Ályktanir aðalfundar Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð 2017
1. Aðalfundur Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð, haldinn í Garðakaffi á Akranesi 12. febrúar 2017, skorar á umhverfisráðherra að endurskoða það fyrirkomulag að Umhverfisstofnun framselji ábyrgð og framkvæmd umhverfisvöktunar til mengandi iðjuvera á Grundartanga; Norðuráls ehf., Elkem Ísland ehf., Kratusar ehf, og GMR ehf. Umhverfisvaktin við Hvalfjörð telur að þetta fyrirkomulag samræmist hvorki meginmarkmiðum löggjafar um umhverfis- og náttúruvernd né tilgangi og markmiðum Umhverfisstofnunar, sem er að vernda náttúru og lífríki Íslands. Óskað er eftir svari ráðherra við þessari áskorun sem allra fyrst.
Greinargerð
a. Iðjuverin á Grundartanga bera ábyrgð á umhverfisvöktun vegna eigin mengunar samkvæmt starfsleyfi sem Umhverfisstofnun gefur út og ber ábyrgð á. Allt vöktunarferlið er á forræði iðjuveranna sem stöðugt senda eiturefni út í andrúmsloftið. Umhverfisvaktin við Hvalfjörð álítur að Umhverfisstofnun vinni gegn eigin markmiðum með því að veita starfsleyfi sem inniheldur framsal svo mikilvægs verkefnis, jafnvel þó að dæmi um slíkt megi finna í öðrum löndum.
b. Í desember 2015 veitti Umhverfisstofnun Norðuráli nýtt starfsleyfi, löngu áður en hið eldra rann út, þannig að Norðurál gæti aukið álframleiðslu sína. Þetta gerði Umhverfisstofnun án þess að taka tillit til mikilvægra athugasemda við tillögu að starfsleyfinu, sem henni höfðu borist frá Umhverfisvaktinni við Hvalfjörð, frá Hvalfjarðarsveit og fleiri aðilum. Samkvæmt nýja starfsleyfinu hefur Norðurál mun rýmri heimildir til losunar flúors út í andrúmsloftið en var í fyrra starfsleyfi. Alvarleiki málsins felst ekki einungis í möguleikum Norðuráls til að sleppa út meira magni flúors nú en áður var, heldur einnig og ekki síður í því að um leið og sá áfangi að mæla loftborinn flúor allt árið, náðist í gegn, var mikilvæg loftgæðamælistöð í Stekkjarási tekin úr notkun, þrátt fyrir hörð mótmæli Umhverfisvaktarinnar og sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar. Þar með er margra ára samfella í mælingum loftgæða í Stekkjarási rofin.
Umhverfisstofnun ber því við að Stekkjarás sé innan þynningarmarka og mælistöð þar sé þess vegna ekki marktæk. Umhverfisvaktin bendir á að það var Umhverfisstofnun sem ákvað fyrir nokkrum árum að teygja þynningarsvæðið yfir Stekkjarás og það er hægur vandi að færa mælistöðina nokkrum metrum lengra í norðvestur. Þá er hún komin út fyrir mörk þynningarsvæðisins. Ef UST vill ekki gera þetta þá er hún þar með að lýsa því yfir að hún vilji ekki skrásetja mengun sem leitar í átt til fjalls, þar sem neysluvatn Akurnesinga rennur ofanjarðar og einnig meðfram fjallinu á nærliggjandi sveitabæi og gróðurlendi með tilheyrandi flúormengun sem þegar er staðfest í sauðfé og hrossum vestan iðjuveranna.
Umhverfisvaktin við Hvalfjörð telur að Umhverfisstofnun brjóti gegn eigin stefnu með þessum gáleysislegu vinnubrögðum við umhverfisvöktun og að framsal eftirlitshlutverksins endurspeglist í þessum gjörningi.
c. Iðjuverin á Grundartanga bera ábyrgð á útgáfu skýrslu um umhverfisvöktun vegna eigin mengunar, fyrir hvert einstakt starfsár. Sérstök athygli er vakin á því að í skýrslum sem komið hafa út eftir að GMR og Kratus bættust í hóp iðjuvera á Grundartanga, er ekkert að finna um aðfinnslur Umhverfisstofnunar vegna mengunarbúnaðar og umgengni þessara iðjuvera. Umhverfisvaktin álítur það stórfellda vanrækslu að tilkynna ekki íbúum Hvalfjarðar um þær vanefndir í umhverfismálum sem GMR og Kratus hafa orðið uppvís að. Minnt skal á að stutt vegalengd er frá þeim og í næstu bændabýli.
