29
jan

Aðalfundur 2019

Nú er komið að aðalfundi, en hann verður haldinn laugardaginn 9. febrúar nk.
að Álfagarði (áður Eyrarkoti) í Kjós og hefst kl 13.

Ábúendurnir, Ragnhildur og Lárus, ætla að taka á móti okkur og segja okkur frá starfsemi sinni þar, þegar aðalfundarstörfum lýkur.


Dagskrá aðalfundarins:

1. Skýrsla stjórnar, reikningar, kosningar og önnur venjuleg aðalfundarstörf

2. Tillaga að verkefnum næsta starfsárs

3. Önnur mál

4. Sagt frá starfsemi Álfagarðs


Við gerum ráð fyrir því að fundurinn í heild standi ekki lengur en til kl. 15.

Kaffi og meðlæti verður í boði.


Hittumst heil.

Kær kveðja,

Stjórnin

26
sep

Klórverksmiðja

Verður klórverksmiðja (natríumklóratverksmiðja) reist á Grundartanga?

Finnska fyrirtækið Kemira hefur sýnt því áhuga að byggja slíka verksmiðju á Íslandi og koma tveir staðir til greina. Annar þeirra er Grundartangi. Skipulagsstofnun hefur ákveðið að verksmiðjan þurfi ekki að fara í mat vegna umhverfisáhrifa, m.a. vegna þess að mengun af hennar völdum verði lítilvæg miðað við aðra mengun á svæðinu. Í greinargerð Skipulagsstofnunar með úrskurðinum kemur fram að meðal hættulegra efna sem notuð verða við framleiðsluna eru vítissódi, saltsýra.

Lesendur eru hvattir til að kynna sér úrskurðinn á vef Skipulagsstofnunar. Slóðin er

http://www.skipulagsstofnun.is/media/attachments/Umhverfismat/866/201105032.pdf

Ákvörðun Skipulagsstofnunar má kæra til umhverfisráðherra og er kærufrestur til 24. október 2011.

09
des

Hross á beit á þynningarsvæði

Umhverfisvaktin við Hvalfjörð hefur ítrekað bent sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar á að hrossabeit á þynningarsvæði brennisteins og flúors vegna stóriðjunnar á Grundartanga er óheimil. Hvalfjarðarsveit á landið sem um ræðir. Þrátt fyrir ábendingarnar hefur sveitarstjórn ekki hreyft við þessu máli svo vitað sé. Hrossin eru enn á þynningarsvæðinu. Þarna eru um 20 hross þar af nokkur folöld, en folöld eru viðkvæmari fyrir eiturefnum heldur en fullorðin dýr. 

Myndin sem tekin var 9. des. 2018 talar sínu máli

hross 5

hross 5

27
maí

Stjórnarfundur 6. maí 2013

Fundur í stjórn Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð mánudaginn 6. maí kl. 18:30 á Kaffi Haiiti.

Mætt voru: Gyða, Ingibjörg, Ragnheiður og Þórarinn.

Fjallað var um upplýsingafund Faxaflóahafna um úttekt á umhverfismálum á svæði í þeirra eigu á Grundartanga. Kynningin gekk að mestu út á að allt væri í stakasta lagi og vel fylgst með mengun frá iðjuverunum. Þó var nefnd að brennisteinstvíoxíð hefði farið 21 sinni yfir leyfileg mörk á viðmiðunarárinu en það má gerast mest 7 sinnum.

Rætt var um flúormengun í húsdýrum og starf þeirra Sigurðar Sigurðarsonar og Jakobs Kristinssonar.

Rætt var um að fá grunngögn vegna umhverfiseftirlits til frekari skoðunar.

Rætt var um fund með Umhverfisstofnun sem haldinn verður innan skamms og það að UST hefur ekki svarað erindi okkar ennþá.

Rætt var um að halda umhverfishátíð í haust.


Fleira var ekki rætt. Fundargerðin er í fullri lengd í gögnum Umhverfisvaktarinnar.

Fundi var slitið kl. 20:50.

Ingibjörg

04
apr

Ályktanir aðalfundar 2018


Ályktanir aðalfundar Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð 2018


Umhverfisráðherra

1. Aðalfundur Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð, haldinn í Garðakaffi á Akranesi 25. febrúar 2018, skorar á umhverfisráðherra að beita sér fyrir því að aðskilin verði framkvæmd umhverfisvöktunar vegna mengandi iðjuvera á Íslandi og greiðsla fyrir umhverfisvöktunina.
Umhverfisvaktin við Hvalfjörð telur að það fyrirkomulag sem notað hefur verið, samræmist hvorki meginmarkmiðum löggjafar um umhverfis- og náttúruvernd né tilgangi og markmiðum Umhverfisstofnunar, sem er að vernda náttúru og lífríki Íslands.


Landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra

2. Aðalfundur Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð, haldinn í Garðakaffi á Akranesi 25. febrúar 2018, skorar á landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra að gangast fyrir grunnrannsóknum á þoli íslensks búfjár gagnvart flúori í fóðri og drykkjarvatni og áhrifum langtíma flúorálags á heilsu íslensks búfjár, með áherslu á hross, nautgripi og sauðfé.


Sameignarfélagið Faxaflóahafnir

3. Aðalfundur Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð, haldinn í Garðakaffi á Akranesi 25. febrúar 2018 skorar á sameignarfélagið Faxaflóahafnir að
a. leggja nú þegar niður allar hugmyndir um að koma fyrir fleiri iðjuverum á Grundartanga,
b. hætta að reka þann áróður að stóriðja geti verið skaðlaus fyrir umhverfið,
c. beina kröftum sínum að því að lágmarka skaðsemi vegna iðjuveranna sem þegar eru á Grundartanga með strangari kröfum um hreinsibúnað og meiri og markvissari mælingum á útsleppi mengandi efna. Sérstaklega er minnt á skort á loftgæðamælingum norðvestan við iðjuverin og sunnan Hvalfjarðar.


Stjórnmálaflokkar á Akranesi

4. Aðalfundur Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð, haldinn í Garðakaffi á Akranesi 25. febrúar 2018 skorar á stjórnmálaflokka á Akranesi að leggja fremur metnað sinn í að efla atvinnulíf innan marka kaupstaðarins, en að stuðla að mengandi stóriðju í öðru sveitarfélagi enda koma neikvæð áhrif hins óhreina iðnaðar fram þar.
Hér er átt við mengandi iðjuver á Grundartanga og áhrif þeirra á Hvalfjörð allan.


Stjórnmálaflokkar í Reykjavík

5. Aðalfundur Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð, haldinn í Garðakaffi á Akranesi 25. febrúar 2018 skorar á stjórnmálaflokka í Reykjavík að leggja fremur metnað sinn í að efla atvinnulíf innan marka borgarinnar, en að stuðla að mengandi stóriðju í öðru sveitarfélagi enda koma neikvæð áhrif hins óhreina iðnaðar fram þar.
Hér er átt við iðjuver á Grundartanga og áhrif þeirra á Hvalfjörð allan.


Umhverfisstofnun

6. Aðalfundur Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð, haldinn í Garðakaffi á Akranesi 25. febrúar 2018 skorar á Umhverfisstofnun að koma fyrir loftgæðamælistöð vegna flúors og brennisteins norð-vestan við iðjuverin á Grundartanga og staðsetja mælistöðina utan marka þynningarsvæðis fyrir flúor. Jafnframt skorar Umhverfisvaktin á Umhverfisstofnun að setja þar upp veftengdan sírita loftgæða fyrir almenning og vefmyndavél fyrir Umhverfisstofnun sem beint er yfir verksmiðjusvæðið þannig að starfsmenn UST geti séð hvað um er að vera á svæðinu og til dæmis fylgst með svokölluðum „neyðarútsleppum“ frá Elkem.

7. Aðalfundur Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð, haldinn í Garðakaffi á Akranesi 25. febrúar 2018 skorar á Umhverfisstofnun að banna Elkem Íslandi nú þegar svokallað „neyðalosun“ mengandi efna sem birtist í þykkum reykjarmekki sem leggt yfir nærliggjandi byggðir og ból. Að iðjuverið skuli komast upp með að nota skilgreininguna „neyðarlosun“ lýsir því á dapurlegan hátt hversu frjálsar hendur iðjuverið hefur haft.Sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar

8. Aðalfundur Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð, haldinn í Garðakaffi á Akranesi 25. febrúar 2018, skorar á sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar að láta ekki deigan síga gagnvart Umhverfisstofnun varðandi loftgæðamælistöð norð-vestur af Grundartanga. Afar mikilvægt er að haldið sé áfram loftgæðamælingum vegna flúors og brennisteins þar sem hæstu gildin hafa mælst.

9. Aðalfundur Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð, haldinn í Garðakaffi á Akranesi 25. febrúar 2018 skorar á sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar að endurskilgreina allt það svokallaða iðnaðarsvæði sem skilgreint var sem slíkt af Hvalfjarðarsveit vegna fyrirhugaðrar byggingar verksmiðju Silicor Materials og breyta því úr iðnaðarsvæði í athafnasvæði eins og það var áður.


Elkem Ísland ehf

10. Aðalfundur Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð, haldinn í Garðakaffi á Akranesi 25. febrúar 2018 skorar á forsvarsmenn Elkem Ísland ehf. að láta þegar af útsleppi mengandi efna sem birtist í þykkum reykjarmekki sem leggt yfir nærliggjandi byggðir og ból. Að kalla slíkt fyrirbæri „neyðarlosun“ lýsir á dapurlegan hátt afstöðu iðjuversins til nágranna sinna.