15
okt

Leiðrétting


Leiðrétting frá Umhverfisvaktinni við Hvalfjörð, send Skessuhorni vegna athugasemda Norðuráls við pennagrein:

Í síðasta tölublaði Skessuhorns birtist pennagrein frá Umhverfisvaktinni við Hvalfjörð. Greinin fjallar um mengunarslys hjá Norðuráli og umhverfismat vegna fyrirhugaðrar natríumklóratverksmiðju. Í tengslum við greinina birtist álit talsmanns Norðuráls vegna mengunarslyssins. Í máli hans kemur fram misskilningur sem þarf að leiðrétta. Hann virðast halda að tillaga Umhverfisvaktarinnar að viðbragðsáætlun vegna mengunarslysa á Grundartanga hafi komið fram eftir bilun í hreinsibúnaði hjá Norðuráli þann 21. sept. s.l. Hið rétta er að tillaga Umhverfisvaktarinnar um viðbragðsáætlun er hluti af tillögum hennar um endurskoðun á vöktun umhverfisins og voru þær sendar Umhverfisstofnun í febrúar s.l. Tillaga Umhverfisvaktarinnar um viðbragðsáætlun á rætur að rekja til alvarlegs mengunarslyss sem varð í Norðuráli í ágúst 2006. Íbúar í grennd höfðu enga hugmynd um slysið fyrr en mörgum mánuðum síðar. Bændur á svæðinu eru enn að kljást við afleiðingar þess og í vöktunarskýrslu iðjuveranna frá árinu 2010 kemur fram að á sjö bæjum mældist meðalstyrkur flúors í beinösku kinda yfir þeim mörkum þar sem talin er hætta á tannskemmdum. Þegar reykhreinsivirki slær út hjá Norðuráli þýðir það að flúor sleppur óhindrað út í andrúmsloftið á meðan á viðgerð stendur og getur þar með mengað fæðu grasbíta á svæðinu. Af þeim sökum er mikilvægt að bændur fái upplýsingar um leið og hreinsivirki verður óvirkt svo þeir geti sjálfir tekið afstöðu til þess hvernig þeir haga fóðrun dýra þar til rignt hefur og flúor fengið tækifæri til þess að mynda efnasambönd í jarðvegi sem gerir hann síður aðgengilegan grasbítum í gegnum fæðu þeirra. Hér er um dýraverndunarmál að ræða auk þess sem bændur hljóta að eiga rétt á að fá tækifæri til að verja sitt lifibrauð eins og mögulegt er.

11
okt

Natríumklóratverksmiðja verði látin sæta umhverfismati

Ályktun frá Umhverfisvaktinni við Hvalfjörð:

Stjórn Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð undrast þá niðurstöðu Skipulagsstofnunar, að fyrirhuguð natríumklóratverksmiðja á Grundartanga við Hvalfjörð, skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Það er miður ef stjórnvöld ætla ekki að láta það vera forgangsverkefni í starfi sínu að stuðla að heilsusamlegu umhverfi íbúa landsins.
Nauðsynlegt og sjálfsagt er að gæta fyllstu varúðar gagnvart fyrirtækjum sem vitað er að geti spillt umhverfinu með hættulegum efnum, í þessu tilfelli er m.a. um að ræða vítissóta og saltsýru. Því viðmiði Skipulagsstofnunar, að gefa megi fyrirtækjum „afslátt“ á kröfu um umhverfismat, vegna þess að mengun frá þeim sé lítilvæg miðað við þá mengun sem fyrir er á tilteknu svæði, er eindregið hafnað.
Á það skal enn bent, að aldrei hafa verið rannsökuð samlegðaráhrif mengandi efna frá iðjuverunum á Grundartanga og því er ekki vitað hver mengun umhverfisins er í raun og veru. Jafnframt er ítrekað það sem áður hefur komið fram að ábyrgð á mengunarmælingum vegna iðjuveranna á Grundartanga er hjá forsvarmönnum iðjuveranna, en það gerir niðurstöður mengunarmælinganna ónothæfar sem vitneskju til að byggja á.
Bent er einnig á að hreinsibúnaður iðjuveranna sem nú starfa á Grundartanga hefur ítrekað bilað, síðast hjá Norðuráli í sept. 2011, með ókunnum afleiðingum, enda hafa þær ekki verið rannsakaðar. Fremur en að auka hættu á mengun á svæðinu, telur stjórn Umhverfisvaktarinnar nær að gera meiri kröfur en nú eru gerðar, til gæða og öryggis í hreinsikerfum iðjuveranna á Grundartanga. Höfð sé í huga nálægð svæðisins við íbúabyggð, opið vatnsból Akurnesinga, sem og landbúnað og framleiðslu tengda honum.
Stjórn Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð væntir þess að sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar beiti sér fyrir mati á umhverfisáhrifum vegna umræddrar natríumklóratverksmiðju. Jafnframt verði íbúum og öðrum hagsmunaaðilum í sveitarfélögunum í grennd við Grundartanga boðið að tjá sig um fyrirhugaða staðsetningu og starfsemi natríumklóratverksmiðju þar.