d. Umhverfisvaktin við Hvalfjörð minnir á að þynningarsvæði fyrir flúor og brennistein eru að mestu leyti þau sömu og voru þegar Norðurál hóf starfsemi 1998. Heimild Norðuráls fyrir álframleiðslu hefur aukist nærri sexfalt og framleiðsla Elkem hefur tvöfaldast. Auk þess hafa GMR og Kratus starfað á Grundartanga undanfarin ár. Umhverfisvaktin við Hvalfjörð telur það brjóta í bága við markmið Umhverfisstofnunar að endurskoða ekki stærð þynningarsvæðanna með hliðsjón af stóraukinni mengun frá Grundartanga.
e. Afskipti Umhverfisstofnunar af iðjuverunum GMR og Kratusi hafa verið tíð á starfstíma þeirra. Mikið lá á að koma þeim fyrir á Grundartanga af hálfu landeigandans, Faxaflóahafna. Fullyrt var að þarna yrði vistvæn endurvinnsla og nýsköpunarstarf. Nú hefur annað komið á daginn. Ekki er unnt að sjá að fram hafi farið sérstakar mælingar í umhverfi iðjuveranna tveggja, sem staðsett eru í landbúnaðarhéraði, til að meta áhrif mengunarinnar frá þeim.
f. Umhverfisvaktin við Hvalfjörð fer fram á það við Umhverfisráðherra að rannsakað verði ofan í kjölinn hvers vegna Umhverfisstofnun lét íbúa við Hvalfjörð ekki vita af mengunarslysi sem átti sér stað hjá Norðuráli á Grundartanga þann 24. ágúst 2006 en þá bilaði reykhreinsivirki með þeim afleiðingum að flúor streymdi óhindraður út í andrúmsloftið í um 36 klst. Hreinsibúnaðurinn komst ekki í fullt lag fyrr en nokkrum mánuðum síðar. Jafnframt óskar Umhverfisvaktin skýringa á því hvers vegna engar mælingar voru gerðar til að kanna áhrif mengunarslyssins á umhverfið. Umhverfisvaktin álítur að Umhverfisstofnun hafi þarna brugðist hlutverki sínu sem eftirlitsstofnun og sýnt íbúum, náttúru og lífríki við Hvalfjörð einstakt skeytingarleysi jafnframt því að koma í veg fyrir að nauðsynlegar mælingar færu fram í kjölfar mengunarslyssins.
2. Aðalfundur Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð, haldinn í Garðakaffi á Akranesi 12. febrúar 2017 skorar enn og aftur á umhverfisráðherra að hefja nú þegar undirbúning þess að flytja ábyrgð á umhverfisvöktun vegna mengunar frá iðjuverunum á Grundartanga frá forsvarsmönnum iðjuveranna til óháðrar, til þess bærrar stofnunar.
Greinargerð:
Óumdeilanlegt er að iðjuverin á Grundartanga sjá sjálf um allt utanumhald umhverfisvöktunar vegna eigin mengunar.Umhverfisstofnun á að hafa þetta verkefni með höndum en hefur framselt það til mengandi iðjuvera á Grundartanga. Í starfsleyfi Norðuráls stendur t.d.: “rekstraraðili skal útbúa áætlun, setja sér umhverfismarkmið, standa fyrir mælingum, skal hafa eftirlit með rekstrarþáttum sem geta haft í för með sér mengun […]”
Í svörum Umhverfisstofunar við athugasemdum Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð, Hvalfjarðarsveitar og Faxaflóahafna við tillögu að nýju starfsleyfi Norðuráls segir að nauðsynlegt sé að fyrirtækin komi að vöktun svo hún sé hluti af umhverfisstjórnun fyrirtækjanna. Umhverfisvaktin telur þessi svör engan veginn fullnægjandi rök fyrir því að ekki þurfi að hafa óháð ytra eftirlit. Rekstaraðila mengandi iðjuvers er heimilt að láta gera mælingar í umhverfi iðjuversins, en alls ekki ætti að líta á niðurstöður þeirra sem lokaniðurstöður opinberrar eftirlitsstofnunar. Brýn nauðsyn er að óháður, til þess bær aðili framkvæmi umhverfisvöktun, þar sem gerð er sjálfstæð vöktunaráætlun og nákvæmt ytra eftirlit sé haft með umhverfisáhrifum frá Norðuráli sem og öðrum iðjuverum á Grundartanga.
