20
maí

Silicor Materials

 

Eftirfarandi grein birtist í Fréttablaðinu 19. maí 2017

Silicor Materials í Hvalfirði og nýju fötin keisarans  

Þann 24. apríl síðastliðinn var flutt mál í Héraðsdómi Reykjavíkur þar sem tekin var fyrir krafa íbúa í Hvalfirði og fólks sem á þar eignir, um að fram fari mat á umhverfisáhrifum vegna fyrirhugaðs kísilvers Silicor Materials á Grundartanga. 

Gagnrýnisraddir vegna fyrirhugaðs kísilvers eru háværar og þess krafist að sérstakt tillit skuli tekið til þess að um sé að ræða tilraunaverksmiðju, þá fyrstu sinnar tegundar í heiminum. Sú staðreynd kallar á sérstaka varúð. En hefur varúð verið viðhöfð? Þvert á móti. Sé leitað í gögn um kísilver Silicor Materials finnst ekki annað efni en það sem Silicor hefur sjálft lagt fram. Óháðir aðilar með til þess bæra þekkingu hafa ekki ennþá rýnt gögn Silicor. Aftur á móti hafa ýmsir áhrifaaðilar beitt lýðskrumi gagnvart almenningi.

Hverra hagur er það að kísilver Silicor Materials þurfi ekki að sæta mati á umhverfisáhrifum? Víst er að hagsmunir almennings eru ekki hafðir að leiðarljósi.

Faxaflóahafnir sf, sem eru að mestu í eigu Reykjavíkurborgar og eiga iðnaðarsvæðið á Grundartanga, lögðu til við Skipulagsstofnun í bréfi þann 1. apríl 2014 að kísilverið þyrfti ekki að sæta mati á umhverfisáhrifum. Alvarleikinn felst í því að stjórn Faxaflóahafna sf er skipuð kjörnum fulltrúum almennings og á að gæta hagsmuna þeirra. Talsverður hluti af þeim almenningi mun sitja uppi með afleiðingarnar ef rekstur kísilversins misheppnast, til dæmis íbúar Akraness þar sem hafnarstjóri Faxaflóahafna sf var bæjarstjóri um árabil. Í stjórn Faxaflóahafna sf sitja meðal annarra einnig núverandi oddvitar Hvalfjarðarsveitar og Akraneskaupstaðar.

Ljóst er að Skipulagsstofnun, sem ákvað að iðjuverið þyrfti ekki að sæta mati á umhverfisáhrifum, notaði einvörðungu gögn frá Silicor Materials sjálfu til að byggja ákvörðun sína á.

Sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar, sem hefur skipulagsvald fyrir Grundartanga, leitaði álits um kísilverið hjá ráðgjafarfyrirtækinu Environice í Borgarnesi. Þess var sérstaklega óskað að metnar yrðu verstu mögulegu afleiðingar af starfsemi kísilversins. Environice hafði ekki fremur en aðrir upplýsingar frá óháðum aðilum um framleiðsluferli kísilversins og aflaði þeirra ekki. Þá ákvað ráðgjafarfyrirtækið að þar sem það hefði ekki nein gögn um verstu mögulega útkomu yrði ekki lagt mat á hana. Lýsing Environice á tilraunaverksmiðjunni er samt afar hástemmd þar sem notuð er orðræða um umhverfisvæna stóriðju. Það fyrirbæri er, eðli málsins samkvæmt, ekki til. Þessa niðurstöðu tók sveitarstjórnin góða og gilda. Nauðsynlegt er að fram komi að varaoddviti Hvalfjarðarsveitar er fyrrverandi starfsmaður Environice. Það hefði lýst meiri metnaði sveitarfélagsins að leita til óháðs aðila sem treysti sér til að uppfylla kröfurnar sem settar voru fram. Niðurstaðan hefði þá kannski orðið trúverðug.

