Athugasemdir vegna starfsleyfis

Umhverfisvaktin við Hvalfjörð hefur sent frá sér eftirfarandi athugasemdir við tillögu Umhverfisstofnunar um nýtt starfsleyfi fyrir Norðurál á Grundartanga:

Hvalfirði, 19. október 2015


Umhverfisstofnun
B.t. Kristínar Lindu Árnadóttur, forstjóra
Suðurlandsbraut 24
108 Reykjavík


Efni: Athugasemdir Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð við tillögu Umhverfisstofnunar að nýju starfsleyfi fyrir Norðurál ehf á Grundartanga

Umhverfisvaktin við Hvalfjörð gerir eftirfarandi athugasemdir við tillögu að nýju starfsleyfi fyrir Norðurál ehf. eins og hún birtist á vef Umhverfisstofnunar sjá http://www.ust.is/library/Skrar/Einstaklingar/Mengandi-Starfssemi/alver/Nordural-Grundartanga/nordural_tillaga_starfsleyfi.pdf

Í fyrsta lagi er því harðlega mótmælt að Norðuráli verði heimilað að auka framleiðslu sína á áli úr 300.000 tonnum í 350.000 tonn, sbr. ákvæði 1.2.
Í öðru lagi er fullyrðingum forsvarsmanna Norðuráls um skaðleysi framleiðslunnar gagnvart húsdýrum mótmælt sem röngum, en þessar fullyrðingar eru notaðar af fyrirtækinu til stuðnings ýmsum kröfum sínum.
Í þriðja lagi er því harðlega mótmælt að Norðurál hafi áfram umsjón með vöktun, mælingum og mati á þeim, ásamt útgáfu skýrslna vegna eigin mengunar.
Í fjórða lagi er þess krafist að mælingar á loftmengun utan þynningarsvæðis álversins á Grundartanga fari fram með fullnægjandi hætti allt árið.
Að auki og ofangreindu til rökstuðnings eru hér á eftir gerðar athugasemdir við einstaka liði í tillögu Umhverfisstofnunar að nýju starfsleyfi Norðuráls ehf á Grundartanga.

1.    Almenn ákvæði

Grein 1. 2. Umfang starfseminnar
Framleiðsluaukningu álversins er hafnað.

Grein 1. 6. Endurskoðun starfsleyfis
Ein af forsendum fyrir beiðni Norðuráls um endurskoðun starfsleyfis eru breytingar á bestu fáanlegu tækni sem gera það kleift að draga umtalsvert úr losun mengunarefna. Umhverfisvaktin biður Umhverfisstofnun að upplýsa um hver innan vébanda stofnunarinnar hefur það hlutverk að fylgjast með þróun bestu fáanlegrar tækni (nafn og staða) og hvaðan hvatinn að endurskoðun starfsleyfisins á þessum grundvelli muni koma síðar.

Grein 1. 8. Upplýsingaréttur almennings
Þar segir m.a.:
Rekstraraðili skal árlega boða til opins kynningarfundar um umhverfisvöktun og losun af völdum starfseminnar. Rekstraraðili skal í því sambandi senda Umhverfisstofnun niðurstöður umhverfisvöktunar og mælinga auk annars efni sem því tengist og stofnunin kann að óska eftir.
Umhverfisvaktin fullyrðir að það tilheyri liðinni tíð að upplýsa fólk um mengun löngu eftir á þegar engir möguleikar eru á að bregðast við henni. Símælingar og öflug upplýsingagjöf á rauntíma eru krafa nútímans og ekki er verjandi að líta fram hjá þeirri staðreynd. Umhverfisvaktin skorar á Umhverfisstofnun að taka nú þegar upp símælingar flúors og annarra mengandi efna. Slíkar símælingar þarf að setja sem skilyrði fyrir starfsleyfi Norðuráls. Umhverfisvaktin fagnar því að nú sé unnt að sjá stöðu SO2 og H2S nokkurveginn á rauntíma við Kríuvörðu og við Gröf og leggur áherslu á að þessar upplýsingar verði tengdar inn á vefi sveitarfélaganna í grennd.