09
okt

Mengunarslys

Umhverfisvaktin við Hvalfjörð harmar mengunarslysið sem varð hjá Norðuráli á Grundartanga þann 21. sept. s.l. en þann dag sló reykhreinsivirki 1 í tvígang út vegna bilunar í rafbúnaði virkisins.
Vakin er sérstök athygli á því að slysið skyldi ekki tilkynnt samstundis, en á það hefur Umhverfisvaktin lagt áherslu við endurskoðun vöktunaráætlunar vegna iðjuveranna á Grundartanga. Tillaga Umhverfisvaktarinnar sem send hefur verið Umhverfisstofnun, er svohljóðandi:


Stjórn Umhverfisvaktarinnar vekur athygli á nauðsyn fyrirbyggjandi aðgerða ef mengunarslys verður í iðjuverunum og leggur til að hönnuð verði viðbragðsáætlun fyrir íbúa í nágrenni Grundartanga. Farið verði yfir viðbragðsáætlunina að minnsta kosti tvisvar á ári til að sannreyna gildi hennar. Aðferðin sjálf þarf ekki að vera flókin. Hún getur falist í úthringikerfi þar sem haft er samband við a.m.k. einn einstakling á hverju byggðu bóli í nágrenni iðjuveranna ef hreinsivirki bregðast eða annað óvænt ber að höndum er stefnt getur heilsu manna og dýra í voða. Minnt er á mengunarslys í álverinu í ágúst 2006 í þessu sambandi, en þá liðu margir mánuðir áður en heimamenn fengu einhverjar upplýsingar um það. Viðvörun hefði átt að senda út strax og bilunin varð og rannsaka áhrif slyssins eins fljótt og auðið varð.

Litið er þó að það sem spor í rétta átt, að íbúar hafi fengið upplýsingar um slysið, þó seint væri. Umhverfisvaktin við Hvalfjörð ítrekar þá nauðsyn, að tilkynna mengunarslys samstundis þannig að hægt sé að gera viðeigandi ráðstafanir.

(Fréttatilkynning)

31
ágú

Enn um Grundartanga

Þann 28. júlí s.l. lögðu Sigurbjörn Hjaltason bóndi á Kiðafelli og Ragnheiður Þorgrímsdóttir bóndi á Kúludalsá fram stjórnsýslukæru vegna afgreiðslu sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar á umsókn Faxaflóahafna um stækkun iðnaðarsvæðisins á Grundartanga. Kæran er til meðferðar í Innanríkisráðuneytinu. Framkvæmdir verða ekki hafnar á umræddu svæði, skv. niðurstöðu Skipulagsstofnunar, fyrr en ráðuneytið hefur lokið umfjöllun sinni um kærumálið.

