Ályktanir aðalfundar 2016


Ályktanir aðalfundar Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð 2016

1.    Aðalfundur Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð, haldinn í Garðakaffi á Akranesi, sunnudaginn 14. febrúar 2016 skorar á Umhverfisráðherra að láta gera úttekt á því hvort ákvarðanir Umhverfisstofnunar gagnvart mengandi iðjuverum á Grundartanga samræmist meginmarkmiðum stofnunarinnar, sem er að vernda náttúru og lífríki Íslands. Þessari úttekt verði lokið haustið 2016.


Greinargerð
a.    Iðjuverin á Grundartanga bera ábyrgð á umhverfisvöktun vegna eigin mengunar samkvæmt starfsleyfi sem Umhverfisstofnun gefur út og ber ábyrgð á. Allt vöktunarferlið er á forræði iðjuveranna sem stöðugt senda eiturefni út í andrúmsloftið. Umhverfisvaktin við Hvalfjörð álítur að Umhverfisstofnun vinni gegn eigin markmiðum með því að veita starfsleyfi sem inniheldur slíka þjónkun við mengandi iðjuver, jafnvel þó að dæmi um slíkt megi finna í öðrum löndum.

b.    Í desember 2015 veitti Umhverfisstofnun Norðuráli nýtt starfsleyfi, löngu áður en hið eldra rann út, þannig að Norðurál gæti aukið álframleiðslu sína. Þetta gerði Umhverfisstofnun án þess að taka tillit til mikilvægra athugasemda við tillögu að starfsleyfinu, sem henni höfðu borist frá Umhverfisvaktinni við Hvalfjörð, frá Hvalfjarðarsveit og fleiri aðilum. Eins og sjá má í meðfylgjandi kæru Umhverfisvaktarinnar vegna starfsleyfisveitingarinnar hefur Norðurál nú mun rýmra leyfi til útsleppis flúors, en var í fyrra starfsleyfi. Alvarleiki málsins felst ekki einungis í möguleikum Norðuráls til að sleppa út meira magni flúors nú en áður, heldur einnig og ekki síður í því að loftborinn flúor er aðeins mældur hálft árið. Umhverfisstofnun hefur árum saman hunsað ábendingar um hættuna sem af þessu fyrirkomulagi stafar. Enn og aftur skal bent á að Norðuál starfar í landbúnaðarhéraði. Umhverfisvaktin við Hvalfjörð telur að Umhverfisstofnun brjóti gegn eigin stefnu með þessum gáleysislegu vinnubrögðum.

c.    Iðjuverin á Grundartanga bera ábyrgð á útgáfu skýrslu um umhverfisvöktun vegna eigin mengunar, fyrir hvert einstakt starfsár. Sérstök athygli er vakin á því að í skýrslum sem komið hafa út eftir að GMR og Kratus bættust í hóp iðjuvera á Grundartanga, er ekkert að finna um aðfinnslur Umhverfisstofnunar vegna mengunarbúnaðar og umgengni þessara iðjuvera. Umhverfisvaktin álítur það stórfellda vanrækslu að tilkynna ekki íbúum Hvalfjarðar um þær vanefndir í umhverfismálum sem GMR og Kratus hafa orðið uppvís að. Minnt skal á að stutt vegalengd er frá þeim og í næstu bændabýli.

d.    Umhverfisvaktin við Hvalfjörð minnir á að þynningarsvæði fyrir flúor og brennistein eru að mestu leyti þau sömu og voru þegar Norðurál hóf starfsemi 1998. Heimild Norðuráls fyrir álframleiðslu hefur aukist nærri sexfalt og framleiðsla Íslenska járnblendifélagsins hefur tvöfaldast. Auk þess hafa GMR og Kratus bæst í hóp mengandi iðjuvera á Grundartanga. Umhverfisvaktin við Hvalfjörð telur það brjóta í bága við markmið Umhverfisstofnunar að endurskoða ekki stærð þynningarsvæðanna með hliðsjón af stóraukinni mengun frá Grundartanga.

e.    Afskipti Umhverfisstofnunar af iðjuverunum GMR og Kratusi hafa verið tíð á starfstíma þeirra. Mikið lá á að koma þeim fyrir á Grundartanga af hálfu landeigandans, Faxaflóahafna. Ekki voru spöruð stóru orðin um að þarna yrði vistvæn endurvinnsla og nýsköpunarstarf. Nú hefur annað komið á daginn. Ekki er unnt  að sjá að fram hafi farið sérstakar mælingar í umhverfi iðjuveranna tveggja, sem staðsett eru í landbúnaðarhéraði, til að meta áhrif mengunarinnar frá þeim.