Grein 1. 10. Þynningarsvæði vegna loftmengunar
Í ljósi þeirrar staðreyndar að hross hafa verið að veikjast í grennd við Grundartanga, flúor mælist yfir mörkum um tannskemmdir í fullorðnu sauðfé á um helmingi vöktunarbæja vegna sauðfjár og bændur í grennd við Grundartanga greina frá blettum á tönnum sauðfjár og lélegri ull auk heilsubrests og minnkandi frjósemi, telur Umhverfisvaktin að eitthvað sé vanreiknað í sambandi við þynningarsvæðið og loftborna efnamengun frá Norðuráli. Eitt eða fleiri eftirtalinna atriða gætu verið skýring:


a.)    Að þynningarsvæðið sé ekki rétt reiknað út miðað við loftmengun vegna flúors og annarra eiturefna. Sjá m.a. upplýsingar í meistararitgerð Gyðu S. Björnsdóttur (2014) Sýnir sauðfé við Hvalfjörð merki um líffræðilegt álag af völdum mengunar?

b.)    Að tölur um loftmengun frá iðjuverum á Grundartanga séu ekki réttar.

c.)    Að þolmörk búfjár gagnvart loftbornum eiturefnum, einkum flúori, séu ofmetin. Bent skal á í þessu sambandi að ennþá eru engar rannsóknir til á þoli íslensks búfjár gagnvart langtíma flúorálagi.

 
Í grein 1. 10. er einnig fjallað um umhverfismörk utan þynningarsvæðis fyrir flúoríð. Umhverfisvaktin biður Umhverfisstofnun um greinargóðar upplýsingar um á hvaða grunni/rannsóknum tölur um leyfilega umhverfismengun utan þynningarsvæðis eru byggðar og bendir enn og aftur á vankanta þess að miða þessar mælingar og umhverfismörk einungis við tímabilið frá 1. apríl til 30. september í stað þess að miða við allt árið.
Umhverfisvaktin skorar á Umhverfisstofnun að ganga úr skugga um raunverulega mengun frá iðjuverinu áður en lengra er haldið og leggur áherslu á að Norðuráli verði ekki heimilað að auka framleiðslu sína úr 300.000 tonnum í 350.000 tonn án þess að  rannsakað hafi verið af þar til bærum hlutlausum aðila/aðilum hversu mikið berst af flúori, brennisteini og öðrum eiturefnum frá verksmiðjunni yfir vetrarmánuðina, þ.e. frá október til apríl og slík rannsókn hafi leitt í ljós að iðjuverið geti haldið mengun innan leyfilegra marka. Leyfileg mörk ættu í hæsta lagi að vera sambærileg við þau sem Alcoa Fjarðaál starfar eftir, en eins og kunnugt er hafa verið vandamál vegna mengunar í grennd við það álver þrátt fyrir minni losunarheimildir en Norðurál nýtur. Umhverfisvaktin bendir á grein 1. 3. í tillögu að starfsleyfi fyrir Norðurál þar sem kveðið er á um að Umhverfisstofnun geti falið öðrum framkvæmd hluta eftirlits. Í þessu sambandi bendir Umhverfisvaktin á dönsku verkfræðistofuna Ramböl eða aðra sambærilega verkfræðistofu sem þekkt er á alþjóðlegum vettvangi fyrir vönduð vinnubrögð.
Jafnframt er það skilyrðislaus og sjálfsögð krafa að umhverfismælingum allt árið verði bætt við reglubundna umhverfisvöktun vegna Norðuráls, þ.e. vöktun flúors og annarra eiturefna utan þynningarmarka allan ársins hring. Þannig verði unnið að því að þétta umhverfisvöktunina og gera hana áreiðanlegri.
Rannsóknir sýna að eiturefni sem berast í andrúmsloftið í kuldatíð eru lengur að berast í burtu frá upprunastað sínum en þegar hlýrra er. Í ljósi þessa er öruggt að heildartölur sem birtar hafa verið á ársgrundvelli fram til þessa (með ágiskunum um helming ársins) um stöðu mengunar vegna flúors, brennisteins og annarra eiturefna í andrúmslofti vegna framleiðslu Norðuráls eru ekki réttar. Óskir Umhverfisvaktarinnar um betri mælingar að þessu leyti hafa fram til þessa verið hundsaðar án rökstuðnings en Umhverfisstofnun hefur nú tækifæri til að koma því í lag og auka með því traust á bæði stofnuninni og starfseminni á Grundartanga.

2.    Starfshættir

Grein 2. 2. Samskipti og samráð
Umhverfisvaktin telur eðlilegt að vera hluti af samráðshópi um framgang skilyrða starfsleyfisins, rekstur, mengunarvarnir, vöktun og önnur atriði sem ræða þarf. Umhverfisvaktin fer hér með fram á að verða boðuð á samráðsfundina og hafa þar sama rétt og aðrir fundarmenn.
Þá er vakin athygli á því að Kjósarhreppur á ekki fulltrúa í umræddum samráðshópi, sem verður að teljast undarlegt og ósanngjarnt, í ljósi þess að íbúar hreppsins eru þolendur mengunar frá Norðuráli. Það sama kann að gilda um Akranes. Sjá einnig gr. 4.2.

Grein 2. 4. Umhverfisstjórnunarkerfi
Umhverfisvaktin fer fram á að eftirfarandi texti úr grein 2.4 verði fjarlægður:          
 
"Velji rekstraraðili að reka innra eftirlit sem uppfyllir staðlaðar kröfur er eftirlitsaðila heimilt að draga úr reglubundnu   mengunarvarnaeftirliti og lækkar þá eftirlitsgjald sem því nemur, sbr. gr. 12.6 í reglugerð nr. 786/1999. Þá er heimilt að draga úr reglubundnu mengunarvarnaeftirliti hjá atvinnurekstri sem er með innra eftirlit með ákveðnum eftirlitsþáttum sem eftirlitsaðili hefur samþykkt."

Þótt rekstraraðili reki innra eftirlit, ætti ekki undir neinum kringumstæðum að draga úr reglubundnu ytra mengunarvarnaeftirliti. Þvert á móti ætti að stuðla að meiru óháðu ytra eftirliti, t.d. ófyrirsjáanlegum eftirlitsheimsóknum og mælingum, minnst einu sinni á ári sem gerðar væru af ótengdum aðilum en á ábyrgð Umhverfisstofnunar.

Með því sem hér er lagt til í tillögu að nýju starfsleyfi, er enn verið að auka forræði Norðuráls á mengunarvörnum, mælingum og upplýsingagjöf, en það fer gegn kröfunni um hlutlausar mælingar og upplýsingar. Umhverfisvaktin vekur athygli á að í starfsleyfi Alcoa Fjarðaál er þessa heimild ekki að finna (kafli 4.3)
 
Greinar 2. 5. , 2. 6. og 2. 7. Viðbragðsáætlun, viðbrögð, tilkynningar
Umhverfisvaktin hefur oft bent á nauðsyn þess að til sé viðbragðsáætlun fyrir almenning vegna hugsanlegra mengunarslysa hjá Norðuráli. Bent er á mengunarslysið í ágúst árið 2006. Ekki má endurtaka sig að slíku sé haldið leyndu fyrir íbúum á svæðinu. Enginn veit hver raunverulegur skaði varð vegna mengunarslyssins 2006, vegna þess að Umhverfisstofnun lét ekki fara fram umhverfismælingar í kjölfarið. Ljóst er að vatnsból voru í hættu og veikindi komu fram í hrossum eftir slysið. Þess vegna þarf viðbragðsáætlun að vera á reiðum höndum  og hún þarf að fela í sér ákvæði um það, hvernig íbúum svæðisins verður gert viðvart og hvernig þeir eiga að bregðast við ef til mengunarslyss kemur. Auðvelt er að koma slíkri viðbragðsáætlun í gagnið nú þegar með því að nýta sms leiðina gegnum farsíma.
Athygli vekur að áætlun skv. gr. 2.5 á ekki að vera aðgengileg/kynnt almenningi en það telur Umhverfisvaktin algjörlega óásættanlegt.

Grein 2. 9. Breytingar á mælingum
Í þessari grein er opnað fyrir möguleikann á að draga úr tíðni mælinga án þess að skilgreint sé undir hvaða kringumstæðum slíkt geti átt sér stað. Því er harðlega mótmælt að þessi möguleiki sé til staðar. Þvert á móti ætti starfsleyfið að kveða á um auknar mælingar og mælingar allan ársins hring. Umhverfisvaktin vekur í þessu sambandi athygli á þörf á sérstakri umhverfisvöktun vegna leikskólans í Melahverfi.

3.    Varnir gegn mengun ytra umhverfis

Grein 3. 1. Mengunarvarnir
Umhverfisvaktin fer fram á að bætt verði inn í tillögu að starfsleyfi sambærilegu ákvæði og er að finna í gr. 1.3. starfsleyfi fyrir Alcoa Fjarðaál, um að við mengunarvarnir skuli PARCOM tilmæli nr. 94/1 innan OSPAR samningins um verndun N-A Atlantshafsins höfð til hliðsjónar, enda mun Hvalfjörður einnig vera staðsettur í N-A Atlantshafi. Umræða um mengun sjávar hefur ekki verið fyrirferðarmikil í tengslum við starfsemi Norðuráls og ætti Umhverfisstofnun að hafa forgöngu um breytingu á því.
Umhverfisvaktin beinir því til Umhverfisstofnunar að stofnunin standi fyrir opnum kynningarfundi um „bestu fáanlegu tækni“ við mengunarvarnir, sbr. þau gögn sem vísað er til í gr. 3.1. og um þá tækni sem Norðurál notar. Getur verið að „besta fáanlega tækni“ sé ódýrasta lausnin sem tilgreind er í BAT skýrslum og tryggir að ekki verði farið yfir umhverfismörk utan þynningarsvæðis - og þar af leiðandi ekki besta fáanlega tæknin fyrir umhverfið heldur fyrir Norðurál?

Grein 3. 9. Losunarmörk sem tengjast heildarframleiðslu
Umhverfisvaktin krefst þess að heildarlosunarmörk m.v. tonn framleiðslu Norðuráls verði ekki hærri en gilda hjá Alcoa Fjarðaáli sem rekur álver með leyfilega 360.000 tonna ársframleiðslu, þ.e. 0,350 gr. m.v. tonn af áli. Það er fullkomlega óskiljanlegt hvaða röksemdir geta mælt með því að heimila meiri mengun í landbúnaðarhéraðinu Hvalfirði en annarsstaðar á landinu.

Grein 3. 10. Losun annarra loftmengunarefna
Umhverfisvaktin leggur á það áherslu að eftirlitsaðili sjái um að afla upplýsinga um losun allra mengandi efna og þá einnig þungmálma, en ekki rekstraraðili.

4.    Innra eftirlit og vöktun

Grein 4. 1. Mælingar og úttektir
Umhverfisvaktin krefst svara við því hvers vegna Umhverfisstofnun leggur til að rekstraraðili  meti heildarlosun eiturefna sbr. PCDD/F efni, NOx og þungmálma. Hvers vegna gerir Umhverfisstofnun ekki ráð fyrir að starfsmenn Umhverfisstofnunar eða aðrir þar til bærir aðilar sem ekki tengjast rekstraraðila hagsmunatengslum annist matið?
Alvarleg athugasemd er gerð við það fyrirkomulag að mælingar skuli fara fram á a.m.k. fjögurra ára fresti til að meta losun PAH-efna en þess á milli skuli „meta“ losunina. Ekki kemur fram hvernig þetta mat skuli fara fram og á hvaða forsendum og vandséð er að hvaða gagni það kemur. Það er skýlaus krafa Umhverfisvaktarinnar að vísindalegar mælingar fari fram á þessum efnum á hverju ári.

Grein 4. 2. Vöktunarmælingar
Umhverfisvaktin gerir alvarlegar athugasemdir við það fyrirkomulag vöktunar að rekstraraðila skuli treyst til þess að standa fyrir eða taka þátt í vöktun á helstu umhverfisþáttum í grennd við álverið. Umhverfisvaktin krefst þess að rekstaraðila sé haldið utan við umhverfismælingar vegna eigin mengunar. Slíkt ætti að heyra fortíðinni til. Til er nægur og góður óháður mannafli til þessa verks.
Mikilvægt er varðandi vöktun umhverfisins að litið sé á svæðið, Grundartanga og umhverfi hans, sem eina heild. Eftir því sem verksmiðjum fjölgar á Grundartanga verður erfiðara að greina hvaða þátt hver þeirra á í umhverfismengun og jafnframt verður erfiðara að greina samlegðaráhrif mengunar frá iðjuverunum. Þess vegna er mikilvægara en nokkru sinni fyrr að taka utanumhald með mengunarmælingum frá iðjuverum þ.m.t. Norðuráli og gera ráð fyrir nýju sjónarhorni á mengunarmælingar vegna iðjuveranna allra, þ.e. samlegðaráhrifum mengandi efna.
Umhverfisvaktin stendur vörð um náttúru og umhverfi Hvalfjarðar og er rödd þeirra tuga íbúa sem standa að baki henni. Innan raða hennar hefur verið fylgst með vöktun umhverfis vegna iðjuveranna á Grundartanga í allmörg ár og hún hefur á að skipa fólki sem býr yfir haldgóðri þekkingu á umhverfismálum. Þessa þekkingu á að nýta við gerð vöktunaráætlunar vegna Norðuráls og annarra iðjuvera á Grundartangasvæðinu. Farið er staðfastlega fram á það hér.

Grein 4. 5. Framkvæmd mælinga
Umhverfisvaktin gerir athugasemd við það að rekstaraaðili eigi að ábyrgjast mælingar vegna eigin mengunar. Það er órökrétt því það gefur rekstaraðila óeðlilegt svigrúm til að höndla með upplýsingar sem hafa afgerandi áhrif á hans eigin rekstur. Það hlýtur einnig að teljast ósanngjarnt gagnvart öðrum atvinnugreinum á Íslandi sem búa við mun strangara eftirlit með starfsemi sinni.

Grein 4. 7. Tilkynningarskylda
Umhverfisvaktin gerir athugasemdir við að rekstraraðila sé falin ábyrgð á því að tilkynna, ef niðurstöður eftirlitsmælinga eru ekki í samræmi við gerðar kröfur. Umhverfisstofnun ætti að hafa frumkvæðishlutverki að gegna varðandi þetta eftirlit.

Grein 4. 10. Skýrslugjöf
Umhverfisvaktin leggur áherslu á að rekstraraðili eigi hvorki að hafa með höndum gagnasöfnun né skýrslugjöf vegna eigin mengunar. Eins og málum er háttað nú þá getur rekstraraðili neitað að greiða kostnað við mælingar sem honum þóknast ekki að séu gerðar svo sem skipulegar flúormælingar á beinsýnum úr hrossum, en valið aðra aðferð sem fellur betur að hagsmunum hans. Þannig glatast tækifæri til að safna nauðsynlegum upplýsingum til að leggja raunsætt og óháð mat á umhverfisáhrif rekstraraðila.
Benda má á í þessu sambandi að jarðvegssýni hafa ekki verið tekin og greind vegna starfsemi álversins (og annarra iðjuvera) á Grundartanga síðan sumarið 2006 þ.e. fyrir mengunarslysið í álverinu. Engin jarðvegssýni voru tekin til greiningar starfsárin 2007, 2008, 2009, 2010, 2011, 2012, 2013 og 2014. Ekki eru til upplýsingar um yfirstandandi ár. Það gengur ekki að vanrækja öflun svo mikilvægra upplýsinga. Umhverfisvaktin lýsir undrun sinni yfir því að Umhverfisstofnun skuli ekki hafa staðið betur á verði og hvetur hana til að taka upp mælingar á jarðvegssýnum í grennd við Grundartanga nú þegar.

Grein 4. 11. Kostnaður
Umhverfisvaktin skorar á Umhverfisstofnun að taka utanumhald mælinga á umhverfismengun úr höndum rekstraraðila. Jafnframt skorar Umhverfisvaktin á Umhverfisstofnun að leita annarra leiða en nú eru viðhafðar, við fyrirkomulag á greiðslu kostnaðar til verktaka vegna umhverfisvöktunar, skýrslugerðar og eftirlits. Slíkar greiðslur ættu ekki að koma beint frá rekstraraðila því þannig fyrirkomulag býður upp á óheppileg hagsmunatengsl.

5.    Gjaldskylda

Umhverfisvaktin ítrekar að rekstraraðili (Norðurál) eigi alls ekki að hafa nein fjárhagsleg tengsl við eftirlitsaðilann þ.e. Umhverfisstofnun.

Viðauki 1. Yfirlit yfir skiladaga

Upplýsingar um helstu mengandi efni, einkum flúor og brennistein í andrúmslofti ættu að vera aðgengilegar almenningi sem næst á rauntíma einkum þar sem mests álags mengandi efna gætir. Ef slíkt er hægt að gera á öðrum stöðum þá er það líka hægt í nálægð Grundartanga. Allt annað eru bæði forneskjuleg vinnubrögð og óvirðing við íbúa við Hvalfjörð. Tæknin til að senda út upplýsingar er til staðar og það er óviðunandi að það skuli eiga að sniðganga hana þegar mengandi iðjuver á í hlut. Upplýsingar um mengun flúors, brennisteins og fleiri eiturefna ættu að vera aðgengilegar, á því sem næst rauntíma, á vefsíðum Hvalfjarðarsveitar, Kjósar og Akraneskaupstaðar auk Umhverfisstofnunar.
Það að mengandi iðjuver stjórni meira og minna umhverfismælingum og upplýsingamiðlun vegna eigin mengunar er algjörlega óviðunandi. Umhverfisvaktin krefst úrbóta á þessu nú þegar.