Umhverfismat fyrir kísilver Silicor Materials er sjálfsagt, eins og fyrir alla stóriðju. Því til stuðnings má nefna að eftir er að afla viðmiðunarmarka á Íslandi fyrir ýmis konar eiturefni sem er að finna í framleiðsluferli kísilversins. Það er vissulega óásættanleg staða. Jafnframt er ekki ljóst hvaða eiturefni verða geymd á athafnasvæði kísilversins, í hve miklu magni og hvernig verða þau geymd, en þessi atriði skipta miklu máli.

Það er dapurlegt að talsmenn og verjendur þess að kísilver Silicor Materials þurfi ekki að sæta umhverfismati, skyldu viðhafa ómálefnalega umræðu fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur þann 24. apríl sl. svo sem að  það sé lítil mengun frá kísilveri Silicor Materials miðað við önnur iðjuver á Grundartanga. Silicor Materials mun senda mengandi efni út í umhverfið í ófyrirséðu magni. Það er auðvitað kjarni málsins.

F.h. Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð

Ragnheiður Þorgrímsdóttir

Einar Tönsberg

Ágústa Oddsdóttir

Svana Lára Hauksdóttir

Jóna Thors

 

 

 

27
maí

Umhverfisúttekt Faxaflóahafna


... og búskapur í Hvalfirði


Umhverfisvaktin við Hvalfjörð fagnar því að Faxaflóahafnir skuli hafa látið skoða mengunarálag frá iðjuverum á Grundartanga og vöktun umhverfisins, enda hefur Umhverfisvaktin ítrekað bent á hættumerki og leitað eftir viðræðum við Umhverfisstofnun, Faxaflóahafnir og iðjuverin á Grundartanga um umhverfismálin í Hvalfirði.
Faxaflóahafnir sem eru landeigandi á Grundartanga áttuðu sig á að staða mengunar frá svæðinu og eftirlit með henni væru ekki hafin yfir vafa og réðu þrjá sérfræðinga til að fara yfir gögn um málið og skila skýrslu.

Vandinn er sá að sérfræðingunum, höfundum hinnar nýútkomnu skýrslu, var þröngur stakkur skorinn í verkefninu og þeir tóku ýmsum forsendum mengunarmarka og umhverfisvöktunar sem gefnum þó þær séu það ekki.
Umhverfisvaktin telur að skýrsla Faxaflóahafna geti verið fyrsta skref í stóru verkefni. Næsta skref sé að fara rækilega ofan í saumana á möguleikum hefðbundins búskapar í nágrenni stóriðjunnar í Hvalfirði, þar sem sérstaða og verðmæti íslensks búfjár verða í brennidepli.
Rannsaka þarf hvort íslenskt búfé þolir í raun og veru það sem því er ætlað af flúori og brennisteini í grasi og heyi, en stuðst hefur verið við ágiskanir um þolmörk dýranna ár eftir ár. Rannsaka þarf grunngildi eiturefnanna í íslensku sauðfé, nautgripum og hrossum og finna út skaðsemismörk hverrar tegundar búfjár fyrir sig út frá dýraverndunarsjónarmiði og notkun dýranna.


Vöktun búfjár
Höfundar skýrslu Faxaflóahafna byggja niðurstöður sínar varðandi búfé að mestu á vöktunarskýrslu iðjuveranna fyrir árið 2011. Skýrslur iðjuveranna um umhverfisvöktun hafa verið deiluefni, ekki vegna þess að aðilar sem sjá um mælingar séu tortryggðir, heldur vegna utanumhalds iðjuveranna og vegna ákveðinnar tregðu þeirra til að mæla nokkra grundvallarþætti svo sem flúor í beinum langlífra grasbíta og flúor í heysýnum árlega, svo nokkuð sé nefnt.


