Fundir 2012

Stjórnarfundur haldinn að Hálsi í Kjós miðvikudaginn 24. október kl. 20.00


Af stjórnarfólki voru mætt: Þórarinn Jónsson, Ragnheiður Þorgrímsdóttir, Ingibjörg Jónsdóttir og Gyða S. Björnsdóttir. Einnig sat fundinn Lisa Boije af Gennäs húsfreyja á Hálsi og Guðbjörg Rannveig Jóhannsdóttir, en hún er að ljúka doktorsverkefni um umhverfisheimspeki. 

1.    Viðmið flúors í fóðri rædd en ósamræmi er í viðmiðunargildum fyrir flúor í grasi í vöktunaráætlunum fyrir Hvalfjörð og Reyðarfjörð sbr. fréttaflutning um of há gildi flúors í grasi í Reyðarfirði að undanförnu. Flúor má vera 30 ppm í Hvalfirði en 40-60 ppm á Reyðarfirði sem vekur undrun.

2.    Bréf frá Ragnheiði Þorgrímsdóttur til stjórnar Umhverfisvaktarinnar rætt en þar er óskað eftir að Umhverfisvaktin standi að kynningu á niðurstöðum flúormælinga til bænda. Ákveðið að formaður hafi samband við blaðamann hjá Bændablaðinu og kynni honum málið.

3. Bréf Umhverfisvaktarinnar til landbúnaðarráðherra rætt. Einkum var rætt um þá afstöðu landbúnaðarráðherra að svara ekki erindi Umhverfisvaktarinnar, en hún hefur formlega beðið ráðherra að veita viðtal þannig að hægt sé að kynna honum niðurstöður mælinga flúors í lífsýnum hrossa við Hvalfjörð.

4.    Umhverfisrannsókn á vegum Faxaflóahafna sem kynnt var stjórn Umhverfisvaktarinnar á vordögum. Ákveðið að kalla eftir upplýsingum um framvindu rannsóknarinnar.

5.    Aðalfundur Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð. Ákveðið að halda aðalfundinn þann 8. nóvember.

Fleira ekki tekið fyrir. Fundi slitið kl. 22.50.

Stjórnarfundur haldinn að Kúludalsá mánudaginn 10. september 2012, kl. 20.00.

Mættir: Þórarinn Jónsson, Ragnheiður Þorgrímsdóttir, Daniela Gross, Ingibjörg Jónsdóttir og Gyða S. Björnsdóttir.

1. Kynning á fundi Ragnheiðar með umhverfisráðherra þann 6. september. Ragnheiður greindi einnig frá niðurstöðum nýjustu mælinga á lífsýnum úr hrossum frá Kúludalsá. Mælingarnar voru gerðar á vottuðri rannsóknarstofu.

2. Ragnheiður óskar eftir því að vera leyst frá störfum formanns tímabundið. Þórarinn Jónsson tekur að sér formennsku á meðan.

3. Nauðsyn á mælingum á lífsýnum úr fleiri dýrategundum ræddar. Mælingar sem Ragnheiður hefur látið gera benda til þess að verksmiðjurnar hafi of rúmar heimildir til losunar miðað við stærð þynningarsvæðis.

4. Aðalfundur Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð. Stefnt er að því að halda aðalfund félagsins í kringum 1. nóvember. Hugmyndir að opnum málfundi einnig ræddar.

Fleira ekki tekið fyrir. Fundi slitið kl. 23.10.


Stjórnarfundur haldinn að Hálsi í Kjós þriðjudaginn 21. ágúst kl. 20.30.


Mættir: Þórarinn Jónsson, Ragnheiður Þorgrímsdóttir, Daniela Gross og Gyða S. Björnsdóttir.

1.    Kvikmyndasýning þann 14. júní að Hjalla í Kjós rædd. Sýnd var myndin Baráttan um landið eftir Helenu Stefánsdóttur.  Þuríður Einarsdóttir einn af aðstandendum myndarinnar sagði í stuttu máli frá gerð hennar og svaraði spurningum að henni lokinni. Umræða á milli viðstaddra að sýningu lokinni var mjög áhugaverð og hvetjandi.

2.    Ragnheiður greinir frá nýjum mælingum á flúori í lífsýnum og þvagi hrossa sem gerðar voru á vottuðum rannsóknarstofum. Ragnheiður greindi einnig frá tilraunum sínum til að ná eyrum opinberra aðila, t.d. umhverfisráðherra.

3.    Dagskrá vetrarins rædd ásamt ýmsum hugmyndum um framhald rannsókna á lífsýnum dýra við fjörðinn.

Fleira ekki tekið fyrir. Fundi slitið kl. 23.15.