Fylgiskjal 4. Ákvörðun á umhverfismörkum

Flúoríð utan þynningarsvæðis. Umhverfisvaktin biður um nánari upplýsingar um rannsóknir sem umhverfismörk flúoríðs byggja á og spyr jafnframt hvers vegna ekki séu gerðar rannsóknir á þoli íslensks búfjár gagnvart langtíma álagi af völdum flúors og efnasamböndum hans.

Annað

Umhverfisvaktin mótmælir harðlega fullyrðingum Norðuráls um skaðleysi starfsemi iðjuversins gagnvart húsdýrum á svæðinu og vísar í því sambandi í gögn sem Norðurál hefur lagt fram. Meðal þeirra er Deiliskipulagstillaga umhverfisskýrsla, kafla 3.6.2. (bls. 4) Fullorðið fé:

„Engin merki um áhrif flúors hafa fundist á sauðfé eða öðrum búfénaði í Hvalfirði."

http://www.ust.is/library/Skrar/Einstaklingar/Mengandi-Starfssemi/alver/Nordural-Grundartanga/Deiliskipulag_umhverfissk%C3%BDrsla_Nor%C3%B0ur%C3%A1l_Grundartangi.pdf

Umhverfisvaktin bendir á að upplýsingar sem er að finna í umhverfisvöktunarskýrslum vegna starfsemi Norðuráls benda til annars en Norðurál heldur fram. Á hverju ári eru birtar tölur sem sýna há gildi flúors í beinsýnum úr fullorðnum kindum, en það mælist yfir mörkum um tannskemmdir á um helmingi vöktunarbæjanna. Umhverfisvaktin mótmælir fullyrðingum Norðuráls um skaðleysi vegna starfsemi þess.
Jafnframt mótmælir Umhverfisvaktin því harðlega að Norðurál skuli sniðganga mikilvægar upplýsingar um heilsufar sauðfjár eins og þær birtast í meistararitgerð Gyðu S. Björnsdóttur (2014):

Sýnir sauðfé við Hvalfjörð merki um líffræðilegt álag af völdum mengunar?

Einnig skal bent á það sem fram kemur í Matsskyldufyrirspurn Norðuráls 2014. Í kafla 6.7. (bls. 15) Grasbítar: Hross, segir svo:


Niðurstöður rannsókna á veikindum hrossa á bænum Kúludalsá í Hvalfirði gefa engar vísbendingar um að hrossin hafi veikst af völdum flúoríðs eða þungmálma frá iðjuverunum á Grundartanga. Veikindin eru rakin til efnaskiptaröskunar (Equina Metabolic Syndrome)og krónískrar hófsperru af þeim sökum.“

http://www.ust.is/library/Skrar/Einstaklingar/Mengandi-Starfssemi/alver/Nordural-Grundartanga/Matsskyldufyrirspurn%202014.pdf

Í þessu sambandi skal áréttað að í athugun Matvælastofnunar, sem gerð var að beiðni eiganda hrossanna, voru engin sýni tekin úr líffærum hrossa til flúormælinga, aðeins beinsýni. Þetta gerðist þó að Matvælastofnun hafi verið beðin um það sérstaklega að taka slík sýni til flúorgreiningar. Bent skal á að flúor í beinsýnum hrossa frá þessu býli mælist um fimmfalt meiri en áætlað landsmeðaltal er. Á Kúludalsá er ekki um aðrar flúoruppsprettur að ræða en Norðurál.
Brýn þörf er á að rannsaka langtíma álag flúors á íslensk hross og annan íslenskan búfénað. Engan veginn er unnt að fullyrða að dýrin  geti haldið heilsu undir svo miklu flúorálagi sem augljóslega er á högum í grennd við Grundartanga og birtist að sjálfsögðu mest í langlífum grasbítum.
Spyrja má hvort Norðurál sé með fyrrgreindum fullyrðingum að reyna að koma sér undan faglegri umfjöllun um áhrif iðjuversins á lífríki umhverfisins.

Umhverfisvaktin biður Umhverfisstofnun um skriflegan rökstuðning við spurningum og við hverjum þeim lið athugasemdanna sem ekki verður fallist á.


Virðingarfyllst,


stjórn Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð

Afrit sent sveitarstjórnum á svæðinu við Hvalfjörð, samtökum um umhverfisvernd og fleira áhugafólki. Auk þess verða athugasemdirnar birtar á www.umhverfisvaktin.is