Skýrsla stjórnar 2012

Skýrsla stjórnar Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð
flutt á aðalfundi félagsins 8. nóvember 2012


Ágætu félagar og aðrir fundarmenn!
Stjórn Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð skilar hér með greinargerð til aðalfundar um starf sitt á síðasta starfsári.
Stjórnin hélt 10 fundi á starfsárinu. Fjórir fundir voru haldnir að Kúludalsá og tveir að Hálsi í Kjós. Tveir fundir voru haldnir í Reykjavík og tveir á Akranesi. Stjórnin gekkst fyrir kvikmyndasýningu að Hjalla í Kjós þann 14. júní. Sýnd var heimildamyndin Baráttan um landið eftir Helenu Stefánsdóttur. Allt er þetta tíundað á vef Umhverfisvaktarinnar www.umhverfisvaktin.is (Um félagið > Fundargerðir). Auk þess hafa farið frá stjórninni allmörg bréf og tölvupóstar.


Stjórnin
Stjórnin var þannig skipuð s.l. ár: Ragnheiður var formaður fram að stjórnarfundi 10. september, Þórarinn var varaformaður, en hann hafði sætaskipti við Ragnheiði þann 10. september og hefur verið formaður síðan. Daníela var gjaldkeri, Gyða var ritari, Ingibjörg var meðstjórnandi og Edda var varamaður ásamt Sigrúnu Sigurgeirsdóttur.


Starfið
Þegar litið er yfir starf liðins árs má sjá ýmis merki þess að Umhverfisvaktin hafi látið að sér kveða og skapað nauðsynlega umræðu þó að á yfirborðinu sýnist hlutirnir ganga hægt.
Við höfum einhent okkur í verkefni sem þarf að ljúka. Mengun frá iðjuverunum á Grundartanga liggur eins og mara yfir firðinum. Hún hittir ekki síður fyrir þá sem búa sunnan fjarðar en norðan. Við þurfum að tryggja öryggi þeirra sem búa hér og tryggja að ævinlega sé fylgst með menguninni af kostgæfni og allt mælt sem þarf að mæla af áreiðanlegum, til þess bærum aðilum.
Séu ályktanir frá síðasta aðalfundi skoðaðar, sést að endurnýta mætti flestar. Við ályktuðum gegn frekari uppbyggingu mengandi iðnaðar í firðinum. Það hefur ekki gengið eftir og engu líkara en að forsætisráðherra og fleiri í ríkisstjórn Íslands hafi takið sérstöku ástfóstri við þá hugmynd að stefna í fjörðinn sem mestri mengun, allt í nafni atvinnuuppbyggingar.
Við ályktuðum um að færa ábyrgð á umhverfisvöktun frá forsvarsmönnum iðjuveranna á Grundartanga, í hendur til þess bærrar stofnunar. Það hefur ekki gengið eftir.
Við ályktuðum um fóðurverksmiðju Líflands. Með því kölluðum yfir okkur reiði Líflands og kölluðum yfir okkur fréttamenn RUV, sem voru einkar áhugasamir í svo sem einn sólarhring. Formaður var t.d. kölluð í sjónvarpsviðtal. Að sama skapi og RUV var fljótt að hreyfa við málinu var það eldsnöggt að snúa við okkur bakinu. Við höfum af einhverjum ástæðum ekki fengið birta fréttatilkynningu síðan.
Við ályktuðum um neysluvatn Akurnesinga, vöruðum við því að draga úr mælingum og bentum á mikilvægi þess að mæla í leysingatíð. Við fórum á tvo fundi á Akranesi vegna þessa og vöktum talsverðan óróleika hjá forsvarsmönnum bæjarfélagsins. Sum okkar fengu skammir í nestið. Við blönduðum okkur sem sagt hressilega inn í umræðu um viðkvæmt málefni, og afhjúpuðum í leiðinni andvaraleysi Akurnesinga vegna vatnsins, sem og ósannindi Orkuveitu Reykjavíkur um mengunarmælingar á því.
Við höfum komið af stað öldugangi sem ekki verður svo auðveldlega stöðvaður.
Skrifað stendur að góðir hlutir gerist hægt. Við höfum seiglast fram á við, en gatan er grýtt.
Við reyndum eins og við lifandi gátum að hafa áhrif á áætlun um umhverfisvöktun sem var óafgreidd frá UST í byrjun árs. Við fengum umræðu sem kannski skilar einhverju síðar. Nýr loftgæðamælir var samþykktur vestan við iðjuverin en hann kemst þó trúlega ekki í gagnið fyrr en 2014. Enginn loftgæðamælir verður sunnan fjarðar. Engar loftgæðamælingar verða hálft árið. Engin viðbragðáætlun er til. Fullkomið óöryggi fyrir íbúana.
Ekki stendur til að mæla flúor í beinsýnum hrossa við Hvalfjörð. Afgreiða á hrossin með því að þreifa á þeim. Fullvissa er fyrir því að það skilar engum árangri. Miklu fremur er þessi svokallaða vöktun útúrsnúningur á því sem við báðum um og vel til þess fallin að fela sannleikann. Mæla á flúor í beinum sauðfjár en engin tenging er sjáanleg milli flúorgilda í beinum og flúorgilda í afurðum dýranna, líkt og þetta tvennt sé algjörlega aðskilið.
Við lögðum inn stjórnsýslukæru vegna fyrirhugaðrar Natríumklóratverksmiðju á Grundartanga og kröfðumst þess að framkvæmdin færi í umhverfismat. Því var hafnað af umhverfisráðuneytinu.
Við gengum í Landvernd og formaður sat aðalfund félagsins í vor.
Sennilega eru það stærstu tíðindi ársins í umhverfismálum í firðinum að gerðar hafa verið mælingar í lífsýnum búfjár, að frumkvæði einstaklinga. Mælt var flúor í lifur, milta, nýra og vöðva hrossa og kjöti nautgrips.Vonandi verður það verkefni Umhverfisvaktarinnar á komandi ári að fylgja eftir þeim mælingum og dýpka þekkinguna sem þær hafa aflað. Við erum þar með komin inn á nýja braut í umræðunni – og lifum á spennandi tímum, - en jafnframt ógnvekjandi. Við horfumst í augu við það að verða hugsanlega boðberar válegra tíðinda.
Sá þáttur sem kannski er erfiðastur í starfinu er hversu margir kjósa að stinga hausnum í sandinn og vinna þannig með mengunarvöldum, hverju nafni sem þeir nefnast. Sé samfélagsábyrgðin ekki nógu sterk, eru viðbrögðin svipuð, hvort sem menn sitja á sinni hundaþúfu eða í ríkisrekinni eftirlitsstofnun eða ráðuneyti.