Stjórnarfundur með Hjálmari Sveinssyni haldinn að Tjarnargötu 12. þann 9. maí 2012.

Mættir: Hjálmar Sveinsson, formaður stjórnar Faxaflóahafna, Þórarinn Jónsson, Ragnheiður Þorgrímsdóttir, Ingibjörg Jónsdóttir og Gyða S. Björnsdóttir.

Fundarefni: Umræður um hugmyndir Faxaflóahafna um úttekt á stöðu umhverfismála á Grundartanga.


Fundur á vegum bæjarstjórans á Akranesi um neysluvatnsmál bæjarins.


Fundur haldinn 2. maí kl. 17 í bæjarþingsalnum á Akranesi. Fundinn boðaði bæjarstjóri, Árni Múli Jónasson
Mættir: Auk bæjarstjóra voru mættir fulltúar frá  Umhverfisvaktinni við Hvalfjörð, Orkuveitu Reykjavíkur, Umhverfisstofnun, Heilbrigðiseftirliti Vesturlands ofl.
Bæjarstjóri bauð gesti velkomna. Ástæða fundarins er að kalla saman aðila til umræðu um gæði neysluvatns á Akranesi og eftirlit með því. Þetta er mikið hagsmunamál og ekki má leika neinn vafi á gæðum vatns sem bæjarbúum stendur til boða, hvorki einstaklingum né fyrirtækjum sem mörg hver eru í matvælaframleiðslu.
Fulltrúi heilbrigiðisnefndar fór yfir að vatnsverndarsvæði Akurnesinga er nú afgirt og merkt. Athugasemdir hafa verið gerðar við gróðursetning á svæðinu vegna efna úr áburði, gróðursetningu var hætt. Vatnsverndarvæðið er heimsótt einu sinni í viku og farið yfir girðingar og umhverfi. Tekin eru sýni 6-7 sinnum á ári og þau greind m.t.t. örvera og gerla. Einu sinni á ári fer fram efnagreining (75 efni mæld). Sýni eru tekin á þeim tíma ársins þegar ætla má að efnaástand vatnsins (yfirborðsvatn) séu hvað verst (maí/júní). Enginn merkjanlegur munur hefur fundist við greiningu vatnssýna annars vegar í Reykjavík og hins vegar á Akranesi. Allar upplýsingar eru aðgengilegar í umhverfisskýrslu. Vatnsveita Akraness er með starfsleyfi frá 2002 sem rennur út í ár.
Fulltrúi Umhverfisvaktarinnar fagnaði fundi og minnti á grein í Skessuhorni. Umhverfisvaktin gagnrýndi fækkun mælinga á neysluvatni og lagði áherslu á að menn tengi saman neysluvatn og yfirborðsvatn og hvatti til þess að mælingar fari fram oftar, m.a. í leysingum að vetri (fyrir þýðu og á meðan á þýðu stendur).
Fulltrúi Orkuveitunnar upplýsti að menn hafi haft áhyggjur af efnum eins og flúor, brennisteini, arsen og nikkeli. Hækkuð gildi á þessum efnum eru í umhverfi allra álvera undanfarin ár.
Fulltrúi Umhverfisstofnunar sagði stofnunin hafa samþykkt að draga úr mælingum á neysluvatni með hliðsjóna af mælingum og vöktun heilbrigðiseftirlits Akraness. Hann fór yfir þynningarsvæði mengunar í kringum stóriðju á Grundartanga og mengun á svæðinu. Kadmium og klór hafa fundist  í mjög litlu magni en styrkur þeirra eykst í umhverfinu (safnast upp). Styrkur brennisteins og flúors hafa hækkað í Eiðsvatni og ám þar í kring. Hann sagði að nýjum loftgæðamæli hefði verið bætt við vegna aukinna umsvifa í framleiðslu stóriðju á Grundartanga. Spurt var um samburð mengunar við álver hér á landi. Fulltúi Umhverfistofnunar sagði að eðlismunur væri á vöktun eftir svæðum, t.d. væri ein loftgæðastöð í Straumsvík og engin vöktun sauðfjár í kringum Straumsvík (enginn búskapur í kring) en slík vöktun er í Hvalfirði auk þess sem loftgæðasstöðvar eru fleiri. Á Reyðarfirði eru fjórar loftgæðastöðvar og þar er mældur rabarbari sem ekki er mældur annars staðar. Fulltrúinn taldi Reyðarfjörð óheppilegan stað fyrir stóriðju.
Bæjarstjóri upplýsti að lokum að Akranesbær ætlaði að kaupa mælingu á asahlákutíma næsta vetur til að taka af allan vafa um gæði vatns á Akranesi.