Iðjuverin hafa einungis samþykkt að greiða fyrir flúormælingar í beinum sauðfjár. Niðurstöður mælinganna kveikja viðvörunarljós hjá skýrsluhöfundum.  Árið 2011 mældist meðalstyrkur flúors í kjálkabeinum fullorðins fjár yfir mörkum þar sem talin er hætta á tannskemmdum (hjá dádýrum) á sjö vöktunarbæjum af tólf þ.e. á bilinu 1000-2000 ppm. Hæsti styrkur flúors mældist 2726 ppm í 6 vetra kind. Þegar kindarhaus er sendur til skoðunar á Keldur fylgja honum hvorki upplýsingar um heilsufar kindarinnar né fleiri sýni úr henni. Einungis er vitað að það þurfti að fella kindina, í þessu tilviki sex vetra gamla. Flúormæling kjálkabeina gefur vitneskju um upphleðslu flúors í beinum hennar en um líðan kindarinnar eða hversu góð hún var til manneldis er ekki vitað.
Spyrja má hvort unnt sé að áætla skaðsemi flúors fyrir sauðfé á Íslandi einungis út frá mælingum á tönnum og beinum. Jafnframt er það álitamál að nota tuttugu ára gamla rannsókn á norskum dádýrum til að álykta um hugsanlegan skaða á kindum og öðru búfé á Íslandi. Umhverfisstofnun hefur samþykkt að norska rannsóknin sé heimfærð á íslenskan búpening. Ekki er að sjá að þessar sérkennilegu forsendur hafi ýtt við höfundum skýrslunnar.


Sömuleiðis má spyrja hvort rétt sé að nota Evrópskan staðal um leyfilegt magn flúors í grasi og heyi án nokkurra undangenginna rannsókna um þolmörk og skaðsemi flúors fyrir hérlend húsdýr. Skýrsluhöfundar gera hvorki athugasemdir við þetta né skort á vöktun á heyi. Þeir líta einnig framhjá því að afleiðingar mengunarslyss í Norðuráli í ágúst 2006 voru ekki rannsakaðar. Þeir gera ekki athugasemdir við að flúor sé ekki vaktað utan þynningarsvæðis yfir vetrartímann, þegar útigangshross eru á beit. Á þeim tíma slaknar á viðmiðum um losun flúors frá Norðuráli samkvæmt starfsleyfi.


Athygli skýrsluhöfunda beinist ekki nægjanlega mikið að því að dreifing mengunar er ekki vel þekkt utan þynningarsvæðis eins og hefur sýnt sig á háum gildum flúors fjarri Grundartanga.


Hér hafa nokkur atriði verið talin upp og vonandi ýta þau við einhverjum. Húsdýrin eru ekki aðskotahlutir í náttúrunni. Þau hafa verið hér frá landnámi og gert þjóðinni mögulegt að komast af. Þau eru stolt hvers bónda og allrar þjóðarinnar og þau eiga rétt á hreinu umhverfi. Því má aldrei gleyma.


Viðbragsáætlun
Höfundar skýrslunnar benda á möguleika þess að koma upp viðbragsáætlun fari útsleppi mengandi efna úr böndunum. Umhverfisvaktin fagnar ábendingunni enda hefur viðbragðsáætlun vegna mengunarslysa og það að íbúar geti fylgst með loftgæðum verið ein af tillögum hennar um úrbætur.
Umhverfisvaktin bendir á að mál hefðu þróast á annan veg ef slík viðbragðsáætlun hefði verið fyrir hendi í ágúst 2006 en þá varð mengunarslys hjá Norðuráli sem íbúar vissu ekki um fyrr en mörgum mánuðum seinna og afleiðingar þess voru ekki rannsakaðar. Slíkt má ekki að endurtaka sig.


Rannsóknir vantar
Umhverfisvaktin við Hvalfjörð hafnar þeirri niðurstöðu skýrsluhöfunda að umhverfisvöktun samkvæmt áætlun og fyrirmælum Umhverfisstofnunar gefi skýra mynd af mengun á svæðinu. Umhverfisvaktin hefur bent á að meðan mikilvægir þættir séu sniðgengnir í mengunarmælingum á vegum iðjuveranna fáist ekki rétt mynd af stöðunni. Skortur sé á rannsóknum á grunngildum, þoli og skaðsemismörkum búfjár varðandi eiturefnið flúor. Vilji Faxaflóahafnir taka afstöðu með náttúru og lífríki ættu þær að þrýsta á Umhverfisstofnun að beita sér fyrir ítarlegum rannsóknum á þolmörkum búfjár sem þarf að sæta stöðugu flúorálagi yfir langan tíma, jafnvel alla æfi. Engar slíkar rannsóknir eru til á Íslandi.


