22
ágú

Fundur 21. 8. 2012

Umhverfisvaktin við Hvalfjörð hélt fund að Hálsi í Kjós þriðjudaginn 21. ágúst kl. 20.30.
Mættir: Þórarinn Jónsson, Ragnheiður Þorgrímsdóttir, Daniela Gross og Gyða S. Björnsdóttir.

1.    Kvikmyndasýning þann 14. júní að Hjalla í Kjós rædd. Sýnd var myndin Baráttan um landið eftir Helenu Stefánsdóttur.  Þuríður Einarsdóttir einn af aðstandendum myndarinnar sagði í stuttu máli frá gerð hennar og svaraði spurningum að henni lokinni. Umræða á milli viðstaddra að sýningu lokinni var mjög áhugaverð og hvetjandi.

2.    Ragnheiður greinir frá nýjum mælingum á flúori í lífsýnum og þvagi hrossa sem gerðar voru á vottuðum rannsóknarstofum. Ragnheiður greindi einnig frá tilraunum sínum til að ná eyrum opinberra aðila, t.d. umhverfisráðherra.

3.    Dagskrá vetrarins rædd ásamt ýmsum hugmyndum um framhald rannsókna á lífsýnum dýra við fjörðinn.

Fleira ekki tekið fyrir. Fundi slitið kl. 23.15.


Ath. Aðrar fundargerðir má finna undir flipanum Um félagið og Fundargerðir

09
jún

Baráttan um landið

Umhverfisvaktin við Hvalfjörð stóð fyrir sýningu á heimildamyndinni Baráttan um landið
fimmtudaginn 14. júní á Hjalla í Kjós.
Áður en sýning hófst sagði Þuríður Einarsdóttir stuttlega frá gerð myndarinnar og svaraði
spurningum að sýningu lokinni.
Mæting var góð og umræður urðu frjóar um efni myndarinnar.

Þökk þeim sem tóku þátt.

Stjórnin

12
maí

Vegna Melaleitis

Nýlegur dómur Hæstaréttar staðfesti niðurstöðu héraðsdóms um að Hvalfjarðarsveit beri að greiða eigendum Melaleitis í Hvalfjarðarsveit skaðabætur vegna mengunar frá verksmiðjubúi Stjörnugríss á Melum í sömu sveit.

Stjórn Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð sendir eigendum Melaleitis innilegar hamingjuóskir með sigurinn. Sömuleiðis öllu áhugafólki um heilnæmt umhverfi.

Dóminn má lesa hér:

http://www.haestirettur.is/domar?nr=8001

03
maí

Neysluvatn Akurnesinga

Stjórn Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð var boðuð á fund forsvarsmanna Akraneskaupstaðar 2. maí s.l.

Umræðuefnið var neysluvatn Akurnesinga. Athugasemd Umhverfisvaktarinnar frá í haust hefur vakið umræður um hvort ekki sé rétt að mæla mengandi efni í neysluvatninu yfir vetrartímann einnig.

Umhverfisvaktin fagnar því framtaki bæjarstjórnar að hefja skuli mælingar á neysluvatninu yfir leysingatíma á veturna.

Ábendingar Umhverfisvaktarinnar byggjast á haldgóðum rökum. Ákvörðun fundarstjóra var þó sú að þessi rök fengjust hvorki gjörð heyrum kunn né rædd á fundinum.

Stjórn Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð er fús til samstarfs við forsvarsmenn Akraneskaupstaðar og þakkar það traust sem félaginu er sýnt.

17
apr

Náttúruverndarþing

Umhverfisvaktin við Hvalfjörð hvetur félagsmenn sína og aðra náttúruunnendur til að mæta á Náttúruverndarþing 28. apríl 2012 í Háskólanum í Reykjavík. Sjá frétt á vef Landverndar www.landvernd.is