20
feb

Ályktanir aðalfundar 2015

Aðalfundur Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð, haldinn að Ásgarði í Kjós föstudaginn 13. febrúar 2015 ályktar eftirfarandi:

1. Aðalfundur Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð, haldinn að Ásgarði í Kjós  föstudaginn 13. febrúar 2015 vísar í drög að svæðisskipulagi Reykjavíkur til ársins 2040 en þar segir: "Hreint loft, ómeðhöndlað drykkjarvatn, nálægð við fjölbreytt útivistarsvæði og náttúrulegt umhverfi eru undirstaða að lífsgæðum á höfuðborgarsvæðinu og marka sérstöðu svæðisins umfram önnur borgarsvæði."

Aðalfundurinn ályktar  að Reykjavíkurborg standi fyrir gríðarlegri uppbyggingu á mengandi iðnaði á Grundartanga í Hvalfirði í gegnum meirihluta eignarhald á sameignarfélaginu Faxaflóahöfnum. Aðalfundurinn hvetur forsvarsmenn Reykjavíkurborgar til að stefna fyrrnefndum lífsgæðum ekki í frekari hættu með áframhaldandi uppbyggingu mengandi iðnaðar, sem nú þegar er farinn að hafa verulega neikvæð áhrif á náttúru og lífríki. 

2. Aðalfundur Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð, haldinn að Ásgarði í Kjós föstudaginn 13. febrúar 2015,  skorar á Umhverfisráðherra að hefja nú þegar undirbúning þess að flytja ábyrgð á umhverfisvöktun vegna mengunar frá iðjuverunum á Grundartanga frá forsvarsmönnum iðjuveranna til óháðrar, til þess bærrar stofnunar.

3. Aðalfundur Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð, haldinn að Ásgarði í Kjós föstudaginn 13. febrúar 2015,  vísar til þess að nú þegar eru þrjú stór álver starfandi á Íslandi auk þess sem vænta má eldgosa sem hafa í för með sér verulega flúormengun. Fundurinn skorar á Matvælastofnun að hefja þegar grunnrannsóknir á þoli íslensks búfjár gagnvart flúori í fóðri og áhrifum langtíma flúorálags á heilsu íslensks búfjár.


4. Af gefnu tilefni skorar aðalfundur Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð, haldinn að Ásgarði í Kjós föstudaginn 13. febrúar 2015, á Matvælastofnun að fylgjast vel með útigangshrossum við Hvalfjörð sem og annars staðar á landinu.

05
feb

Aðalfundur 2015

Ágætu félagar!

Aðalfundur Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð fyrir árið 2015 verður haldinn föstudaginn 13. febrúar næstkomandi að Ásgarði í Kjós og hefst hann kl. 20:00.

Á dagskrá eru venjuleg aðalfundarstörf:

1. Innganga nýrra félaga

2. Skýrsla stjórnar

3. Reikningar félagsins fyrir árið 2014 lesnir upp og þeir bornir undir atkvæði.

4. Kosning stjórnar og skoðunarmanna reikninga.

5. Tillaga að verkefnum næsta árs.

6. Önnur mál.

Á eftir aðalfundarstörfum verða kaffiveitingar og spjall. Allir áhugasamir um verndun umhverfis, náttúru og lífríkis eru hjartanlega velkomnir.

Rétt er að nefna að á síðasta aðalfundi (fyrir árið 2014) sem haldinn var í nóvember sl. var samþykkt tillaga um breytingu á 7. grein laga félagsins varðandi tímasetningu aðalfundar. Ákveðið var að halda aðalfund hvers árs í febrúar í stað nóvember. Þess vegna er stutt í milli aðalfunda að þessu sinni!

Hlökkum til að sjá ykkur og eiga notalegt og uppbyggilegt spjall yfir kaffibolla.

Hvalfirði 5. febrúar 2015

Stjórnin

21
nóv

Aðalfundur 2014

Hvalfirði 20. nóvember 2014

Ágætu félagar!

Aðalfundur Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð fyrir árið 2014 verður haldinn fimmtudaginn 27. nóvember næstkomandi að Kúludalsá, Hvalfjarðarsveit og hefst hann kl. 20:00.

Á dagskrá eru venjuleg aðalfundarstörf:

1. Innganga nýrra félaga

2. Skýrsla stjórnar

3. Reikningar félagsins lesnir upp og þeir bornir undir atkvæði.

4. Kosning stjórnar og skoðunarmanna reikninga.

5. Tillaga að verkefnum næsta árs.

6. Önnur mál.

Lögð verður fyrir aðalfundinn tillaga um breytingu á 7. grein laga félagsins varðandi tímasetningu aðalfundar. Í stað núverandi orðalags: „Aðalfund skal halda árlega, eigi síðar en 15. nóvember, samkvæmt ákvörðun stjórnar“ komi svohljóðandi orðalag: „Aðalfund skal halda árlega, eigi síðar en 15. febrúar, samkvæmt ákvörðun stjórnar.“

Hlökkum til að sjá ykkur.

Með bestu kveðju,

stjórn Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð

07
ágú

Svör Norðuráls dragast á langinn

Fyrir skömmu skrifaði Umhverfisvaktin Norðuráli á Grundartanga opið bréf með yfirskriftinni "Álver á heimsmælikvarða?" Í bréfinu er iðjuverið beðið að svara tíu spurningum er varða umhverfismál og senda Umhverfisvaktinni svörin fyrir 1. ágúst 2014.

Norðurál hefur tekið sér frest til að svara opna bréfinu þar til í byrjun september. Seinkunin er sögð vera vegna sumarleyfa. Okkur í Umhverfisvaktinni þykir það miður, einkum í ljósi þess að við vitum að Norðurál er að leita eftir framleiðsluaukningu um þetta leyti, - þrátt fyrir sumarleyfin.

Umhverfisvaktin mun senda svör Norðuráls út um leið og þau berast.