17
nóv

Fundargerð aðalfundar 2013

Aðalfundur Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð haldinn 12. nóvember 2013 að Eyrarkoti í Kjós
 
Þórarinn Jónsson formaður bauð fundargesti velkomna og stakk upp á Sigurbirni Hjaltasyni sem fundarstjóra. Það var samþykkt samhljóða.
Sigurbjörn las upp dagskrá fundarins:
Dagskrá fundarins:
1.      Innganga nýrra félaga.
2.      Skýrsla stjórnar.
3.      Reikningar félagsins lesnir upp og þeir bornir undir atkvæði.
4.      Kosning stjórnar og skoðunarmanna reikninga.
5.      Tillaga að verkefnum næsta árs.
6.      Önnur mál.
Gengið var til dagskrár.
1. Samþykktir voru nýjir félagar: Ágústa Oddsdóttir, Margrét Sveinsdóttir, Björg Theodórsdóttir, Anna Hauksdóttir, Áslaug Hauksdóttir.

2. Þórarinn Jónsson las upp skýrslu stjórnar fyrir árið 2013, sjá nánar á heimasíðu Umhverfisvaktarinnar.

3. Daniela Gross gerði grein fyrir reikningum félagsins fyrir árið 2012. Orðið var gefið laust um skýrslu stjórnar og reikninga.
Ragnheiður Þorgrímsdóttir kynnti bréf/fyrirspurn sem sent var atvinnuvega- og nýsköpunaráðherra fyrir nokkrum vikum. Þar var spurst fyrir um rannsóknir á þolmörkum íslenskra húsdýra gagnvart flúori. Svar hefur ekki borist og mun Ragnheiður ítreka fyrirspurnina. Þá vakti Ragnheiður athygli á póstkorti sem Umhverfisvaktin gaf út á liðnu ári.
Sigurður Sigurðsson spurðist fyrir um efni í skýrslu stjórnar varðandi flúor. Hann nefndi að flúor er komið yfir mörk á nokkrum bæjum og mikilvægt sé að mæla flúor allt árið eins og Umhverfisvaktin hefur ítrekað bent á.
Fleiri kváðu sér ekki hljóðs. Reikingar félagsins voru bornir undir atkvæði og samþykktir samhljóða.

4. Ingibjörg Jónsdóttir og Ragnheiður Þorgrímsdóttir gáfu báðar kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu og var það samþykkt samhljóða. Gyða S. Björnsdóttir og Daniela Gross gáfu ekki kost á sér sem varamenn og í þeirra stað voru kosnir með samhljóða atkvæðum Lisa Sascha Boije av Gennäs og Hrannar Hilmarsson.

5. Rætt var um verkefni næsta árs. Ítrekuð var hugmynd um sem reifuð var í skýrslu stjórnar um ljósmyndasýningu með vorinu. Umhverfisvaktin hyggst standa fyrir ljósmyndasýningu af iðnaðarsvæðinu á Grundartanga. Ef fólk hefur áhuga á að taka þátt í verkefninu með því að senda inn mynd er það vel þegið.

6. Fimm ályktinar voru lesnar upp og bornar undir atkvæði. Þær voru samþykktar samhljóða.
Þá var boðinn velkominn sérstakur gestur fundarins, Sigurður H. Magnússon plöntuvistfræðingur. Sigurður kynnti niðurstöður mælinga á styrk þungmálma í tildurmosa á Íslandi, en frá 1990 hefur á fimm ára fresti verið fylgst með styrk þeirra víðs vegar um land. Rannsóknirnar eru hluti af evrópsku vöktunarverkefni sem m.a. er ætlað að fylgjast með loftborinni mengun. Erindi Sigurðar var mjög fróðlegt og svaraði hann greiðlega spurningum sem brunnu á fundarmönnum á eftir.

Í lokin gerði Sigurður Sigurðarson fv. yfirdýralæknir grein fyrir helstu niðurstöðum vegna rannsóknar á veikindum hrossa á Kúludalsá. En honum var falið ásamt Jakobi Kristinssyni, dósent í eiturefnafræði, að yfirfara gögn vegna rannsóknarinnar. Niðurstöður þeirra gefa tilefni til frekari rannsókna og gefa vísbendingar um að magn flúors í búfé á svæðinu í kringum iðjuverin fari hækkandi og hafi áhrif á heilsu dýranna.
Fundi var slitið kl. 22:30.

Fundargerð ritaði Ingibjörg Jónsdóttir

04
nóv

Aðalfundur 2013


Aðalfundur Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð verður haldinn þriðjudagskvöldið 12. nóvember n.k. í Eyrarkoti, Kjós og hefst kl. 20.


Dagskrá fundarins:
1. Innganga nýrra félaga
2. Skýrsla stjórnar
3. Reikningar félagsins lesnir upp og þeir bornir undir atkvæði.
4. Kosning stjórnar og skoðunarmanna reikninga.
5. Tillaga að verkefnum næsta árs.
6. Önnur mál.


