Fundur á Akranesi

Fundurinn var haldinn 24.11.2011 í boði bæjarráðs Akraness.


Fundarefni: Ályktun aðalfundar Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð (haldinn 15.11.2011) vegna neysluvatnsmála Akraness.


Ingibjörg Jónsdóttir skrifaði niður það helsta sem fram fór á fundinum:


Við vorum boðin velkomin á þennan samræðufund. Ragnheiður sagði í stuttu máli frá starfi Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð. Nefndi hún að stóriðjufyrirtækin á Grundartanga hefðu tekið mikinn tíma stjórnarinnar allt síðasta ár. Að Umhverfisvaktin hefði heimsótt fjölda stofnana og fyrirtækja. Lagði hún áherslu á að flest allt sem snertir umhverfið komi félaginu við. Í framhaldi af því nefndi Ragnheiður vöktunaráætlun vegna iðjuveranna á Grundartanga sem liggur hjá Umhverfisstofnun óafgreidd. Ræddi hún þá stefnu iðjuveranna á Grundartanga að draga úr umhverfisvöktun. Rætt var um hverju væri ábótavant í vöktun umhverfisins. Í vöktunarskýrslu iðjuveranna frá árinu 2010 kemur fram að á sjö bæjum mældist meðalstyrkur flúors í beinösku kinda yfir þeim mörkum þar sem talin er hætta á tannskemmdum.
Að lokum fjallaði Ragnheiður um efni þessa fundar, þ.e. ályktun sem Umhverfisvaktin sendi frá sér eftir aðalfundinn 15. 11. s.l. vegna neysluvatnsmála Akurnesinga.
Í tillögu að vöktunaráætlun sem liggur fyrir Umhverfisstofnun er gert ráð fyrir að fækka sýnatökum í Berjadalsá niður í 1 skipti á ári, um miðjan ágúst. Þar sem um er að ræða neysluvatn fyrir þúsundir íbúa telur Umhverfisvaktin fyrirhugaðan niðurskurð með öllu óásættanlegan. Nær væri að auka vöktun.

Heilbrigðisfulltrúi greindi frá því að tekin væru sýni úr dælustöð á Akranesi 6x á ári, en einu sinni á ári er sýni sent í mælingu vegna m.a. þungmálma. Annars er um gerlamælingar að ræða. Hann sagði að ef meira fé fengist væri ekkert því til fyrirstöðu að gera stærri mælinguna oftar. Einnig tók hann vel í að tími sýnatöku fyrir stóru mælinguna mætti vera breytilegur frá ári til árs (vor - þegar snjóa leysir, sumar o.s.frv.)


Rætt var um loftgæðamæli sem staðsettur er austan við verksmiðjurnar á Grundartanga og að ríkjandi vindátt er einmitt austanátt. Nefnt var að í raun ættu mælar að vera í hlíðum Akrafjalls.
Rætt var um þynningarsvæði, að það væri lítið og miðast við evrópska staðla þar sem forsendur eru allt aðrar en hér t.d. varðandi vindstyrk. Hér á landi berst mengun mun lengra með vindi en víða erlendis áður en hún fellur til jarðar sökum þess að vindhraði hér er mun meiri. Þynningarsvæði er jafnframt miðað við mun minni framleiðslu en nú fer fram á svæðinu.
Rætt var um að ná eftirliti heim í hérað, nær þeim sem málið varða, þ.e. íbúm og stjórnsýslu á svæðinu í kringum iðjuverin.
Rætt var um að óeðlilegt sé að iðjuverin sjái sjálf um eftirlit (eða kaupi þar til bæra aðila til þess). Þau geta ekki haft eftirlit með sjálfum sér. Undir þetta sérstaklega tók bæjarstjórinn. Ragnheiður nefndi í þessu samhengi að það væri skrýtið að iðjuverin neita að láta rannsaka bein úr stórgripum t.d hestum, sem hafa mun lengri líftíma en sauðfé. Flúor safnast upp á löngum tíma og veldur sjúkdómum hjá dýrum.
Ragnheiður nefndi einnig í þessu samhengi að sjálfsagt væri að senda væri út viðvörun ef að hreinsibúnaður bilar þannig að íbúar á svæðunum gætu gert viðeigandi ráðstafanir (tekið inn dýr, sleppt neyslu á vatni, ekki ferðast um svæði í nágrenni verksmiðja o.s.frv.)
Rætt var um að setja þarf fram með skýrum hætti hvað mætti betur fara í vöktunarskýrslum og vöktunaráætlun.
Að lokum var Umhverfisvaktinni boðið samstarf. Stjórninni var boðið að koma aftur á fund á vordögum.


Ingibjörg Jónsdóttir