Framtíðin
Umhverfisvaktin við Hvalfjörð er afsprengi sinnar samtíðar. Einhverjir hlutu að standa upp og andæfa áhrifum efnamengunar á heilsu búfjár og á landbúnaðarafurðir, ásamt tilheyrandi eignaupptöku og stöðugri, yfirvofandi hættu á mengunarslysum.
Ályktanir sem bornar verða upp á eftir endurspegla áherslur stjórnar félagsins og vonandi alls þorra félagsmanna.
Segja má að það endurspeglist í starfi liðins árs, að við í félagsinu eigum ekki bara í höggi við einn hrímþurs heldur nokkra. Einn þessara hrímþursa er orðræðan. Ótrúlegt er að maður þurfi að heyra aftur og aftur að umhverfisvernd sé sama og öfgar, öfgar á báða bóga segir fólk gjarnan og dettur ekki í hug að skoða málið betur. Af því að Hjálmar Sveinsson og Gísli Gíslason  eru meðal okkar í kvöld vil ég nota tækifærið og benda þeim að það er sárt að þurfa að hlusta á ( frá honum og fleirum hjá sameignarfélaginu Faxaflóahöfnum) að bændur við Hvalfjörð hefðu mátt vita að það fylgdu einhver óþægindi því að byggð yrðu iðjuver á Grundartanga; að Grundartangi væri skilgreint iðnaðarsvæði. Nú er þeir gestir okkar í kvöld og þá fáum við tækifæri til að segja þeim að til sé skilgreint landbúnaðarsvæði í Hvalfirðinum og hafi verið það um langa hríð. En við verðum auðvitað kurteis hér eins og við höfum alltaf verið og fögnum því að fá góði gesti til að segja okkur frá vinnu Ramboll við úttekt á umhverfisvöktun.
Okkar sterkustu vopn eru að vera málefnaleg, kurteis, að sýna þolinmæði og þrautseygju og að missa ekki sjónar af markinu. Víst er að ef maður eyðir orkunni í að svara hverjum einasta smáhundi sem gjammaði að manni þá nær maður ekki að koma því til skila sem raunverulega skipti máli. Þetta skulum við hafa að leiðarljósi samanber 3. grein félagslaganna okkar.
Stjórnin þakkar öllum sem lagt hafa hönd á plóginn á starfsárinu fyrir þeirra framlag og vonar að næsta starfsár þoki okkur enn nær því markmiði að standa vörð um náttúru og lífríki Hvalfjarðar. Nú er brýnast að tryggja að þynningarsvæði iðjuveranna standist kröfur þannig að hægt sé að stunda matvælaframleiðslu í firðinum og hafa húsdýrin í friði.
Að lokum biður stjórnin fundarmenn að rísa úr sætum og minnast með virðingu náttúruunnandans, rithöfundarins og frumkvöðulsins Guðmundar Páls Ólafssonar, en hann lést í haust.


Með þökk.
F.h. stjórn Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð
Ragnheiður Þorgrímsdóttir