Rétt er að geta þess að sveitarfélagið Hvalfjarðarsveit og Faxaflóahafnir sf. hafa tekið undir með Umhverfisvaktinni við Hvalfjörð um að það sé eðlileg krafa að óháðir aðilar mæli mengun frá þungaiðnaði á Grundartanga. Umhverfisvaktin vill taka það fram, vegna reynslu umliðinna ára, að ekki er unnt að líta á Umhverfisstofnun sem hlutlausan, þar til bæran aðila í þessu sambandi.
3. Aðalfundur Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð, haldinn í Garðakaffi á Akranesi 12. febrúar 2017, skorar á landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra að gangast fyrir grunnrannsóknum á þoli íslensks búfjár gagnvart flúori í fóðri og drykkjarvatni og áhrifum langtíma flúorálags á heilsu íslensks búfjár, með áherslu á hross og sauðfé.
Greinargerð:
Á aðalfundi Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð þann 14. febrúar 2016 var ákveðið að senda Matvælastofnun áskorun, sama efnis og ráðherra fær nú. Matvælastofnun upplýsti í kjölfarið að erindið hefði verið framsent til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, sjá erindi dags. 2. mars 2016. Við hjá Umhverfisvaktinni gerum okkur ljóst að ábyrgð Matvælastofnunar í þessu máli er mikil og stofnunin getur ekki vikið sér undan því að afla þekkingar á áhrifum flúors þannig að íslenskt búfé sé rannsakað sérstaklega. Komið hefur berlega í ljós að skortur er á þekkingu á áhrifum flúors á íslenskt búfé hjá stofnuninni. Mikilvægt að ráðherra og ráðuneyti atvinnuvega greiði götu slíkra rannsókna og sjái um að leiða stofnanir saman og að kalla til erlenda sérfræðinga. Eigi má gleyma að Ísland er eldfjallaland og alltaf má búast við flúorríkum eldgosum auk þess sem þrjú stór álver eru starfrækt í landinu.
4. Aðalfundur Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð, haldinn í Garðakaffi á Akranesi 12. febrúar 2017 skorar á stjórn Faxaflóahafna sf. að endurskoða umhverfisstefnu sína og taka upp fyrirbyggjandi aðgerðir til varnar umhverfinu vegna ágangs hinna mengandi iðjuvera sem rekin eru á lóð sameignarfélagsins á Grundartanga.
a. Hætta þarf tafarlaust öllum fyrirætlunum um að setja niður fleiri mengandi iðjuver á Grundartanga. Þrjú eru í rekstri þar og eitt hefur nýlega lagt upp laupana eftir miður glæstan feril. Ekkert þessara iðjuvera á ásættanlegan feril í umhverfismálum. Umkvörtunum vegna neikvæðra afleiðinga af rekstri þeirra hafa Faxaflóahafnir vísað á Umhverfisstofnun sem veitir starfsleyfið. Það er verulega til vansa að sameignarfélagið víki sér undan ábyrgð vegna umgengni leigutakanna á Grundartanga og mál er að linni.
b. Sameignarfélagið Faxaflóahafnir þarf að virða þá staðreynd að beggja vegna Hvalfjarðar eru gjöful landbúnaðarsvæði, með fjölmörgum skipulögðum bændabýlum sem framleiða kjöt, mjólk og grænmeti auk þess að selja húsdýr á fæti. Það hjálpar ekki búskap við Hvalfjörð þó lappað verði upp á Katanestjörn eða manir byggðar þannig að fólk sem ferðast við norðanverðan fjörðinn sjái ekki iðjuverin, meðan loftborin efnamengun hrjáir húsdýr og meðan sífellt vaxandi hávaða-,sjón- og ljósmengun hrjár íbúa sunnan fjarðar og mengandi efni fá greiðan aðgang að neysluvatnslindum Akurnesinga.
c. Af gefnu tilefni vill aðalfundur Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð undirstrika að hvorki árið 2011 né árið 2014 þegar iðnaðarsvæðið á Grundartanga var stækkað, kom frumkvæðið frá heimamönnum, né heldur óskir um fleiri mengandi iðjuver.