f.    Umhverfisvaktin við Hvalfjörð fer fram á það við Umhverfisráðherra að rannsakað verði ofan í kjölinn hvers vegna Umhverfisstofnun lét íbúa við Hvalfjörð ekki vita af mengunarslysi sem átti sér stað hjá Norðuráli á Grundartanga þann 24. ágúst 2006 en þá bilaði reykhreinsivirki með þeim afleiðingum að flúor streymdi óhindraður út í andrúmsloftið í um 36 klst. Hreinsibúnaðurinn komst ekki í fullt lag fyrr en nokkrum mánuðum síðar. Jafnframt óskar Umhverfisvaktin skýringa á því hvers vegna engar mælingar voru gerðar til að kanna áhrif mengunarslyssins á umhverfið. Umhverfisvaktin álítur að Umhverfisstofnun hafi þarna brugðist hlutverki sínu sem eftirlitsstofnun og sýnt íbúum, náttúru og lífríki við Hvalfjörð einstakt skeytingarleysi jafnframt því að koma í veg fyrir að nauðsynlegar mælingar færu fram í kjölfar mengunarslyssins.

2.    Aðalfundur Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð, haldinn í Garðakaffi á Akranesi, sunnudaginn 14. febrúar 2016, skorar á Umhverfisstofnun að draga til baka nýtt starfsleyfi sem Norðuráli á Grundartanga var veitt þann 16. desember 2015 þar sem það gefur Norðuráli meiri möguleika til losunar flúors en eldra starfsleyfið gerir. Minnt er á að eldra starfsleyfið gilti til ársins 2020.

3.    Aðalfundur Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð, haldinn í Garðakaffi Akranesi, sunnudaginn 14. febrúar 2016 skorar enn og aftur á Umhverfisráðherra að hefja nú þegar undirbúning þess að flytja ábyrgð á umhverfisvöktun vegna mengunar frá iðjuverunum á Grundartanga frá forsvarsmönnum iðjuveranna til óháðrar, til þess bærrar stofnunar.

Greinargerð:
Óumdeilanlegt er að iðjuverin á Grundartanga sjá sjálf um vöktun vegna eigin mengunar. Í starfsleyfi Norðuráls stendur t.d.: “rekstraraðili skal útbúa áætlun, setja sér umhverfismarkmið, standa fyrir mælingum, skal hafa eftirlit með rekstrarþáttum sem geta haft í för með sér mengun […]”

Í svörum Umhverfisstofunar við athugasemdum Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð, Hvalfjarðarsveitar og Faxaflóahafna við tillögu að nýju starfsleyfi Norðuráls segir að nauðsynlegt sé að fyrirtækin komi að vöktun svo hún sé hluti af umhverfisstjórnun fyrirtækjanna. Umhverfisvaktin telur þessi svör engan veginn fullnægjandi rök fyrir því að ekki þurfi að auka ytra eftirlit. Þó að rekstaraðili sinni umhverfisvöktun þá er verulega mikilvægt að óháður, til þess bær aðili framkvæmi einnig umhverfisvöktun, þar sem gerð er sjálfstæð vöktunaráætlun og ytra eftirlit haft með mengandi rekstrarþáttum Norðuráls sem og annarra iðjuvera á Grundartanga.
Nú þegar hafa Hvalfjarðarsveit og Faxaflóahafnir tekið undir með Umhverfisvaktinni við Hvalfjörð um að það sé eðlileg krafa að óháðir aðilar mæli mengun frá þungaiðnaði á Grundartanga.

4.    Aðalfundur Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð, haldinn í Garðakaffi Akranesi, sunnudaginn 14. febrúar 2016, skorar enn og aftur á Matvælastofnun að hlutast til um að hafnar verði grunnrannsóknir á þoli íslensks búfjár gagnvart flúori í fóðri og áhrifum langtíma flúorálags á heilsu íslensks búfjár. Fundurinn vísar til þess að nú þegar eru þrjú stór álver starfandi á Íslandi og hugmyndir eru uppi um fleiri slík, auk þess sem vænta má eldgosa sem hafa í för með sér verulega flúormengun.

5.    Aðalfundur Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð, haldinn í Garðakaffi Akranesi, sunnudaginn 14. febrúar 2016 skorar á stjórn Faxaflóahafna að snúa sé að öðrum og uppbyggilegri verkefnum en mengandi iðnaði í Hvalfirði, sem orðið hefur tekjulind fyrir eigendur Faxaflóahafna, einkum Reykjavíkurborg. Aðalfundurinn hafnar því að tilraunaverkefni Silicor Materials verði komið fyrir í Hvalfirði. Jafnframt hvetur aðalfundurinn stjórn Faxaflóahafna til þess að leggjast í nákvæma skoðun á fyrirbærinu “grænn iðnaður” og hafa hugfast að þungaiðnaður getur aldrei orðið „grænn.“


Stjórn Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð