05
júl

Loftgæði eru besta gjöfin

Undanfarið hefur staðið yfir mikil ímyndarsköpun af hálfu Norðuráls á Grundartanga. Fyrirtækið hefur stutt ýmsa stóra viðburði á Akranesi og víðar, viðburði sem vekja athygli og sem margir sækja. Ímyndarsköpun fyrirtækisins hefur tengst heilsu og hreysti, hjálpsemi og velvilja. Norðurál vill vera góður granni og taka þátt í samfélaginu af heilindum – eða hvað?

Mörg okkar sem búum við mengun frá iðjuverunum á Grundartanga, höfum fyrir löngu gert okkur grein fyrir að bæði Norðurál og Elkem gætu verið betri grannar. Til marks um það eru mælingar á loftgæðum vegna mengunar frá iðjuverunum, en þau bera sem kunnugt er ábyrgð á þessum mælingum sjálf. Umhverfisvaktin við Hvalfjörð og fleiri hafa farið einarðlega fram á að stöðugar mælingar á loftgæðum verði gerðar á ákveðnum stöðum í grennd við iðjuverin. Ríkjandi vindáttir á svæðinu eru austanstæðar og er tekið mið af því í hugmyndum um staðsetningu loftgæðamælanna. Norðurál og Elkem hafa aftur á móti ekki hlustað á þessar röksemdir, heldur látið setja upp loftgæðamæli austan við verksmiðjurnar.  Halda forsvarsmenn iðjuveranna því fram að slíkur mælir geti mælt alla mengun sem sleppur út, jafnvel í grimmustu austanátt. Þessu trúir aðvitað enginn nema etv. einhver hjá Umhverfisstofnun, en þar með er listinn tæmdur.

Nýverið studdi Norðurál fótboltamót drengja á Akranesi, gaf leikskóla myndarlega gjöf o.fl. Þetta er að sjálfsögðu rausnarlegt, en gera þarf betur. Börn við Hvalfjörð, sem annars staðar, þurfa hreint loft til að anda að sér, hreint vatn til að drekka og hreina jörð til að lifa á. Þegar til lengri tíma er litið skipta þessi undirstöðuatriði lífsins meira máli en allt annað. Það er sjálfsagður réttur bæði núlifandi barna og barna framtíðarinnar að í notkun séu góðir og öflugir loftgæðamælar, rétt staðsettir, sem gefa réttar upplýsingar rafrænt t.d. með tengingu inn á vefi sveitarfélaganna við Hvalfjörð. Með því að setja upp öfluga loftgæðamæla er sýna magn mengandi efna í andrúmsloftinu hverju sinni er verið að leggja grunn að mun öflugra eftirliti með mengun en nú er. Betri „gjöf“ er ekki hægt að gefa börnum við Hvalfjörð en að endurheimta sem mest af þeim loftgæðum sem voru, fyrir daga mengandi stóriðju við Hvalfjörð. Það er hægt - ef vilji er fyrir hendi.

Ragnheiður Þorgrímsdóttir

30
jún

Athugasemdir við deiliskipulag

Umhverfisvaktin við Hvalfjörð hefur sent sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar athugasemdir við tillögu að breytingu á deiliskipulagi á Grundartanga.

Athugasemdirnar, sem sendar voru Sverri Jónssyni oddvita eru á þessa leið:


"Efni: Athugasemd við vinnubrögð og stefnu meirihluta sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar í skipulags- og umhverfismálum sbr. tillögu um breytingu á deiliskipulagi athafnasvæðis, athafna- og hafnarsvæðis og iðnaðarsvæðis á Grundartanga vestursvæði samkvæmt 43. gr. skipulagslaga nr. 123 frá 2010.


Stjórn Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð vísar í auglýsingu á vef Hvalfjarðarsveitar dags. 18. maí og gerir alvarlega athugasemd við að auglýst sé tillaga um breytingu á deiliskipulagi við aðalskipulag, sem ekki hafði verið samþykkt þegar auglýsingin um deiliskipulagið var birt. Ekki er um minniháttar skipulagsbreytingu að ræða (sbr. 43. gr. laga nr. 123 frá 2010), sé litið til tengingar tillögu um breytingu á deiliskipulagi, við nýlega samþykkta tillögu um breytingu á aðalskipulagi á Grundartanga. Því hlýtur að teljast vafasamt að þessi gjörningur meirihluta sveitarstjórnar sé lögformlega réttur.

Stjórn Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð lýsir yfir andstöðu við allar skipulagsbreytingar sem lúta að því að greiða fyrir mengandi iðnaði á Grundartanga, þ.m.t. framkominni tillögu að breytingu á deiliskipulagi. Meirihluti sveitarstjórnar ætti að hafa gert sér grein fyrir að sú ályktun, að ekki sé þörf á umhverfismati vegna viðbótar við mengandi iðnað á Grundartanga, byggir á niðurstöðum mjög svo hlutdrægra og brotakenndra mengunarmælinga, í umsjón forsvarsmanna iðjuveranna á Grundartanga, sem bera ábyrgð á mælingum á mengun vegna eigin starfsemi.

Mikill styrr hefur staðið um nýlega samþykkta tillögu um breytingu á aðalskipulagi á Grundartanga. Meirihluti sveitarstjórnar virðist hafa verið fyrirfram ráðinn í að hafa hinar fjölmörgu athugasemdir hagsmunaaðila við breytingu á aðalskipulagi á Grundartanga að engu.

Það er hneisa að meirihluti sveitarstjórnar skuli ganga á bak orða sinna í umhverfismálum og gerast handbendi gróðahyggjunnar á kostnað velferðar íbúanna við Hvalfjörð. Ýmsar bókanir einstaklinga innan meirihlutans í sveitarstjórn er tengjast afgreiðslu á tillögu um breytingar á aðalskipulagi Grundartanga, munu engu breyta þegar kemur til kastanna að koma upp nýjum mengandi fyrirtækjum á svæðinu. Þessar bókanir, sem trúlega eru til þess gerðar að firra viðkomandi sveitarstjórnarmenn ábyrgð á gerðum sínum, hljóta að teljst í meira lagi einfeldningslegar.

Nánar verður fjallað um framkvæmd atkvæðagreiðslu sveitarstjórnar, dags. 14. 6. 2011, um tillögu að breytingu á aðalskipulagi á Grundartanga, í sérstöku erindi.

Hvalfirði, 29. júní 2011

Stjórn Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð,
Ragnheiður Þorgrímsdóttir form.


Afrit sent Skipulagsstofnun"


07
jún

Athugasemdir við aðalskipulag

Eftirfarandi bréf útbjó stjórn Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð og hafði aðgengilegt á forsíðu vefs Umhverfisvaktarinnar:

Sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar
Sverrir Jónsson oddviti
Innrimel 3
301 Akranesi


Efni: Athugasemdir við tillögu um breytingu á aðalskipulagi Hvalfjarðarsveitar 2008-2020. Stækkun iðnaðarsvæðis á Grundartanga

Ágæti oddviti og sveitarstjórn.
Sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar hefur auglýst breytingu á aðalskipulagi Hvalfjarðarsveitar 2008-2020  samkvæmt  31. gr. skipulagslaga nr. 123 frá 2010. Breytingin varðar stækkun iðnaðarsvæðis á Grundartanga um 6,9 ha.

Að skilgreina svæði sem iðnaðarsvæði merkir að þar má setja mengandi iðnað, jafnvel stóriðju. Stækkun iðnaðarsvæðisins á Grundartanga mun því að öllum líkindum leiða til enn meiri mengunar frá Grundartangasvæðinu í framtíðinni. Þeirri stefnu er hafnað.

Með stækkun iðnaðarsvæðisins á Grundartanga þrengir enn að uppbyggingu annarrar atvinnustarfsemi við Hvalfjörð. Kjós og Hvalfjarðarsveit eru landbúnaðarsvæði og ferðaþjónusta er í mikilli sókn, en báðar þessar atvinnugreinar byggja á hreinu og ómenguðu umhverfi. Aukin mengun við Hvalfjörð vinnur gegn þróun þessara atvinnugreina.

Breyting athafnasvæðis í iðnaðarsvæði og þar með aukin hætta á mengun, mun fæla léttan iðnað og önnur snyrtileg fyrirtæki frá Grundartangasvæðinu í framtíðinni. Vistvæn atvinnutækifæri við Hvalfjörð þurfa næði til að dafna.

Ítrekað hefur verið bent á og rökstutt, að rannsóknir á mengun frá iðjuverunum á Grundartanga, sem eru á ábyrgð forvarsmanna þeirra, gefi ekki rétta mynd af menguninni. Sveitarstjórn er beðin að sanna að þessar ábendingar eigi ekki við rök að styðjast og fjalla um málið á opnum íbúafundi. Íbúar eiga rétt á hreinu andrúmslofti, hreinu vatni og hreinum jarðvegi.


Virðingarfyllst,

maí 2011


                                                                              __________________________________________
                                                                                                 Nafn

                                                                              __________________________________________
                                                                                                               Heimili 

Afrit sent Skipulagsstofnun, Laugavegi 166, 105 Rvk.  

13
maí

Athugasemdir við tillögu um breytingu á Aðalskipulagi Hvalfjarðarsveitar 2008-2020

Umhverfisvaktin við Hvalfjörð og fjölmargir aðrir aðilar hafa sent inn athugasemdir við tillögu um breytingu á aðalskipulagi Hvalfjarðarsveitar 2008-2020. Stækkun iðnaðarsvæðis á Grundartanga.

Athugasemdirnar eru nú til umfjöllunar hjá skipulagsnefnd Hvalfjarðarsveitar og verða brátt kynntar sveitarstjórn.

Það er mikið gleðiefni hversu margir hafa brugðist við og andmælt frekari mengun vegna stóriðju við Hvalfjörð. Þess er vænst að tekið verði tillit til andmælanna. Við eigum rétt á hreinu lofti, hreinu vatni og hreinni jörð.

 

10
apr

Umhverfishátíðin okkar

21. ma 7.jpg - 154.83 Kb

Velkomin á umhverfishátíð Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð í dag kl. 14 að Hlöðum á Hvalfjarðarströnd.

Fleiri greinar...