5. Aðalfundur Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð, haldinn í Garðakaffi á Akranesi 12. febrúar 2017 ályktar að þar sem stjórn Faxaflóahafna sf. hefur gefið Silicor Materials enn einn frestinn til að standa skil á gjöldum, sé mikilvægt að nota tækifærið og afla haldbetri þekkingar á framleiðsluferli og öðrum þáttum sem tengjast Silicor Materialstil að geta metið kosti og galla iðjuversins á raunsærri hátt en verið hefur.
Umhverfisvaktin við Hvalfjörð skorar á stjórn Faxaflóahafna sf. að fá 3 – 4 virta erlenda sérfræðinga, óháða og ótengda innbyrðis, til að veita álit sitt á því, hver getur mögulega orðið versta útkomu vegna rekstrar iðjuversins Silicor Materials á Grundartanga. Ber þá að líta til þess að um tilraunaverkefni er að ræða, engin slík verksmiðja hefur verið starfrækt í heiminum áður og engar upplýsingar liggja fyrir um veigamikla þætti varðandi mögulega verstu útkomu í rekstri. Umhverfisvaktin vill í þessu sambandi undirstrika að það er ekki sannleikanum samkvæmt að lýsa þessu iðjuveri sem sérlega „hreinu“ þar sem aðföng munu ekki verða neitt hreinni en gengur og gerist með ál- og kísilframleiðslu í heiminum. Auk þess virðist sem aðföng verði sótt um langan veg, jafnvel í aðrar heimsálfur. Því má svo ekki gleyma að fórnarkostnaður til að afla hinnar umtöluðu „grænu orku“ sem stóriðjuverin ganga fyrir er orðinn mikill, á kostnað hálendisins þ.e. hinnar hreinu náttúru Íslands og á kostnað þjóðarinnar sem gert er að niðurgreiða raforkuverð til stóriðjuvera.
6. Aðalfundur Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð, haldinn í Garðakaffi á Akranesi 12. febrúar 2017 skorar á Umhverfisstofnun að koma tafarlaust fyrir loftgæðamæli vegna flúors og brennisteins í grennd við Stekkjarás og færa mælistöðina út fyrir mörk þynningarsvæða. Jafnframt þarf að setja þar upp veftengdan sírita loftgæða og vefmyndavél sem beint er yfir verksmiðjusvæðið auk veftengdrar hljóðupptökuvélar.
Greinargerð:
Þegar Umhverfisvaktin við Hvalfjörð fór fram á að bætt yrði við loftgæðamæli vestan við iðjuverin var ekki unnt að ímynda sér að Umhverfisstofnun myndi láta taka loftgæðamælinn í Stekkjarási í burtu og rjúfa þannig áralanga röð af mælingum á flúori og brennisteini þar. Nú hefur þessi fásinna átt sér stað og þar með mælist ekki loftborin mengun í suð-austanátt þegar útsleppi frá iðjuverunum á Grundartanga leitar í byggðir og beitarhaga vestur með Akrafjalli og í neysluvatnslindir Akurnesinga á Akrafjalli. Þess er krafist að Umhverfisstofnun láti af sofandahætti gagnvart náttúru og lífríki í námunda við iðjuverin sem spúa eiturefnum dag og nótt yfir nágrenni sitt.
7. Aðalfundur Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð, haldinn í Garðakaffi á Akranesi 12. febrúar 2017, skorar á sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar að láta ekki deigan síga gagnvart Umhverfisstofnun varðandi loftgæðamælistöð í Stekkjarási, norð-vestur af Grundartanga. Afar mikilvægt er að halda áfram loftgæðamælingum, vegna flúors og brennisteins, sem staðið hafa í fjölda ára þar og færa mælistöðina út fyrir mörk þynningarsvæða. Jafnframt þarf að setja þar upp veftengdan sírita loftgæða og vefmyndavél sem beint er yfir verksmiðjusvæðið, auk veftengdrar hljóðupptökuvélar.
8. Aðalfundur Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð, haldinn í Garðakaffi á Akranesi 12. febrúar 2017 skorar á forsvarsmenn Elkem Ísland ehf. að láta þegar af útsleppi mengandi efna sem birtist í þykkum reykjarmekki sem leggt yfir nærliggjandi byggðir og ból. Að kalla slíkt fyrirbæri „neyðarlosun“ lýsir á dapurlegan hátt afstöðu iðjuversins til nágranna sinna. Þessu athæfi þarf að linna tafarlaust. Engu máli skiptir sú staðhæfing að þessi losun rúmast innan marka starfsleyfis fyrirtækisins.