Umhverfisúttekt Faxaflóahafna vegna Grundartanga einkennist af þeim gögnum sem þegar hefur verið aflað og það takmarkar mjög gagnsemi hennar. Samanburður við erlend álver gerir íslensku búfé lítið gagn. Aftur á móti undirstrikar úttektin skort á rannsóknum sem hefði þurft að gera fyrir löngu.


Hvalfirði 20. maí 2013
Umhverfisvaktin við Hvalfjörð

Greinin birtist í 10. tbl. Bændablaðsins 2013

07
mar

Ályktanir aðalfundar 2016


Ályktanir aðalfundar Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð 2016

1.    Aðalfundur Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð, haldinn í Garðakaffi á Akranesi, sunnudaginn 14. febrúar 2016 skorar á Umhverfisráðherra að láta gera úttekt á því hvort ákvarðanir Umhverfisstofnunar gagnvart mengandi iðjuverum á Grundartanga samræmist meginmarkmiðum stofnunarinnar, sem er að vernda náttúru og lífríki Íslands. Þessari úttekt verði lokið haustið 2016.


Greinargerð
a.    Iðjuverin á Grundartanga bera ábyrgð á umhverfisvöktun vegna eigin mengunar samkvæmt starfsleyfi sem Umhverfisstofnun gefur út og ber ábyrgð á. Allt vöktunarferlið er á forræði iðjuveranna sem stöðugt senda eiturefni út í andrúmsloftið. Umhverfisvaktin við Hvalfjörð álítur að Umhverfisstofnun vinni gegn eigin markmiðum með því að veita starfsleyfi sem inniheldur slíka þjónkun við mengandi iðjuver, jafnvel þó að dæmi um slíkt megi finna í öðrum löndum.

b.    Í desember 2015 veitti Umhverfisstofnun Norðuráli nýtt starfsleyfi, löngu áður en hið eldra rann út, þannig að Norðurál gæti aukið álframleiðslu sína. Þetta gerði Umhverfisstofnun án þess að taka tillit til mikilvægra athugasemda við tillögu að starfsleyfinu, sem henni höfðu borist frá Umhverfisvaktinni við Hvalfjörð, frá Hvalfjarðarsveit og fleiri aðilum. Eins og sjá má í meðfylgjandi kæru Umhverfisvaktarinnar vegna starfsleyfisveitingarinnar hefur Norðurál nú mun rýmra leyfi til útsleppis flúors, en var í fyrra starfsleyfi. Alvarleiki málsins felst ekki einungis í möguleikum Norðuráls til að sleppa út meira magni flúors nú en áður, heldur einnig og ekki síður í því að loftborinn flúor er aðeins mældur hálft árið. Umhverfisstofnun hefur árum saman hunsað ábendingar um hættuna sem af þessu fyrirkomulagi stafar. Enn og aftur skal bent á að Norðuál starfar í landbúnaðarhéraði. Umhverfisvaktin við Hvalfjörð telur að Umhverfisstofnun brjóti gegn eigin stefnu með þessum gáleysislegu vinnubrögðum.

c.    Iðjuverin á Grundartanga bera ábyrgð á útgáfu skýrslu um umhverfisvöktun vegna eigin mengunar, fyrir hvert einstakt starfsár. Sérstök athygli er vakin á því að í skýrslum sem komið hafa út eftir að GMR og Kratus bættust í hóp iðjuvera á Grundartanga, er ekkert að finna um aðfinnslur Umhverfisstofnunar vegna mengunarbúnaðar og umgengni þessara iðjuvera. Umhverfisvaktin álítur það stórfellda vanrækslu að tilkynna ekki íbúum Hvalfjarðar um þær vanefndir í umhverfismálum sem GMR og Kratus hafa orðið uppvís að. Minnt skal á að stutt vegalengd er frá þeim og í næstu bændabýli.