Ingibjörg Jónsdóttir ritaði fundargerð.


Stjórnarfundur með Guðmundi Herði Guðmundssyni haldinn að Kúludalsá 15. apríl.


Mættir: Guðmundur Hörður Guðmundsson, formaður Landverndar, Þórarinn Jónsson, Ragnheiður Þorgrímsdóttir, Ingibjörg Jónsdóttir, Edda Andrésdóttir, Daniela Gross og Gyða S. Björnsdóttir.

Fundarefni: Staða umhverfismála með hliðsjón af málefnum sem tengjast Hvalfirði. Ákveðið að Umhverfisvaktin gangi í Landvernd og sendi fulltrúa á aðalfund Landverndar þann 12. maí.


Stjórnarfundur haldinn með Magnúsi Frey Ólafssyni í húsakynnum BSÍ 15. febrúar kl. 15.30.

Mættir voru allir stjórnarmenn svo og Magnús Freyr Ólafsson Verkefnastjóri vegna Umhverfisvöktunar iðjuveranna á Grundartanga.

Rætt um vöktunaráætlun vegna iðjuveranna á Grundartanga, en nú hafa iðjuverin lagt fram lokaútgáfu hennar. Ragnheiður sagði frá niðurstöðum mælinga á flúori í líffærum hests frá Kúludalsá og lagði áherslu á mikilvægi þess að mæla flúor í sýnum í stað þess að þreifa á skepnunum eins og hugmyndin er. Einnig að flúor í andrúmslofti verði mældur allt árið í stað hálfs árs (apríl - okt.) eins og nú er.


Stjórnarfundur haldinn að Kúludalsá laugardaginn 11. febrúar kl. 11.00.


Mættir: Þórarinn Jónsson, Ragnheiður Þorgrímsdóttir, Ingibjörg Jónsdóttir, Edda Andrésdóttir, Daniela Gross og Gyða S. Björnsdóttir.

1.    Bréf til Akraneskaupstaðar vegna vatnsmælinga rætt ásamt svari frá bæjarstjóra.

2.    Ákveðið að biðja um fund með Magnúsi Frey vegna nýrrar vöktunaráætlunar sem Umhverfisstofnun hefur nú komið með athugasemdir við.

3.    Niðurstöður Umhverfisstofnunar yfirfarnar lið fyrir lið.

4.    Kæra vegna natríumklóratverksmiðju. Svör við athugasemdum Umhverfisvaktarinnar hafa borist frá Mannvirkjastofnun, Umhverfisstofnun, Skipulagsstofnun, Hvalfjarðarsveit, Heilbrigðiseftirliti og Kemira. Ekki er fallist á röksemdir Umhverfisvaktarinnar um að verksmiðjan þurfi að fara í umhverfismat.
Fleira ekki tekið fyrir.


Stjórnarfundur haldinn að Kúludalsá laugardaginn 21. janúar kl. 10.00.


Mættir: Þórarinn Jónsson, Ragnheiður Þorgrímsdóttir, Ingibjörg Jónsdóttir, Edda Andrésdóttir og Gyða S. Björnsdóttir.

  1. Stjórnsýslukæra vegna Natríumklóratverksmiðju á Grundartanga rædd. Svar frá umhverfisráðuneytinu kynnt en kveðinn verður upp úrskurður í málinu eigi síðar en 22. apríl 2012.

  2. Deiliskipulag Hvalfjarðarsveitar vegna nýrra verksmiðja á Grundartanga rætt.

  3. Umræða um upplýsingagjöf Matvælastofnunar sem hefur verið til umfjöllunar í fjölmiðlum að undanförnu. Stjórn Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð fagnar þeirri auknu athygli sem beinst hefur að eftirlitsaðilum og því aðhaldi sem slík umfjöllun veitir þeim.

  4. Ákveðið að fara yfir athugasemdir sem Umhverfisvaktin hefur gert á liðnu ári vegna vöktunaráætlunar iðjuveranna á Grundartanga og endurskoða og uppfæra þær athugasemdir. Verkefnum skipt á stjórnarmeðlimi.

  5. Umræða um fyrirhugað málþing með vorinu undir yfirskriftinni Framtíð Hvalfjarðar.

Fleira ekki tekið fyrir. Fundi slitið kl. 12.15. Næsti fundur ákveðinn 7. eða 9. febrúar 2012.