar er ekki sérstaklega á skipulagi.

Haft var samband við umhverfisstofnun vegna þessa máls en þar hafa fengist þau svör að umrædd flæðigryfja sé ekki í tengslum við Norðurál enda sé ekki heimilt að urða bíldekk samkvæmt starfsleyfi þeirra og að hún hljóti að vera á ábyrgð Faxaflóahafna. Ekki virðist Umhverfisstofnun sjá tilefni til að huga að málinu.

Skipulagsfulltrúi Hvalfjarðarsveitar staðfestir að umrædd flæðigryfja sé notuð af Norðuráli enda engri annarri fræðigryfju til að dreifa.

Það er krafa undirritaðs að ráðuneytið sjái til þess að meðhöndlun úrgangs og spilliefna á Grundartanga verði í samræmi við þau lagaákvæði sem um það gilda.

Virðingarfyllst,

Sigurbjörn Hjaltason