d.    Umhverfisvaktin við Hvalfjörð minnir á að þynningarsvæði fyrir flúor og brennistein eru að mestu leyti þau sömu og voru þegar Norðurál hóf starfsemi 1998. Heimild Norðuráls fyrir álframleiðslu hefur aukist nærri sexfalt og framleiðsla Íslenska járnblendifélagsins hefur tvöfaldast. Auk þess hafa GMR og Kratus bæst í hóp mengandi iðjuvera á Grundartanga. Umhverfisvaktin við Hvalfjörð telur það brjóta í bága við markmið Umhverfisstofnunar að endurskoða ekki stærð þynningarsvæðanna með hliðsjón af stóraukinni mengun frá Grundartanga.

e.    Afskipti Umhverfisstofnunar af iðjuverunum GMR og Kratusi hafa verið tíð á starfstíma þeirra. Mikið lá á að koma þeim fyrir á Grundartanga af hálfu landeigandans, Faxaflóahafna. Ekki voru spöruð stóru orðin um að þarna yrði vistvæn endurvinnsla og nýsköpunarstarf. Nú hefur annað komið á daginn. Ekki er unnt  að sjá að fram hafi farið sérstakar mælingar í umhverfi iðjuveranna tveggja, sem staðsett eru í landbúnaðarhéraði, til að meta áhrif mengunarinnar frá þeim.

f.    Umhverfisvaktin við Hvalfjörð fer fram á það við Umhverfisráðherra að rannsakað verði ofan í kjölinn hvers vegna Umhverfisstofnun lét íbúa við Hvalfjörð ekki vita af mengunarslysi sem átti sér stað hjá Norðuráli á Grundartanga þann 24. ágúst 2006 en þá bilaði reykhreinsivirki með þeim afleiðingum að flúor streymdi óhindraður út í andrúmsloftið í um 36 klst. Hreinsibúnaðurinn komst ekki í fullt lag fyrr en nokkrum mánuðum síðar. Jafnframt óskar Umhverfisvaktin skýringa á því hvers vegna engar mælingar voru gerðar til að kanna áhrif mengunarslyssins á umhverfið. Umhverfisvaktin álítur að Umhverfisstofnun hafi þarna brugðist hlutverki sínu sem eftirlitsstofnun og sýnt íbúum, náttúru og lífríki við Hvalfjörð einstakt skeytingarleysi jafnframt því að koma í veg fyrir að nauðsynlegar mælingar færu fram í kjölfar mengunarslyssins.

2.    Aðalfundur Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð, haldinn í Garðakaffi á Akranesi, sunnudaginn 14. febrúar 2016, skorar á Umhverfisstofnun að draga til baka nýtt starfsleyfi sem Norðuráli á Grundartanga var veitt þann 16. desember 2015 þar sem það gefur Norðuráli meiri möguleika til losunar flúors en eldra starfsleyfið gerir. Minnt er á að eldra starfsleyfið gilti til ársins 2020.

3.    Aðalfundur Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð, haldinn í Garðakaffi Akranesi, sunnudaginn 14. febrúar 2016 skorar enn og aftur á Umhverfisráðherra að hefja nú þegar undirbúning þess að flytja ábyrgð á umhverfisvöktun vegna mengunar frá iðjuverunum á Grundartanga frá forsvarsmönnum iðjuveranna til óháðrar, til þess bærrar stofnunar.

Greinargerð:
Óumdeilanlegt er að iðjuverin á Grundartanga sjá sjálf um vöktun vegna eigin mengunar. Í starfsleyfi Norðuráls stendur t.d.: “rekstraraðili skal útbúa áætlun, setja sér umhverfismarkmið, standa fyrir mælingum, skal hafa eftirlit með rekstrarþáttum sem geta haft í för með sér mengun […]”