Vissulega er hér um áfangasigur að ræða fyrir þann stóra hóp fólks sem vill hreint loft, hreint vatn og hreina jörð í Hvalfirði. Nauðsynlegt er fyrir alla íbúa Hvalfjarðar og alla landsmenn að taka afstöðu til þess, hvernig fjörðurinn á að líta út í framtíðinni; hvort lögmál gróðahyggjunnar eigi að ráða för með tilheyrandi eyðileggingu eða hvort við viljum lifa og starfa í anda sjálfbærrar þróunar. Mengandi stóriðja og sjálfbær þróun fara nefnilega ekki saman og það er ekki hægt að velja hvorutveggja saman, til lengri tíma litið.

Við sem viljum stuðla að sjálfbærri þróun vitum auðvitað að stóriðjufyrirtækin sem nú eru til staðar á Grundartanga eru komin til að vera, a.m.k. um hríð. Við vitum einnig að Elkem og Norðurál menga verulega - allan sólarhringinn - allan ársins hring. Gera verður ítrustu kröfur um mengunarvarnir og mengunareftirlit hjá þeim. Slíkar kröfur eru ekki gerðar nú og fyrirtækjunum hefur verið falið ótrúlegt vald með því að leyfa þeim að bera ábyrgð á mengunarmælingum vegna eigin starfsemi. Fáum sem hugsa málið til enda, dettur í hug að þau geti farið vel með slíkt vald! Það eru gríðarleg verkefni framundan við að mæla mengun eftir þessi fyrirtæki, mengun sem víst er að sér stað í öllum þrepum lífríkisins. Dapurlegt er til þess að  hugsa að stefna Faxaflóahafna og sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar sé að bæta við mengunina þó "óverulega" sé að eigin sögn.


Undir flipanum "Stóriðja"  hér til hliðar er hægt að lesa kæru Sigurbjörns og Ragnheiðar ásamt fleira efni. Ennfremur er hægt að lesa um málefni Grundartanga á vefsíðu Saving Iceland. Slóðin er http://www.savingiceland.org


13
ágú

Frá stjórn

Sæl öll.

Stjórnarmenn hafa verið á þönum út og suður yfir hásumarið en nú eru flestir komnir til baka. Því miður höfum við tapað Jóhönnu úr stjórn. Við þökkum henni fyrir gott samstarf og söknum hennar. Gyða hefur tekið að sér að vera ritari eins og meðfylgjandi fundargerð ber með sér.

Fundargerð Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð
Fundur haldinn að Kúludalsá miðvikudaginn 10. ágúst 2011 kl. 20.00.
Mættir: Þórarinn Jónsson, Ragnheiður Þorgrímsdóttir, Daniela Gross og Gyða S. Björnsdóttir.

1.    Kosning ritara í stjórn. Gyða S. Björnsdóttir tekur það verkefni að sér.

2.    Grundartangi, skipulagsmál, athugasemdir, afgreiðsla, kæra og fl.
Viðbrögð við svari frá Skipulagsnefnd Hvalfjarðarsveitar við athugasemdum Umhverfisvaktarinnar rædd.

3.    Vöktunaráætlun.
Vöktunaráætlun iðjuveranna á Grundartanga hefur ekki verið afgreidd frá Umhverfisstofnun. Ragnheiður hefur sent fyrirspurn en ekki fengið svör.

4.    Áréttun erindis við Faxaflóahafnir.
Stjórnin lýsir yfir vonbrigðum með að engin svör hafi borist. Ákveðið að senda nýtt erindi.

5.    Dagur íslenskrar náttúru 16. sept. n.k.
Erindi frá umhverfisráðuneytinu lagt fram.

6.    Önnur mál.
a.    Samþykkt að senda ábúendum Melaleitis baráttukveðju.
b.    Erindi Jóhönnu Harðardóttur varðandi malarnám Björgunar í Hvalfirði tekið fyrir. Stjórnin tekur heilshugar undir ábendingu um að fylgjast vandlega með tilhögun malarnáms.

Fleira ekki tekið fyrir. Fundi slitið kl. 23.00.