Gestur fundarins verður Sigurður H. Magnússon, gróðurvistfræðingur. Að loknum aðalfundarstörfum mun hann fjalla um niðurstöður rannsókna á áhrifum iðjuvera á þungmálma og brennistein í mosa, og svara fyrirspurnum.
Félagar eru hvattir til að mæta, taka með sér gesti og taka þátt í umræðum um áherslur í starfi komandi árs.
Nýir félagar eru boðnir velkomnir.
Kaffi og meðlæti í fundarhléi.


Hlökkum til að sjá þig.

Stjórn Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð03
sep

Áskorun um að auka loftgæðamælingar í Hvalfirði

Rafræn undirskriftasöfnun

Iðjuverin á Grundartanga losa árlega mikið magn eiturefna út í andrúmsloftið. Skaðsemi efna á borð við flúor og brennistein fyrir náttúru og lífríki er vel þekkt. Losun eiturefnanna á sér stað allan ársins hring. Þrátt fyrir það fer umhverfisvöktun vegna flúors í andrúmslofti utan iðjuveranna aðeins fram frá apríl til október, þ.e. hálft árið. Þetta gerist þrátt fyrir margítrekaðar ábendingar Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð um að hefð sé fyrir útigangi og vetrarbeit sumra húsdýra.

Í þessu sambandi má benda á að samkvæmt starfsleyfi viðkomandi iðjuvers er heimilt að auka útsleppi flúors á vetrarmánuðum, þegar flúor í andrúmslofti er ekki mældur, á þeim forsendum að það sé utan vaxtar og beitartíma. Sjá grein 2.1.6. í starfsleyfi.

Það er gríðarlega mikilvægt fyrir heilsu manna og dýra sem og fæðuöryggi í Hvalfirði, að hægt sé að fylgjast með eiturefnum í lofti og staðreyna mengun á hverjum tíma. Það hlýtur einnig að vera umhverfisyfirvöldum og iðjuverunum sjálfum kappsmál að hafa þessar upplýsingar.

Við skorum á yfirvöld umhverfismála að hefja vöktun á flúor yfir vetrartímann, frá og með október 2013. Mælt verði flúor í öllum mælitækjum fyrir loftgæði sem gert er ráð fyrir í gildandi vöktunaráætlun.

Við biðjum þig að taka undir áskorun okkar með því að ljá undirskrift þína rafrænt hér


Þeir sem skrifa undir geta ákveðið hvort undirskrift þeirra er leynileg eða ekki.

Undirskriftasöfnunin stendur fram í október.


Með góðri kveðju og þökk frá Umhverfisvaktinni við Hvalfjörð

rarinn.jpg - 24.74 Kb

Þórarinn Jónsson formaður
Hálsi, Kjós


11
júl

Póstkort Umhverfisvaktarinnar

pstkort 1.jpg - 138.62 Kb

Umhverfisvaktin við Hvalfjörð hefur sent frá sér meðfylgjandi póstkort og er dreifing á því hafin. Félagsmenn geta nálgast kortið sem er ókeypis, hjá stjórnarmönnum. Upplagt er að senda það vinum eða ættingjum með ósk um að okkur Íslendingum auðnist að standa saman um vernd okkar miklu auðlindar sem er ósnortin náttúra, - að það verði ekki framar liðið að henni sé fórnað á altari gróðaafla.

Með kærri kveðju til allra náttúruunnenda!

pstkort 2.jpg - 50.39 Kb

09
maí

Viðbrögð við skýrslu Faxaflóahafna

Fréttatilkynning frá Umhverfisvaktinni við Hvalfjörð vegna skýrslu Faxaflóahafna um mengunarálag og umhverfisvöktun vegna iðjuveranna á Grundartanga.


Umhverfisvaktin við Hvalfjörð hefur lengi reynt að fá iðjuverin á Grundartanga, íslenskar eftirlitsstofnanir og Faxaflóahafnir til viðræðna um stöðu umhverfismála í Hvalfirði, hvar séu hættumerki vegna mengunar og hvernig sé unnt að vakta umhverfið betur.


Umhverfisvaktin fagnar því að Faxaflóahafnir skuli hafa haft frumkvæði að því að skoða mengunarálag frá iðjuverum á Grundartanga, en telur að skýrslu þeirra sé ábótavant í mikilvægum atriðum, til dæmis í samanburði á umhverfi erlendu álveranna tveggja og Norðuráls sem er staðsett í landbúnaðarhéraði. Umhverfisvaktin telur að vegna staðsetningar Norðuráls ætti Umhverfisstofnun að gera strangari kröfur til fyrirtækisins en nú er gert um losun flúors.


Umhverfisvaktin gerir einnig alvarlega athugasemd við álit Faxaflóahafna* um að staða mengunarmála í Hvalfirði sé vel ásættanleg og telur að ekki hafi verið sýnt fram á að svo sé. 


(*Vísað er í kvöldfrétt hjá RÚV þriðjudaginn 7. maí s.l.)