Í svörum Umhverfisstofunar við athugasemdum Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð, Hvalfjarðarsveitar og Faxaflóahafna við tillögu að nýju starfsleyfi Norðuráls segir að nauðsynlegt sé að fyrirtækin komi að vöktun svo hún sé hluti af umhverfisstjórnun fyrirtækjanna. Umhverfisvaktin telur þessi svör engan veginn fullnægjandi rök fyrir því að ekki þurfi að auka ytra eftirlit. Þó að rekstaraðili sinni umhverfisvöktun þá er verulega mikilvægt að óháður, til þess bær aðili framkvæmi einnig umhverfisvöktun, þar sem gerð er sjálfstæð vöktunaráætlun og ytra eftirlit haft með mengandi rekstrarþáttum Norðuráls sem og annarra iðjuvera á Grundartanga.
Nú þegar hafa Hvalfjarðarsveit og Faxaflóahafnir tekið undir með Umhverfisvaktinni við Hvalfjörð um að það sé eðlileg krafa að óháðir aðilar mæli mengun frá þungaiðnaði á Grundartanga.

4.    Aðalfundur Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð, haldinn í Garðakaffi Akranesi, sunnudaginn 14. febrúar 2016, skorar enn og aftur á Matvælastofnun að hlutast til um að hafnar verði grunnrannsóknir á þoli íslensks búfjár gagnvart flúori í fóðri og áhrifum langtíma flúorálags á heilsu íslensks búfjár. Fundurinn vísar til þess að nú þegar eru þrjú stór álver starfandi á Íslandi og hugmyndir eru uppi um fleiri slík, auk þess sem vænta má eldgosa sem hafa í för með sér verulega flúormengun.

5.    Aðalfundur Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð, haldinn í Garðakaffi Akranesi, sunnudaginn 14. febrúar 2016 skorar á stjórn Faxaflóahafna að snúa sé að öðrum og uppbyggilegri verkefnum en mengandi iðnaði í Hvalfirði, sem orðið hefur tekjulind fyrir eigendur Faxaflóahafna, einkum Reykjavíkurborg. Aðalfundurinn hafnar því að tilraunaverkefni Silicor Materials verði komið fyrir í Hvalfirði. Jafnframt hvetur aðalfundurinn stjórn Faxaflóahafna til þess að leggjast í nákvæma skoðun á fyrirbærinu “grænn iðnaður” og hafa hugfast að þungaiðnaður getur aldrei orðið „grænn.“


Stjórn Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð

06
feb

Aðalfundur Umhverfisvaktarinnar 2016

Ágætu umhverfisvinir!


Aðalfundur Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð fyrir árið 2016 verður haldinn sunnudaginn 14. febrúar næstkomandi í Safnaskálanum á Görðum (Garðakaffi) á Akranesi og hefst hann kl. 17:00.


Á dagskrá eru venjuleg aðalfundarstörf:
1. Innganga nýrra félaga
2. Skýrsla stjórnar
3. Reikningar félagsins fyrir árið 2015 lesnir upp og þeir bornir undir atkvæði.
4. Kosning stjórnar og skoðunarmanna reikninga.
5. Tillaga að verkefnum næsta árs.
6. Önnur mál.


Kaffi og meðlæti (eplakaka með rjóma) verður til sölu í Garðakaffi.
Allir áhugasamir um verndun umhverfis, náttúru og lífríkis eru hvattir til að mæta.


Kær kveðja,
Stjórn Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð

26
sep

Klórverksmiðja

Verður klórverksmiðja (natríumklóratverksmiðja) reist á Grundartanga?

Finnska fyrirtækið Kemira hefur sýnt því áhuga að byggja slíka verksmiðju á Íslandi og koma tveir staðir til greina. Annar þeirra er Grundartangi. Skipulagsstofnun hefur ákveðið að verksmiðjan þurfi ekki að fara í mat vegna umhverfisáhrifa, m.a. vegna þess að mengun af hennar völdum verði lítilvæg miðað við aðra mengun á svæðinu. Í greinargerð Skipulagsstofnunar með úrskurðinum kemur fram að meðal hættulegra efna sem notuð verða við framleiðsluna eru vítissódi, saltsýra.

Lesendur eru hvattir til að kynna sér úrskurðinn á vef Skipulagsstofnunar. Slóðin er

http://www.skipulagsstofnun.is/media/attachments/Umhverfismat/866/201105032.pdf

Ákvörðun Skipulagsstofnunar má kæra til umhverfisráðherra og er kærufrestur til 24. október 2011.